2010–2019
Okkar góði hirðir
Apríl 2017


Okkar góði hirðir

Jesús Kristur, okkar góði hirðir, finnur gleði í því að sjá sína sjúku sauði taka framförum til lækningar.

Við fáum nasasjón af persónuleika föðurins, er við skynjum hina djúpu samúð sem hann hefur með hinum synduga og áttum okkur á því að hann gerir greinarmun á synd og þeim sem syndgar. Sú nasasjón gerir okkur kleift að hljóta „betri og réttari skilning á eiginleikum hans, fullkomnun og viðhorfi“ og er undirstaða þess að geta iðkað trú á hann og son hans, Jesú Krist. Samúð frelsarans mitt í ófullkomleika okkar laðar okkur að honum og hvetur okkur til að leggja kapp á að iðrast stöðugt og líkja eftir honum. Þegar við verðum líkari honum, lærist okkur að koma fram við aðra eins og hann gerir, burt séð frá ytri persónugerð eða framkomu.

Áhrif þess að gera greinarmun á ytri persónugerð manns og manninum sjálfum er megininntak skáldsögunnar Vesalingarnir, eftir franska rithöfundinn Victor Hugo. Í upphafi sögunnar kynnir sögumaður Bienvenue Myriel, biskup í Digne og vandann sem biskupinn stendur frammi fyrir. Ætti hann að heimsækja mann sem er yfirlýstur trúleysingi og fyrirlitinn í landinu, vegna gjörða sinna í frönsku byltingunni?

Sögumaður staðhæfir að biskup gæti auðvitað haft djúpa andúð á manninum. Sögumaður varpar síðan fram einfaldri spurningu: „Á sama hátt, ætti fjárhirðir að hörfa undan fjárkláða?“ Sögumaður svarar af ákveðni fyrir hönd biskups: „Nei.“ Hann bætir svo við þessari glettnu ábendingu: „En hvílíkur sauður!“

Í þessum kafla líkir Hugo „ranglæti“ mannsins við fjárkláða og biskupinum við fjárhirði, sem ekki hörfar undan sjúkum sauði. Biskupinn er samúðarfullur og sýnir öðrum álíka samúð síðar í sögunni, aðalsögupersónunni, Jean Valjean, sem er smánaður fyrrverandi refsifangi. Samúð og miskunn biskupsins leiðir til þess að Jean Valjean ákveður að breyta um lífsstefnu.

Úr því að Guð líkir synd við sjúkdóm í ritningunum, er eðlilegt að spyrja: „Hvernig bregst Jesús Kristur við okkar myndræna sjúkdómi – syndum okkar?“ Það var jú frelsarinn sem sagði: „Ég get ekki litið á synd með minnsta votti af undanlátssemi.“ Hvernig getur hann þá horft á okkur, eins ófullkomin og við erum, án þess að hörfa undan með viðbjóði?

Svarið er skýrt og einfalt: Sem okkar góði hirðir, þá lítur Jesús Kristur á sjúkdóm sauða sinna sem ástand sem þarfnast meðferðar, af aðgát og samúð. Þessi hirðir, okkar góði hirðir, finnur gleði í því að sjá sína sjúku sauði taka framförum til lækningar.

Frelsarinn sagði fyrirfram að „eins og hirðir [mundi] hann halda hjörð sinni til haga,“ „leita að [hinum] týnda, … sækja [hinn] hrakta, binda um hið limlesta og koma þrótti í [hinn] veika.“ Þótt hinn fráhverfi Ísrael hefði verið sagður með syndugar „skrámur og nýjar benjar, sem hvorki [væri] kreist úr né um bundið,“ þá mun frelsarinn stuðla að, leggja fram og gefa fyrirheit um lækningu.

Jarðnesk þjónusta frelsarans einkenndist vissulega af kærleika, samúð og hluttekingu. Hann gekk ekki um stræti Galelíu og Júdeu með fyrirlitningu þess er reynir að forðast hina syndugu. Hann hörfaði ekki undan með viðbjóði. Nei, hann neytti matar með þeim. Hann líknaði og liðsinnti, uppörvaði og uppfræddi og sefaði ótta og örvæntingu og vakti von og gleði. Líkt og sönnum hirði ber, þá leitar hann okkur uppi og finnur okkur til að veita líkn og vekja von. Að skilja samúð hans og kærleika, gerir okkur kleift að iðka trú á hann – að iðrast og læknast.

