Kenningar forseta
24. kafli: Leiða að hætti Drottins


24. kafli

Leiða að hætti Drottins

„Ég kenni þeim réttar reglur og þeir stjórna sér sjálfir. “

Úr lífi Josephs Smith

Meðan hinir heilögu í Kirtland tóku að vinna og fórna við að reisa musteri þar, stóðu hinir heilögu í Jackson-sýslu, Missouri, frammi fyrir alvarlegum ofsóknum. Fjöldi meðlima kirkjunnar höfðu flust til Missouri, og því óx spennan stöðugt hjá þeim sem þar bjuggu fyrir. Íbúar Missouri óttuðust að missa vald sitt í stjórnmálum og tortryggðu mjög hinar framandi trúarkenningar kirkjunnar, og þeim mislíkaði innbyrðis viðskipti þeirra. Múgurinn tók að verða afar ofbeldishneigður í ofsóknum sínum gegn hinum heilögu og hrakti þá loks frá heimilum sínum í nóvember 1833. Hinir heilögu skildu eftir megnið af búpeningi sínum og húsbúnaði og héldu í norðurátt, aðallega til Clay-sýslu í Missouri, þar sem þeir leituðu skjóls um tíma.

Spámaðurinn Joseph Smith, sem bjó í Kirtland, hafði miklar áhyggjur af þjáningum hinna heilögu í Missouri og þráði að koma þeim til hjálpar. Í febrúar 1834 opinberaði Drottinn honum að skipuleggja hóp heilagra sem fara skyldi til Jacksonsýslu. Hópi þessum, sem nefndist Síonarfylkingin, var falið að endurheimta þau lönd og þær eigur sem ólöglega höfðu verið teknar af þegnum kirkjunnar. (Sjá K&S 103:21–40.) Fylkingin var opinberlega stofnuð 6. maí 1834, og um tvö hundruð manns voru í henni þegar mest lét. Fylkingin, sem var búin vopnum og skipulögð sem hersveit, kom til Jackson-sýslu um miðjan júnímánuð, eftir að hafa ferðast 1.450 kílómetra.

Meðlimir fylkingarinnar gengu dag hvern langar leiðir, oft í miklum hita, hálf matarlausir og vatnið var slæmt. Hin stöðuga nærvera þeirra við hver annan í þessari margra vikna ferð, ásamt þreytu þeirra og hungri, varð til þess að sumir þeirra tóku að deila innbyrðis og gagnrýna spámanninn.

Þrátt fyrir alla erfiðleika þessa hættulega og lýjandi ferðalags, kenndi Joseph Smith meðlimum fylkingarinnar mikilvægi leiðtogahæfni er hann leiddi þá áfram dag eftir dag. Wilford Woodruff, meðlimur Síonarfylkingarinnar, sem síðar varð fjórði forseti kirkjunnar, sagði: „Við hlutum reynslu sem við hefðum ekki getað hlotið á annan hátt. Við nutum þeirra forréttinda að vera í návist spámannsins og ferðast með honum þúsundir kílómetra og sjá anda Guðs að verki í honum og opinberanir Jesú Krists veitast honum og uppfyllast.“1

Eftir að hópurinn kom til Missouri, hóf hann friðsamar samningstilraunir við embættismenn fylkisins, en án árangurs. Þegar vopnabeiting virtist óumflýjanleg, bað spámaðurinn um leiðsögn og 22. júní 1834 hlaut hann opinberun um að leysa upp fylkinguna og lýsa því yfir að ekki væri mögulegt að endurleysa Síon að sinni (sjá K&S 105). Drottinn sagði um meðlimi fylkingarinnar: „Ég hef heyrt bænir þeirra og veiti fórn þeirra viðtöku, og mér þykir æskilegt að leiða þá þetta langt til að reyna trú þeirra“ (K&S 105:19).

