Guðdómurinn og sáluhjálparáætlunin
Þar sem við höfum sannleikann um Guðdóminn og samband okkar við hann, þá höfum við hinn endanlega leiðarvísi fyrir ferðalag okkar í gegnum jarðlífið.
I.
Fyrsta trúaratriðið segir: „Vér trúum á Guð, hinn eilífa föður, og á son hans, Jesú Krist, og á heilagan anda.” Við eigum sameiginlegt með öðrum kristnum að trúa á föður og son og heilagan anda, en skilgreining okkar á þeim er ekki sú sama og annarra. Við höfum ekki trú á því sem hinn kristni heimur nefnir kenninguna um hina heilögu þrenningu. Í fyrstu sýninni sá Joseph Smith tvo aðgreinda einstaklinga, tvær verur, sem staðfesti að hin ríkjandi trú þess tíma um Guð og Guðdóminn væri ekki sönn.
Andstætt þeirri trú að Guð sé óskiljanlegur og óþekkjanlegur leyndardómur, er sú trú að sannleikurinn um Guð og samband okkar við hann sé skiljanlegur og lykill að öllu öðru í kenningu okkar. Í Biblíunni er hin undursamlega fyrirbæn Jesú, en þar segir: „En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist“ (Jóh 17:3).
Sú viðleitni að komast til þekkingar á Guði og verki hans hófst fyrir jarðlífið og henni mun ekki ljúka hér. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Langan tíma mun taka að læra [allar reglur upphafningar] eftir að þið hafið farið í gegnum huluna.“ Við byggjum á þeirri þekkingu sem við öfluðum okkur í andaheimi fortilverunnar. Spámaðurinn Jesaja reyndi að kenna Ísraelsmönnum um eðli Guðs og samband hans við börn sín og sagði, líkt og ritað er í Biblíunni:
Við hvern viljið þér þá samlíkja Guði, og hvað viljið þér taka til jafns við hann? …
Vitið þér ekkert? Heyrið þér ekki? Hefir yður eigi verið kunngjört það frá upphafi? Hafið þér engan skilning hlotið frá grundvöllun jarðar?“ (Jes 40:18, 21).
Við vitum að hinir þrír meðlimir Guðdómsins eru aðskildar og aðgreindar verur. Við vitum það vegna kennslu Josephs Smith: „Faðirinn hefur líkama af holdi og beinum, jafn áþreifanlegan og mannslíkaminn er, sonurinn einnig, en heilagur andi hefur ekki líkama af holdi og beinum, heldur er hann andavera. Væri ekki svo, gæti heilagur andi ekki dvalið í okkur“ (K&S 130:22).
Spámaðurinn Joseph Smith útskýrði æðstu stöðu Guðs föðurins í Guðdóminum og hlutverk hvers sem hann skipa og sagði:
„Hver manneskja sem séð hefur himnana ljúkast upp veit að þar eru þrír einstaklingar sem hafa lykla valdsins og að einn þeirra er æðstur. …
… Þessir einstaklingar … eru nefndir hinn fyrsti Guð, skaparinn, hinn annar Guð, lausnarinn, hinn þriðji Guð, vitnarinn.
[Það er] köllun föðurins að vera í forsæti, líkt og aðalstjórnandi eða forseti, Jesú að vera meðalgöngumaður og heilags anda að vera vitnari.“
II. Áætlunin
Við skiljum samband okkar við meðlimi Guðdómsins af því sem opinberað hefur verið um sáluhjálparáætlunina.
Spurningum eins og „hvaðan komum við?“ hvers vegna eru við hér? og hvert förum við? er svarað með því sem ritningarnar nefna „sáluhjálparáætlun,“ „hina miklu sæluáætlun“ eða „endurlausnaráætlun“ (Alma 42:5, 8, 11). Fagnaðarerindi Jesú Krists er þungamiðja áætlunar hans.
Í tilveru okkar fyrir jarðlífið, sem andabörn Guðs, þá þráðum við þau forlög að hljóta eilíft líf og höfðum þroskast eins langt og hægt var án jarðneskrar reynslu í efnislíkama. Til þess að veita okkur það tækifæri þá stjórnaði himneskur faðir sköpun þessa heims, og við vorum sveipuð gleymskuhulu um tilveru okkar fyrir jarðlífið og þannig gert kleift að sýna fram á hve fús við værum að halda boðorð hans og takast á við allskyns áskoranir jarðlífsins og þroskast af þeim. Í þessu jarðneska reynsluferli, og vegna falls okkar fyrstu foreldra, þurftum við að líða andlegan dauða, með því að vera útilokuð úr návist Guðs, verða óhrein af synd og háð stundlegum dauða. Áætlun föðurins sá til þess að við fengjum sigrast á öllum þessum hindrunum.