Í Jóhannesarguðspjalli segir frá áhrifum samúðar frelsarans á hinn synduga. Fræðimennirnir og farísearnir komu með konu til frelsarans sem staðin hafði verið að hórdómi. Ásakendur vísuðu í Móselögmálið og sögðu að hana skildi grýta. Jesús brást loks við hinum þrálátu spurningum og sagði: „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.“

Ásakendur fóru burt og „Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum.

Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?

En hún sagði: Enginn, herra. Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“

Vissulega lagði frelsarinn ekki blessun sína yfir hórdóm. Hann fordæmdi þó ekki konuna. Hann hvatti hana til að breyta lífshætti sínum. Hún hafði ástæðu til að breytast sökum samúðar og miskunnar hans. Þýðing Josephs Smith á Biblíunni staðfestir viðsnúning hennar til lærisveinsdóms: „Upp frá þessu lofaði konan Guð og trúði á nafn hans.“

Þótt Guð sé samúðarfullur, þá ættum við ekki að draga þá röngu ályktun að hann samþykki eða líði synd. Það gerir hann ekki. Frelsarinn kom til jarðar til að frelsa okkur frá syndum okkar og mikilvægt er að vita að hann getur ekki frelsað okkur í syndum okkar. Klókur spyrjandi, Seesrom að nafni, reyndi eitt sinn að egna gildru fyrir Amúlek með því að spyrja: „Mun [hinn væntanlegi Messías] frelsa fólk sitt í syndum þess? Og Amúlek svaraði og sagði við hann: Ég segi þér, að það mun hann ekki gjöra, því að ógerlegt er honum að afneita orði sínu. … Hann getur ekki frelsað það í syndum þess.” Amúlek staðfesti þann grundvallarsannleika að við verðum að gangast við „skilyrðum þeirrar iðrunar“ sem leysir úr læðingi mátt frelsarans til að frelsa sálir okkar.

Samúð og miskunn frelsarans laðar okkur að honum. Í ljósi friðþægingarinnar, þá erum við ekki lengur sátt við okkar synduga ástand. Guð gerir skýran greinarmun á því sem er rétt og honum þóknanlegt og því sem er rangt og syndugt. Ástæðan er ekki sú að hann kalli eftir hugsunarlausum, hlýðnum fylgjendum. Nei, himneskur faðir þráir að börn hans velji meðvitað og fúslega að líkjast honum og geri sig hæf til að njóta sömu lífsgæða og hann nýtur. Til þess að svo geti orðið, þá þurfa börn hans að uppfylla sín guðlegu örlög og verða erfingjar alls þess sem hann á. Af þessari ástæðu, þá geta kirkjuleiðtogar ekki breytt boðorðum eða kenningum Guðs, gegn vilja hans, að eigin geðþótta eða fyrir vinsældir.

Þó er hin gæskuríka framkoma Jesú Krists við hinn synduga einkar lærdómsrík fyrir okkar ævilanga verkefni að fylgja Jesú Kristi. Við, sem erum syndug, verðum, líkt og frelsarinn, að hafa áhrif á aðra með samúð og kærleika. Okkur bera líka að líkna og liðsinna, uppörva og uppfræða, sefa ótta og örvæntingu og vekja gleði.

Frelsarinn ávítaði hina sjálfumglöðu sem hörfuðu undan þeim sem þeir sjálfir töldu óhreina og syndugri en sig sjálfa. Það er kjarni þeirrar lexíu sem frelsarinn beindi til þeirra sem „treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, [og] fyrirlitu aðra.” Hann sagði þessa dæmisögu:

„Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.

Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.

En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur!“

Jesús ályktaði: „Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“

Boðskapurinn til okkar segir skýrt að hinn iðrandi syndari kemst nær Guði, heldur en sá sjálfumglaði sem fordæmir hinn synduga.

