Kenningar forseta
12. Kafli: Kunngjöra öllum heiminum gleðitíðindi


12. Kafli

Kunngjöra öllum heiminum gleðitíðindi

„Sálir eru jafn verðmætar í augum Guðs og flær hafa alltaf verið, og öldungarnir [eiga] … að sannfæra og bjóða öllum mönnum alls staðar að iðrast, svo að þeir verði erfingjar sáluhjálpar. “

Úr lífi Josephs Smith

Eftir að kirkjan var stofnsett, hinn 6. apríl 1830, hélt Joseph Smith áfram að kunngjöra gleðitíðindi fagnaðarerindisins. Í aprílmánuði ferðaðist hann til Colesville, New York, til að heimsæka vin sinn Joseph Knight eldri, sem ásamt fjölskyldu sinni fékk áhuga á fagnaðarerindinu. Spámaðurinn hélt samkomur í nágrenninu og „margir tóku að biðja innilega hinn álmáttuga Guð, að hann veitti þeim visku til að skilja sannleikann.1 Í annari heimsókn sinni til Colesville, um tveimur mánuðum síðar, komst spámaðurinn að því að fjöldi manns sem hafði hlýtt á fagnaðarerindið þráði að skírast. Líkt og spámaðurinn skrifaði, þá þurftu þessir nýju trúskiptingar að sýna trú og hugrekki til að meðtaka fagnaðarerindið:

„Við ráðgerðum að hafa samkomu á hvíldardeginum og eftir hádegi á laugardeginum reistum við stíflu yfir á, sem var þar nærri, í þeim tilgangi að koma þar saman til að framkvæma helgathöfn skírnar, en um nóttina kom múgur manns og reif niður stífluna og kom þannig í veg fyrir að við framkvæmdum skírnir á hvíldardeginum. … Snemma á mánudagsmorgni vorum við komin á ról, og áður en óvinum okkar barst vitneskja um það komum við stíflunni aftur í lag og eftirtaldir einstaklingar [voru] skírðir af Oliver Cowdery: Emma Smith, Hezekiah Peck og eiginkona hans, Joseph Knight eldri og eiginkona hans, William Stringham og eiginkona hans, Joseph Knight yngri, Aaron Culver og eiginkona hans, Levi [Hall], Polly Knight og Julia Stringham.“2

Þetta haust opinberaði Drottinn Joseph Smith að Oliver Cowdery, Peter Whitmer yngri, Parley P. Pratt og Ziba Peterson skyldu „fara til Lamanítanna og prédika fagnaðarerindi mitt á meðal þeirra“ (K&S 28:8; 30:5–6; 32:1–3). Trúboðar þessir ferðuðust um 2.400 kílómetra leið, prédikuðu stuttlega meðalýmissa ættbálka indíána, að meðtöldum frumbyggjum í New York, Wyandot í Ohio, einnig Delaware og Shawnee á umráðasvæði indíánanna. Trúboðarnir náðu þó mestum árangri þegar þeir stöldruðu við í Kirtland, Ohio. Þar skírðu þeir um 130 manns, aðallega frá endurskipulögðum Baptistasöfnuði Sidneys Ridgon, og ýttu þannig úr vör því sem verða átti sameiningastaður hundraða meðlima kirkjunnar á komandi ári. Trúboðar þessir fundu einnig nokkra sem snerust til trúar meðal landnemanna í Jackson-sýslu, Missouri, þar sem Síonarborg mundi síðar komið á fót.

Hvort heldur spámaðurinn Joseph Smith prédikaði fyrir þeim sem umhverfis voru eða sendi trúboða út um heim, hafði hann unun af trúboðsstarfinu. Öldungur Parley P. Pratt skráði eftirfarandi reynslu sem hann hlaut árið 1839: „Þegar ég var á ferð með bróður Joseph í Philadelphíu, [Pennsylvaníu,] stóð honum til boða að prédika þar í stórri kirkju og mættu þar um þrjú þúsund manns til að hlýða á hann. Bróðir Rigdon tók fyrstur til máls. Hann ræddi um fagnaðarerindið og útskýrði kennslu sína með því að vitna í Biblíuna. Þegar hann hafði lokið máli sínu stóð Joseph upp líkt og ljón sem býr sig undir að öskra. Hann talaði af miklum krafti, fullur af heilögum anda, og bar vitni um sýn sína, þjónustu engla, sem hann hafði upplifað og hvernig hann hefði fundið töflur Mormónsbókar og þýtt þær með gjöf og krafti Guðs. Parley sagði svo frá: ,Fyrst enginn þeirra hafði hugrekki til að vitna um hinn dýrðlega boðskap frá himnum og um fund hinna undursamlegu heimilda, þá fannst honum sem hann yrði að sýna fólkinu þá sanngirni að gera það og leggja allt í Guðs hendur.‘

