Kenningar forseta
16 . kafli: Opinberun og hinn lifandi spámaður


16 . kafli

Opinberun og hinn lifandi spámaður

„Meginregla himin [er] sú að ekkert skal gjört á jörðinni, án þess að leyndardómar þess séu fyrst opinberaðir þjónum hans, spámönnunum.“

Úr lífi Josephs Smith

Í Kirtland, Ohio, hlaut spámaðurinn Joseph Smith margar opinberanir, sem gerði það tímaskeið mjög mikilvægt til staðfestingar á kenningunni og stjórnskipulagi kirkjunnar. Þegar spámaðurinn hlaut þessar opinberanir, voru kirkjuleiðtogar oft í návist hans og einhver þeirra skráði þau orð sem hann hlaut frá Drottni. Opinberanirnar komu iðulega til hans sem bænheyrsla. Parley P. Pratt, sem síðar varð meðlimur hinna Tólf, var viðstaddur þegar spámaðurinn hlaut opinberunina sem nú er 50. kafli Kenningar og sáttmála. Öldungur Pratt sagði:

„Eftir að hafa sameinast í bæn í þýðingarherbergi hans, hlaut hann eftirfarandi opinberun í návist okkar. Hver setning var sögð rólega og mjög greinilega, með nægilega löngum hléum á milli til skráningar, af venjulegum ritara, ekki með hraðritun. … Það var aldrei um hik að ræða, textaskoðun eða yfirlestur, til að efnið kæmist til skila.“1

Þótt sumar opinberanirnar hafi verið handritaðar til persónulegra nota, höfðu kirkjumeðlimir þær almennt ekki undir höndum. Joseph Smith vissi að opinberanir Guðs væru mjög mikilvægar og að varðveita þyrfti þær vandlega og gera heiminum þær aðgengilegar. Í nóvember 1831, á sérstakri samkomu sem haldin var í Hiram, Ohio, ákvað spámaðurinn og fleiri kirkjuleiðtogar að gefa út úrval opinberana sem spámaðurinn hafði hlotið fram að þeim tíma. Eftir þá ákvörðun hlaut spámaðurinn guðleg boð sem Drottinn nefndi „formála [sinn] að bók boðorða [hans]“ (K&S 1:6). Þessi opinberun, sem nú er 1. kafli Kenningar og sáttmála, greindi frá samþykki Drottins um að opinberanirnar yrðu gefnar út og útskýringum hans á því að þær höfðu verið veittar. Drottinn sagði: „Kannið þessi boð, því að þau eru sönn og áreiðanleg og spádómarnir og fyrirheitin, sem í þeim felast, munu öll uppfyllast“ (K&S 1:37). Eftir að opinberunin hafði verið lesin upp fyrir hann aftur á öðrum degi ráðstefnunnar, stóð spámaðurinn „upp og lýsti yfir tilfinningum sínum og þakklæti“ fyrir þessa staðfestingu á samþykki Drottins.2

Eftir ráðstefnuna sagði spámaðurinn: „Í nærri tvær vikur helgaði ég mig því að fara vandlega yfir boðorðin og sitja á ráðstefnu; frá fyrsta til tólfta nóvember héldum við fjórar sérstakar ráðstefnur. Á síðustu … ráðstefnunni voru opinberanirnar metnar af þeim sem þar voru … sem mestu auðæfi heimsins.“ Á ráðstefnunni var einnig lýst yfir að opinberanirnar væru „grundvöllur kirkjunnar á þessum síðustu dögum og heiminum til ávinnings. Þær sýna að manninum er að nýju treyst fyrir lyklum að leyndardómum ríkis frelsara okkar, og að auðæfi eilífðarinnar [eru] innan seilingar þeirra sem fúsir eru til að lifa eftir öllum þeim orðum sem af munni Guðs koma.“3