Sú mannlega tilhneiging að vera sjálfumglaður og dómharður var líka ríkjandi á tíma Alma. Þegar fólkið „[tók] að skipuleggja kirkjuna enn betur … fór kirkjunnar fólk að fyllast hroka … [og] kirkjunnar fólk tók að hreykja sér upp, … tók að forsmá hvert annað og ofsækja þá, sem ekki trúðu í samræmi við þeirra eigin vilja og geðþótta.“

Slíkar ofsóknir voru alls ekki leyfðar: „Meðal kirkjunnar fólks voru ströng lög um það, að enginn, sem teldist til kirkjunnar, skyldi rísa og ofsækja þá, sem utan kirkjunnar væru, og ofsóknir milli þeirra sjálfra skyldu ekki heldur eiga sér stað.“ Þessi sama regla er ríkjandi fyrir hina Síðari daga heilögu. Við megum ekki gerast sek um að ofsækja einhvern innan eða utan kirkjunnar.

Þeir sem af einhverjum ástæðum hafa sætt ofsóknum vita hvað það er að upplifa ósanngirni og ofstæki. Þegar ég var unglingur í Evrópu á sjötta áratug síðustu aldar, þá fannst mér ég stöðugt lagður í einelti af því að ég var bandarískur og að auki meðlimur kirkjunnar. Sumir skólafélagar mínir beindu spjótum sínum að mér, líkt og ég bæri persónulega ábyrgð á óvinsællri utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Ég þurfti líka að líða fyrir trúarbrögð mín, líkt og þau væru smánarblettur þeirra þjóðríkja sem ég bjó í, því þau voru ekki þau sömu og hin ríkisreknu trúarbrögð sem þar ríktu. Eftir þetta hef ég upplifað forsmekk ljótra fordóma og mismununar í hinum ýmsu löndum heimsins, sem beint er að öðrum vegna kynþáttar eða þjóðernis.

Ofsóknir taka á sig margar myndir og geta verið háðung, átroðingur, einelti, einangrun eða illvilji gagnvart öðrum. Við verðum að vera á verði gegn ofstæki orðljótra radda sem beint er að þeim sem hafa öndverðar skoðanir. Tregða til að virða að jafnrétti skuli gilda um tjáningarfrelsið er ein birtingarmynd ofstækis. Allir, líka þeir sem aðhyllast trúarbrögð, hafa rétt á að tjá eigin skoðanir á almannafæri. Engin hefur hinsvegar leyfi til að sýna öðrum illvilja við framsetningu slíkra skoðana.

Hve dapurlega kaldhæðnislegt það væri, ef við kæmum fram við aðra á sama hátt og komð var fram við okkur. Frelsarinn kenndi: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Ef við krefjumst virðingar, þá verðum við að sýna öðrum virðingu. Sönn trúarumbreyting leiðir auk þess til „hógværðar og lítillætis hjartans,“ sem laðar að „heilagan anda“ og fyllir okkur „fullkominni elsku,“ „fölskvalausri ást“ til annarra.

Okkar góði hirðir er óbreytanlegur og hefur sama viðhorf til syndar og syndara eins og hann hafði er hann var á jörðu. Hann hörfar ekki undan okkur af því að við syndgum, jafnvel þótt hann gæti stundum hugsað: „En hvílíkur sauður!“ Hann elskar okkur svo heitt að hann sá okkur fyrir leið til að iðrast og verða hrein, líkt og hann er, svo við getum aftur komist í návist hans og himnesks föður. Í þeim tilgangi hefur Jesús Kristur líka sýnt okkur það fordæmi sem fylgja þarf – svo allir fái notið virðingar og enginn illvilja.

Við skulum, sem lærisveinar hans, endurspegla fyllilega elsku hans og elska hver annan svo opinskátt að engum finnist hann yfirgefin, einsamall eða vonlaus. Ég ber vitni um að Jesús Kristur er okkar góði hirðir, sem elskar og liðsinnir okkur. Hann þekkir okkur og lagði líf sitt í sölurnar fyrir sauði sína. Hann helgar okkur líka líf sitt og þráir að við þekkjum og iðkum trú á hann. Ég elska og vegsama hann og er innilega þakklátur fyrir hann, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Lectures on Faith (1985), 38.

