Ætlað vinum og trúarnemum kirkjunnar
Ef þið greiðið gjald opinberunar, eruð auðmjúk, lesið og biðjið þá munu himnarnir opnast og þið munið vita að Jesús er Kristur.
Föstudagseftirmiðdaginn 16. september, árið 1988, var ég skírður inn í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, í Vicente Lópes kirkjubyggingunni í Buenos Aires í Argentínu. Mjög góður vinur minn, Alin Spannaus, skírði mig þennan dag og ég var hamingjusamur, léttari í lundu og spenntur að læra meira.
Í dag langar mig að deila með ykkur nokkrum lexíum sem ég lærði á leið minni að skírn – lexíum sem ég vona að eigi eftir að hjálpa þeim ykkar sem eruð að hlusta og eru ekki þegnar kirkjunnar. Ég bið þess að andinn megi snerta hjörtu ykkar eins og hann snerti mitt.
Í fyrsta lagi, að hitta trúboðana.
Hvers vegna myndi nokkur hafa áhuga því að hitta trúboðana og hlusta á boðskap þeirra, ef hann hefði ekki knýjandi áskoranir, þarfir eða áleitnar spurningar? Í mínu tilfelli var það ást - ást til stúlku að nafni Renee. Ég varð ástfanginn af henni og vildi kvænast henni. Hún var öðruvísi og hafði annars konar staðla en flestar þeirra ungu kvenna sem ég þekkti. Ég féll hins vegar fyrir henni og bað hennar - og hún sagði nei!
Ég var ráðvilltur. Ég hélt að ég væri álitlegur biðill. Ég var myndarlegur, 24 ára gamall og útskrifaður úr háskóla með frábært starf. Hún talaði um markmið sín - að giftast einungis einhverjum sem gæti farið með hana í musterið, að eignast eilífa fjölskyldu - og hún afþakkaði boðið. Mig langaði að halda sambandinu áfram svo ég samþykkti að hlusta á trúboðana. Er þetta góð ástæða til að hitta trúboðana? Það var góð hugmynd fyrir mig.
Þegar ég hitti trúboðana fyrst þá skildi ég ekki mikið af því sem þeir sögðu og satt best að segja þá getur verið að ég hafi ekki haft hugann við efnið. Hjarta mitt var lokað fyrir trúmálum. Mig langaði einungis að sanna að þeir hefðu rangt fyrir sér og að græða einhvern tíma til að sannfæra Renee um að giftast mér.
Í dag hafa börn mín þjónað eða eru að þjóna í trúboði og ég skil fórnirnar sem þessir ungu menn og konur færa til að kenna fagnaðarerindi Jesú Krists. Nú vildi ég óska þess að ég hefði veitt öldungum Richardson, Farrell og Hyland, þessum dásamlegu trúboðum sem kenndu mér, meiri athygli.
Fyrsta lexían mín verður til ykkar, vinir og trúarnemar kirkjunnar: Þegar þið hittið trúboðana, vinsamlegast takið þeim alvarlega; þeir eru að fórna mikilvægum árum lífs síns bara fyrir ykkur
Í öðru lagi, að fara í kirkju
Í fyrsta sinn sem ég fór á kirkjusamkomu heyrði ég mörg orð sem voru mér óskiljanleg. Hverjar voru Býflugurnar? Hvað er Aronsprestdæmið og hvað er Líknarfélagið?
Ef þetta er í fyrsta sinn sem þið hafið farið á kirkjusamkomu og þið eruð ráðvillt vegna einhvers sem þið skiljið ekki, ekki hafa áhyggjur! Ég kom líka alveg af fjöllum! Ég man samt ennþá eftir áhrifunum, hinum nýju tilfinningum friðar og gleði sem ég upplifði. Ég vissi það ekki þá, en heilagur andi var að hvísla í eyru mér og hjarta, „þetta er sannleikur.“
Ég ætla nú að draga lexíuna saman í eina setningu: Ef þið eruð ráðvillt – ekki hafa áhyggjur, munið tilfinningarnar sem þið hafið upplifað, þær koma frá Guði.
Í þriðja lagi, að lesa Mormónsbók.
Eftir að hafa hitt trúboðana í nokkur skipti varð mér ekkert ágengt. Mér fannst ég ekki hafa fengið staðfestingu á sannleiksgildi fagnaðarerindisins.
Dag einn spurði Renee mig: „ Ertu að lesa Mormónsbók?“
Ég svaraði: “Nei.“ Ég var að hlusta á trúboðana, var það ekki nóg?
Með tárin í augunum fullvissaði Renee mig um að hún vissi að Mormónsbók væri sönn og útskýrði að ef ég vildi komast að því hvort hún væri sönn þá værir eina leiðin - gettu hvað - að lesa hana! Síðan að spyrja!