Handrituð afrit af opinberununum voru færð Willam W. Phelps í Missouri, til útgáfu sem Boðorðabókin. Bróðir Phelps, sem fengið hafði fyrirmæli frá Drottni um að fara til Missouri og starfa þar sem prentari kirkjunnar (sjá K&S 57:11), hóf brátt að handsetja bókina. En 20. júlí 1833 eyðilagði múgur prentvélina og flestar prentarkirnar. Sumar hinna glötuðu arka voru endurheimtar af kirkjumeðlimum og innbundnar sérstaklega, en bókin var aldrei gefin út opinberlega. Árið 1835 voru opinberanirnar sem fyrirhugaðar voru í Boðorðabókinni, ásamt fleiri opinberunum, gefnar út í Kirtland sem Kenning og sáttmálar. Með þeim viðbótar opinberunum, sem bæst höfðu við frá 1835, er bók þessi vitni um að Guð talar enn í dag með sínum lifandi spámanni, forseta kirkjunnar, kirkju hans til blessunar og leiðsagnar.

Kenningar Josephs Smith

Guð hefur ávallt veitt fólki sínu og kirkju leiðsögn með opinberunum.

Trúaratriðin 1:9: „Vér trúum öllu, sem Guð hefur opinberað, öllu, sem hann nú opinberar, og vér trúum að hann muni enn opinbera margt stórfenglegt og mikilvægt varðandi Guðs ríki.“4

„Við fáum ekki skilið það sem viðkemur Guði og himnum, nema fyrir opinberanir. Við getum tjáð skoðanir okkar og hafið þær upp í andlegt veldi, en það er án nokkurs valds.“5

„Kenningin um opinberun er hafin langt yfir kenninguna um enga opinberun, því ein sönn opinberun frá himni er meira virði en allar sértrúarhugmyndir sem til hafa verið.“6

„Sáluhjálp fæst ekki án opinberunar; tilgangslaust er fyrir nokkurn að reyna þjónustu án hennar. … Enginn maður getur verið þjónn Jesú Krists, nema hann eigi vitnisburð um Jesú, sem er andi spádómsgáfunnar [sjá Op 19:10]. Í hvert sinn sem sáluhjálp hefur verið þjónustuð, hefur það verið fyrir vitnisburð. Menn nú á tímum bera vitni um himin og helju, en hafa hvorugt litið augum, og ég fullyrði að enginn maður hefur vitneskju um þau án opinberunar.“7

„Jesús sagði í kennslu sinni: ,Á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast.‘ [Matt 16:18.] Hver er kletturinn? Opinberun.“8

„Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur beina opinberun að grundvelli, líkt og sönn kirkja Guðs hefur alltaf haft, samkvæmt ritningunni (Amos 3:7 og Post 1:2), og með vilja og blessun Guðs hef ég hingað til verið verkfæri í hans höndum, til að leiða fram málstað Síonar.“9

Í apríl 1834 talaði spámaðurinn á ráðstefnu kirkjunnar: „Joseph Smith forseti las annan kapítula í spádómum Jóels, baðst fyrir og ávarpaði söfnuðinn svohljóðandi: … ,Staða okkar er önnur en allra annarra sem lifað hafa á jörðinni, og því eiga fyrri opinberanir ekki við um okkar aðstæður. Þær voru veittar öðru fólki, sem var uppi á undan okkur, en á síðari dögum mun Guð kalla saman leifarnar, sem leystar verða, líkt og í Jerúsalem og Síon [sjá Jóel 2:32]. Ef Guð myndi ekki veita neinar opinberanir, hvar fyndum við þá Síon og þessar leifar?‘ …

Forsetinn greindi síðan frá opinberun um viðtöku og þýðingu Mormónsbókar, opinberun um Aronsprestdæmið, stofnun kirkjunnar árið 1830, opinberun um hið háa prestdæmi og gjöf heilags anda, sem úthellt er yfir kirkjuna, og sagði síðan: ,Takið Mormónsbók og opinberanirnar í burtu, og hvar er þá trú okkar? Við höfum enga.‘ “10

Forseti kirkjunnar er tilnefndur til að hljóta opinberun fyrir kirkjuna frá Guði; einstaklingar geta hlotið opinberun varðandi eigin ábyrgð.