Síonarfylkingin náði ekki fram hinu stjórnmálalega ætlunarverki sínu, en hin andlegu áhrif urðu varanleg. Í febrúar 1835, þegar spámaðurinn skipulagði sveit postulanna tólf og sveit hinna sjötíu, höfðu níu postulanna tólf og allir hinir sjötíu þjónað í Síonarfylkingunni. Joseph Young, einn af meðlimum hinna upphaflegu Sjötíu, sagði spámanninn hafa útskýrt fyrir hópi þessara bræðra: „Guð vildi ekki að þið berðust. Hann gat ekki skipulagt ríki sitt með tólf mönnum, sem ljúka skyldu upp dyrum fagnaðarerindisins fyrir þjóðum jarðar, og sjötíu mönnum, sem fylgja skyldu í fótspor þeirra, án þess fyrst að ganga úr skugga um að þeir væru fusir til að fórna lífi sínu, að færa jafn mikla fórn og Abraham.“2

Það var í Síonarfylkingunni sem Brigham Young, Heber C. Kimball, Wilford Woodruff og fleiri hlutu þá hagnýtu þjálfun sem gerði þeim kleift að leiða hina heilögu frá Missouri til Illinois árið 1839 og síðar til Saltvatnsdalsins. Af reynslu sinni með spámanninum lærðu þessir bræður að vera í fylkingarbrjósti að hætti Drottins.

Kenningar Josephs Smith

Leiðtogar kenna réttar reglur og hjálpa þeim sem þeir leiða að læra að stjórna sjálfir.

John Taylor, þriðji forseti kirkjunnar, sagði: „Fyrir nokkrum árum í Nauvoo heyrði ég herramann nokkurn, meðlim Löggjafarþingsins, spyrja Joseph Smith að því, hvernig hann færi að því að hafa stjórn á svo mörgu fólki og viðhalda slíkri reglu, um leið og hann gat þess hve ómögulega þeim gengi að gera slíkt hið sama annars staðar. Herra Smith kvað það reynast sér afar auðvelt. ,Hvernig þá?‘ spurði maðurinn, ,okkur reynist það afar erfitt.‘ Herra Smith svaraði: ,Ég kenni þeim réttar reglur og þeir stjórna sjálfir.‘ “3

Brigham Young, annar forseti kirkjunnar, sagði: „Þessi spurning var hvað eftir annað lögð fyrir Joseph Smith, af mönnum sem komu til að hitta hann og fólk hans: ,Hvernig ferðu að því að stjórna fólkinu svona auðveldlega? Svo virðist sem það geri ekkert annað en það sem þú mælir fyrir um; hvernig ferðu að því að stjórna því svona auðveldlega?‘ Hann svaraði: ,Ég stjórna því alls ekki. Drottinn hefur opinberað ákveðnar reglur frá himnum, sem okkur ber að lifa eftir á þessum síðari dögum. Sá tími nálgast er Drottinn mun safna fólki sínu frá hinum ranglátu og með hraði ljúka verki sínu í réttlæti, og ég hef kennt fólkinu þær reglur sem hann hefur opinberað og það reynir að lifa eftir þeim, og það stjórnar sér sjálft.‘ “4

Joseph Smith svaraði ásökunum um að hann leitaði eftir valdi með þessum orðum: ,Varðandi valdið yfir hugum manna sem ég á að hafa vil ég segja, að það felst aðeins í þeim sannleika og þeim krafti sem kenningin býr yfir, og ég sem verkfæri í höndum Guðs hef kennt þeim, en ekki í einhverri þvingun af minni hálfu. … Ég spyr: Hef ég einhvern tíma þvingað mann? Hef ég ekki gert öllum frjálst að trúa þeim kenningum sem ég hef prédikað eða ekki? Hvers vegna ráðast óvinir mínir þá ekki á kenninguna? Þeir geta það ekki: Hún er sannleikur og ég skora á alla að láta á það reyna.“5

„Bróðir nokkur, sem starfaði á skrifstofunni í St. Louis Gazette, … vildi vita hvaða reglu ég fylgdi til að hljóta svo mikinn mátt. … Ég sagði honum að ég hlyti máttinn af reglu trúar og dyggðar, sem enn yrði við lýði eftir minn dag.“6

Leiðtogar hljóta nauðsynlega visku frá andanum og viðurkenna blessanir Drottins í þeirra þágu.

