Gjörið það, sem hann kann að segja yður
Þegar við ákveðum að gera „það sem hann kann að segja“ okkur þá skuldbindum við okkur að stilla daglega hegðun okkar við vilja Guðs.
Frelsarinn framkvæmdi sitt fyrsta skráða kraftaverk í brúðkaupi í Kana í Galíleu. Móðir hans, María, og lærisveinar hans, voru þar líka. María fann greinilega fyrir einhverri ábyrgð gagnvart því að brúðkaupið færi vel fram. Á meðan á veislunni stóð kom upp vandamál. Gestgjafinn sat uppi vínlaus. María var áhyggjufull og fór til Jesú. Þau töluðu stuttlega saman, síðan snéri María sér að þjónunum og sagði:
„Gjörið það, sem hann kann að segja yður.“
„Nú voru þar sex vatnsker úr steini. … [Þessi vatnsker voru ekki notuð til að geyma drykkjarvatn heldur voru þau samkvæmt viðhafnarhreinsun undir Móselögmálinu.]
„Jesús segir við [þjónana]: Fyllið kerin vatni. Þeir fylltu þau að börmum.
Síðan segir hann: Ausið nú af og færið veislustjóra. Þeir gjörðu svo.
„Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín,“ og tjáði undrun sína yfir því að boðið væri upp á besta vínið svo seint í veislunni.
Við munum yfirleitt eftir þessum atburði vegna þess að það að breyta víni í vatn var sönnun á krafti Guðs – það var kraftaverk. Það eru mikilvæg skilaboð, en það eru önnur mikilvæg skilaboð í frásögn Jóhannesar. María var „dýrmætt og kjörið ker,“ kölluð af Guði til að fæða, næra og ala upp hinn eiginlega son Guðs. Hún vissi meira um hann en nokkur annar á jörðunni. Hún þekkti sannleikann um undraverða fæðingu hans, Hún vissi að hann var án syndar og að hann „talaði ekki eins og aðrir menn, né var hægt að kenna honum, því hann þarfnaðist þess ekki að nokkur maður kenndi honum.” María þekkti óvenjulega getu hans til að leysa vandamál, þar með talin þau sem voru eins persónuleg og að sjá brúðkaupsveislu fyrir víni. Hún hafði óhrekjandi traust á honum og guðlegum mætti hans. Leiðbeiningar hennar til þjónanna voru einfaldar og blátt áfram, lausar við viðvaranir, fyrirvara eða takmarkanir: „Gjörið það, sem hann kann að segja yður.“
María hafði verið ung kona þegar engillinn Gabríel birtist henni. Til að byrja með hafði hún verið „hrædd yfir því að hafa verið sögð „[njóta]náðar“ og að vera „blessuð meðal kvenna … og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri.“ Gabríel fullvissaði hana um að hún þyrfti ekkert að óttast, fréttir hans væru góðar fréttir. Hún myndi „ þunguð verða … og ala … [son] hins hæsta … og hann mun ríkja yfir ætt Jakobs að eilífu.“
Þá sagði María við engilinn: „Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt?“
Engillinn útskýrði, í stuttu máli, og staðfesti fyrir henni að „Guði sé ekkert ómögulegt.“