„Jesús … setti í fyrsta lagi postula í kirkjuna, og í öðru lagi spámenn, til að sinna þjónustunni, fullkomna hina heilögu, o. s. frv.; … í samræmi við Amos 3:7 [er] hin mikla regla á himni sú, að ekkert yrði gjört á jörðu án þess að [Guð] hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“11

Í september árið 1830 fluttust Joseph og Emma frá Harmony, Pennsylavaníu, til Fayette, New York. Þegar þau komu þangað komust þau að því að sumir hinna heilögu höfðu verið blekktir með fölskum opinberunum: „Okkur til mikillar sorgar, … komumst við fljótt að því að Satan hafði beðið þess að geta blekkt og leitað þeirra sem hann gæti yfirbugað. Bróðir Hiram Page hafði í fórum sínum ákveðinn stein, sem hann hafði hlotið sérstaka ,opinberun‘ með um uppbyggingu Síonar, reglu kirkjunnar o. s. frv., sem var algjörlega andstæð reglu húss Guðs, eins og um er getið í Nýja testamentinu og einnig í okkar síðustu opinberunum. Ráðstefna hafði verið ákveðin 26. september og því taldi ég ráðlegt að ræða eingöngu um þetta málefni við bræðurna fram að ráðstefnu. En þegar okkur varð ljóst að margir trúðu sterkt á það sem fram kom með steininum, einkum Whitmerfjölskyldan og Oliver Cowdery, töldum við best að leita til Drottins með svo mikilvægt mál, og stuttu fyrir hina boðuðu ráðstefnu hlutum við eftirfarandi:

Opinberun ætluð Oliver Cowdery, veitt í Fayette, New York, í september 1830.

,… En sjá, sannlega, sannlega segi ég þér, að enginn skal útnefndur til að meðtaka boð og opinberanir í þessari kirkju, nema þjónn minn Joseph Smith yngri, því að hann meðtekur það, rétt eins og Móse. Og þú skalt hlýðinn því, sem ég mun gefa honum. …

Og þú skalt ekki segja honum fyrir verkum, sem yfir þig og kirkjuna er settur - Því að ég hef gefið honum lykla þeirra leyndardóma og opinberana, sem innsigluð eru, þar til ég útnefni þeim annan í hans stað. …

Og enn fremur skalt þú taka bróður þinn, Hiram Page, og segja honum í einrúmi, að það, sem hann hefur skrifað eftir þessum steini, sé ekki frá mér komið og að Satan blekki hann. Því að sjá, honum hefur ekki verið útnefnt þetta, og ekki skal heldur nokkrum í kirkjunni útnefnt það, sem er í mótsögn við sáttmála hennar.

Því að allt verður að gjörast með reglu og með almennri samþykkt kirkjunnar og með trúarbæn.‘ [K&S 28:2–3, 6–7, 11–13.] …

Loks kom að því að ráðstefnan hæfist. Málið varðandi steininn var rætt og eftir umtalsverða rannsókn hafnaði bróðir Page og allir viðstaddir meðlimir hinum fyrrnefnda steini og öllu sem honum tengdist, okkur til mikillar gleði og ánægju.“12

„Forsetarnir, eða [Æðsta] forsætisráðið, eru yfir kirkjunni; opinberanir á huga og vilja Guðs varðandi kirkjuna, koma aðeins frá því forsætisráði. Það er regla himins og kraftur og forréttindi [Melkísedeks] prestdæmisins. Það eru einnig forréttindi fyrir sérhvern þjón kirkjunnar að hljóta opinberanir, svo framarlega sem það varðar köllun hans og skyldu í kirkjunni.“13

„Við teljum okkur sjálfa ekki bundna því að taka á móti opinberun frá karli eða konu, án lögmætrar útnefningar þeirra, og fullnægjandi sönnunar á því að þau séu vígð til þess valds.

