Kenningar forseta
37. Kafli: Kærleikur, hin hreina ást Krists


37. Kafli

Kærleikur, hin hreina ást Krists

„Ást er eitt af höfuðeinkennum Guðdómsins og hún ætti að vera greinileg hjá fleim sem leitast við að vera synir Guðs.“

Úr lífi Josephs Smith

Í opinberun sem gefin var Joseph Smith árið 1841 útnefnir Drottinn stikuna í Nauvoo, Illinois, sem „hornstein Síonar, sem fægð [skuli] þar til hún jafnast á við glæsta höll“ (K&S 124:2). Nauvoo blómgaðist undir stjórn spámannsins og varð miðstöð viðskipta, menntunar og lista. Margir ræktuðu jörð sína og býli og þeir sem áttu landspildu í borginni ræktuðu ávexti og grænmeti í görðum sínum. Sögunarmyllur, múrsteinasmiðja, prentstofur, hveitimyllur og bakarí, spruttu víða upp í borginni og einnig verslanir fyrir trésmiði, leirkerasmiði, blikksmiði og húsgagnasmiði. Hinir heilögu í Nauvoo áttu kost á að fara í leikhús og á dansleiki og hljómleika. Hundruð námsmanna létu skrá sig í hina ýmsu skóla samfélagsins og fyrir dyrum stóð að byggja háskóla.

Nauvoo stækkaði hratt og fjöldi múrsteinasmiðja framleiddi þá rauðu múrsteina sem einkenndu hinar sérstöku byggingar borgarinnar. Ein þeirra bygginga var Rauðsteinahús verslunar spámannsins. Verslunin var byggð til vera bæði skrifstofa spámannsins og Æðsta forsætisráðsins og verslun til framfærslu spámannsins og fjölskyldu hans. Atvik nokkurt sem gerðist í Rauðsteinaversluninni ber vott um hve spámaðurinn var kærleiksríkur að eðlisfari og því öðrum hjartfólginn.

James Leach var Englendingur, er komið hafði til Nauvoo með systur sinni og eiginmanni hennar, Agnesi og Henry Nightingale, sem tekið höfðu trú. James og Henry höfðu leitað vinnu án árangurs og einsettu sér að biðja spámanninn um að hjálpa sér. James sagði:

„Við … fundum spámanninn í lítilli búð að selja konu einhverjar vörur. Þetta var fyrsta skiptið sem mér gafst kostur á að vera nærri honum og virða hann vandlega fyrir mér. Mér fannst hann búa að andlegum yfirburðum. Hann var ólíkur öllum öðrum sem ég hafði áður komist í kynni við, og ég sagði í hjarta mínu að hann væri sannlega spámaður hins æðsta Guðs.

Þar sem ég var ekki meðlimur kirkjunnar vildi ég að Henry bæði hann um vinnu, en hann gerði það ekki og því varð ég að gera það sjálfur. Ég sagði: ,Herra Smith, hefur þú einhverja vinnu sem þú getur veitt okkur báðum, svo við getum aflað okkur einhverra vista?‘ Hann virti okkur glaðlega fyrir sér og sagði af mikilli vinsemd: ,Hvað getið þið gert, piltar?‘ Við greindum honum frá því hver atvinna okkar hefði verið í heimalandi okkar.

Hann sagði: ,Getið þið grafið skurð?‘ Ég svaraði því til að við mundum gera okkar besta við það. ,Þetta er rétti andinn, piltar,‘ og um leið og hann greip málband, sagði hann ,komið með mér.‘

Hann fór með okkur nokkra metra frá versluninni, rétti mér upphringað málbandið, dró það allt af hjólinu og merkti þannig hvar við ættum að grafa skurðinn. ,Jæja, piltar,‘ sagði hann, ,getið þið grafið hér eftir þessari línu þriggja feta breiðan skurð og tveggja og hálfs fets djúpan?‘

Við sögðumst ætla að gera okkar besta, og hann hélt sína leið. Við hófum verkið og þegar það var fullunnið fór ég og sagði honum að svo væri. Hann kom, leit á það og sagði: ,Piltar, ég hefði ekki gert þetta betur sjálfur. Komið nú með mér.‘