María svaraði í auðmýkt að hún myndi gera hvað það sem Guð bæði hana að gera, án þess að krefjast þess að vita smáatriðin og þrátt fyrir það að hafa eflaust haft óteljandi spurningar um það sem þetta þýddi fyrir líf hennar. Hún skuldbatt sig án þess að skilja raunverulega hvers hann var að biðja af henni eða hvernig þetta myndi æxlast. Hún samþykkti orð Guðs skilyrðislaust og fyrirfram, með litla þekkingu á því sem lá framundan. Með einföldu trausti á Guð, svaraði María: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“
Þegar við ákveðum að gera „það sem hann kann að segja“ okkur þá skuldbindum við okkur að stilla daglega hegðun okkar við vilja Guðs. Einfaldar framkvæmdir trúar eins og að lesa ritningarnar daglega, fasta og að biðja með einlægum ásetningi veldur því að við öðlumst dýpri andlega getu til að takast á við kröfur jarðlífsins. Með tímanum mun einfaldur trúarlegur vani leiða til undraverðra niðurstaðna. Hann breytir trú okkar frá fræi í öflugan mátt til góðs í lífi okkar. Þegar áskoranir verða á vegi okkar, þá mun rótfesta okkar í Kristi veita okkur staðfestu fyrir sálir okkar. Guð setur skorður við veikleika okkar, dýpkar gleði okkar og sér til þess að okkur „[samverki] allt til góðs
Fyrir nokkrum árum síðan ræddi ég við ungan biskup sem eyddi mörgum klukkustundum í hverri viku við að ráðleggja meðlimum deildar sinnar. Hann tók eftir nokkru athyglisverðu. Vandamálin sem þegnarnir í deild hans stóðu frammi fyrir voru þau sömu og kirkjuþegnar stóðu frammi fyrir um allan heim – mál eins og að byggja upp hamingjusamt hjónaband, vandamál með að finna jafnvægi á milli vinnu, fjölskyldu og kirkjuskyldna, áskoranir með að hlýða Vísdómsorðinu, halda atvinnu, klám eða með að finna frið með stefnumál kirkjunnar eða söguleg málefni sem þeir skildu ekki.
Hann ráðlagði meðlimum deildarinnar oft að fara aftur í grunnatriði trúarinnar, eins og að læra í Mormónsbók – líkt og okkur var boðið af Thomas S. Monson forseta, og borga tíund og að þjóna trúfastlega í kirkjunni. Viðbrögð þeirra voru þó oft að efa hann: „Ég er ekki sammála þér biskup.“ Við vitum öll að þetta eru góðir hlutir að gera. Við tölum oft um þessa hluti í kirkjunni. Ég er ekki viss um að þú skiljir mig. Hvað hefur þetta að gera með þau málefni sem ég er að takast á við?”
Það er sanngjörn spurning. Í tímans rás hef ég orðið vitni að því að þeir sem eru að gera „litlu einföldu hlutina“ af ásettu ráði – að hlýða því sem virðast vera litlu hlutirnir – eru blessaðir með trú og styrk sem nær mikið lengra en hin eiginlegu verk hlýðninnar og í raun virðast algerlega óskyldir þeim. Það gæti verið erfitt að finna tengingu á milli hinna daglegu grundvallaratriða hlýðninnar og lausnarinnar á stóru flóknu vandamálunum sem við stöndum öll frammi fyrir. Þeir eru tengdir. Það er mín reynsla að það að ná að skipuleggja litlu daglegu trúarlegu hefðirnar almennilega er einfaldlega besta leiðin til að styrkja okkur gegn erfiðleikum lífsins, hverjir sem þeir kunna að vera. Smá trúarverk, jafnvel þó að þau virðast vera ómerkileg eða algerlega ótengd hinum ákveðnu vandamálum sem við erum að takast á við, blessa okkur í öllu sem við gerum.