… Það er gegn reglu Guðs að einhver meðlimur kirkjunnar, eða einhver annar, hljóti fyrirmæli fyrir þá sem hafa æðra vald en hann sjálfur, því er ótilhlýðilegt að ljá því eyra. En hljóti einhver einstaklingur sýn eða vitrun frá himneskum sendiboða, er það aðeins ætlað honum til ávinnings og fræðslu, því grunvallarreglur, stjórnun og kenningar kirkjunnar felast í lyklum ríkisins.“14

Forseti kirkjunnar flytur okkur og kynslóð okkar tíma orð Guðs.

Þegar Heber C. Kimball þjónaði sem ráðgjafi Brighams Young forseta, sagði hann: „Bróðir Joseph Smith sagði oft við bróðir Brigham, mig og aðra, að hann væri okkur fulltrúi Guðs, til að kenna okkur, leiða okkur og vanda um við þá sem breyttu rangt.“15

Wilford Woodruff, fjórði forseti kirkjunnar, sagði: „Ég vísa til ákveðins fundar, sem ég sótti á mínum yngri árum í Kirtland. Á fundinum voru nokkrar athugasemdir gerðar … um hið lifandi orð og hið ritaða orð Guðs… . Einn leiðtogi kirkjunnar stóð upp, bryddaði upp á þessu máli og sagði: ,Þið hafið orð Guðs frammi fyrir ykkur hér í Biblíunni, Mormónsbók og Kenningu og sáttmálum; þið hafið hin rituðu orð Guðs, og þið sem gefið opinberanir ættuð að gefa þær í samræmi við þessar bækur, því það sem þar er ritað er orð Guðs. Við ættum að takmarka okkur við þær.‘

Þegar hann hafði lokið máli sínu, sneri Joseph sér að Brigham Young og sagði: ,Bróðir Brigham, ég vil að þú takir afstöðu og segir okkur skoðanir þínar á hinu lifandi orði og hinu ritaða orði Guðs.‘ Bróðir Brigham stóð upp, tók Biblíu og lagði hana við hlið sér, tók Mormónsbók og lagði hana við hlið sér, og loks tók hann Kenningu og sáttmála og lagði hana við hlið sér og sagði síðan: ,Hér er hið ritaða orð sem Guð hefur fært okkur, um verk Guðs frá upphafi veraldar, næstum fram á okkar tíma. Og nú,‘ sagði hann, ,þegar það er borið saman við hið lifandi orð, hafa bækur þessar litla þýðingu fyrir mig. Bækur þessar færa okkur sjálfum ekki orð Guðs, líkt og orð spámannsins gerir eða þess sem hefur hið helga prestdæmi á tíma okkar kynslóðar. Ég kysi fremur hið lifandi orð, fremur en öll rit bókanna.‘ Þetta var sú stefna sem hann fylgdi. Þegar hann hafði lokið máli sínu, sagði bróðir Joseph við söfnuðinn: ,Bróðir Brigham hefur greint ykkur frá orði Drottins og sagt ykkur sannleikann.‘ “16

Brigham Young, annar í röðinni af forsetum kirkjunnar, sagði: „Fyrir mörgum árum sagði spámaðurinn Joseph, að ef fólkið hefði hlotið þær opinberanir sem hann hefði hlotið, og breytt skynsamlega eftir þeim, líkt og Drottinn hefði boðið, hefði máttur þeirra til starfa og skilnings veitt þeim margra ára forskot.“17

Við styðjum forseta kirkjunnar og aðra leiðtoga með því að biðja fyrir þeim og hlíta leiðsögn þeirra.

Joseph Smith skráði eftirfarandi, sem gerðist við vígslu Kirtland-musterisins 27. mars 1836: „Ég hélt stutt ávarp og bauð sveitunum og öllum söfnuði hinna heilögu að samþykkja [Æðsta] forsætisráðið sem spámenn og sjáendur, og styðja það í bænum sínum. Þau gerðu öll sáttmála um það með því að rísa á fætur.