„Maður Guðs ætti að vera gæddur visku, þekkingu og skilningi til þess að kenna og leiða fólk Guðs.“7

Spámaðurinn skrifaði til meðlima Tólfpostulasveitarinnar og fleiri prestdoemisleiðtoga sem þjónuðu í trúboði á Stóra Bretlandi: „Ég get sagt, að að svo miklu leyti sem mér er kunnugt um gjörðir ykkar, er ég fullkomlega sannfærður um að þið hafið gjört allt í visku, og ég efast eigi um að andi Drottins hafi leitt ykkur, og það segir mér að þið hafið verið auðmjúkir og þráð sáluhjálp náunga ykkar, en ekki leitað eigin upphefðar eða eigin hagsmuna. Svo lengi sem hinir heilögu sýna slíka tilhneigingu, mun ráðgjöf þeirra samþykkt og verk þeirra krýnd velgengni.

Þið óskið ráðgjafar um margt sem mjög mikilvægt er, en sem ég tel þó að þið getið sjálfir tekið ákvörðun um, þar sem þið eruð kunnugri þeim sérstöku aðstæðum en ég er, og ég ber fullt traust til sameiginlegrar visku ykkar. …

Ástkæru bræður, þið hljótið að einhverju leyti að vera ykkur meðvitandi um tilfinningar mínar, er ég ígrunda hið mikla verk sem nú á sér stað og tengsl mín við það, en það nær nú til fjarlægra landa og þúsundir taka á móti því. Ég geri mér grein fyrir ábyrgð minni að nokkru leyti, og þörfinni sem ég hef fyrir stuðning að ofan og visku frá upphæðum, svo ég sé fær um að kenna þessu fólki, sem nú er orðið að miklum lýð, reglur réttlætis, og leiða það samkvæmt vilja himins, svo að það megi fullkomnast og vera undir það búið að mæta Drottni Jesú Kristi þegar hann birtist í mikilli dýrð. Get ég reitt mig á bænir ykkar til himnesks föður í mína þágu og á bænir allra bræðra minna og systra í Englandi (sem ég hef ekki séð en elska engu að síður), svo að ég fái umflúið öll brögð Satans, sigrast á öllum erfiðleikum og geti leitt fólkið, og að það fái notið þeirra blessana sem fyrirbúnar eru hinum réttlátu? Ég bið þess af ykkar hendi í nafni Drottins Jesú Krists.“8

Árið 1833 skrifuðu spámaðurinn og leiðtogar kirkjunnar til meðlimanna í Thompson, Ohio, til að segja þeim að bróðir Salmon Gee hefði verið tilnefndur til að leiða þá: „Okkar ástkæri bróðir Salmon … hefur verið vígður af okkur … til að leiða og kenna ykkur það sem guðrækni samræmist við alla trúrækni, og til hans berum við fullt traust og væntum þess að þið gerið það einnig. Við segjum því við ykkur – já, ekki aðeins við, heldur einnig Drottinn – takið á móti honum sem slíkum í þeirri vissu að Drottinn hafi tilnefnt hann í embætti þetta ykkur til góðs, styðjið hann með bænum ykkar, biðjið stöðugt fyrir honum, að hann hljóta visku og skilning í þekkingunni á Drottni; að þið megið fyrir hans tilstilli varðveitast frá illum öndum, erjum og sundurþykkju, og vaxa í náð og þekkingu á Drottni okkar og frelsara, Jesú Kristi.

… Að lokum, bræður, biðjið fyrir okkur, að við megnum að koma því verki til leiðar sem við erum kallaðir til, svo þið fáið notið leyndardóma Guðs, jafnvel til fulls.“9

Spámaðurinn veitti hópi prestdæmisleiðtoga eftirfarandi leiðsögn til að leiða þá í umræðum fleirra: „Hver ætti að mæla þegar að honum kemur og á hans tíma, svo að fullkomin regla ríki í öllu. Og … hver maður … ætti að vera viss um að varpa ljósi á umræðuna, en ekki myrkva hana, … og það geta þeir menn gert sem leggja sig fram um að skilja huga og vilja Guðs, sem andinn lætur stöðugt í ljós og upplýsir sannleikann til skilnings öllum þeim sem hafa andann með sér.“10