Allur söfnuðurinn var furðu lostinn, augljóslega æstur og uppnuminn af þeim sannleika og krafti sem hann bjó yfir og þeim undrum sem hann greindi frá. Þetta hafði mikil áhrif, margar sálir söfnuðust inn í hjörðina. Og ég ber vitni um að hann, með staðföstum og kröftugum vitnisburði sínum, hreinsaði klæði sín af blóði þeirra. Margir í Philadelphíu og í aðliggjandi héruðum létu skírast.“3

Kenningar Josephs Smith

Okkur ber að prédika fagnaðarerindið af kostgæfni, því heimurinn er í andlegu myrkri.

Árið 1834 sendi Joseph Smith og aðrir öldungar kirkjunnar í Kirtland eftirfarandi bréf til bræðranna á öðrum svæðum: „Þó samskipti okkar við ykkur séu tíð, trúum við því að þið meðtakið boð okkar af bróðurlegum kærleika og gefið hvatningarorðum okkar, ykkar óverðugu bræðra, rúm í hjörtum ykkar, er þið sjáið hið mikla veldi og herradæmi myrkrahöfðingjans og áttið ykkur á hinum mikla fjölda sem fyllir veg dauðans, án þess að virða að nokkru hinn gleðilega hljóm fagnaðarerindis Drottins Jesú Krists.

Bræður, ígrundið um stund uppfyllingu á orðum spámannsins; því myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum [sjá Jes 60:2], hvers kyns glæpum fjölgar meðal manna, mikil óhæfuverk eru ástunduð, hin upprennandi kynslóð elst upp í hroka og drambsemi, hinir öldruðu glata eigin sannfæringu og virðast forðast hverja hugsun um dag dómsins, óhóf, ósiðsemi, öfgar, hroki, skilningsleysi hjartans, skurðgoðadýrkun, kærleiksleysi, veraldarhyggja og tómlæti gagnvart hinu eilífa eykst stöðugt meðal þeirra sem segjast trúa á kenningu himins, og allt leiðir þetta til mikillar vantrúar. Menn leyfa sér að fremja alls kyns heimskupör og myrkraverk og guðlasta, svíkja, eyðileggja mannorð náungans, stela, ræna, myrða, verja villu og standa gegn sannleikanum, afneita sáttmála himins og trúnni á Jesú – og mitt í öllu þessu nálgast dagur Drottins óðfluga og enginn væntir þess að hinum brúðkaupsklæddu verði boðið að eta og drekka í návist brúðgumans, friðarhöfðingjans!

Ef sannleiki þessara staðreynda er hafður í huga, hverjar eru þá tilfinningar þeirra sem hafa meðtekið af hinni himnesku gjöf og smakkað hið góða orð Guðs og skynjað krafta hins komandi heims? [Sjá Hebr 6:4–5.] Hverjir aðrir en þeir sem fá greint hinar hræðulegu aðstæður sem mannkynið stendur frammi fyrir í tíð þessarar kynslóðar, megna að vinna í víngarði Drottins án þess að láta hið ömurlega ástand heimsins hafa áhrif á sig? Hverjir aðrir en þeir sem hafa vandlega hugleitt lítillæti föður anda okkar við að sjá sköpunarverum sínum fyrir fórn, endurlausnaráætlun, krafti friðþægingar, sáluhjálparáætlun, sem hefur þann stórkostlega tilgang að leiða mennina aftur í návist konungs himnanna, krýnda himneskri dýrð, og gjöra þá að erfingjum með syninum að því sem er óforgengilegt og ekki máist burtu [sjá 1 Pét 1:4] – Hverjir aðrir en þeir megna að gera sér ljóst mikilvægi fullkominnar fyrirmyndar frammi fyrir öllum mönnum og bjóða með kostgæfni öllum mönnum að meðtaka þessar blessanir? Hve ósegjanlega dýrðlegt það er fyrir mannkynið! Sannarlega eru það talin mikil fagnaðartíðindi meðal allra manna, og einnig tíðindi sem ættu að fylla jörðina og kæta hjörtu allra er það hljómar í eyrum þeirra.“4

