2010–2019
Tungumál fagnaðarerindisins
Apríl 2017


Tungumál fagnaðarerindisins

Áhrifamikil, krefjandi og kostgæfin kennsla í fjölskyldu okkar er afar mikilvæg til þess að varðveita fagnaðarerindið á heimilum okkar.

Eftir að ég var kallaður sem einn hinna Sjötíu, þá flutti ég með fjölskylduna mína frá Costa Rica til Salt Lake City, til að takast á við fyrsta verkefnið mitt. Ég hef notið þeirrar blessunar að heimsækja dásamlegt fólk af ýmsu þjóðerni og menningu, hér í Bandaríkjunum. Meðal þess voru margir sem fæddir voru í löndum Suður-Ameríku, líkt og ég sjálfur.

Ég hef veitt því athygli að margir hér meðal fyrstu kynslóðar innflytjenda frá Rómönsku Ameríku tala spænsku sem aðaltungumál, en skilja þó ensku nægilega til að geta tjáð sig við aðra. Þeir sem tilheyra annarri kynslóðinni tala mjög góða ensku og kannski örlítitla spænsku, hvort sem þeir fæddust hér eða komu hingað ungir. Þeir sem tilheyra þriðju kynslóðinni, hafa oft glatað spænskunni, móðurmáli sínu, algjörlega.

Á máli málvísinda er þetta einfaldlega kallað „að glata tungumáli.“ Tungumál getur glatast þegar fjölskyldur flytja erlendis, þar sem móðurmálið verður ekki aðaltungumálið. Þetta gerist ekki aðeins meðal spænskættaðra, heldur líka meðal allra annarra víða um heim, þar sem annað tungumál leysir móðurmál af hendi. Meira að segja Nefí, sem er spámaður í Mormónsbók, hafði áhyggjur af því að glata móðurmáli sínu, þegar hann bjó sig undir að fara til fyrirheitna landsins. Nefí ritaði: „Sjá, viska Guðs er að baki því, að við fáum þessar heimildaskrár, svo að við fáum varðveitt tungu feðra okkar fyrir börn okkar.

Nefí hafði þó líka áhyggjur af því að glata öðru tungumáli. Í næsta versi segir hann: „Og einnig að við fáum varðveitt þeim til handa þau orð, sem heilagir spámenn hafa allir mælt af munni fram og þeim voru gefin fyrir anda og kraft Guðs, frá upphafi veraldar og allt til líðandi stundar.“

Ég veitti athygli að margt sameiginlegt er með varðveislu móðurmáls og varðveislu fagnaðarerindis Jesú Krists.

Í samlíkingu minni í dag ætla ég ekki að ræða um eitthvað ákveðið jarðneskt tungumál, heldur eilíft tungumál sem aldrei má glatast og verður að varðveita meðal fjölskyldna okkar. Ég ætla að ræða um tungumál fagnaðarerindi Jesú Krists. Með orðtakinu „tungumál fagnaðarerindisins,“ vísa ég til allra kenninga spámanna okkar, hlýðni okkar við þær kenningar og fylgni við réttlátar hefðir.

Ég ætla að nefna þrjár leiðir til að varðveita þetta tungumál.

Í fyrsta lagi: Sýna meiri kostgæfni og umhyggjusemi heima fyrir

Í Kenningu og sáttmálum býður Drottinn mörgum þekktum meðlimum kirkjunnar, þar á meðal Newel K. Whitney, að koma reglu á heimili sín. Drottinn sagði: „Þjónn minn Newel K. Whitney … þarf einnig ögunar við og verður að koma reglu á fjölskyldu sína og sjá um að hún sýni meiri kostgæfni og umhyggjusemi heima fyrir, og biðji ávallt, ella verður að víkja henni úr stöðu sinni.“

Eitt af því sem hefur áhrif á glötun tungumáls er þegar foreldrar verja ekki nægum tíma til að kenna börnum sínum móðurmálið. Það nægir ekki aðeins að tala tungumálið heima fyrir. Ef foreldrar vilja varðveita eigið tungumál, þá verður að kenna það. Rannsóknir hafa sýnt að foreldrar sem leggja meðvitað á sig að varðveita eigið tungumál, ná yfirleitt góðum árangri. Hvað er hins vegar að leggja meðvitað á sig að kenna tungumál fagnaðarerindisins?

Öldungur David A. Bednar, í Tólfpostulasveitinni, varaði við því að „máttvana trúarkennsla og fordæmi á heimilinu“ væri sterkur áhrfavaldur í því að rjúfa kynslóðahefð meðal fjölskyldna í kirkjunni.

Við getum því dregið þá ályktun að áhrifamikil, krefjandi og kostgæfin kennsla sé afar mikilvæg í fjölskyldu okkar til þess að varðveita fagnaðarerindið á heimilum okkar.

Okkur hefur ótal sinnum verið boðið að læra ritningarnar, bæði sjálf og sem fjölskylda. Margar fjölskyldur sem það gera eru samheldnari og eiga nánara samband við Drottin.