„Þegar hinir Tólf, eða einhver önnur vitni, standa frammi fyrir söfnuðum jarðarinnar og prédika af krafti og anda Guðs og fólkið verður undrandi og forviða yfir kenningunni, og segir: ,Maður þessi hefur prédikað af miklum krafti og mætti,‘ þá skal sá maður, eða þeir menn, ekki eigna sér dýrðina af því, heldur skal hann vera auðmjúkur og veita Guði og lambinu dýrðina, því það er fyrir kraft hins heilaga prestdæmis og heilags anda að slíkir hljóta máttinn til að mæla svo. Ó, maður, hvað ert þú annað en duft? Og frá hverjum öðrum en Guði hlýtur þú mátt þinn og blessanir?“11

Leiðtogar í ríki Guðs elska þá sem þeir þjóna.

„Er ég eldist, finn ég ljúfari tilfinningar til ykkar. Ég er ávallt tilbúinn að láta af öllu röngu, því ég vil að fólk þetta hafi dyggðugan leiðtoga. Ég hef beint huga ykkar til frelsis með því að segja ykkur frá því sem tilheyrir Kristi Jesú. … Ég ber aðeins góðar tilfinningar í brjósti.“12

„Prestar annarra trúarsafnaða hrópa um mig og spyrja: ,Hvers vegna fær þessi þvaðrari svo marga til liðs við sig og helst á þeim?‘ Ég svara: Það er vegna þess að ég bý yfir reglu kærleika. Allt sem ég get boðið heiminum er gott hjarta og góð hönd.“13

Nokkrum dögum áður en spámaðurinn fór í Carthagefangelsið tjáði hann hinum heilögu elsku sína: „Guð hefur reynt ykkur. Þið eruð gott fólk, og því ann ég ykkur af öllu hjarta. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína [sjá Jóh 15:13]. Þið hafið staðið með mér á raunastundum og ég fórna lífi mínu fúslega ykkur til varðveislu.“14

Leiðtogar í ríki Guðs kenna með þjónustu og fordæmi.

Þegar Síonarfylkingin fór frá Kirtland, Ohio, til Missouri, loerðust mönnum margar reglur leiðtogahoefni af samkiptum sínum við Joseph Smith. George A. Smith, sem var meðlimur Síonarfylkingarinnar, sagði: „Spámaðurinn Joseph tók að fullu þátt í erfiði allrar ferðarinnar. Auk þess að sjá fyrir og stjórna fylkingunni, gekk hann mest alla leiðina og hlaut sinn skammt af blöðrum og blóðugum og sárum fótum, sem var eðlileg afleiðing þess að ganga 40 til 65 kílómetra á dag á heitasta tíma ársins. Meðan á ferðinni stóð möglaði hann hvorki né kvartaði, þótt flestir mannanna í fylkingunni hefðu kvartað við hann yfir aumum og bólgnum fótum, löngum göngum, fátæklegum matarbirgðum, lélegu og skemmdu brauði, óætu maísbrauði, daunillu og skemmdu smjöri, og bragðsterku hunangi, möðkuðu beikoni og osti, o. s. frv. Hundur mátti jafnvel ekki gelta á suma þeirra án þess að þeir tækju að kvarta við Joseph. Slæmt vatn olli næstum uppreisn er þeir slógu upp tjöldum. Engu að síður vorum við Síonarfylkingin, og margir okkar fluttu ekki bænir, voru tillitslausir, kærulausir, gálausir, heimskulegir eða djöfullegir, en við gerðum okkur ekki grein fyrir því. Joseph þurfti að sýna okkur biðlund og kenna líkt og börnum. Þó voru margir í fylkingunni sem aldrei mögluðu og sem ávallt voru reiðubúnir og fúsir til að gera það sem leiðtogar okkar buðu.“15

Eftirfarandi er brot úr sögu spámannsins í maí 1834: „Hvert kvöld áður en við lögðumst til hvílu, við hljóm lúðursins, krupum við í bæn í tjöldum okkar frammi fyrir Guði og færðum þakkir og óskir; og við morgunhljóm lúðursins, um fjögurleytið, kraup hver maður enn að nýju frammi fyrir Drottni og sárbað um dagsins blessun.“16