III. Guðdómurinn
Þar sem við þekkjum nú tilgang hinnar miklu áætlunar Guðs, þá skulum við ígrunda hlutverk hinna þriggja meðlima Guðdómsins í þeirri áætlun.
Við skulum byrja á kenningu úr Biblíunni. Í lokaorðum sínum í öðru Korintubréfinu vísar Páll næstum kæruleysislega til Guðdómsins, föðurins, sonarins og heilags anda. Náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og [„samfélag“] heilags anda sé með yður öllum“ (2 Kor 13:14).
Þetta biblíuvers staðfestir Guðdóminn og vísar í umlykjandi og hvetjandi kærleika Guðs föðurins, miskunnar og endurleysandi hlutverks Jesú Krists og samfélag heilags anda.
Guð faðirinn
Allt þetta hófst með Guði föðurnum. Þótt við vitum hlutfallslega minna um hann, þá vitum við ótvírætt að hann er alvitur í sinni æðstu stöðu, hvert samband okkar er við hann og um hlutverk hans sem yfirstjórnanda í áætlun sáluhjálpar, sköpuninni og öllu öðru sem á eftir kom.
Líkt og öldungur Bruce R. McConkie ritaði rétt fyrir dauða sinn: „Í orðins fyllstu merkingu, þá er aðeins einn sannur og lifandi Guð. Hann er faðirinn, hinn almáttugi Elóhim, æðstur allra, skaparinn og ríkjandi alheims.“ Hann er Guð og faðir Jesú Krists, sem og okkar allra. David O. McKay kenndi: „Fyrsti grundvallarsannleikurinn sem Jesús Kristur setti fram var sá að yfir öllu og að baki alls væri Guð faðirinn, Drottinn himins og jarðar.“
Það sem við vitum um eðli Guðs föðurins er að mestu það sem okkur hefur lærst af þjónustu og kenningum hans eingetna sonar, Jesú Krists. Líkt og öldungur Jeffrey R. Holland kenndi, þá var megin tilgangur þjónustu Jesú að opinbera jarðarbúum „hver Guð okkar eilífi faðir er, … að opinbera hið sanna eðli föður hans, föður okkar á himnum og gera okkur það persónulegt.“ Í Biblíunni er postullegt vitni um að Jesús hafi verið „ímynd“ persónuleika föður síns (Hebr 1:3), sem staðfestir ennfrekar þá kenningu Jesú að „sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn“ (Jóh 14:9).
Guð faðirinn er faðir anda okkar. Við erum börn hans. Hann elskar okkur og allt sem hann gerir er okkur til eilífrar farsældar. Hann er höfundur sáluhjálparinnar og það er fyrir mátt hans sem hún nær fram að ganga til endanlegrar dýrðar barna hans.
Sonurinn
Jesús Kristur er sýnilegasti meðlimur Guðdómsins hvað jarðarbúa varðar. Í undursamlegri kenningarlegri yfirlýsingu Æðsta forsætisráðins frá árinu 1909, segir að hann sé „fyrsti sonur Guðs, meðal margra annarra – hinn frumgetni í andanum og hinn eingetni í holdinu.“ Sonurinn, hinn mikilhæfasti allra, var útvalinn af föðurnum til að framfylgja áætlun föðurins – til að iðka mátt föðurins, til að skapa heima án enda (sjá HDP Móse 1:33) og endurleysa börn Guðs frá dauða, með upprisu sinni, og synd, með friðþægingu sinni. Sú guðlega fórn er sannlega „mikilvægasta verk allrar sögu mannkyns.“
Á hinum einstöku og helgu viðburðum, er Guð faðirinn hefur persónulega kynnt soninn, hefur hann sagt: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann“ (Mark 9:7; Lúk 9:35; sjá einnig 3 Ne 11:7; Joseph Smith–Saga 1:17). Það er því Jesús Kristur, Jehóva, Drottinn Guð Ísraels, sem talar við og í gegnum spámennina. Það er því svo, að þegar Jesús Kristur birtist Nefítunum, eftir upprisu sína, að hann kynnti sig sjálfan sem „Guð allrar jarðarinnar“ (3 Ne 11:14). Því er það svo, að Jesús talar oft til spámanna Mormónsbókar og hinna Síðari daga heilögu, sem „faðirinn og sonurinn,“ sem er nafnbót sem útskýrð er í kenningarlegri greinargerð Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar fyrir 100 árum.
