Kenningar forseta
6. Kafli: Hlutverk Jóhannesar skírara


6. Kafli

Hlutverk Jóhannesar skírara

„Jóhannes [skírari] hafði Aronsprestdæmið og var lögmætur þjónn og fyrirrennari Krists, og kom til að greiða honum veg.“

Úr lífi Josephs Smith

Í Harmony, Pennsylvaníu, veturinn 1828–29, hélt Joseph Smith áfram að vinna að þýðingu Mormónsbókar, en verkið vannst hægt. Joseph þurfti ekki aðeins að vinna á býli sínu til að sjá fyrir fjölskyldu sinni, heldur var hann einnig án ritara sér til aðstoðar. Hann sagði: „Á þessum neyðartíma ákallaði ég Drottin um að hann sæi til þess að ég gæti lokið því verki sem hann hafði falið mér að leysa af höndum.“1 Drottinn gaf loforð um að hann skyldi sjá Joseph fyrir nauðsynlegri hjálp, svo hann gæti haldið áfram við þýðingarstarfið (sjá K&S 5:34). Hinn 5. apríl 1829 var ungur skólakennari að nafni Oliver Cowdery samferða Samuel, bróður spámannsins, til Harmony til að hitta Joseph. Þegar Oliver dvaldi hjá foreldrum spámannsins heyrði hann um töflurnar og eftir að hafa beðist fyrir um það mál, hlaut hann persónulega opinberun um að hann ætti að rita fyrir spámanninn. Hinn 7. apríl hófu þessir tveir menn þýðingarstarfið, með Oliver sem ritara.

Þegar Joseph og Oliver voru að þýða af töflunum, lásu þeir fyrirmæli Jesú til Nefítanna um skírn til fyrirgefningar synda.2 Hinn 15. maí héldu þeir til skóglendis nærri heimili spámannsins, til að biðja Drottin um aukinn skilning á þessari mikilvægu helgiathöfn. Oliver Cowdery sagði: ,yið úthelltum sálum okkar í máttugri bæn, til að hljóta vitneskju um hvernig við gætum notið blessunar skírnar og heilags anda, samkvæmt reglu Guðs, og við leituðum af kostgæfni réttinda forfeðranna og valdsumboðs hins heilaga prestdæmis, og kraftarins til að starfa í því.“3

Joseph Smith skráði það sem gerðist er þeir voru bænheyrðir. „Meðan við fengumst við þetta, báðumst fyrir og ákölluðum Drottin, sté sendiboði frá himni niður í ljósskýi, lagði hendur yfir okkur og vígði okkur að því búnu, svofelldum orðum: Yður, samþjónum mínum, veiti ég í nafni Messíasar Aronsprestdoemið, sem hefur lykla að þjónustu engla og fagnaðarerindi iðrunar og niðurdýfingarskírn til fyrirgefningar syndanna. Og þetta skal aldrei aftur af jörðunni tekið, uns synir Levís fœra Drottni aftur fórn í réttloeti.

Hann kvað þetta Aronsprestdæmi ekki hafa vald til handayfirlagningar til gjafar heilags anda, en það yrði síðar veitt okkur. …

Sá sendiboði sem kom til okkar í þetta sinn og veitti okkur þetta prestdæmi, kvaðst heita Jóhannes, sá hinn sami og nefndur væri Jóhannes skírari í Nýja testamentinu. Hann kvaðst starfa undir stjórn Péturs, Jakobs og Jóhannesar, sem hefðu lykla Melkísedeksprestdæmisins, en það prestdæmi, sagði hann, yrði okkur veitt, er fram liðu stundir“ (Joseph Smith – Saga 1:68–70, 72).

Koma Jóhannesar skírara var miklisverður atburður í lífi Josephs Smith og fyrir framvindu ríkis Guðs á jörðu. Þótt Joseph Smith hafi séð Guð föðurinn og Jesú Krist, þótt himneskir sendiboðar hafi vitjað hans og hann hafi fengið gulltöflurnar í hendur og honum gert kleift að þýða þær, hafði honum enn ekki verið veitt umboð og vald prestdæmisins. Nú hafði Aronspresdæmið verið endurreist á jörðu og vald Melkísedeksprestdæmisins yrði brátt endurreist. Joseph Smith var orðinn lögmætur þjónn í ríki Guðs.