Hann fór fyrir okkur aftur inn í verslunina og bauð okkur að taka hluta af besta svínafleskinu fyrir okkur sjálfa. Ég sagði frekar þóttafullur að við vildum heldur að hann rétti okkur eitthvað. Hann tók því tvo stærstu og bestu kjötbitana og sinn hvorn hveitisekkinn handa okkur og spurði hvort þetta dygði. Við sögðumst vera fúsir til að vinna eitthvað meira, en hann sagði: ,Ef þið eruð sáttir piltar, þá er ég það einnig.‘

Við þökkuðum honum kærlega fyrir og héldum fagnandi heim á leið yfir góðmennsku spámanns Guðs.“

James Leach var skírður þetta sama ár og skráði að hann „hefði oft notið þeirra forréttinda að líta hina göfugu ásjónu spámannsins, uppljómaða af anda og krafti Guðs.“1

Kenningar Josephs Smith

Sá sem er fullur af elsku Guðs þráir að blessa aðra.

„Ást er eitt af höfuðeinkennum Guðdómsins, og hún ætti að vera greinileg hjá þeim sem leitast við að vera synir Guðs.“ Maður sem er uppfullur af elsku Guðs lætur sér ekki nægja að blessa einungis fjölskyldu sína, heldur leitar út um allan heiminn, og er umhugað að blessa allt mannkyn.“2

Lucy Meserve Smith skráði eftirfarandi: „[Joseph Smith] sagði: ,Bræður og systur, elskið hvert annað; elskið hvert annað og verið miskunnsöm óvinum ykkar.‘ Hann endurtók þessi orð með skýrum áherslutón og sagði amen hárri röddu í lokin.“3

Í júlí 1839 talaði spámaðurinn til hóps kirkjuleiðtoga: „Ég ávarpaði þá síðan og veitti þeim mikla fræðslu … þar sem ég kom inn á mörg mikilvæg og gild málefni sem tengjast öllum þeim sem vilja ganga í auðmýkt frammi fyrir Drottni, einkum fræðslu um að sýna kærleika, visku og umhyggju, með ást til hvers annars í öllu, undir öllum kringumstæðum.“4

Við höfum þá sérstöku skyldu að elska og annast hina nauðstöddu.

„Það ætti að vera skylda allra hinna heilögu að gefa bræðrum sínum fúslega – að elska þá ávallt og hjálpa þeim. Við verðum að elska hvert annað til að geta réttlæst fyrir Guði. Við verðum að sigrast á hinu illa, við verðum að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingum þeirra, og við verðum að varðveita okkur sjálfa óflekkaða af heiminum, því slíkar dyggðir eiga rætur að rekja til hinnar miklu uppsprettu sannra trúarbragða [sjá Jakbr 1:27].“5

„[Meðlimum kirkjunnar] ber að fæða hungraða, klæða klæðalausa, sjá ekkjunni farborða, þerra tár munaðarleysingjans, hughreysta þjakaða, hvort heldur þeir eru í þessari kirkju eða einhverri annarri, eða í engri kirkju, hvar sem við finnum þá.“6

„Hinir ríku geta ekki frelsast án kærleika, að gefa til að næra hina fátæku þegar og hvernig sem Guði hentar.“7

„Hugleiðið ástand hinna aðþrengdu og reynið að lina þjáningar þeirra; nærið hina hungruðu með brauði ykkar, og klæðið hina nöktu með klæðum ykkar; þerrið tár hins munaðarlausa með örlæti ykkar, og hughreystið hina hrjáðu ekkju; linið þjáningar hinna nauðstöddu með bænum ykkar, gjöfum og góðvild, að örlæti ykkar sjái fyrir þörfum þeirra; gerið öllum mönnum gott, einkum heimamönnum trúarinnar, svo þið verðið hreinir og flekklausir, synir Guðs án umvöndunar. Haldið boðorð Guðs – öll þau sem hann hefur gefið, gefur eða mun gefa, og dýrðarhjúpur mun lýsa upp stígu ykkar. Hinn fátæki mun rísa á fætur og segja ykkur blessaða. Allir góðir menn munu heiðra ykkur og virða, og vegur ykkar verður hinna réttlátu, er skín skærar og skærar, þar til hinn fullkomna dag [sjá Okv 4:18].“8

„Heilögum anda … mun úthellt öllum stundum yfir ykkur, er þið iðkið þessar reglur réttlætis, sem þóknanlegar eru huga Guðs, og ástundið þær tilhlýðilega innbyrðis, og minnist þeirra sem í ánauð eru, með þungar byrðar og miklar hörmungar, sjálfra ykkar vegna. Og sé einhver meðal ykkar sem sækist eftir eigin upphefð og auðlegð, meðan bræður hans eru þjakaðir af fátækt, og líða sárar raunir og freistingar, mun hann ekki njóta góðs af meðalgöngu hins heilaga anda, sem biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið [sjá Róm 8:26].