Þessu næst bauð ég sveitunum og söfnuði hinna heilögu að samþykkja postulana tólf, sem viðstaddir voru, sem spámenn, sjáendur og opinberara og sérstök vitni öllum þjóðum jarðar, að þeir hafi lykla ríkisins, til að ljúka því upp, eða láta gera það, og styðja þá í bænum sínum, sem þau og samþykktu með því að rísa á fætur.

Þessu næst bauð ég sveitunum og söfnuði hinna heilögu að samþykkja forseta hinna Sjötíu … og styðja þá í bænum sínum, sem þau gerðu með því að rísa á fætur. …

Í öllum tilvikum voru atkvæðin samhljóma og ég spáði fyrir öllum, að svo framarlega sem þau myndu styðja þessa menn í hinum ýmsu stöðum þeirra, … myndi Drottinn blessa þau; já, í nafni Jesú Krists myndu blessanir himins verða þeirra.“18

„Við skulum halda uppi höndum þeirra sem útnefndir eru til að stjórna málefnum ríkisins, líkt og þeir sem héldu uppi höndum Móse [2 Mós 17:8–13], svo þeir hljóti styrk og þeim verði kleift að fylgja eftir hinu mikla skipulagi og vera verkfæri við framkvæmd hins mikla verks síðustu daga.“19

„En ef menn sinna aðeins verkum sínum sé þeim boðið það og mögla stöðugt undan þeim, verða þau einskis nýt, þeir gætu rétt eins sleppt þeim. Þeir eru til sem segjast vera heilagir, en hneigjast til að mögla og finna að þegar einhver leiðsögn er veitt sem andstæð er tilfinningum þeirra, jafnvel þótt þeir sjálfir æski leiðsagnar; og mögla jafnvel enn meira sé leiðsögn sem ekki fellur að skoðunum þeirra veitt óumbeðið. En bræður, við væntum einhvers betra af flestum ykkar, við reiðum okkur á að þið þráið leiðsögn og hlítið henni ætíð með gleði þegar ykkur gefst hún frá lögmætum aðila.“20

Eliza R. Snow skráði: „[Joseph Smith] varpaði fram þeirri spurningu, að hafi Guð útnefnt sig og útvalið sem verkfæri til að leiða kirkjuna, hvers vegna væri honum þá ekki gert kleift að leiða hana? Hvers vegna að standa í vegi hans, sé hann útnefndur til að gera það? Hver þekkir hugsanir Guðs? Opinberar hann ekki mál á annan hátt en við væntum? [Spámaðurinn] sagðist stöðugt þurfa að rísa upp að nýju, jafnvel þótt allt legðist á eitt við að halda honum niðri, standa í vegi hans og vera á móti honum. En þrátt fyrir alla þessa andstöðu sigraðist hann alltaf á henni að lokum. …

Hann ávítaði þá sem fundu að stjórnun kirkjunnar og sagði Guð hafa kallað sig til að leiða kirkjuna, og hann myndi leiða hana á réttan hátt. Þeir sem reyndu að skipta sér af myndu fyrirverða sig þegar þeirra eigin glópska verður gerð sýnileg.“21

Þeir sem hafna hinum lifandi spámanni munu hefta eigin framþróun og kalla yfir sig dóma Guðs.

„Þótt öll þekking komi bókstaflega frá Guði, hafa menn ekki lagt trúnað á að um opinberun sé að ræða á þeim tíma sem hún var gefin. …

Nói var maður fullkominn og þekking hans eða opinberanir um það sem átti eftir að gerast á jörðinni veitti honum þrótt til að búa sig sjálfan og fjölskyldu sína undir björgunina frá tortímingu flóðsins. Íbúar jarðarinnar trúðu ekki … þessari þekkingu, eða opinberun. Þeir vissu að Adam var fyrsti maðurinn sem gerður var í mynd Guðs, að Enok gekk með Guði í þjú hundruð sextíu og fimm ár, og var numinn upp til himins án þess að smakka dauðann. En þeir gátu ekki meðtekið hina nýju opinberun. Hugsunin var þessi: Við trúum hinum fornu, því feður okkar gerðu það, en viljum engar nýjar opinberanir. Og flóðið sópaði þeim í burtu. …

