Óttist ei að gjöra gott
Drottinn segir að þegar við stöndum trúföst á bjargi hans, munu efi og ótti hverfa og þráin aukast til að gera gott.
Kæru bræður og systur, ég bið þess auðmjúklega að andi Drottins verði með okkur, er ég tala til ykkar í dag. Ég er fullur þakklætis í dag fyrir Drottin, hvers kirkja þetta er, fyrir innblásturinn sem við höfum fundið af heitum bænum, andríkum ræðum og dásamlegum söng þessarar ráðstefnu.
Síðastliðinn aprílmánuð flutti Thomas S. Monson forseti boðskap sem hrærði hjörtu um heim allan, einnig mitt. Hann ræddi um mátt Mormónsbókar. Hann hvatti okkur til að læra, ígrunda og tileinka okkur kenningar hennar. Hann lofaði að ef við gæfum okkur dag hvern tíma til að læra og ígrunda Mormónsbók og halda boðorðin sem í henni er að finna, þá myndum við öðlast lifandi vitnisburð um sannleika hennar og um að hinn lifandi Kristur myndi leiða okkur í skjól á erfiðum tíðum. (Sjá “The Power of the Book of Mormon,” Liahona, maí 2017, 86–87.)
Líkt og mörg ykkar, þá hlýddi ég á orð hans eins og þau kæmu frá Drottni. Ég ákvað líka að fara eftir orðum hans, líkt og mörg ykkar. Frá því að ég var ungur drengur, hef ég átt vitnisburð um að Mormónsbók er orð Guðs, að faðirinn og sonurinn birtust og ræddu við Joseph Smith og að fornir postular vitjuðu spámannsins Josephs Smith, til að endurreisa lykla prestdæmisins fyrir kirkju Drottins.
Með þann vitnisburð hef ég lesið Mormónsbók dag hvern í yfir 50 ár. Ég hefði því eins vel getað hugsað með mér að orð Monsons forseta væru ætluð einhverjum öðrum. Ég fann þó, líkt og mörg ykkar, að orð og loforð spámannsins væru mér hvatning til að gera enn betur. Mörg ykkar hafa gert það sem ég gerði: Beðist fyrir af einn meiri ásetningi, ígrundað ritningarnar enn vandlegar og lagt meira að ykkur við að þjóna Drottni og öðrum fyrir hann.
Hin gleðilega niðurstaða fyrir mig og fyrir mörg ykkar, er að loforð spámannsins var raunverulegt. Þau okkar sem tóku á móti hans innblásnu leiðsögn, hafa heyrt rödd andans greinilegar. Við höfum fundið aukinn kraft til að standast freistingar og sterkari trú á hinn upprisna Jesú Krist, á fagnaðarerindi hans og hina lifandi kirkju.
Á tíma aukins óróa í heiminum, þá hefur þessi aukni vitnisburðarstyrkur dregið niður ótta og efa og veitt okkur frið. Að hlíta leiðsögn Monsons forseta, hefur haft dásamleg áhrif á mig á tvo aðra vegu: Í fyrsta lagi þá hefur andinn sem hann lofaði vakið hjá mér meiri bjartsýni á komandi tíð, jafnvel þótt órói heimsins virðist aukast. Í öðru lagi þá hefur Drottinn veitt mér – og ykkur – jafnvel sterkari tilfinningu um þá elsku sem hann ber til hinna nauðstöddu. Við höfum fundið aukna þrá til að koma öðrum til bjargar. Sú þrá hefur verið kjarninn í þjónustu og kenningum Monsons forseta.
Drottinn lofaði spámanninum Joseph Smith og Oliver Cowdery hugrekki og aukinni elsku til annarra, þegar verkefnið sem þeir áttu fyrir höndum hefði getað verið yfirþyrmandi. Drottinn sagði að slíkt nauðsynlegt hugrekki ætt rætur í trú þeirra á sig, sem bjarg þeirra:
„Óttist ei að gjöra gott, synir mínir, því að eins og þér sáið, svo munuð þér og uppskera. Ef þér þess vegna sáið góðu, munuð þér og góð laun uppskera.
Óttast þess vegna ekki, litla hjörð. Gjörið gott, leyfið jörð og helju að sameinast gegn yður, því að ef þér byggið á bjargi mínu, fá þær eigi á yður sigrast.
Sjá, ég dæmi yður ekki. Farið leiðar yðar og syndgið ei framar. Vinnið af árvekni þau verk, sem ég hef boðið yður.
Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.
