2010–2019
Grundvöllur trúar
Apríl 2017


Grundvöllur trúar

Bæn mín er að við munum færa þær fórnir og sýna þá auðmýkt sem nauðsynleg er til að stykja undirstöðurnar fyrir trú okkar á Drottin Jesú Krist.

Þetta hefur verið stórkostleg aðalráðstefna. Við höfum sannarlega verið uppfrædd. Ef hægt er að tala um eitt meginmarkmið aðalráðstefnu, þá er það að byggja upp trú á Guð, föðurinn og á frelsara okkar, Drottin Jesú Krist

Orð mín ávarpa undirstöður þeirrar trúar.

Persónulegur grunnur, eins og svo mörg önnur verkefni sem eru einhvers virði, er vanalega byggður hægt og rólega, eitt lag í einu, ein reynsla, ein áskorun, eitt bakslag og einn árangur. Ein dýrmætasta reynslan eru fyrstu skref barnsins. Það er stórkostlegt að vera vitni að því. Þessi dýrmæti svipur sem kemur á andlitið - samansafn af ákveðni, gleði, undrun og árangri - er sannarlega áhrifamikil stund.

Í fjölskyldu okkar er einn svipaður viðburður sem stendur út. Þegar yngsti sonur okkar var um fjögurra ára, kom hann afar stoltur inn í húsið og tilkynnti fjölskyldunni fagnandi: „Nú get ég gert allt. Ég get reimað, ég get hjólað og ég get rennt upp.“ Við skildum að hann var að segja okkur að hann gæti reimað skóna sína, hann kynni að hjóla á stóra þríhjólinu sínu og hann gæti rennt upp úlpunni sinni. Við hlógum öll en gerðum okkur grein fyrir því að fyrir hann voru þetta gífurleg afrek. Hann trúði því einlæglega að hann hefði komist á leiðarenda og væri orðinn fullorðinn.

Líkamlegur, sálarlegur og andlegur þroski eiga margt sameiginlegt. Líkamlegan þroska er nokkuð auðvelt að sjá. Við byrjum á smáum skrefum og okkur fer fram dag frá degi, ár frá ári, vöxum og þroskumst til að ná loks fullum vexti. Þroski er mismunandi á milli manna.

Þegar við horfum á afreksíþróttamenn eða tónlistaratriði þá segjum við oft að þessi einstaklingur sé hæfileikaríkur. Hins vegar er frammistaða árangur margra ára undirbúnings og æfinga. Einn vel þekktur rithöfundur, Malcolm Gladwell hefur kallað þetta 10.000 klukkutíma regluna. Vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta mikil æfing er nauðsynleg í íþróttum, tónlistarflutningi, námsárangri, sérhæfðri atvinnufærni, læknisfræðilegri eða lögfræðilegri hæfni o.s.frv. Einn þessara vísindamanna fullyrti að „það krefjist tíu þúsund klukkutíma í æfingu til að ná heimsklassa færni – í hverju sem er.“

Flestir gera sér grein fyrir því að til þess að ná toppnum í líkamlegri eða tilfinningalegri frammistöðu, þá er slíkur undirbúningur og æfing nauðsynleg.

Því miður þá er minni áhersla lögð á það í veraldlegum heimi, hvað mikið af andlegum þroska er nauðsynlegur til að verða kristilegri og að byggja upp grunn sem leiðir að varanlegri trú. Við eigum það til að leggja áherslu á stundir mikilfenglegs skilnings. Það eru dýrmætar stundir þegar við gerum okkur grein fyrir því að heilagur andi hefur borið vitni um sérstakan andlegan skilning í huga okkar og hjörtum. Við gleðjumst yfir slíkum stundum og það ætti ekki að draga úr þeim á neinn hátt. Til þess að ná varanlegri trú og ævarandi félagsskap andans þá er ekkert sem kemur í staðinn fyrir trúarlega ástundun einstaklingsins sem er hægt að bera saman við líkamlegan eða tilfinningalegan þroska. Við ættum að byggja á þessum reynslum, sem líkjast stundum fyrstu skrefum barns. Við gerum það með helguðum ásetningi að mæta á sakramentissamkomur, stunda ritningarlestur, biðja reglulegra bæna og þjóna á þann hátt sem við erum kölluð. Í nýlegri minningargrein um 13 barna föður þá stóð að „trúfesta hans í daglegum bænum og ritningarnámi hafði haft mjög djúp áhrif á börn hans, og gefið þeim óbifanlegan grunn í trú á Drottin Jesú Krist.“