Kenningar Josephs Smith

Jóhannes skírari uppfyllti þá mikilvægu köllun að undirbúa komu frelsarans og skíra hann.

„Ég sótti fund í musterinu [hinn 29. janúar 1849]. … Ég greindi frá því að ég hefði verið spurður tveggja spurninga varðandi umræðuefni mitt síðasta hvíldardag og ég hefði lofað að svara þeim opinberlega og vildi nýta þetta tækifæri til þess.

Spurning vaknaði varðandi þessi orð Jesú: ,Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes. En hinn minnsti í Guðs ríki er honum meiri.‘ [Lúk 7:28.] Hvers vegna var Jóhannes álitinn einn af hinum miklu spámönnum? Mikilleiki hans fólst ekki í kraftaverkunum sem hann gerði. [Sjá Jóh 10:41.]

Í fyrsta lagi var honum falið hið guðlega hlutverk að greiða fyrir komu Drottins. Hverjum öðrum hefur áður verið treyst fyrir slíku? Engum manni.

Í öðru lagi var honum treyst fyrir því mikilvæga hlutverki að skíra mannssoninn, og þess krafist af hans hendi. Hverjum öðrum hefur hlotnast slíkur heiður? Hverjum öðrum hefur hlotnast slík forréttindi og vegsemd? Hverjum öðrum hafa hlotnast þau forréttindi að leiða son Guðs ofan í skírnarvatnið og sjá heilagan anda stíga niður í mynd dúfu, eða öllu heldur í líki dúfu, til vitnis um framkvæmd þessa? Tákn dúfunnar var innleitt fyrir sköpun heimsins, til vitnis um heilagan anda, og djöfullinn getur ekki komið í líki dúfu. Heilagur andi er persónubundin vera og hefur persónubundið útlit. Sjálfur er hann ekki skilgreindur sem dúfa að útliti, heldur er dúfan til tákns um hann. Heilagur andi getur ekki breytt sér í dúfu, heldur var dúfan veitt Jóhannesi sem tákn til staðfestingar á framkvæmdinni, líkt og dúfan er til tákns eða marks um sannleika og hreinleika.

Í þriðja lagi var Jóhannes á þessum tíma eini lögmæti þjónninn í málefnum ríkisins, sem þá var á jörðinni og hafði lykla þess valds. Gyðingar urðu að hlýða fyrirmælum hans ella verða fordæmdir samkvæmt eigin lögum. Er sjálfur Kristur kom og var hlýðinn lögmálinu sem hann gaf Móse á fjallinu fullnægði hann öllu réttlæti og þar með upphóf hann það og gerði virðingarvert, en ógilti það ekki. Sonur Sakaría þurfti að hafa fyrir því að fá lyklana, ríkið, valdið og vegsemdina frá Gyðingunum, með hinni heilögu smurningu og samkvæmt tilskipun himinsins, og af þessum þremur ástæðum er hann mestur spámanna sem af konu er fæddur.

Önnur spurningin: Hvernig getur sá sem minnstur er í Guðs ríki verið meiri en hann? [Sjá Lúk 7:28].

Ég svaraði og spurði: Til hvers var Jesús að vísa til hins minnsta? Jesús var talinn sístur allra til að geta gert kröfu til Guðs ríkis og því ætti hann minnstan rétt á að geta talist spámaður, og hefði því eins getað sagt: ,Sá sem talinn er minnstur meðal ykkar, er meiri en Jóhannes – en það er ég sjálfur.‘ “4

Í ríki Guðs þarf að vera lögmætur þjónn.