Sjáið sárin er nístu síðu mína og einnig naglaförin á höndum mér og fótum. Verið trúir, haldið boðorð mín og þér skuluð erfa himnaríki“ (K&S 6:33‒37).
Drottinn sagði við leiðtoga endurreisnar sinnar og hann segir við okkur, að þegar við stöndum trúföst á bjargi hans, munu efi og ótti hverfa og þráin aukast til að gera gott. Þegar við tökum á móti boði Monsons forseta um að gróðursetja í hjörtum okkar vitnisburð um Jesú Krist, þá munum við hljóta kraft, þrá og hugrekki til að rísa upp og koma öðrum til bjargar, án þess að huga að eigin þörfum.
Ég hef oft séð slíka trú og hugrekki þegar trúfastir Síðari daga heilagir hafa staðið frammi fyrir ógurlegum raunum. Ég var t.d. í Idaho þann 5. júní 1976, þegar Teton-stíflan brast. Vatnsveggur kom æðandi niður. Þúsundir flýðu heimili sín. Þúsundir heimila og fyrirtækja eyðilögðust. Það var kraftaverki næst að tæplega 15 manns létu lífið.
Það sem ég sá þar, hef ég séð hvarvetna þar sem Síðari daga heilagir standa staðfastir á bjargi vitnisburðar síns um Jesú Krist. Þeir verða óttalausir, því þeir efa ekki að hann vakir yfir þeim. Þeir hugsa ekki um eigin raunir og fara til að koma öðrum til hjálpar. Það gera þeir af elsku til Drottins og biðja sér engra launa.
Þegar Teton-stíflan brast, þá voru til að mynda Síðari daga heilagra hjón á ferðalagi langt frá heimili sínu í Rexburg. Þegar þau heyrðu útvarpsfréttir um þessi tíðindi, þá flýttu þau sér aftur til baka til Rexburg. Í stað þess að fara að eigin húsi til að athuga hvort það hefði eyðilagst, þá fóru þau til biskups síns. Hann var staddur í byggingu sem var notuð sem hjálparstöð. Hann var að liðsinna hinum þúsundum sjálfboðaliða sem komu aðvífandi í gulum skólarútum.
Hjónin gengu til biskupsins og sögðu: „Við vorum að koma til baka. Biskup, hvernig getum við hjálpað?“ Hann gaf þeim upp nafn á fjölskyldu. Hjónin fóru úr einu húsi í annað til að grafa út leðju og ausa út vatni. Þau unnu frá morgni til kvölds í marga daga. Loks gerðu þau hlé á starfi sínu til að huga að eigin húsi. Það hafði horfið í flóðinu, svo ekkert var þar til að hreinsa. Þau snéru því við til baka og fóru aftur til biskupsins. Þau spurðu: „Biskup, er einhver sem við getum hjálpað?
Þetta kraftaverk hugrekkis og einlægrar elsku – hinnar hreinu ástar Krists – hefur verið endurtekið yfir árin víða um heim. Það gerðist á ógnartímum ofsókna og prófrauna, þegar spámaðurinn Joseph Smith var í Missouri. Það gerðist þegar Brigham Young stjórnaði brottförinni frá Nauvoo og kallaði heilaga til eyðimerkurstaða víða um Bandaríkin, til að byggja saman upp Síon fyrir Drottin.
Ef þið lesið dagbókafærslur þessara brautryðjenda, munið þið sjá kraftaverk trúar kveða niður efa og ótta. Þar getið þið lesið um heilaga sem yfirgáfu eigin heimili til að hjálpa einhverjum fyrir Drottin, áður en hugað var að eigin sauðum eða eigin óplægðu ökrum.
Ég sá þetta kraftaverk fyrir fáeinum dögum, í kjölfari fellibylsins Irmu í Puerto Rico, Saint Thomas, og í Flórída, þar sem Síðari daga heilagir tóku höndum saman með öðrum kirkjum, samfélagshópum á staðnum og landssamtökum, til að hefja hreinsunarstarfið.
Líkt og vinir mínir í Rexburg, þá lögðu ein hjón í Flórída, sem ekki voru í kirkjunni, áherslu á að aðstoða í samfélaginu, í stað þess að vinna við eigin eignir. Þegar nokkrir Síðari daga heilagir nágrannar buðust til að aðstoða með tvö stór tré sem voru fyrir heimkeyrslu þeirra, sögðu hjónin að þau hefðu verið svo yfirbuguð að þau hefðu snúið sér að því að hjálpa öðrum, í þeirri trú að Drottinn myndi sjá þeim fyrir nauðsynlegri hjálp við eigið hús. Eiginmaðurinn sagði síðan frá því að áður en kirkjumeðlimirnir buðu fram aðstoð sína, þá hefðu hjónin verið að biðjast fyrir. Þau höfðu hlotið svar um að hjálp myndi berast. Hún barst innan við nokkurra klukkustunda eftir svarið.