„Þjónar Guðs munu vart hafa lokið því að láta aðvörunarraust sína hljóma yfir lönd Þjóðanna, þegar engill tortímingar mun hefja eyðingu íbúa jarðarinnar, og líkt og spámaðurinn sagði: ,Það skal verða skelfingin ein að skilja boðskapinn‘ [Sjá Jes 28:19.] Þannig mæli ég vegna samúðar með samferðamönnum mínum, ég geri það í nafni Drottins, knúinn af heilögum anda. Ó, að ég aðeins fái bjargað þeim úr hringiðu volæðis, sem þeir steypa sér í með syndum sínum; að ég megi með aðvörunarraust vera verkfæri til að leiða þá til einlægrar iðrunar, svo þeir hafi trú til að standast hinn illa dag!“5

„Megi Guð gera okkur kleift að standa við eið okkar og sáttmála gagnvart hvert öðru af stakri trúmennsku og réttlæti frammi fyrir honum, að þjóðir jarðar megi skynja áhrif okkar af miklum mætti, já, til að rjúfa ríki myrkurs og sigrast á prestaslægð og andlegri illsku á háum stöðum, og sundra öllum þeim ríkjum sem andsnúin eru ríki Krists, og breiða út ljós og sannleika hins ævarandi fagnaðarerindis, allt frá fljótunum að endimörkum jarðarinnar.“6

Fjórði spámaður kirkjunnar, Wilford Woodruff, minntist eftirfarandi orða spámannsins Josephs Smith: „Myrkur grúfir yfir heiminum. Synd og illska grúfir yfir heiminum, líkt og vatn hylur djúp sjávar. Djöfullinn stjórnar heiminum í ríkum mæli. Heimurinn mun stríða gegn ykkur, einnig djöfullinn, jörðin og helja. En … þið verðið að prédika fagnaðarerindið, sinna skyldu ykkar og Drottinn mun styðja ykkur. Jörð og helja munu eigi á ykkur sigrast.“7

Skylda okkar er að bjóða öllu mannkyninu að iðrast, skírast, meðtaka heilagan anda og verða erfingjar hjálpræðis.

„Við trúum að skylda okkar sé að kenna öllu mannkyni kenningu iðrunar, sem við munum leitast við að sýna fram á með eftirfarandi tilvitnunum:

,Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar. Og hann sagði við þá: Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem‘ [Lúk 24:45–47].

Af þessu lærum við að Kristur eigi að þjást, verða krossfestur og rísa upp á þriðja degi, í þeim ákveðna tilgangi að iðrun og fyrirgefning synda yrði prédikuð öllum þjóðum.

,Pétur sagði við þá: Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda. Því að yður er ætlað fyrirheitið, börnum yðar og öllum þeim, sem í fjarlægð eru, öllum þeim, sem Drottinn Guð vor kallar til sín.‘ [Post 2:38–39].

Af þessu lærum við að fyrirheit heilags anda er gefið öllum þeim sem prédikuð verður kenning iðrunar, sem eru allar þjóðir. … Þar af leiðandi höfum við trú á að kenning iðrunar sé prédikuð um heim allan, bæði öldnum og ungum, ríkum og fátækum, ánauðugum og frjálsum.“8

„Sálir eru jafn verðmætar í augum Guðs og þær hafa alltaf verið, og öldungarnir voru aldrei kallaðir til að þrýsta einhverjum niður til heljar, heldur til að sannfæra alla og bjóða mönnum hvarvetna að iðrast, svo þeir verði erfðingjar hjálpræðis. Það er náðarár Drottins: ‘Leysið fangana úr ánauð svo þeir megi syngja hósanna‘ [sjá Jes 61:1–2].“9

„Skylda öldunganna ætti að vera að taka djarfir málstað Krists og einróma aðvara fólkið um að iðrast og skírast til fyrirgefningar syndanna og móttöku heilags anda.“10

„Ég held áfram og segi ykkur það sem Drottinn krefst af öllum, háum sem lágum, ríkum sem snauðum, körlum sem konum, prestum sem almenningi, guðfræðiprófessorum og öðrum, svo þau fái notið heilags anda Guðs til fulls og komist hjá dómum Guðs, sem eru í þann mund að falla yfir þjóðir jarðarinnar, að þeir iðrist allra synda sinna og láti skírast í vatni til fyrirgefningar þeirra, í nafni föðurins, og sonarins, og hins heilaga anda, og meðtaki helgiathöfn með handayfirlagningu þess sem vígður er og innsiglaður því valdi, svo að þeir megi hljóta heilagan anda Guðs. Og það er í samræmi við hina heilögu ritningu, og Mormónsbók, og er eina leiðin fyrir manninn til að fá dvalið í himneska ríkinu. Þetta eru skilyrði hins nýja sáttmála, eða frumreglur fagnaðarerindis Krists.“11