Faðir og dóttir læra ritningarnar

Hvenær á daglegt ritningarnám sér stað? Þegar foreldrar taka sér ritningarnar í hönd og fá fjölskylduna til að koma saman í kærleika til að læra í þeim. Erfitt er að sjá að slíkt nám get gerst á einhvern annan hátt.

Fjölskylda lærir ritningarnar

Feður og mæður, verðið ekki af þessari dásamlegu blessun. Bíðið ekki þar til það verður um seinan!

Í öðru lagi: Sterk fyrirmynd á heimilinu

Einn málvísindamaður skrifaði að „ef við hyggðumst varðveita eigið móðurmál, þá þyrftum við að gæða tungumálið lífi fyrir börn okkar.“ Við „gæðum tungumál lífi“ þegar kennsla og fyrirmynd fara saman.

Þegar ég var ungur, þá starfaði ég í verksmiðju föður míns á frídögum. Fyrsta spurningin sem faðir minn spurði mig alltaf, eftir að ég hafði fengið launin mín, var: „Hvað ætlarðu að gera við peningana þína?

Ég vissi það og svaraði: „Greiða tíund og leggja safna fyrir trúboði.“

Eftir að hafa unnið hjá föður mínum í átta ár og stöðugt þurft að svara sömu spurningunni, taldi faðir minn sig hafa kennt mér að greiða tíund. Það sem hann vissi þó ekki, var að ég lærði þessa mikilvægu reglu á aðeins einni helgi. Ég skal segja ykkur hvernig ég lærði hana.

Eftir atburði sem tengdust borgarastyrjöld í Mið-Ameríku, þá varð fyrirtæki föður míns gjaldþrota. Hann fór frá því að hafa 200 manns í fullri vinnu, í það að hafa færri en 5 saumakonur, sem unnu eftir þörfum í bílskúr heimilisins. Dag einn, á þessum erfiðu tímum, heyrði ég foreldra mína ræða saman um það hvort þau ættu að greiða tíund eða kaupa mat fyrir okkur börnin.

Á sunnudeginum fylgdi ég föður mínum eftir til að sjá hvað hann mundi gera. Eftir kirkjusamkomur sá ég hann taka umslag og setja tíundina sína í það. Það var aðeins einn hluti lexíunnar. Spurningin sem á mér hvíldi var hvað við ættum að borða.

Snemma á mánudagsmorgni var knúið dyra á heimili okkar. Þegar ég opnaði var þar fólk sem spurði um föður minn. Ég kallaði á hann og þegar hann kom sögðu gestirnir honum frá brýnu saumaverkefni sem þegar þurfti að vinna. Þeir sögðu honum að verkefnið væri svo brýnt að hann fengi það greitt fyrirfram. Dag þennan lærði ég um reglu tíundargreiðslna og blessanirnar sem á eftir fylgdu.

Í Nýja testamentinu ræðir Drottinn um fyrirmynd: Hann sagði: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.“

Musterið sótt heim

Það nægir ekki að tala aðeins við börn okkar um mikilvægi musteris, föstu og að halda hvíldardaginn heilagan. Þau verða að sjá okkur setja musterið á dagskrá, eins oft og því verður við komið. Þau þurfa að sjá að við föstum reglubundið og höldum hvíldardaginn heilagan allan daginn. Ef börn okkar geta ekki fastað yfir tvær máltíðir, geta ekki lært ritningarnar reglubundið og geta ekki slökkt á lokkandi efni í sjónvarpinu á sunnudegi, munu þau þá hafa nægan andlegan styrk til að standast miklar freistingar í heimi nútímans, þar á meðal klámfreistinguna?

Í þriðja lagi: Hefðir

Tungumál geta líka breyst eða glatast með því að önnur tungumál og hefðir blandast móðurmáli.

Á endurreisnarárum kirkjunnar bauð Drottinn mörgum þekktum meðlimum kirkunnar að koma reglu á heimili sín. Hann byrjaði á því að segja hvernig ljós og sannleikur geta á tvennan hátt horfið frá heimilum okkar. „Hinn illi kemur og tekur burtu ljósið og sannleikannfrá mannanna börnum fyrir óhlýðni þeirra og erfikenningar feðra þeirra.

Við þurfum, sem fjölskylda, að forðast allar hefðir sem koma í veg fyrir að við höldum hvíldardaginn heilagan eða höfum ritningarnám og bænagjörð á heimilinu. Við þurfum að læsa hinum stafrænu dyrum klámsins að heimili okkar og öllum öðrum dyrum illra áhrifa. Við þurfum að nota ritningarnar og orð nútíma spámanna til að kljást við heimsins hefðir okkar tíma og fræða börn okkar um guðlegt eðli þeirra, tilgang lífs þeirra og hið guðlega hlutverk Jesú Krists.