27. maí 1834: „Enda þótt óvinir okkar hótuðu stöðugt að beita okkur ofbeldi, óttuðumst við hvorki né hikuðum við að halda ferð okkar áfram, því Guð var með okkur og englar hans fóru fyrir okkur og trú þessa fámenna hóps var óhagganleg. Við vitum að englar voru förunautar okkar, því við sáum þá.“17

29. maí 1834: „Ég komst að raun um að sumum í hópnum hafði verið gefið súrt brauð, en þegar ég neytti brauðs þessa sama matreiðslumanns var það ljúffengt og sætt á bragðið. Ég ávítaði bróður Zebedee Coltrin fyrir að sýna mér sérstakt dálæti, því ég vildi neyta þess sama og bræðurnir gerðu.“18

John M. Chidester, meðlimur Síonarfylkingarinnar, sagði: „Síonarfylkingin þurfti að fara yfir afar torsótt mýrlendi, á leið sinni um Indiana-fylki, og því þurfi að hnýta taug í vagnana til að koma þeim yfir og fór spámaðurinn fyrstur að tauginni, berfættur. Þetta einkenndi hann alltaf á erfiðum stundum.

Við héldum ferðinni áfram þar til við komum að [Wakenda] fljóti, en þá höfðum við farið 40 kílómetra án hvíldar eða næringar. Við neyddumst til þess að fara yfir fljótið með ferju, og hinu megin fljótsins komum við auga á góðan stað til að setja upp tjaldbúðir, en það gladdi okkur mjög, því við vörum mjög þreyttir og hungraðir. Þegar við nálguðumst staðinn sagði spámaðurinn hópnum að hann fyndi sterklega að þeir ættu að halda ferðinni áfram, og þar sem hann fór fyrir fylkingunni bauð hann bræðrunum að fylgja sér.

Þetta olli sundrungu í hópnum. Lyman Wight og fleiri neituðu í fyrstu að fylgja spámanninum, en loks snerist þeim hugur. Síðar kom í ljós að spámaðurinn hafði hlotið innblástur um að halda áfram um ellefu kílómetrum lengra. Okkur var greint frá því síðar að um þrettán kílómetrum neðan við þann stað sem við fórum yfir fljótið hefði skipulagður hópur manna ætlað að ráðast að okkur þá um nóttina.“19

Meðan á ferð Síonarfylkingarinnar stóð, voru sumir meðlima hennar stöðugt möglandi og kvartandi. Spámaðurinn ávítaði þá sem áttu hlut að máli og varaði þá við að hörmungar myndu henda þá, ef fleir iðruðust ekki. Þótt sumir þeirra hafi hlítt ráðum hans, voru aðrir sem gerðu það ekki. Stuttu síðar kom upp kólera í búðum þeirra og sumir dóu. Orson Hyde, sem síðar þjónaði í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Hætti spámaðurinn að láta sér annt um velferð hópsins? Varð hann fráhverfur vinum sínum á tímum ögunar og mótlætis? Reyndist hann þeim óvinur vegna þess að hann talaði stranglega til þeirra? Nei! Hjarta hans var fullt samkenndar – brjóst hans geislaði af kærleika, samúð og góðvild, og hann lagði kapp á að vera trúfastur vinur á háskatímum. Hann hlúði sjálfur að hinum sjúku og deyjandi, og hjálpaði við að greftra hina dánu. Allar hans gjörðir, meðan á þessum reynslutíma stóð, veittu hópnum aukna fullvissu um að hann elskaði þá þrátt fyrir allar þeirra misgjörðir.“20

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið aðra málsgreinina á bls. 282. Hvaða styrkleika sjáið þið í spámanninum Joseph Smith þegar kemur að forystuhæfileikum? Hvernig teljið þið að flestir myndu bregðast við þess konar forystu?

  • Lesið kenningar spámannsins um nauðsyn þess að leiðtogar hljóti visku frá andanum (bls. 283–85). Hvað getur hjálpað leiðtogum að hljóta nauðsynlega visku?

  • Lesið þriðju málsgreinina á bls. 283. Hvers vegna er nauðsynlegt að auðmýkt og óeigingirni einkenni leiðtoga? Hvað annað teljið þið að þurfi að prýða leiðtoga?