Við ættum öllum stundum að gæta þess að slíkur hugsunarháttur nái ekki tökum á hjörtum okkar, en haldið ykkur að hinum lítilmótlegu, og berið veikleika hinna óstyrku af langlundargeði.“9

Kærleikur er langlyndi, miskunn og góðvild.

Eliza R. Snow skráði eftirfarandi um ræðu sem spámaðurinn hélt: „Hann tók síðan að lesa 13. kapítula [1 Korintubréfs] – ,Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla,‘ og sagði: Álítið ekki náunga ykkar skorta dyggðir, varist heldur sjálfsréttlæti, og álítið ekki að sjálfa skorti ykkur ekki dyggðir, og álítið ykkur ekki réttlátari en aðra. Þið verðið að útvíkka sálir ykkar gagnvart hver öðrum, ef þið líkið eftir Jesú og hyggist leiða samferðamenn ykkar í návist Abrahams. Hann sagðist hafa sýnt langlundargeð, umburðarlyndi og þolgæði gagnvart kirkjunni, svo og gagnvart óvinum sínum, og sagði að við yrðum að þola misbresti hver annars, líkt og umburðarlyndir foreldrar þola misbresti barna sinna.

… Þegar sakleysi ykkar og dyggðir taka að aukast, er þið þroskist í góðleika, leyfið þá hjarta ykkar að þenjast út og ná til annarra. Þið verðið að vera langlyndir og umbera sekt og villu mannkyns. Hve dýrmætar eru sálir manna! …

… Öfundist ekki yfir skarti og skammvinnri sýndarmennsku syndaranna, því ástand þeirra er aumkunarvert. Sýnið þeim heldur miskunn, svo framarlega sem unnt er, því fyrr en varir mun Guð tortíma þeim, vilji þeir ekki iðrast og snúa sér til hans.“10

„Vitrir menn ættu að búa yfir nægilegum skilningi til að vinna menn á sitt band með góðvild. ,Mjúklegt andsvar stöðvar bræði,‘ segir hinn vitri [Okv 15:1], og hinir heilögu munu njóta mikillar farsældar er þeir sýna elsku Guðs, með því að koma af góðvild fram við þá sem óviljandi hafa breytt ranglega, því vissulega bauð Jesús okkur að biðja fyrir óvinum okkar [sjá Matt 5:44].“11

„Ég dvel ekki við misbresti ykkar og þið ættuð ekki að dvelja við mína. Kærleikur, sem er elska, hylur fjölda synda [sjá 1 Pét 4:8], og oft hef ég breitt yfir alla misbrestina meðal ykkar, en best er að hafa alls enga misbresti. Við ættum að rækta ljúfan, mildan og friðsaman anda.“12

Eliza R. Snow skráði eftirfarandi um aðra roeðu sem spámaðurinn hélt: „Ó, hve það hrífur hug minn, þegar einhver sýnir mér hina minnstu góðvild og elsku, en andstæða þess vill kalla fram allar hinar hrjúfu tilfinningar og þjaka mannshugann.

Eitt er það sem ber vott um að menn séu ókunnir reglum guðleikans, en það er aukinn vanmáttur manna til að sýna ástúðlegar tilfinningar og skortur á kærleika í heiminum. Máttur og dýrð guðleikans eru veitt á frjálsan hátt til að breiða út möttul kærleikans. Guð lítur ekki á synd með undanlátssemi, en þegar menn hafa syndgað, verður undankomuleið að vera til fyrir þá. …Því nær himneskum föður sem við komumst, því betur eigum við með að sýna þjökuðum sálum samúð. Við finnum með okkur þörf til að taka þær á herðar okkur og varpa syndum þeirra aftur fyrir okkur. …

… Hve oft hafa vitrir karlar og konur reynt að veita bróður Joseph ráð með því að segja: ,Ef ég væri bróðir Joseph, mundi ég gera þetta eða hitt;‘ en væru þau í sporum bróður Josephs, kæmust þau að því að ekki er mögulegt að þvinga karla eða konur inn í Guðs ríki, heldur verður að sýna þeim langlundargeð og við munum bjarga þeim að lokum. Sýna þarf langlundargeð til þess að halda öllum hinum heilögu saman og verkinu gangandi, þar til Guð mun láta réttvísi koma yfir slíka. Engin heimild er til að syndga, en miskunn ætti að vera samhliða áminningu.“13

Við sýnum kærleika með látlausri þjónustu og góðvild.