Lokaorð

Í ritningunum finnum við nokkur dæmi um „glötun tungumáls.“ Hér er dæmi:

NÚ bar svo við, að margir af hinni upprennandi kynslóð gátu ekki skilið orð Benjamíns konungs, enda smábörn á þeim tíma, sem hann talaði til þegna sinna. Og þeir trúðu ekki erfikenningum feðra sinna. …

„Og vegna trúleysis síns skildu þeir ekki orð Guðs og hertu hjörtu sín.“

Hvað hina upprennandi kynslóð varðar, þá varð fagnaðarerindið að framanlegu máli. Þótt hægt sé að deila um gagnsemi þess að varðveita gildandi tungumál, þá eru eilífar afleiðingar þess að glata tungumáli fagnaðarerindisins á heimilum okkar óumdeilanlegar í samhengi sáluhjálparáætlunar.

Móðir biðst fyrir með ungum syni sínum

Sem börn Guðs, erum við ófullkomið fólk, sem reynir að læra fullkomið tungumál. Á sama hátt og móðir sýnir börnum sínum hluttekningu, þá sýnir himneskur faðir okkur þolinmæði í ófullkomleika okkar og mistökum. Hann metur og skilur okkar vanmáttuga orðalag, tuldrað af einlægni, líkt og það væri fallegur kveðskapur. Hann gleðst yfir okkar fyrsta trúarþeli. Hann kennir okkur með fullkominni elsku.

Fjölskylda flytur bæn saman

Ekkert afreksverk í þessu lífi, hversu mikilvægt sem það er, mun skipta máli, ef við glötum tungumáli fagnaðarerindsins á heimilum okkar. Ég ber vitni um að himneskur faðir mun blessa okkur í viðleitni okkar og tilraunum til að ná tökum á tungumáli hans, jafnvel allt þar til við verðum altalandi á þessu æðra tjáningarformi, sem alltaf var móðurmálið okkar. Í nafni Jesú Krists, amen

Heimildir

  1. Á meðal spænskættaðra þá er „eintenging enskustigs … 72 prósent“ meðal þriðju kynslóðar (Richard Alba, „Bilingualism Persists, but English Still Dominates,“ Migration Policy Institute, 1. febr. 2005, migrationpolicy.org/article/bilingualism-persists-english-still-dominates).

  2. „Hið ríkjandi munstur meðal þriðju kynslóðar er að hún talar eingöngu ensku“ (Alba, „Bilingualism Persists, but English Still Dominates“).

  3. 1 Ne 3:19; skáletrað hér.

  4. 1 Ne 3:20; skáletrað hér.

  5. Skilgreina má tungumál sem „tjáningarkerfi notað af ákveðnum þjóðum eða samfélögum“ (Oxford Living Dictionaries, “language,” en.oxforddictionaries.com/definition/language).

  6. Kenning og sáttmálar 93:50; skáletrað hér.

  7. „[Varðveisla móðurmáls] er möguleg, en þarfnast yfirlegu og skipulags“ (Eowyn Crisfield, „Heritage Languages: Fighting a Losing Battle?“onraisingbilingualchildren.com/2013/03/25/heritage-languages-fighting-a-losing-battle). „Þýskumælandi fólk miðvesturhlutanum náði t.d. góðum árangri í varðveislu móðurmálsins um kynslóðir“ (Alba, „Bilingualism Persists, but English Still Dominates“).

  8. David A. Bednar, „Multigenerational Families,“ á leiðtogafundi aðalráðstefnu, apríl 2015, broadcasts.lds.org.

  9. Eitt dæmi um það á okkar tíma eru tilmæli frá Æðsta forsætisráðinu: „Við hvetjum foreldra og börn til að láta fjölskyldubænir hafa algjöran forgang, svo og fjölskyldukvöld, ritninganám og fræðslu og heilnæmar fjölskylduathafnir“ (Bréf frá Æðsta forsætisráðinu, 11. febr. 1999).

  10. Gæða þarf tungumál lífi fyrir börn ykkar, svo þau fái skilið það og geti tjáð sig á því og fundið að þau tilheyri þeim hópi fólks sem talar tungumálið“ (Crisfield, „Heritage Languages: Fighting a Losing Battle?“ skáletrað hér).

  11. Jóh 5:19.

  12. „Rétt framvinda föstusunnudags er að vera án matar og drykkjar yfir tvær aðalmáltíðir í einn sólarhring, sækja föstu- og vitnisburðarsamkomu og gefa föstufórn til hjálpar hinum þurfandi“ (Handbook 2: Administering the Church [2010], 21.1.17.

  13. Sjá Omní 01:17.

  14. Kenning og sáttmálar 93:39; skáletrað hér.

  15. Efni þessarar ræðu fjallar um hvernig „glötun tungumáls“ getur átt við um glötun fagnaðarerindisins (sjá Dóm 2:10; Omní 1:17; 3 Ne 1:30).

  16. Mósía 26:1, 3; skáletrað hér.

  17. Sjá Matt 5:48; 3 Ne 12:48.

  18. Sjá Matt 16:24–26.