Lesið og íhugið í hjörtum ykkar og „spyrjið Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists, … í hjartans einlægni, með einbeittum huga og trú á Krist,“ (Moró 10:4) hvort að Mormónsbók sé sönn og hvort þetta sé hin sanna kirkja.
Þriðja lexían er ein setning: Þegar þið meðtakið þessa hluti – Mormónsbók – og þið eruð hvött til að lesa og spyrja Guð hvort þetta sé sannleikur, gerið það þá bara!
Í síðasta lagi, að iðrast
Síðasta reynslan sem mig langar til að deila með ykkur, varðar iðrun. Eftir að hafa tekið á móti öllum trúboðslexíunum var ég ekki enn sannfærður um að ég þyrfti að breyta neinu í lífi mínu. Það var öldungur Cutler, ungur, sjálfsöruggur trúboði með takmarkaða spænskukunnáttu sem sagði svo dag einn: „ Joaquin, lesum saman Alma 42og setjum nafnið þitt inn er við lesum það.
Mér fannst það vera kjánalegt en ég gerði eins og öldungur Cutler bað mig um og las vers 1: „Og nú, sonur minn [Joaquin] skynja eg, að eitthvað fleira, sem þú skilur ekki, veldur þér hugarangri .“ Ó! Bókin var að tala til mín.
Við lásum líka vers 2: „Sjá nú, sonur minn [Joaquin], ég mun útskýra þetta fyrir þér,“ og því næst var sköpuninni og falli Adams lýst.
Þessu næst var það vers 4: „Og þannig sjáum við að [Joaquin] var gefinn tími til að iðrast.“
Við héldum áfram að lesa rólega, eitt vers í einu, þar til við komum að síðustu þremur versunum. Þá var eins og ég væri lostinn af miklu afli. Bókin talaði beint til mín, og ég byrjaði að gráta er ég las: „Og nú [Joaquin] sonur minn, þráí ég að þú látir þetta ekki angra þig lengur, heldur látir einungis syndir þínar angra þig með því hugarangri, sem leiðir þig til iðrunar“ (vers 29).
Ég geri mér grein fyrir því núna að ég hafði átt von á opinberun án þess að greiða gjaldið. Fram að þessu hafði ég aldrei raunverulega talað við Guð, og hugmyndin, að tala við einhvern sem var ekki á staðnum, virtist kjánaleg. Ég varð að vera auðmjúkur og gera það sem var verið að biðja mig um að gera, jafnvel þó að það virtist kjánalegt fyrir veraldlegan huga minn.
Þann dag opnaði ég hjarta mitt fyrir andanum, þráði að iðrast og vildi skírast. Fram að þessu hafði ég hugsað um iðrun sem eitthvað neikvætt, tengt einungis við synd og misgjörðir, en skyndilega sá ég hana í öðru ljósi - sem eitthvað jákvætt sem opnaði leiðina að þroska og hamingju.
Öldungur Cutler er hér í dag og mig langar að þakka honum fyrir að opna augu mín. Hver ákvörðun sem ég hef tekið í lífi mínu, síðan, hefur verið undir áhrifum þessarar stundar, þegar ég var auðmjúkur, bað fyrirgefningar og friðþæging Jesú Krists fyrir mig sjálfan, varð hluti af lífi mínu.
Því næst, síðasta lexían í einni setningu: Upplifið iðrun, ekkert færir ykkur nær Drottni, Jesú Kristi meira en þráin til að breytast.
Kæru trúarnemar, vinir kirkjunnar, ef þið eruð að hlusta núna þá eruð þið mjög nálægt því að upplifa hina mestu gleði. Þið eruð nærri!
Leyfið mér að bjóða ykkur, með öllum krafti hjarta míns og frá dýpstu fylgsnum sálar minnar: Farið og látið skírast! Það er það besta sem þið munið nokkru sinni gera. Það mun ekki einungis breyta ykkar lífi, heldur einnig lífi barnanna ykkar og barnabarna.
Drottinn hefur blessað mig með fjölskyldu. Ég kvæntist Renee og við eigum fjögur yndisleg börn. Vegna skírnar minnar, get ég eins og spámaðurinn Lehí, til forna, boðið þeim að meðtaka af ávöxtum lífsins trés, sem er elska Guðs (sjá 1 Nephi 8:15; 11:25). Ég get hjálpað þeim til að koma til Krists.
Hugleiðið því reynslu mína (1) takið trúboðana mjög alvarlega, (2) farið til kirkju og munið andlegar tilfinningar (3) lesið Mormónsbók og spyrjið Drottinn hvort hún sé ekki sannleikur og (4) upplifið iðrun og verið skírð.
Ég ber ykkur vitni um það að ef þið greiðið gjald opinberunar, eruð auðmjúk, lesið og biðjið þá munu himnarnir opnast og þið munið vita, eins og ég, að Jesús er Kristur og frelsari minn og ykkar. Í nafni Jesú Krists, amen