Þessi sama regla … kom greinilega í ljós meðal Gyðinga þegar frelsarinn kom í holdinu. [Þeir] stærðu sig af hinum fornu opinberunum, skreyttu grafhvelfingar hinna dánu, guldu tíund af myntu og anís, fluttu langar bænir með uppgerð og fóru yfir sjó og lönd til að boða trú, en þegar hin nýja opinberun kom af munni hins mikla Ég er, gátu þeir ekki meðtekið hana - það reyndist þeim of erfitt. Hún sýndi siðspillingu þeirrar kynslóðar, líkt og þeirra sem á undan komu, og fólkið hrópaði: Burt með hann, krossfestið hann! …

Enn að nýju var þessi sama leið farin og sama mál notað þegar Momónsbók barst þessari kynslóð. Hin forna opinberun, hinir fornu patríarkar, pílagrímar og postular, voru heiðraðir. Við höfum trú á þeim, en hina nýju getum við ekki meðtekið.“22

„Heimurinn hefur alltaf álitið falsspámenn vera sanna, en þá sem sendir voru af Guði töldu þeir falska og drápu þá, grýttu, misþyrmdu og fangelsuðu. Hinir sönnu spámenn þurftu að fara í felur og reika um ,óbyggðir og fjöll og [hafast] við í hellum og gjótum‘ [sjá Hebr 11:38], og þótt þeir væru heiðvirðustu menn jarðar, voru þeir gerðir útlægir frá samfélaginu, líkt og flækingar, en samtímis létu menn sér annt um, virtu og studdu bragðarefi, ónytjunga, hræsnara, svikara og hina auvirðilegustu meðal manna.“23

„Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvort þessi kynslóð myndi hafna Kristi, ef hann kæmi til jarðar og prédikaði jafn óþægilega hluti og hann prédikaði fyrir Gyðingunum. … Margir munu segja: ,Ég mun aldrei yfirgefa þig, heldur alltaf standa með þér.‘ En um leið og þið kennið þeim suma leyndardóma Guðs ríkis, sem varðveittir eru á himnum, og opinberaðir verða mannanna börnum þegar þau eru undir það buin, munu slíkir verða fyrstir til að grýta ykkur til dauða. Það var eftir þessari reglu sem Drottinn Jesús Kristur var krossfestur og fólkið myrti spámenn þeirrar kynslóðar.

Á síðustu dögum verður margt [óskiljanlegt] mannanna börnum: Að Guð muni til að mynda reisa upp hina dánu. [Þau gleyma] að það sem hulið hefur verið allt frá grundvöllun veraldar, mun opinberað ungbörnum á hinum síðustu dögum.

Margir miklir og vitrir karlar og konur eru meðal okkar, svo vitur að ekki er mögulegt að kenna þeim, þess vegna munu þau deyja í vanþekkingu og skynja mistök sín í upprisunni. Margir loka dyrum himins með því að segja: Að vissu marki kann Guð að opinbera, og ég mun trúa. …

Það hefur ávallt verið þannig, þegar maður er sendur af Guði með prestdæmið og hann tekur að prédika fagnaðarerindið í fyllingu sinni, að vinir hans vörpuðu honum burt og voru reiðubúnir að slátra honum, ef hann kenndi eitthvað sem þeir töldu rangt. Jesús var krossfestur samkvæmt þessari reglu.“24

„ Vei, vei sé þeim sem lyfta höndum sínum mót Guði og hans vitnum á hinum síðari dögum, því þeir munu næstum ná að blekkja hina útvöldu!