Það var ein reynsla sem ég varð fyrir þegar ég var 15 ára gamall sem hjálpaði til við að byggja minn trúarlega grunn. Trúföst móðir mín hafði staðfastlega reynt á að hjálpa mér að byggja trúarlegan grunn fyrir líf mitt. Ég sótti sakramentisamkomur, Barnafélag, síðan Piltafélagið og trúarskóla. Ég hafði lesið Mormónsbók og hafði alltaf beðið persónulegra bæna. Á þessum tíma gerðust átakamiklir atburðir í lífi fjölskyldu okkar þegar ástkær eldri bróðir minn var að íhuga möguleikann á að fara á trúboð. Yndislegur faðir minn, minna virkur þegn kirkjunnar, vildi að hann héldi menntun sinni áfram og færi ekki í trúboð. Þetta olli misklíð.

Í nokkuð merkilegu samtali við bróður minn sem var fimm árum eldri en ég, og sem leiddi samtalið, komumst við að þeirri niðurstöðu að ákvörðun hans varðandi það hvort hann ætti að þjóna í trúboði byggðist á þremur atriðum: (1) Var Jesús Kristur guðlegur? (2) Var Mormónsbók sönn? (3) VarJoseph Smith spámaður endurreisnarinnar?

Er ég baðst einlægleg fyrir það kvöldið, staðfesti andinn fyrir mér, sannleiksgildi þessara þriggja spurninga. Ég gerði mér einnig grein fyrir því að nærri því hver einasta ákvörðun sem ég myndi taka það sem eftir væri lífs míns, myndi litast af svörunum við þessum þremur spurningum. Ég komst sérstaklega að raun um að trú á Drottin Jesú Krist væri nauðsynleg. Horfandi til baka þá geri ég mér grein fyrir því að grunnurinn var til staðar fyrir mig til að meðtaka þessa andlegu staðfestingu þetta kvöld, og það mátti ég aðallega þakka móður minni. Bróðir minn, sem hafði þá þegar vitnisburð, tók ákvörðun um að þjóna í trúboði og fékk að lokum stuðning föður okkar.

Við fáum andlega leiðsögn þegar við þurfum á henni að halda, á Drottins tíma og eftir hans vilja. Mormónsbók: Annað vitni um Jesú Krist er ákjósanlegt dæmi. Ég sá nýlega fyrstu útgáfu Mormónsbókar. Joseph Smith lauk þýðingu hennar þegar hann var 23 ára gamall. Við þekkjum aðeins ferlið og verkfærin sem hann notaði við þýðinguna. Í fyrstu útgáfunni sem var prentuð árið 1830 þá lét Joseph stuttan formála fylgja með og sagði á mjög einfaldan en skýran hátt að hún værir þýdd „með gjöf og krafti Guðs.“ Hvað með þýðingarverkfærin – sjáendasteinana Urim og Thummin? Voru þeir nauðsynlegir eða voru þeir eins og hjálpardekk á reiðhjóli þangað til að Joseph gæti iðkað þá trú sem var nauðsynleg til að meðtaka fleiri beinar opinberanir?

Kápa Mormónsbókar frá 1830
Formáli Mormónsbókar frá 1830

Á sama hátt og endurtekning og áframhaldandi átak er nauðsynlegt til að ná líkamlegri eða tilfinningarlegri getu þá má segja það sama um andleg málefni. Minnist þess að spámaðurinn Joseph tók á móti sama gestinum, Moróni, sem flutti honum sömu skilaboðin fjórum sinnum, i undirbúningi fyrir það að taka á móti töflunum. Ég trúi því að vikuleg þátttaka á helgum sakramentissamkomum hafi andleg áhrif sem við gerum okkur ekki fyllilega grein fyrir. Að íhuga ritningarnar reglulega, frekar en að lesa í þeim öðru hvoru, getur skipt út yfirborðskenndum skilningi fyrir einstaka og örlagaríka viðbót við trú okkar,