„Þess er krafist af öllum mönnum, að þeir eigi trú á Drottin Jesú Krist, iðrist allra synda sinna og láti skírast (af þeim sem vald hefur til þess) í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar syndanna, og meðtaki gjöf heilags anda með handayfirlagningu, svo þeir teljist meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.“12

Þjónar Guðs fara um gjörvallan heim til að finna þá sem fúsir eru til að meðtaka fagnaðarerindi Jesú Krists.

„Sendið einhverja til Mið-Ameríku og einnig til allra spænskumælandi landa í Ameríku, og sjáið til þess að ekkert horn jarðarinnar sé án trúboðsþjónustu ykkar.“13

„Við ætlumst ekki til þess að fólk varpi frá sér einhverju góðu sem það á, við bjóðum því aðeins að koma og taka á móti meiru. Hvað ef allur heimurinn tæki á móti þessu fagnaðarerindi? Fólk skildi þá hvert annað og Guð myndi úthellti blessunum sínum yfir fólkið, sem er innsta þrá sálar minnar.“14

„Þúsundir sem hlýtt hafa á fagnaðarerindið hafa orðið því hlýðnir og fagna gjöfum þess og blessunum. Hleypidómar, með öllu því illa sem þeim fylgir, hopa fyrir mætti sannleikans og ljúfir geislar hans smeygja sér til fjarlægra þjóða. … Um tíma var litið á okkur sem svikara og talið að ,mormónismi‘ liði brátt undir lok, myndi hverfa og falla í gleymsku. En sá tími er liðinn að litið sé á hana sem skammvinnt málefni, eða loftbólu á öldu, því nú er hún að ná sterkum tökum á hjörtum allra þeirra sem eru nægilega göfuglyndir til að segja skilið við lærða hleypidóma og kanna málið af einlægni og heiðarleika.“15

„Sumir hinna Tólf og fleiri hafa nú þegar hafið ferð til Evrópu [í september 1839] og við væntum þess að þeir aðrir sem fara í það trúboð leggi af stað innan fárra daga. … Verk Guðs heldur áfram á afar ánægjulegan hátt, bæði í þessu landi og í gamla landinu. Mörg hundruð manns hafa upp á síðkastið gengið til liðs við okkur í Englandi, en þannig hlýtur það að verða, því ,Efraím hefur blandað sér saman við þjóðirnar‘ [Hós 7:8]. Og frelsarinn hefur sagt: ,Sauðir [mínir] heyra raust mína‘ [Jóh 10:27]; og einnig: ,Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig‘ [Lúk 10:16]; og: ,Sjá, ég flyt þá úr landinu norður frá og safna þeim saman frá útkjálkum jarðar‘ [Jer 31:8]. Og líkt og Jóhannes heyrði röddina segja: ,Gangið út, mitt fólk, út úr henni‘ [Op 18:4], svo verður allt og uppfyllt, svo að fólk Drottins muni lifa þegar ,fallin er, fallin er Babýlon hin mikla‘ [Op 18:2].“16

Joseph Smith skýrði svo frá í bréfi sem hann skrifaði í Liberty-fangelsi í mars 1839, sem síðar var skráð sem Kenning og sáttmálar 123:12: „Því að enn eru margir á jörðunni meðal allra trúflokka, hópa og trúfélaga, sem blindaðir eru vegna slóttugra klækja mannanna, sem þeir bíða eftir að beita, og aðeins er haldið frá sannleikanum vegna þess að þeir vita ekki hvar hann er að finna.“17

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið aðra og þriðju málsgreinina á bls. 148. Hvers vegna krefst það stundum hugrekkis að deila vitnisburði okkar um endurreisnina og Mormónsbók? Hvernig getum við öðlast slíkt hugrekki?

  • Joseph Smith lýsir hinu andlega myrkri jarðarinnar, og þar á eftir ber hann vitni um „mikil fagnaðartíðindi“ með hinu endurreista fagnaðarerindi (bls. 149–51). Hvernig getur þetta tvennt blásið okkur í brjóst að ljúka upp munni okkar og miðla fagnaðarerindinu?

  • Lesið síðustu málsgreinina á bls. 150. Hvenær hefur Drottinn stutt ykkur í trúboðsstarfi ykkar?