… Þegar maðurinn fer um og spáir og gefur mönnum fyrirmæli um að hlýða kenningum sínum er hann annað hvort sannur eða falskur spámaður. Falsspámenn koma ávallt fram og andmæla hinum sönnu spámönnum, og þeir munu spá svo nærri sannleikanum að þeir munu næstum geta blekkt hina útvöldu.“25

„Afleiðing þess að hafna fagnaðarerindi Jesú Krists og þeim spámönnum sem Guð sendir er sú að dómar Guðs vofa yfir fólki, borgum og þjóðum, á hinum ýmsu öldum heims, líkt og í tilviki borganna Sódómu og Gómorru, sem eyddar voru fyrir að hafna spámönnunum.“26

William P. McIntire sagði: „[Joseph Smith] spáði að allir þeir sem fara léttilega með þær opinberanir sem veittar voru, og með hann og orð hans, myndu brátt gráta lengi og kveina, … og segja: ,Ó! að við hefðum hlítt orði Guðs og þeim opinberunum sem veittar voru.‘ “27

Ábendingar um nám og kennslu

Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.

  • Lesið frásögnina á bls. 189–91, veitið athygli hvað fyrri meðlimum kirkjunnar fannst um opinberanirnar sem Joseph Smith hlaut. Hverjar eru tilfinningar ykkar varðandi Kenningu og sáttmála?

  • Lesið fjórðu málsgreinina á bls. 192. Hvers vegna haldið þið að „sáluhjálp [fáist] ekki án opinberunar“?

  • Lesið bls. 193–94. Hvers vegna haldið þið að fólk láti stundum blekkjast, líkt og í frásögninni um Hiram Page? Hvað getum við gert til að forðast að láta blekkjast af falsspámönnum eða falskenningum?

  • Lesið þrjár síðustu málsgreinarnar á bls. 194 og málsgreinina sem nær yfir á bls. 198. Hvaða ávinning höfum við af því að hafa aðeins einn mann til að taka á móti öllum opinberunum fyrir kirkjuna í heild? Hvaða reynslu getið þið miðlað, þar sem Drottinn hefur veitt ykkur leiðsögn við ákveðnar skyldur?

  • Lesið á bls. 195–96 það sem Joseph Smith og Brigham Young sögðu þegar maður einn sagði að okkur bæri að halda okkur aðeins við opinberanirnar sem skráðar væru í ritningunum.Hvað vantaði í líf okkar, ef við héldum okkur aðeins við helgiritin og hlýddum ekki á orð lifandi spámanns? Hvað getum við gert til að fylgja leiðsögn Brighams Young?

  • Hvað getum við gert til að styðja spámann kirkjunnar og aðra leiðtoga hennar? (Sjá dæmi á bls. 196-197.) Hvaða leiðsögn veitti spámaður kirkjunnar á síðustu aðalráðstefnu? Hvernig hafið þið verið blessuð fyrir að fylgja spámanninum og öðrum leiðtogum kirkjunnar?

  • Á hvaða hátt hafnaði fólkið spámönnum Guðs? (Sjá dæmi á bls. 197–200.) Hverjar eru mögulegar afleiðingar þess að velja að fylgja ekki leiðsögn þeirra sem Drottinn hefur útvalið til að leiða kirkju sína?

Ritningargreinar tengdar efninu: Okv 29:18; Jakob 4:8 ; 3 Ne 28:34; Morm 9:7–9; K&S 21:1–6

Heimildir

  1. Parley P. Pratt, Autobiography of Parley P. Pratt, ritst. af Parley P. Pratt yngri (1938), bls. 62; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  2. “The Conference Minutes and Record Book of Christ’s Church of Latter Day Saints 1838-39; 1844,” færsla fyrir 2. nóvember 1831, bls. 16, John Whitmer sagði frá, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah. Þessi skýrslubók geymir skýrslur frá 1830 til 1844.

  3. History of the Church, 1:235; “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 172-73, Skjalasafn kirkjunnar.

  4. Trúaratriðin 1:9.

  5. History of the Church, 5:344; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 8. apríl 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Willard Richards og William Clayton.

  6. History of the Church, 6:252; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 10. mars 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  7. History of the Church, 3:389–90; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt í júlí 1839, í Commerce, Illinois; skráð af Willard Richards.