Trú er regla tengd krafti. Leyfið mér að útskýra: Þegar ég var ungur trúboði þá kynnti stórkostlegur trúboðsforseti mig, á áhrifaríkan hátt, fyrir ritningarsögunni í Lúkas 8, um konuna sem hafði haft blóðlát í 12 ár og hafði eytt öllu sem hún átti í lækna sem gátu ekki læknað hana. Síðan hefur þetta verið ein af uppáhalds ritningargreinunum mínum.

Munið að hún trúði því að ef hún gæti bara snert faldinn á klæðum frelsarans þá myndi hún læknast. Þegar hún svo gerði það, þá læknaðist hún samstundis. Frelsarinn sem var þar á göngu með lærisveinum sínum sagði: „Hver snart mig?“

Svar Péturs var að það hefðu verið allir sem gengu þarna saman, að þeir þrýstust upp að honum

„En Jesús sagði: Einhver snart mig, því að ég fann, að kraftur fór út frá mér.“

Rótin af orðinu dyggð gæti auðveldlega misskilist og verið tekið sem „kraftur.“ Á spænsku og portúgölsku þýðist það sem „kraftur.“ Þrátt fyrir þetta þá sá frelsarinn hana ekki, hann hafði ekki einbeitt sér að þörf hennar. Trú hennar var þannig að með því að snerta faldinn á klæði hans þá dró hún að sér lækningskraft sonar Guðs.

Hann sagði þá við hana: „Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði.“

Ég hef íhugað þessa sögu öll mín fullorðinsár. Ég geri mér grein fyrir því að persónulegar bænir okkar og tilbeiðsla til ástkærs föður á himnum, í nafni Jesú Krists, getur veitt okkur meiri blessanir í líf okkar en við getum mögulega skilið. Undirstaðan að trúnni, samskonar trú og þessi kona sýndi, ætti að vera æðsta þrá okkar.

Hins vegar þá þýðir frum-undirstaða, jafnvel undirstaða sem hefur fengið andlega staðfestingu, ekki að við þurfum ekki að takast á við áskoranir. Trúskipti til fagnaðarerindisins þýðir ekki að öll okkar vandamál verði leyst.

Saga kirkjunnar og skráðar opinberanir í Kenningu og Sáttmálum gefa frábær dæmi um byggingu trúarundirstöðu og það að takast á við óvissuna og áskoranirnar sem allir standa frammi fyrir.

Lok byggingar Kirtland musterisins var undirstöðuatriði fyrir alla kirkjuna. Því fylgdi andleg úthelling, kenningarlegar opinberanir og endurreisn lykla sem voru nauðsynlegir fyrir áframhaldandi stofnun kirkjunnar. Eins og var með postulana til forna á hvítasunnunni, þá urðu margir kirkjuþegnar fyrir stórkostlegri reynslu í sambandi við vígslu Kirtland musterisins. Eins og er samt í okkar eigin lífi þá þýddi þetta ekki að þeir myndu losna við áskoranir og erfiðleika í framhaldinu. Þessir meðlimir á upphafsárum kirkjunnar gerðu sér ekki grein fyrir því að þeir myndu þurfa að takast á við fjárhagskreppu Bandaríkjanna – óðagotið árið 1837 – sem átti eftir að reyna á þolrifin í þeim.

Eitt dæmi um mótlætið sem tengdist þessari fjárhagskreppu kemur úr lífi öldungs Parley P. Pratt, eins af hinum merku leiðtogum endurreisnarinnar. Hann var einn af upprunalegu meðlimum Tólfpostulasveitarinnar. Snemma árið 1836 lést kona hans, Thankful, eftir að fæða fyrsta barn þeirra. Parley og Thankful höfðu verið gift í nærri 10 ár og fráfall hennar lagðist þungt á hann.