„Sumir segja að ríki Guðs hafi ekki verið komið á fót á jörðu fyrr en á hvítasunnudegi og að Jóhannes [skírari] hafi ekki prédikað skírn til fyrirgefningar syndanna, en ég segi, í nafni Drottins, að ríki Guðs hafi verið komið á fót á jörðu allt frá tíma Adams og hafi verið þar fram til þessa. Í hvert sinn sem réttlátur maður finnst á jörðinni mun Guð opinbera honum orð sitt og veita honum kraft og vald til að þjóna í hans nafni, og þar sem prestur Guðs er – þjónn sem hefur kraft og vald frá Guði til þess að framkvæma helgiathafnir fagnaðarerindisins og gegna embætti í prestdæmi Guðs, þar er ríki Guðs. Og sem afleiðing af því að hafna fagnaðarerindi Jesú Krists og þeim spámönnum sem Guð hefur sent, vofir dómur Guðs yfir fólki, borgum og þjóðum á hinum ýmsu tímabilum heims, líkt og átti sér stað með borgirnar Sódómu og Gómorru, sem lagðar voru í rúst, vegna þess að fólkið hafnaði spámönnunum. …

Hvað varðar fagnaðarerindið og skírnina sem Jóhannes prédikaði, segi ég að hann hafi komið og kennt fagnaðarerindið til fyrirgefningar syndanna. Hann hafði vald sitt frá Guði og hið lifandi orð Guðs var í honum, og ríki Guðs virtist um tíma hvíla á Jóhannesi einum. Drottinn lofaði Sakaría að hann myndi eignast son sem væri afkomandi Arons, og Drottinn hafði lofað að prestdæmið myndi viðhaldast í Aron og afkomendum hans um kynslóðir. Enginn tekur sjálfum sér þann heiður, heldur er hann kallaður af Guði, eins og Aron [sjá Hebr 5:4]; og Aron hlaut köllun sína með opinberun. …

Einhver gæti sagt að ríki Guðs hafi ekki verið komið á fót á tíma Jóhannesar, því Jóhannes sagði ríkið vera í nánd. En ég spyr þá á móti hvort það hafi getað verið nær þeim en í höndum Jóhannesar. Fólkið þurfti ekki að bíða eftir hvíldardegi til að finna ríki Guðs, því Jóhannes hafði það með sér og úr eyðimörkinni kom hann hrópandi: ,Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd‘ [Matt 3:2]. Með öðrum orðum sagði hann: ,Ég hef hér ríki Guðs og ég kem eftir yður; ég hef ríki Guðs og þið getið tekið á móti því. Ég kem eftir yður, og ef þið takið ekki á móti því, verðið þið fordæmd;‘ og ritningarnar segja að allir í Jerúsalem hafi farið til að láta skírast af Jóhannesi [sjá Matt 3:5–6]. Hann var lögmætur þjónn og hinir skírðu urðu þegnar konungs. Lögmál og lifandi orð Guðs voru þar einnig. Þar af leiðandi var ríki Guðs þar, því enginn maður hafði réttmætara vald til þjónustu en Jóhannes, og frelsarinn sjálfur beygði sig undir vald þetta með því að láta skírast af Jóhannesi. Ríki Guðs var því á jörðinni, jafnvel á tíma Jóhannesar. …

“… Kristur kom samkvæmt orðum Jóhannesar [sjá Mark 1:7], og hann var Jóhannesi æðri, því hann hafði lykla Melkísedeksprestdæmisins og ríki Guðs og hafði áður opinberað prestdæmi Móse, en Kristur var skírður af Jóhannesi til að fullnægja öllu réttlæti [sjá Matt 3:15]. …

“… [Jesús sagði]: ,Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda;‘ og ,himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.‘ [Jóh 3:5; Matt 24:35.] Ef menn fæðast af vatni og anda, geta þeir komist inn í Guðs ríki. Það er augljóst að ríki Guðs var á jörðinni og Jóhannes bjó þegna undir ríkið með því að boða þeim fagnaðarerindið og skíra þá, og hann ruddi veginn fyrir frelsarann eða kom sem fyrirrennari og bjó þegnana undir kenningar Krists; og Kristur prédikaði í Jerúsalem á sama stað og Jóhannes prédikaði. … Jóhannes … prédikaði sama fagnaðarerindi og skírn og Jesús og postularnir prédikuðu eftir hann. …

Þegar menn komast að vilja Guðs og finna lögmætan þjón, útvalinn af Guði, er ríki Guðs þar, en sé hann það ekki, er ríki Guðs þar ekki. Allar helgiathafnir, allt skipulag og öll þjónusta á jörðinni gagnast mannanna börnum ekki, nema það sé vígt og heimilað af Guði, því ekkert fær frelsað menn, nema lögmætur stjórnandi, því engir aðrir eru viðurkenndir af Guði eða englum.“5