  • Íhugið ritningargreinarnar sem Joseph Smith vitnaði í til að minna okkur á skyldur okkar við að prédika fagnaðarerindið öllu mannkyni (bls. 151–52). Íhugið eða ræðið það sem þið og fjölskylda ykkar getið gert til að miðla öðrum fagnaðarerindinu.

  • Lesið aðra málsgreinina á bls. 152, þar sem spámaðurinn líkir trúboðsstarfi við að leysa fanga úr ánauð. Hvernig getur sumt fólk verið líkt og fangar? (Sjá dæmi á bls. 149–51.) Hvernig geta frumreglur og helgiathafnir fagnaðarerindisins leyst það úr ánauð?

  • Lesið boð spámannsins í annarri málsgreininni á bls. 153. Hvernig getur þetta boð hvatt fólk til að læra meira um fagnaðarerindið? Lesið þriðju málsgreinina á bls. 152 og síðustu málsgreinina í kaflanum. Hvernig getum við hjálpað fólki að „segja skilið við hleypidóma“ um kirkjuna? Hvernig geta gjörðir okkar hjálpað fólki að vita hvar sannleikann er að finna?

  • Hvaða blessanir hafið þið hlotið af því að boða fagnaðarerindið?

Ritningargreinar tengdar efninu: Mark 16:15–20; 2 Ne 2:8; Al 26:1–9, 26–37; K&S 42:6–9, 11–14; 88:77–83

Heimildir

  1. History of the Church, 1:81; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 39–40, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. History of the Church, 1:86–88; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 42–43, Skjalasafn kirkjunnar.

  3. Parley P. Pratt, Autobiography of Parley P. Pratt, ritst. af Parley P. Pratt yngri (1938), bls. 298–99; stafsetning færð í nútímahorf.

  4. History of the Church, 2:5–6; stafsetning færð í nútímahorf; úr “The Elders of the Church in Kirtland, to Their Brethren Abroad,” 22. jan. 1834, birt í Evening and Morning Star, feb. 1834, bls. 135.

  5. History of the Church, 2:263; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, nóv. 1835, Kirtland, Ohio, gefið út í Messenger and Advocate, nóv. 1835, bls. 211.

  6. History of the Church, 2:375; úr fundagerðabók ráðsfundar Æðsta forsætisráðsins og hinna Tólf, haldinn 16. jan. 1836, í Kirtland, Ohio; skráð af Warren Parrish.

  7. Tilvitnun Wilfords Woodruff, Deseret News, 30. júlí 1884, bls. 434.

  8. History of the Church, 2:255; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, sept. 1835, Kirtland, Ohio, gefið út í Messenger and Advocate, sept. 1835, bls. 180–81.

  9. History of the Church, 2:229, neðanmálsgrein; úr “To the Saints Scattered Abroad,” Messenger and Advocate, jún. 1835, bls. 138.

  10. History of the Church, 2:263; úr bréfi frá Joseph Smith til öldunga kirkjunnar, nóv. 1835, Kirtland, Ohio, gefið út í Messenger and Advocate, nóv. 1835, bls. 211.

  11. History of the Church, 1:314–15; úr bréfi Josephs Smith til N. C. Saxton, 4. jan. 1833, Kirtland, Ohio; nafn hr. Saxtons er ranglega sett fram sem “N. E. Seaton” í History of the Church.

  12. Svar ritstjórans við bréfi frá Richard Savary, Times and Seasons, 15. mars 1842, bls. 732; stafsetning færð í nútímahorf; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  13. History of the Church, 5:368; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 19. apríl 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards.

  14. History of the Church, 5:259; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 22. jan. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  15. History of the Church, 4:336–37; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu, 7. apr. 1841, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. apr. 1841, bls. 134.

  16. History of the Church, 4:8–9; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til Isaacs Galland, 11. sept. 1839, Commerce, Illinois.

  17. Kenning og sáttmálar 123:12; bréf frá Joseph Smith og fleirum til Edwards Partridge og kirkjunnar, 20. mars 1839, Liberty-fangelsi, Liberty, Missouri.

Joseph preaching

Hvort sem spámaðurinn Joseph Smith prédikaði fyrir þeim sem umhverfis voru eða sendi trúboða út um heim, hafði hann unun af trúboðsstarfinu.

missionaries teaching

Spámaðurinn Joseph Smith áminnti hina heilögu um að bjóða öllum að meðtaka blessanir fagnaðarerindisins. „Hve ósegjanlega dýrðlegtþað er fyrir mannkynið!”