„Ég er þjónn ykkar og get aðeins orðið ykkur að gagni fyrir heilagan anda. … Við komum einungis fram fyrir ykkur sem auðmjúkir þjónar, fúsir til að þjóna ykkur.“14

Edwin Holden sagði: „Árið 1838 voru Joseph og einhverjir piltanna í ýmsum utanhússleikjum, þar á meðal boltaleik. Smám saman tóku þeir að þreytast. Hann tók eftir því, kallaði þá saman og sagði: ,Við skulum byggja bjálkahús.‘ Þeir, Joseph og piltarnir, fóru því og byggðu bjálkahús fyrir ekkju nokkra. Þannig var Joseph að upplagi, ætíð að hjálpa á alla vegu.“15

Lucy Mack Smith, móðir spámannsins, greindi frá því þegar hinir heilögu settust fyrst að í Commerce, Illinois, síðar nefnt Nauvoo: „Er fram liðu stundir tóku bræðurnir sem sest höfðu þar að að finna fyrir áhrifum harðræðisins, sem, ásamt óheilnæmu loftslagi, lagðist svo þungt á þá með hitasótt, að í sumum fjölskyldunum var enginn sem megnaði að gefa hinum vatnssopa eða jafnvel að koma sjálfum sér til hjálpar. Fjölskylda Hyrums var veikust. Yngsta dóttir mín, Lucy, var einnig afar veik, og í raun voru aðeins fáeinir íbúar staðarins heilsuhraustir.

Joseph og Emma höfðu látið koma með sjúka á heimili sitt og önnuðust þá þar. Og þau héldu áfram að taka á móti þeim um leið og þeir tóku að veikjast, allt þar til hús þeirra, sem í voru fjögur svefnherbergi, var svo yfirfullt að þau neyddust til að setja upp tjald í garðinum fyrir þá í fjölskyldunni sem enn voru á fótum. Joseph og Emma helguðu umönnun hinna sjúku allan sinn tíma og krafta á þessum erfiðleikatímum.“16

John L. Smith, frændi spámannsins, greindi frá eftirfarandi atviki sem átti sér stað á þessum sama tíma: „Spámaðurinn Joseph og Hyrum frændi, bróðir hans, vitjuðu okkar. Við vorum öll veik af hitasótt, nema móðir okkar, og faðir okkar var að mestu rænulaus. Joseph tók skóna af fótum sínum, þegar hann sá ömurlegt ástand okkar og klæddi föður minn í þá, þar sem hann var berfættur, og reið sjálfur heim skólaus. Hann sendi eftir föður mínum í hús sitt og bjargaði lífi hans og sá okkur fyrir margs konar umönnun svo við næðum heilsu.“17

Elizabeth Ann Whitney sagði: „Snemma vorið 1840 fórum við til Commerce, líkt og efri hluti Nauvoo borgar var venjulega nefndur. Við leigðum hús sem Hiram Kimball átti. … Þar vorum við öll veik með hitasótt og höfðum vart krafta til að skríða um og annast hvert annað. Við þessar erfiðu aðstæður fæddist níunda barnið mitt. Joseph hvatti okkur eindregið til að koma til hans og deila með honum húsakynnum, eftir að hafa litið aðstæður okkar. Okkur fannst við vart fá lengur þolað loftslagið, vatnið og skortinn og þáðum því boð hans og bjuggum í litlum bjálkakofa í garðinum hjá spámanninum Joseph. Við náðum brátt heilsu og börnin urðu líkari sjálfum sér. Eiginmaður minn hafði starf í verslun sem Joseph hafði komið upp með vörur sem fólkið hafði raunverulega þörf fyrir.