  2. Skáldsagan Vesalingarnir, eftir Victor Hugo (1802–85), segir frá Jean Valjean sem fremur minniháttar glæp með því að stela brauðhleif til að fæða fjölskyldu systur sinnar. Valjean var dæmdur til 5 ára í fangelsi en varði 19 árum í betrunarvinnu fyrir fjórar misheppnaðar flóttatilraunir. Þegar hann losnaði úr fangelsi var hann bæði harðbrjósta og bitur.

    Sökum sakaferils hans, þá fékk Valjean ekki atvinnu fyrir mat og húsaskjóli. Úrvinda og örvæntingafullur fékk hann loks húsaskjól hjá biskupinum frá Digne, sem sýndi Valjean góðvild og samúð. Um nóttina varð Valjean svo örvæntingarfullur að hann rændi silfurbúnaði biskupsins og flúði.

    Valjean var handsamaður og færður fyrir biskupinn. Valjean til mikillar furðu, þá sagði biskupinn lögreglunni að Valjean hefði fengið silfurbúnaðinn að gjöf og krafðist þess að Valjean tæki líka silfurkertastjaka sem þar voru. (Sjá Hugo, Les Misérables [1987], bók 2, kaflar 10–12.)

  3. (Sjá Hugo, Les Misérables [1987], bók 1, kafli 10.)

  4. Sögumaður spyr: Toutefois, la gale de la brebis doit-elle faire reculer le pasteur? (Hugo, Les Misérables [1985], bók 1, kafli 10, bls. 67). Gale, í dýralæknisfræði, á við um hverskyns skinnsjúkdóma af völdum sníkjudýra, sem einkennast af hármissi og hrúðurmyndun („mange“ á ensku). Þetta orðtak hefur verið þýtt á ýmsa vegu yfir á ensku.

  5. Hin glettna ábending sögumannsins um biskupinn er Mais quelle brebis! Hún hefur stundum verið þýdd sem „En hvílíkur sauður.“

  6. Kenning og sáttmálar 1:31.

  7. Sjá Jóh 10:11, 14; Alma 5:38; Kenning og sáttmálar 50:44.

  8. Jesaja 40:11.

  9. Esekíel 34:16.

  10. Jesaja 1:6.

  11. Sjá Jes 1:18.

  12. Sjá Lúk 15:1–2.

  13. Sjá Matt 18:11.

  14. Sjá Jóh 8:3–11.

  15. Þýðing Josephs Smith, Jóh 8:11 (í Jóh 8:11, neðanmálstexti c).

  16. See D. Todd Christofferson, “Abide in My Love,” Liahona, nóv. 2016, 48.

  17. Alma 11:34, 37.

  18. Sjá Helaman 5:10–11.

  19. Sjá 3 Ne 27:14, -15.

  20. Á okkar tíma hefur frelsarinn sagt: „Það, sem brýtur lögmál og stenst ekki með lögmáli, heldur reynir að setja sér sitt eigið lögmál og kýs að lifa í synd, og lifir algjörlega í synd, getur hvorki helgast með lögmáli né með miskunn, réttvísi eða dómi. Þess vegna verða þeir áfram óhreinir“ (Kenning og sáttmálar 88:35).

  21. Sjá 2 Ne 2:26–27.

  22. Sjá Kenning og sáttmálar 14:7; 132:19–20, 24, 55.

  23. Sjá Róm 8:16–17; Kenning og sáttmálar 84:38.

  24. Sjá Matt 23:13.

  25. Lúk 18:9–14.

  26. Alma 4:4, 6, 8.

  27. Alma 1:21.

  28. Sjá Oxford English Dictionary, “bigotry” og “intolerance,” oed.com.

  29. Matt 7:12.

  30. Moró 08:26.

  31. 1 Pét 1:22.

  32. Sjá Trúaratriðin 1:3.

  33. Sjá Jóh 10:11–15.