Ég hef heyrt þau tíðindi að sumir hafa tekið upp á því að kalla þá Síðari daga heilaga, sem klæðast hinum gulu skyrtum Hjálparhanda: „Gulu englana.“ Einn Síðari daga heilagur fór með bílinn sinn í skoðun og sá sem hjálpaði henni sagði frá þeirri „andlegu reynslu“ sem hann hlaut, þegar fólk í gulu skyrtunum fjarlægði tré úr garðinum hans, og svo sagði hann: „Þau sungu fyrir mig einhvern söng um að vera barn Guðs.“
Annar íbúi í Flórída – ekki heldur af okkar trú – sagði frá því að Síðari daga heilagir hefðu komið að húsi hennar, er hún var að vinna í eyðilögðum garðinum sínum, yfirbuguð, sveitt og næstum með tár í augum. Sjálfboðaliðarnir gerðu, að hennar sögn, „hreint kraftaverk.“ Þeir þjónuðu ekki aðeins af kostgæfni, heldur hlógu líka og brostu, án þess að vænta nokkurs í staðinn.
Ég sá þá kostgæfni og heyrði þann hlátur, þegar ég heimsótti síðla á laugardegi hóp Síðari daga heilagra í Flórída. Sjálfboðaliðarnir gerðu stutt hlé á starfi sínu, svo ég gæti heilsað þeim með handabandi. Þeir sögðu að 60 meðlimir frá stikunni þeirra í Georgiu hefðu ráðgert kvöldinu áður að koma til björgunarstarfa í Flórída.
Þeir fóru frá Georgiu kl. 4 að morgni, óku í margar klukkustundir, störfuðu allan daginn fram á kvöld og hugðust taka aftur til starfa daginn eftir.
Þeir sögðu frá þessu öllu með bros á vör og góðum húmor. Eina streitan sem ég skynjaði var sú að fólkið vildi að hætt yrði að þakka því fyrir, svo það gæti haldið starfi sínu áfram. Stikuforsetinn hafði gangsett keðjusögina sína og var að vinna við fallið tré og biskupinn var að fjarlægja trjágreinar, þegar við fórum í bílinn til að vitja næstu björgunarsveitar.
Áður sama dag, þegar við vorum fara frá öðru svæði, gekk maður upp að bílnum, tók ofan húfuna og þakkaði okkur fyrir sjálfboðaliðana. Hann sagði: „Ég er ekki meðlimur kirkjunnar. Ég trúi varla því sem þið hafið gert fyrir okkur. Guð blessi ykkur.“ Sjálfboðaliði SDH sem stóð næst honum í sinni gulu skyrtu brosti og yppti öxlum, líkt og hann verðskuldaði ekkert lof.
Þótt sjálfboðaliðarnir frá Georgiu hafi komið þessum manni til hjálpar, sem átti erfitt með að trúa því, þá höfðu hundruð Síðari daga heilagra frá þessum eyðilagða hluta Flórída ekið hundruð kílómetra til annars svæðis í Flórída, því þeir höfðu heyrt að fólk hefði orðið verr úti þar.
Þennan dag minntist ég og skildi betur þessi spámannlegu orð spámannsins Josephs Smith: Maður sem er uppfullur af elsku Guðs lætur sér ekki nægja að blessa einungis fjölskyldu sína, heldur leitar út um allan heiminn, og er umhugað að blessa allt mannkyn“ (Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith [2007], 426).
Við sjáum svo mikinn kærleika í lífi Síðari daga heilagra hvarvetna. Í hvert sinn sem hörmungar dynja yfir í heiminum, þá gefa Síðari daga heilagir peninga og bjóða sig fram til hjálparstarfs kirkjunnar. Sjaldgæft er að það þurfi að skora á þá. Í raun þá þurfum við stundum að biðja þá sem bjóða sig fram að bíða með að fara á hörmungarsvæðin þar til þeir sem stjórna verkinu geta tekið á móti þeim.