„Jóhannes [skírari] hafði Aronsprestdæmið og var lögmætur stjórnandi og sendiboði Krists, til að greiða honum veg. … Jóhannes var prestur eftir reglu Arons fyrir Krist. …

Honum var treyst fyrir lyklum Aronsprestdæmsins og hann var eins og rödd hrópanda í eyðimörk, sem sagði: ,Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.‘ [Matt 3:3.] …

Frelsarinn sagði við Jóhannes: Ég verð að skírast af þér. Hvers vegna? Sem svar við ályktun minni [sjá Matt 3:15], … þá hafði Jesús engan lögmætan stjórnanda [nema] Jóhannes.

Enga sáluhjálp er að finna milli spjalda Biblíunnar án lögmæts þjóns.“6

Þeim sem hefur anda Elíasar er falið undirbúningsstarf af Drottni.

Ég ætla fyrst að ræða um anda Elíasar, og í þeirri efnisnálgun ætla ég að vísa í vitnisburð ritningarinnar og gefa minn eigin.

Í fyrsta lagi læt ég nægja að segja, að ég fór út í skóg til að spyrja Drottin í bæn um vilja hans varðandi mig og ég sá engil [Jóhannes skírara] og hann lagði hendur á höfuð mitt og vígði mig sem prest eftir reglu Arons og til að hafa lykla þess prestdæmis, sem hefur það hlutverk að prédika iðrun og skírn til fyrirgefningar syndanna og einnig að skíra. En mér var sagt að í embætti þessu fælist ekki sá réttur að veita heilagan anda með handayfirlagningu, því að slíkt krefðist æðra embættis sem veita ætti síðar; og að í þessari vígslu minni fælist undirbúningsstarf eða það sem á undan færi, sem er andi Elíasar, því að anda Elíasar var ætlað að koma á undan til að greiða veg þess sem æðri er, þannig var það í tilviki Jóhannesar skírara. Hann hrópaði í eyðimörkinni: ,Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.‘ [Matt 3:3.] Og mannfjöldanum var gert ljóst, að ef hann tæki við því, væri um anda Elíasar að ræða [sjá Matt 11:14]; og Jóhannesi var mikið í mun að segja fólkinu að hann væri ekki það ljós, heldur væri hann sendur til að bera vitni um það ljós [sjá Jóh 1:8].

Hann sagði fólkinu að hlutverk sitt væri að prédika iðrun og skírn með vatni; en að sá sem kæmi á eftir sér myndi skíra með eldi og heilögum anda [sjá Matt 3:11].

Ef sviksemi hefði leynst í honum, hefði hann getað farið út fyrir sitt eigið valdsvið, og tekið sér fyrir hendur að framkvæma helgiathafnir sem tilheyrðu ekki embætti hans og köllun, undir anda Elíasar.

Anda Elíasar er ætlað að greiða veginn fyrir æðri opinberun Guðs, sem [andi Elíasar] er prestdæmi Elíasar eða prestdæmið sem Aron var vígður. Og þegar Guð sendir mann í heiminn til að greiða veginn að æðra verki, sem hefur lyklana að krafti Elíasar, er þar um að ræða kenningu Elíasar, sem svo var nefnd jafnvel allt frá fyrstu öldum þessa heims.

Ætlunarverk Jóhannesar takmarkaðist við það að prédika og skíra, en það sem hann gerði var lögmætt. Og þegar Jesús Kristur kom til einhverra lærisveina Jóhannesar, skírði hann þá með eldi og heilögum anda. … Jóhannes starfaði ekki utan eigin valdssviðs, heldur framkvæmdi staðfastlega þann hluta sem tilheyrði embætti hans. Og sérhver hluti hinnar miklu byggingar skyldi undirbúinn réttilega og honum komið á sinn rétta stað. Og nauðsynlegt er að vita hver hefur lykla valds og hver ekki, að öðrum kosti er líklegt að við látum blekkjast.