Heilagur andi
Þriðji meðlimur Guðdómsins er heilagur andi, sem oft er líka talað um sem anda Drottins og huggarann. Hann er sá meðlimur Guðdómsins sem veitir persónulega opinberun. Þar sem hann er andavera (sjá K&S 130:22), þá getur hann dvalið í okkur og framfylgt því einstaka hlutverki að vera samskiptamiðill á milli föðursins og sonarins og barna Guðs á jörðu. Margar ritningargreinar kenna að hlutverk hans sé að vitna um föðurinn og soninn (sjá Jóh 15:26; 3 Ne 28:11; K&S 42:17). Frelsarinn lofaði að huggarinn myndi kenna okkur allt og minna okkur á allt og leiða okkur í sannleikann (sjá Jóh 14:26; 16:13). Þannig hjálpar heilagur andi okkur að greina á milli sannleika og ósanninda, leiðir okkur í mikilvægum ákvarðanatökum og hjálpar okkur í gegnum áskoranir jarðlífsins. Hann er líka sá miðill sem helgar okkur og hreinsar af synd (sjá 2 Ne 31:17; 3 Ne 27:20; Moró 6:4).
IV.
Hvernig hjálpar vitneskjan um þessa guðlegu opinberuðu kenningu um Guðdóminn og sáluhjálparáætlunina okkur að takast á við áskoranir okkar nú?
Þar sem við höfum sannleikann um Guðdóminn og samband okkar við hann, um tilgang lífsins og eðli okkar guðlegu örlaga, þá höfum við hinn endanlega leiðarvísi og fullvissuna um ferðalag okkar í gegnum jarðlífið. Við vitum hvern við tilbiðjum og afhverju. Við vitum hver við erum og hver við getum orðið (sjá K&S 93:19). Við vitum hver gerði þetta allt mögulegt og hvað við þurfum að gera til að fá notið hinna endanlegu blessana sem hljótast fyrir sáluhjálparáætlun Guðs. Hvernig vitum við þetta allt? Við vitum það fyrir opinberun Guðs til spámanna hans og til okkar sjálfra persónulega.
Að hljóta það sem Páll postuli lýsti sem „vaxtartakmarki Krists fyllingar,“ (Efe 4:13) krefst mikils meira en að afla sér þekkingar. „Það nægir … okkur ekki að láta sannfærast um fagnaðarerindið; við verðum að framkvæma og hugsa á þann hátt að það umbreyti okkur. Andstætt við menntastofnanir heimsins, sem veita okkur vitneskju um eitthvað, þá skorar fagnaðarerindi Jesú Krists á okkur að verða eitthvað.
Líkt og Thomas S. Monson forseti kenndi okkur á síðustu aðalráðstefnu:
„Kjarni sáluhjálparáætlunarinnar er frelsari okkar, Jesús Kristur. Án friðþægingar hans, væri allt glatað. Það nægir þó ekki að trúa bara á hann og hlutverk hans. Við þurfum að vinna og læra, leita og biðja, iðrast og þroskast. Við þurfum að þekkja lögmál Guðs og lifa eftir þeim. Við þurfum að taka á móti endurleysandi helgiathöfnum hans. Aðeins á þann hátt munum við öðlast sanna eilífa hamingju. …
Af allri sálu og af allri auðmýkt,“ sagði Monson forseti, „þá ber ég vitni um hina dásamlegu gjöf, sem er áætlun föðurins fyrir okkur. Hún er hinn fullkomni vegur til friðar og hamingju, bæði hér og í komandi heimi.“
Ég bæti mínum vitnisburði við vitnisburð okkar ástkæra spámanns. Ég ber vitni um að við eigum ástríkan föður á himnum, sem elskar okkur. Ég ber vitni um að við höfum heilagan anda, sem leiðir okkur. Ég ber vitni um að Jesús Kristur, frelsari okkar, gerir þetta allt mögulegt, í nafni Jesú Krist, amen.