Skoðum Naaman, hann var „hershöfðingi Sýrlandskonungs… hinn mesti kappi,“ en líkþrár. Þjónustustúlka lét vita af spámanni í Ísrael sem gæti læknað Naaman, svo hann ferðaðist með fylgdarliði þjóna, hermanna og með gjafir til Ísrael og kom loks að húsi Elísa. Þjónn Elísa, ekki hann sjálfur, sagði Naaman að boð Drottins væri að fara einfaldlega og „lauga [sig] sjö sinnum í Jórdan.“ Það var nógu einfalt. Kannski hefur þessi einfaldi lyfseðill hljómað of órökréttur, einfaldur og fyrir neðan hans virðingu svo að honum fannst tillagan móðgandi. Í hið minnsta þá voru þessar leiðbeiningar Naaman óskiljanlegar svo hann varð„reiður og gekk burt.“
Þjónar Naamans komu varlega til hans og bentu honum á að ef að Elísa hefði „ skipað [honum að gera] eitthvað erfitt“ þá hefði hann gert það. Þeir bentu honum á að þar sem hann væri aðeins beðinn að gera eitthvað lítið, ætti hann þá ekki að gera það, þó að hann skildi ekki hvers vegna? Naaman endurskoðaði viðbrögð sín og, þó kannski í vantrú, en í hlýðni „fór hann ofan eftir og dýfði sér sjö sinnum niður í Jórdan.“ og læknaðst á undraverðan hátt.
Stundum kemur umbun vegna hlýðni fljótlega; stundum aðeins eftir að við erum reynd. Í Hinni dýrmætu perlu þá lesum við um stöðuga iðni Adams við að halda boðorðin um að færa fórnir. Þegar engill spurði hann hvers vegna hann væri að færa fórnir, svaraði hann: „Ég veit það ekki, aðeins að Drottinn bauð mér það.“ Engillinn útkýrði að fórnirnar væru „í líkingu fórnar hins eingetna föðurins.“ Sú útskýring kom greinilega aðeins eftir að Adam hafði sýnt fram á skuldbindingu sína að hlýða Drottni í „marga daga“ án þess að vita hvers vegna hann átti að færa þessar fórnir.
Guð mun ávallt blessa okkur fyrir staðfasta hlýðni við fagnaðarerindi hans og hollustu við kirkju hans en hann sýnir okkur sjaldan tímasetningu sína fyrir slíkt, fyrirfram. Hann sýnir okkur ekki heildarmyndina frá upphafi. Það er þar sem trúin, vonin og traust á Drottni kemur inn.
Guð biður okkur að hafa þolinmæði með honum - að treysta honum og fylgja honum. Hann sárbænir okkur að „[deila] ekki sakir þess að [við sjáum] ekki.“ Hann varar okkur við að við ættum ekki að reikna með einföldum svörum eða skjótum lausnum frá himnum. Hlutir ganga upp ef við erum staðföst meðan „[reynt] er á trú [okkar], hversu erfitt sem það er að standast prófraunina eða hversu seint svarið berst okkur. Ég er ekki að tala um „að hlýða í blindni,“ heldur með hugsandi trausti á fullkomna ást og tímasetningu Drottins.
Trúarreynsla mun alltaf hafa með það að gera að vera trúr hinni einföldu, daglegu trúariðkun. Þá, og aðeins þá, lofar hann að við munum hljóta hið guðlega og langþráða svar. Aðeins þegar við höfum sannað að við erum fús að gera það sem hann biður okkur án þess að krefjast þess að vita hvenær, hvernig og hvers vegna fáum við að „[uppskera] laun trúar [okkar], kostgæfni, þolinmæði og langlundargeðs.“ Raunveruleg hlýðni meðtekur boðorð Guðs skilyrðislaust og án fyrirvara.
Meðvitað eða ekki þá kjósum við daglega „hverjum [við viljum] þjóna. Við sýnum fram á ákveðni okkar að þjóna Drottni með því að starfa daglega af trúrækni. Drottinn hefur lofað að hann muni gera stigu okkar slétta, en til þess að hann geri það, þá verðum við að ganga áfram og treysta því að hann þekkir leiðina því að hann er „leiðin.“ Við verðum sjálf að fylla okkar eigið vatnsker upp að börmum. Þegar við treystum og fylgjum honum, þá mun líf okkar umbreytast, líkt og vatn í vín. Við verðum eitthvað meira og betra en við hefðum annars getað orðið. Trúið á Drottin og „gjörið það sem hann kann að segja yður.“ Í nafni Jesú Krists, amen