  8. History of the Church 5:258; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 22. janúar 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  9. History of the Church, 6:9; úr Joseph Smith, “Latter Day Saints,” í samant. I. Daniels Rupp, He Pasa Ekklesia [The Whole Church]: An Original History of the Religious Denominations at Present Existing in the United States (1844), bls. 404.

  10. History of the Church, 2:52; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr fundagerðarbók kirkjuráðstefnu sem haldin var 21. apríl 1834, í Norton, Ohio; skráð af Oliver Cowdery.

  11. “Baptism,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 1. sept. 1842, bls. 905; stafsetning færð í nútímahorf; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins..

  12. History of the Church, 1:109–11, 115; greinaskilum bætt við; úr “History of the Church” (handrit), bók A-1, bls. 58-55, 58, Skjalasafn kirkjunna; dagsetning um komu Josephs og Emmu til Fayette er ranglega gefin sem ágúst 1830 í History of the Church.

  13. History of the Church, 2:477; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 6. apríl 1837, í Kirtland, Ohio; skráð af Messenger and Advocate, apríl 1837, bls. 487.

  14. History of the Church, 1:338; úr bréfi frá Joseph Smith og Frederick G. Williams til Johns S. Carter, 13. apríl 1833, Kirtland, Ohio.

  15. Heber C. Kimball, Deseret News, 5. nóv. 1856, bls. 274.

  16. Wilford Woodruff, í Conference Report, október 1897, bls. 22–23; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við.

  17. Brigham Young, Deseret News, 9. des. 1857, bls. 316.

  18. History of the Church, 2:417–18; færsla úr dagbók Josephs Smith, 27. mars 1836, Kirtland, Ohio; sjá einnig Messenger and Advocate, mars 1836, bls. 277.

  19. History of the Church, 4:186; úr bréfi frá Joseph Smith og ráðgjöfum hans í Æðsta forsætisráðinu til hinna heilögu, sept. 1840, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, okt. 1840, bls. 178.

  20. History of the Church, 4:45, neðanmálstexti; úr bréfi frá Æðsta forsætisráði og háprestum til hinna heilögu sem bjuggu í vesturhluta Kirtland, Ohio, 8. des. 1839, Commerce, Illinois, birt í Times and Seasons, des. 1839, bls. 29.

  21. History of the Church, 4:603-4; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 28. apríl í Nauvoo, Illinois; skráð af Eliza R. Snow; sjá einnig viðauka, bls. 562, atriði 3.

  22. “Knowledge Is Power,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 15. ágúst 1842, bls. 889-90; stafsetning færð í nútímahorf; skáletri sleppt; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  23. History of the Church, 4:574; stafsetning færð í nútímahorf; úr “Try the Spirit,” ritstjórnargrein birt í Times and Seasons, 1. apríl 1842, bls. 744; Joseph Smith var ritstjóri tímaritsins.

  24. History of the Church, 5:423 –25; stafsetning færð í nútímahorf; greinaskilum bætt við; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 11. júní 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff og Willard Richards; sjá einnig viðauka, bls. 562, aatriði 3.

  25. History of the Church, 6:364; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  26. History of the Church, 5:526-574; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 22. jan. 1843, í Nauvoo, Illinois; skráð af Wilford Woodruff.

  27. William P McIntire, skráður fyrirlestur sem Joseph Smith hélt snemma 1841 í Nauvoo, Illinois; William Patterson McIntire, Notebook 1840-45, Skjalasafn kirkjunnar.

Joseph receiving revelation

Þegar spámaðurinn hlaut opinberanir, voru kirkjuleiðtogar oft í návist hans og einhver þeirra skráði þau orð sem hann hlaut frá Drottni.

Heber C. Kimball

Heber C. Kimball

Noah preaching

„Nói var maður fullkominn en íbúar jarðarinnar höfðu ekki trú á þekkingu hans eða opinberunum um það sem átti eftir að gerast á jörðinni.”