Nokkrum mánuðum seinna stóð öldungur Pratt frammi fyrir þeim erfiðustu tímum sem kirkjan hefur átt í. Mitt í þessari fjárhagskreppu kom upp ágreiningur og deilur í kringum fjármál svæðisins, eins og til dæmis um jarðir og erfiðleika fjármálastofnunarinnar sem Joseph Smith og þegnar kirkjunnar höfðu stofnað. Kirkjuleiðtogar tóku ekki alltaf gáfulegustu ákvarðanirnar um veraldlega hluti í eigin lífi. Parley tapaði verulegum fjármunum og á tímbili var hann mjög ósáttur við spámanninn Joseph. Hann skrifaði mjög beitta gagnrýni á Joseph og talaði gegn honum úr ræðustólnum. Á sama tíma sagðist Parley enn trúa á Mormónsbók og Kenningu og sáttmála.

Öldungur Pratt hafði misst eiginkonu sína, jörð og heimili. Án þess að segja Joseph frá því, þá lagði Parley af stað til Missouri. Á leiðinni þangað hitti hann óvænt postulana Thomas B. Marsh og David Patten sem voru á leiðinni tilbaka til Kirtland. Þeir fundu fyrir sterkri þrá til að endurnýja samhljóminn í ráðinu og sannfærðu Parley um að snúa tilbaka með þeim. Þeir gerðu sér grein fyrir því að enginn hafði tapað meiru en Joseph og fjölskylda hans.

Parley leitaði spámanninn uppi, grét og játaði fyrir honum að það sem hann hefði gert væri rangt. Mánuðina eftir að eiginkona Parleys, Thankful, lést hafði hann verið „undir myrku skýi“ og verið yfirkominn af ótta og gremju. Vitandi hvernig það væri að berjast gegn mótlæti og freistingum, þá „fyrirgaf Joseph Parley í raun,“ bað fyrir honum og blessaði. Parley og aðrir sem stóðust, trúfastir, voru blessaðir af mótlætinu í Kirtland. Þeir uxu í visku og urðu göfugri og dyggðugri. Reynslan varð hluti af þeirra trúarundirstöðu.

Ekki ætti að líta á mótlæti sem vanþóknun frá Drottni eða að hann sé að draga blessanir sínar tilbaka. Mótlæti í öllu er hluti af hreinsunareldinum sem undirbýr okkur fyrir eilíf og guðdómleg örlög. Þegar spámaðurinn Joseph var í Liberty fangelsinu, þá lýstu orð Drottins, alls kyns mótlæti fyrir honum, þar með talið þrengingum, fölsku ásökunum – og þeim lýkur á þennan máta:

„Opni skoltar heljar gin sitt upp á gátt fyrir þér, vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.

Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann?“

Leiðbeiningar Drottins til Josephs hér, gerðu honum grein fyrir að dagar hans væru þekktir og að þeir yrðu ekki færri en það. Drottinn lauk svo máli sínu: „Óttast þess vegna ekki hvað maðurinn kann að gjöra, því að Guð verður með þér alltaf og að eilífu.“

Hverjar eru þá blessanir trúar? Hverju áorkar trúin? Listinn er nærri endalaus.

Hægt er að fyrirgefa syndir okkar vegna trúar á Krist.

Jafn margir og hafa trú, hafa samfélag við heilagan anda.

Sáluhjálp kemur fyrir trú á nafn Krists.

Við öðlumst styrk í samræmi við trú okkar á Krist.

Enginn gengur inn til hvíldar Drottins nema þeir sem laugað hafa klæði sín í blóði Krists, vegna trúar sinnar.

Bænum er svarað í samræmi við trú.

Án trúar á meðal manna, getur Guð ekki framkvæmt kraftaverk á meðal þeirra.

Í lokin þá er trú okkar á Jesú Krist hin nauðsynlega undirstaða fyrir sáluhjálp okkar og upphafningu. Eins og Helaman kenndi sonum sínum: „Og nú synir mínir. Munið og hafið hugfast, að það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar … , [sem] er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið.“

Ég er þakklátur fyrir það hvað þessi ráðstefna hefur gert til að efla undirstöðu trúarinnar. Bæn mín er að við munum færa þær fórnir og sýna þá auðmýkt sem nauðsynleg er til að styrkja undirstöðurnar fyrir trú okkar á Drottin Jesú Krist. Um hann ber ég mitt örugga vitni, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Malcolm Gladwell, Outliers: The Story of Success (2008), 40. Hann er að vitna í taugasérfræðinginn Daniel Levitin.