  • Joseph Smith talaði opinskátt um elsku sína og kærleika til hinna heilögu (bls. 285). Hvernig vitið þið þegar leiðtogi ber einlæga elsku til ykkar? Hvenær hafið þið notið blessana af kærleiksríkum leiðtoga?

  • Lærið frásögnina um Síonarfylkinguna á bls. 279–281 og 285–288. Hvaða kosti sýndi spámaðurinn sem leiðtogi?

  • Íhugið þá ábyrgð sem þið hafið sem leiðtogar í fjölskyldum ykkar, í kirkjunni, í vinnu ykkar, í skóla ykkar, í samfélaginu, eða annars staðar. Íhugið hvað þið getið gert til að fylgja fordæmi Josephs Smith?

Ritningargreinar tengdar efninu: 2 Mós 18:13–26; Okv 29:2; Matt 20:25–28; Al 1:26; K&S 107:99–100

Heimildir

  1. Wilford Woodruff, Deseret News: Semi-Weekly, 21. des. 1869, bls. 1; stafsetning færð í nútímahorf.

  2. Vitnað í Joseph Young eldri, í History of the Church, 2:182, neðanmálstexti; frá Joseph Young eldri, History of the Organization of the Seventies (1878), bls. 14.

  3. John Taylor, “The Organization of the Church,” Millennial Star, 15. nóv. 1851, bls. 339.

  4. Brigham Young, Deseret News: Semi-Weekly, 7. júní 1870, bls. 3.

  5. History of the Church, 6:273; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 24. mars 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  6. History of the Church, 6:343; færsla úr dagbók Josephs Smith, 25. apríl 1844, Nauvoo, Illinois.

  7. History of the Church, 5:426; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 11. júní 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards.

  8. History of the Church, 4:228–30; stafsetning færð í nútímahorf; úr bréfi frá Joseph Smith til hinna Tólf, 15. des. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. jan. 1841, bls. 259–60; bréfið er ranglega dagsett 19. okt. 1840, í History of the Church.

  9. Bréf frá Joseph Smith og fleirum til meðlima kirkjunnar í Thompson, Ohio, 6. febr. 1833, Kirtland, Ohio; Letter Book 1, 1829–35, bls. 25–26, Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  10. History of the Church, 2:370; færsla úr dagbók Josephs Smith, 15. jan. 1836, Kirtland, Ohio.

  11. History of the Church, 3:384; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 2. júlí 1839, í Montrose, Iowa; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards.

  12. History of the Church, 6:412; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 26. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  13. History of the Church, 5:498; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 9. júlí 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  14. History of the Church, 6:500; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 18. júní 1844, í Nauvoo, Illinois. Safn úr History of the Church, samanteknar frásagnir nokkurra sjónarvotta.

  15. George A. Smith, “History of George Albert Smith by Himself,” bls. 30, George Albert Smith, Papers, 1834–75, Skjalasafn kirkjunnar.

  16. History of the Church, 2:64–65; úr Heber C. Kimball, “Elder Kimball’s Journal,” Times and Seasons, 15. jan. 1845, bls. 771.

  17. History of the Church, 2:73; úr Heber C. Kimball, “Elder Kimball’s Journal,” Times and Seasons, 15. jan. 1845, bls. 772.

  18. History of the Church, 2:75; úr George A. Smith, “History of George Albert Smith by Himself,” bls. 17, George Albert Smith, Papers, 1834–75, Skjalasafn kirkjunnar.

  19. John M. Chidester, í “Recollections of the Prophet Joseph Smith,” Juvenile Instructor, 1. mars 1892, bls. 151; stafsetning færð í nútímahorf.

  20. Orson Hyde, Deseret News, 30. júlí 1853, bls. 66.

council meeting

Leiðtogi í ríki Guðs „ætti að vera gæddur visku, þekkingu og skilningi tilþess að kenna og leiða fólk Guðs.“

men pulling wagon

Meðlimur Síonarfylkingarinnar minntistþess að „spámaðurinn fór fyrstur að tauginni, berfættur. Þetta einkenndi hann alltaf á erfiðum stundum.“