Þeim sem hefur lykla Elíasar hefur verið falið undirbúningsstarf. … Andi Elíasar var opinberaður mér, og ég veit að það er sannleikur; þess vegna mæli ég af dirfsku, því ég veit sannlega að kenning mín er sönn.“7

Ábendingar Um Nám Og Kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið frásögnina um Jóhannes skírara er hann veitti Joseph og Oliver Cowdery Aronsprestdæmið (bls. 79–80, 84). Hvaða áhrif hafði þessi atburður á Joseph og Oliver? Hvaða áhrif hefur þessi atburður haft á líf ykkar?

  • Lesið alla fyrstu málsgreinina á bls. 80, og veitið athygli að Jóhannes skírari sagði Joseph og Oliver vera „samþjóna sína.“ Á hvaða hátt geta þessi orð hjálpað prestdæmishöfum? Á hvaða hátt geta þessi orð haft áhrif á samskipti okkar við unga menn sem hafa Aronsprestdæmið?

  • Lesið undirkaflann sem hefst á bls. 80. Hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar varðandi Jóhannes skírara og verk hans meðan hann lifði á jörðinni?

  • Spámaðurinn kenndi að Jóhannes skírari væri „lögmætur þjónn“ (bls. 82–84). Hvað haldið þið að felist í orðunum „lögmætur þjónn“ í tengslum við prestdæmið? Hvers vegna er „enga sáluhjálp … að finna … án lögmæts þjóns“? (bls. 84).

  • Þegar þið lesið síðustu málsgrein kaflans (bls. 84–85), skoðið þá einnig skilgreininguna á hugtakinu „Elías“ í Leiðarvísi að ritningunum (sjá Leiðarvísir að ritningunum bls. 31 og Bible Dictionary bls. 663). Hvað er andi Elíasar? Hvernig greiddi Jóhannes skírari veginn fyrir komu frelsarans?

  • Joseph Smith sagði að veiting Aronsprestdæmisins væri „undirbúningsstarf,“ því það greiðir veg einhvers æðra (bls. 84). Hvað geta Aronsprestdæmishafar gert til að búa sig undir að hljóta Melkísedeksprestdæmið? Hvað geta foreldrar, afar og ömmur, kennarar og leiðtogar gert til að hjálpa þeim við slíkan undirbúning?

Ritningargreinar tengdar efninu: Matt 3:1–17; 1 Ne 10:7–10; Þýðing Josephs Smith, Matt 3:43–46

Heimildir

  1. Joseph Smith, History 1832, bls. 6; Letter Book 1, 1829–35, Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  2. Oliver Cowdery, vitnað í Joseph Smith – Saga 1:71, neðanmálstexti; úr bréfi frá Oliver Cowdery til Williams W. Phelps, 7. sept. 1834, Norton, Ohio, birt í Messenger and Advocate, okt. 1834, bls. 15.

  3. Oliver Cowdery, yfirlýsing skráð í sept. 1835 í “The Book of Patriarchal Blessings, 1834,” bls. 8–9; patríarkablessanir, 1833–2005, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. History of the Church, 5:260–61; texti í sviga upprunalegur; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 29. jan. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willards Richards og ónefndum Boston Bee bréfritara. Boston Bee bréfið var skrifað 24. mars 1843, í Nauvoo, Illinois, og birt í Times and Seasons, 15. maí 1843, bls. 200. Sjá einnig viðauka á bls. 562, nr. 3.

  5. History of the Church, 5:256–59; stafsetning færð í nútímahorf; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 22. jan. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  6. Fyrirlestur sem Joseph Smith hélt 23. júní 1843, í Nauvoo, Illinois; Joseph Smith, ræðusafn, 23. júlí, 1843, Skjalasafn kirkjunnar.

  7. History of the Church, 6:249–51; málsgreinaskiptum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 10. mars 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

Joseph and Oliver receiving Aaronic priesthood

Jóhannes skírari endurreisti Aronsprestdæmið og veitti það Joseph Smith og Oliver Cowdery 15. maí 1829, með orðunum: „Yður, samþjónum mínum, veiti ég í nafni Messíasar Aronsprestdæmið.“

John the Baptist baptizing Christ

Frelsarinn fór til Jóhannesar skírara til að láta skírast, því Jóhannes skírari „hafði Aronsprestdæmið og var lögmætur þjónn.“