Þessi þrá til að blessa aðra er ávöxtur þess að fólk öðlast vitnisburð um Jesú Krist, fagnaðaerindi hans, hina endurreistu kirkju og spámenn hans. Það er ástæða þess að fólk Drottins efast ekki og óttast ekki. Það er ástæða þess að trúboðar bjóða sig fram til þjónustu hvarvetna um heim. Það er ástæða þess að foreldrar biðja með börnum sínum fyrir öðrum. Það er ástæða þess að leiðtogar hvetja æskufólkið til að taka áskorun Monsons forseta um sökkva sér ofan í Mormónsbók og gera hana að sínu hjartans efni. Ávextirnir munu koma, ekki fyrir hvatningu leiðtoga, heldur með því að æskufólk og meðlimir sýna trú í verki. Sú trú í verki, sem krefst óeigingjarnrar fórnar, umbreytir hjartanu og gerir því kleift að finna elsku Guðs.
Hjörtu okkar haldast því aðeins umbreytt, ef við höldum áfram að fylgja leiðsögn spámannsins. Ef við hættum eftir eitt átaksverk, þá mun umbreytingin fjara út.
Trúfastir Síðari daga heilagir hafa styrkt trú sína á Drottin Jesú Krist, á Mormónsbók sem orð Guðs og á endurreisn prestdæmislykla þessarar sönnu kirkju. Þessi efldi vitnisburður hefur veitt okkur aukið hugrekki og aukna umhyggju fyrir öðrum börnum Guðs. Áskoranirnar og tækifærin framundan gera þó kröfu um meira.
Við sjáum ekki smáatriðin fyrir, en við þekkjum stóru myndina. Við vitum að á hinum efstu dögum mun veröldin verða í uppnámi. Við vitum að mitt í hverskyns ófriði mun Drottinn leiðar hina trúföstu Síðari daga heilögu í því að breiða út fagnaðarerindi Jesú Krists til allra þjóða, kynkvísla, tungna og lýða. Við vitum líka að sannir lærisveinar Drottins mun verða verðugir og undir það búnir að taka á móti honum, er hann kemur aftur. Við þurfum ekki að óttast.
Þótt við höfum þegar þróað trú og hugrekki í hjörtum okkar, þá væntir Drottinn meiru af okkur – og komandi kynslóð. Hún þarf að vera enn sterkari og hugrakkari, því hún mun jafnvel framkvæma meiri og erfiðari hluti en við höfum þegar gert. Hún mun upplifa aukið mótlæti af hendi óvinar sálna okkar.
Leið bjartsýni í sókn okkar fram á við var gefin af Drottni: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki“ (K&S 6:36). Monson forseti sagði hvernig við ættum að gera það. Við þurfum að ígrunda og tileinka okkur Mormónsbók og orð spámannanna. Biðjið ávallt. Trúið. Þjónum Drottni með öllu okkar hjarta okkar, mætti, huga og styrk. Okkur er boðið að biðja af öllum hjartans mætti um gjöf kærleika, hina hreinu ást Krists (sjá Moró 7:47–48). Framar öllu, þá ber okkur að fylgja hinni spámannlegu leiðsögn af staðfestu og þolgæði.
Þegar hlutirnir verða erfiðir, þá getum við reitt okkur á loforð Drottins – loforðið sem Monson forseti hefur oft minnt okkur á með því að vitna í þessi orð frelsarans: „Hjá hverjum þeim, sem veitir yður viðtöku, mun ég einnig vera, því að ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings“ (K&S 84:88).
Ég ber vitni um að Drottinn mun fara fyrir okkur, ætíð þegar við erum í hans erindagjörðum. Stundum verðið þið engillinn sem Drottinn sendir til að létta byrðum annarra. Stundum eruð það þið sem verðið umlukt englum sem létta byrðum ykkar. Þið munið þá ætíð hafa anda hans í hjarta ykkar, eins og ykkur hefur verið lofað á hverri sakramentissamkomu. Þið þurfið aðeins að halda boðorð hans.
Besti tími ríkis Guðs á jörðu er framundan. Mótlætið mun efla trú okkar á Jesú Krist, líkt og það hefur gert frá tíma spámannsins Josephs Smith. Trúin ber ætíð sigur af óttanum. Að standa saman, stuðlar að einingu. Bænir ykkar í þágu hinna þurfandi eru heyrðar og þeim er svarað af kærleiksríkum Guði. Hann hvorki blundar, né sefur.
Ég ber vitni um að Guð faðirinn lifir og þráir að þið komið heim til hans. Þetta er hin sanna kirkja Drottins Jesú Krists. Hann þekkir ykkur; hann elskar ykkur; hann vakir yfir ykkur. Hann friðþægði fyrir syndir mínar og ykkar og syndir allra barna himnesks föður. Að fylgja honum í lífi ykkar og í þjónustu við aðra, er eina leiðin til eilífs lífs.
Um það ber ég vitni og færi ykkur blessanir mínar og kærleika. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.