Dag einn, er ég gekk úr húsinu út í garðinn, skaut niður í hugann spádómi, líkt og raflosti, sem Joseph Smith hafði spáð fyrir mig meðan hann dvaldi í húsi okkar í Kirtland, en hann var þessi: Líkt og við hefðum breytt við hann, með því að ljúka upp dyrum fyrir hann og fjölskyldu hans, er hann var heimilislaus, mundum við á komandi tíð njóta húsaskjóls af hans hendi.“18

Mosiah L. Hancock greindi frá eftirfarandi reynslu, sem átti sér stað í Nauvoo er hann var unglingur: „Um sumarið [1841] lék ég minn fyrsta boltaleik við spámanninn. Við skiptumst á um að sparka boltanum og elta hann, og að leik loknum sagði spámaðurinn; ,Bræður, spennið fyrir vagna ykkar,‘ sem við og gerðum, og héldum síðan til skógar. Ég ók eineykis hestvagni okkar og stóð fremst á bólstrinu en bróðir Joseph og faðir minn fyrir aftan mig. Það voru þrjátíu og níu vagnar í hópnum og við söfnuðum saman trjáviði þar til vagnarnir voru fullir. Þegar vagninn okkar var fullhlaðinn, skoraði bróðir Joseph á hvern sem vildi í prikatog – og hann togaði þá alla upp, hvern á fætur öðrum.

Þessu næst sendi spámaðurinn þá með vagnana á hina ýmsu staði, þar sem fólk þurfti á hjálp að halda, og sagði þeim að höggva viðinn fyrir þá heilögu sem þess þörfnuðust. Allir höfðu unun af því að gera líkt og spámaðurinn bauð, og jafnvel þótt við værum veiklulegir, og dauðinn kveddi hvarvetna dyra, brosti fólkið og reyndi að hughreysta hvert annað.“19

5. janúar, 1842, ritaði spámaðurinn eftirfarandi í bréfi til Edwards Hunter, er síðar þjónaði sem yfirbiskup: „Vöruúrval okkar [í Rauðsteinaversluninni] er nokkuð gott – mjög gott, ef höfð eru í huga viðskipti hinna ýmsu einstaklinga, á ýmsum tímum og við hinar ýmsu aðstæður, sem að nokkru leyti ræður vöruvali þeirra. En ég fagna því hversu vel okkur hefur tekist hingað til, því margir snauðir bræður og systur munu gleðjast í hjörtum sínum yfir þeim þægindum sem þeim nú bjóðast.

Verslunin hefur verið stútfyllt, og ég hef staðið innan við búðarborðið allan daginn við að afgreiða vörur jöfnum höndum, líkt og hver annar afgreiðslumaður, til að hjálpa þeim sem ekki áttu kost á að njóta hefðbundinnar kvöldmáltíðar jóla og nýárs, þar sem þá skorti örlítið af sykri, sírópi, rúsínum o. s. frv. Ég ann því að afgreiða hina heilögu og að þjóna öllum, í þeirri von að ég verði upphafinn á þeim tíma er Drottni þóknast.“20

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Hugleiðið tilfinningar ykkar til spámannsins Josephs Smith, er þið lesið frásagnirnar á bls. 421–24 og bls. 427–30. Hvað kenna þær frásagnir um hann? Hvaða áhrif teljið þið að breytni hans hafi haft á fólkið umhverfis hann? Hvaða áhrif hefur góðvild annarra haft á líf ykkar?

  • Lesið fyrstu þrjár málsgreinarnar á bls. 424. Hvers vegna teljið þið að sá sem fylltur er elsku Guðs þrái að blessa allt mannkyn? Hvernig geta kærleiksverk okkar og góðvild blessað alla menn?

  • Hvaða skyldur höfum við sem tengjast því að annast hina nauðstöddu? (Sjá dæmi á bls. 424–25.) Hverning tengjast þessar skyldur stundlegum þörfum fólks? Hvernig tengjast þær andlegum þörfum þess? Hvaða dæmi hafið þið séð um þá sem láta sér annt um hina nauðstöddu?

  • Lesið málsgreinina sem hefst neðst á bls. 425. Hvað getum við gert til að þroska með okkur aðrar dyggðir? Hvers vegna teljið þið að við eigum að „[varast] … sjálfsréttlæti, og [álíta] ekki að sjálf skorti [okkur] ekki dyggðir“?