  2. Minningargrein um Bryant Hinckley Wadsworth, Deseret News, 15. jan. 2017, legacy.com/obituaries/deseretnews.

  3. Sjá 2 Ne 28:30. Við meðtökum ekki alla þekkinguna um efnið eða öll lögmálin sem tengjast því. Hún kemur þegar hennar er þörf, orð á orð ofan og setning á setning ofan.

  4. Í fyrstu útgáfu Mormónsbókar, sem var gefin út 1830, skrifaði spámaðurinn Joseph Smith: „Til að uppfræða ykkur að ég þýddi, með gjöf og valdið Guðs“ (Sjá formála Mormónsbókar [1830]). Útgáfur sem komu á eftir innihéldu svipaðar yfirlýsingar: „Joseph Smith voru afhendar töflurnar og þýddi hann þær með gjöf og krafti Guðs“ (Sjá formála að Mormónsbók [2013]).

  5. Orson Pratt minnist þess að hann hafi ítrekað verið viðstaddur þegar Joseph Smith var að þýða Nýja testamentið og tók eftir því að hann notaðist ekki við nein verkfæri í því ferli. „Joseph, leit upp eins og hann væri að lesa hugsanir hans og útskýrði að Drottinn hafi gefið honum Úrím og Túmmím þegar hann var óreyndur í anda opinberunar. Nú hefði hann svo mikla reynslu að hann skildi hvernig andinn starfaði og þyrfti ekki lengur aðstoð frá því verkfæri“ (“Two Days’ Meeting at Brigham City, 27. og 28. júní 1874,” Millennial Star, 11. ágúst 1874, 499; sjá einnig Richard E. Turley Jr., Robin S. Jensen og Mark Ashurst-McGee, “Joseph the Seer,” Liahona, okt. 2015, 10–17).

  6. Trúboðsforsetinn var öldungur Marion D. Hanks, sem einnig var aðalvaldhafi.

  7. Sjá Lúk 8:43–48.

  8. Sjá Post 2.

  9. Sjá Mósía 2:36–37; sjá einnig Henry B. Eyring, “Spiritual Preparedness: Start Early and Be Steady,” Liahona, nóv. 2005, 38: „Svo að hin mikla prófraun lífsins er að sjá hvort við hlustum eftir og hlýðum boðorðum Guðs mitt í stormum lífsins. Það snýst ekki um að standast storma, heldur að velja hið rétta meðan þeir geisa. Og sorgarsaga lífsins er að mistakast á því prófi, og mistakast að snúa í dýrð til okkar himneska heimilis.“

  10. Sjá Terryl L. Givens og Matthew J. Grow, Parley P. Pratt: The Apostle Paul of Mormonism (2011), 91–98; volume introduction and introduction to part 5, The Joseph Smith Papers, Documents, Volume 5: October 1835–January 1838, útg. Brent M. Rogers og fleiri (2017), xxviii–xxxi, 285–93.

  11. Sjá “Letter from Parley P. Pratt, 23 May 1837,” í The Joseph Smith Papers, Documents, Volume 5: October 1835–January 1838, 386–91.

  12. Sjá “History of John Taylor by Himself,” 15, í Histories of the Twelve, 1856–1858, 1861, Church History Library; Givens and Grow, Parley P. Pratt, 101–2.

  13. Sjá The Autobiography of Parley P. Pratt, útg. Parley P. Pratt Jr. (1874), 183–84.

  14. Sjá 2 Ne 2:11.

  15. Kenning og sáttmálar 122:7–8.

  16. Kenning og sáttmálar 122:9.

  17. Sjá Enos 1:5–8.

  18. Sjá Jarom 1:4.

  19. Sjá Moró 7:26, 38.

  20. Sjá Alma 14:26.

  21. Sjá 3 Ne 27:19.

  22. Sjá Moró 7:26.

  23. Sjá Eter 12:12.

  24. Helaman 5:12.