  • Spámaðurinn Joseph greindi frá áhyggjum sínum af „[skorti] á kærleika í heiminum“ (bls. 426). Hann sagði einnig að við ættum að „útvíkka sálir [okkar] gagnvart hver öðrum“ og „[leyfa] … hjarta [okkar] að þenjast út og ná til annarra“ (bls. 425–27). Hvað teljið þið að felist í því að útvíkka hjörtu okkar og sálir gagnvart hvert öðru?

  • Lesið alla fimmtu málsgreinina á bls. 426. Hvernig getum við tileinkað okkur þessa kennslu í samskiptum okkar við fjölskyldu okkar?

Ritningargreinar tengdar efninu: 1 Kor 13:1–13; Mósía 4:14–16, 26–27; Eter 12:33–34; Moró 7:45–48; K&S 121:45–46

Heimildir

  1. James Leach, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,“ Juvenile Instructor, 1. mars 1892, bls. 152–53; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  2. History of the Church, 4:227, úr bréfi frá Joseph Smith til hinna Tólf, 15. des. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. jan. 1841, bls. 258; bréfið er ranglega dagsett 19. okt. 1840, í History of the Church.

  3. Lucy Meserve Smith, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,“ Juvenile Instructor, 1. ágúst 1892, bls. 471.

  4. History of the Church, 3:383; færsla úr dagbók Josephs Smith, 2. júlí 1839, Montrose, Iowa.

  5. History of the Church, 2:229, neðanmálsgrein; úr “To the Saints Scattered Abroad,“ Messenger and Advocate, júní 1835, bls. 137.

  6. Svar ritstjórans við bréfi frá Richard Savary, Times and Seasons, 15. mars 1842, bls. 732; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  7. History of the Church, 4:608; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 1. maí 1842 í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  8. “To the Saints of God,“ ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. okt. 1842, bls. 952; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  9. History of the Church, 3:299; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith og fleirum til Edwards Partridge og kirkjunnar, 20. mars 1839, Liberty fangelsi, Liberty, Missouri.

  10. History of the Church, 4:606–7; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl 1842 í Nauvoo, Illinois; skráð af Eliza R. Snow; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  11. History of the Church, 6:219; greinaskilum bætt við; úr “Pacific Innuendo,“ grein sem rituð var undir leiðsögn Josephs Smith, 17. feb. 1844, Nauvoo, Illinois; birt í Times and Seasons, 15. feb. 1844, bls. 443; þessi útgáfa af Times and Seasons kom seint út.

  12. History of the Church, 5:517; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 23. júlí 1843 í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  13. History of the Church, 5:24; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. júní 1842 í Nauvoo, Illinois; skráð af Elisu R. Snow.

  14. History of the Church, 5:355; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 13. apríl 1843 í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  15. Edwin Holden, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,“ Juvenile Instructor, 1. mars 1892, bls. 153; stafsetning færð í nútímahorf.

  16. Lucy Mack Smith: “The History of Lucy Smith, Mother of the Prophet,“ 1844–45 handrit, bók 17, bls. 7, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  17. John Lyman Smith, Autobiography and Diaries, 1846–95, ljósrit, 1. bindi, færsla fyrir sept. 1839, Skjalasafn kirkjunnar.

  18. Elizabeth Ann Whitney, “A Leaf from an Autobiography,“ Woman’s Exponent, 15.nóv. 1878, bls. 91.

  19. Mosiah Lyman Hancock, Autobiography, handrit, bls. 22, Skjalasafn kirkjunnar.

  20. History of the Church, 4:492; úr bréfi frá Joseph Smith til Edwards Hunter, 5. jan. 1842, Nauvoo, Illinois.

Red Brick Store

Rauðsteinaverslunin í Nauvoo endurgerð. Bygging þessi var notuð sem skrifstofa spámannsins Josephs Smith og verslun til að framfleyta fjölskyldu hans. Margir kirkjufundir og félagsatburðir voru hafðir í versluninni.

men building

„Þeir, Joseph og piltarnir, fóru því og byggðu bjálkahús fyrir ekkju nokkra. Þannig var Joseph að upplagi, ætíð að hjálpa á alla vegu.“

Emma caring for sick

Á tímum mikilla veikinda í Commerce, Illinois, létu Joseph og Emma Smith færa sjúka inn á heimili sitt og önnuðust þá þar.