Kenningar forseta
Ævi og þjónusta Josephs Smith


Ævi og þjónusta Josephs Smith

„Joseph Smith, spámaður og sjáandi Drottins, hefur að Jesú einum undanskildum, gjört meira manninum til sáluhjálpar í þessum heimi en nokkur annar, sem lifað hefur í honum“ (K&S 135:3). Þessi undraverða yfirlýsing lýsir manni sem var aðeins 14 ára þegar hann var kallaður af Guði og lifði til 38 ára aldurs. Frá fæðingu Josephs Smith í Vermont í desember 1805, fram að átakanlegum dauða hans í Illinois í júní 1844, áttu dásamlegir atburðir sér stað. Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, birtust honum og kenndu honum meira um eðli Guðs en áður hafði þekkst um aldir. Fornir spámenn og postular veittu Joseph hið heilaga vald prestdæmisins, og gerðu hann að nýju, lögmætu vitni Guðs í þessari síðustu ráðstöfun. Óviðjafnanleg úthelling á þekkingu og kenningu var opinberuð með spámanninum, þar með talið Mormónsbók, Kenning og sáttmálar og Hin dýrmæta perla. Fyrir hans tilstilli var hin sanna kirkja Drottins enn á ný stofnuð á jörðinni.

Á okkar tímum heldur það verk áfram um allan heim sem hófst með Joseph Smith. Wilford Woodruff forseti bar vitni um spámanninn Joseph Smith: „Hann var spámaður Guðs og lagði grundvöll að æðsta verki og ráðstöfun sem nokkru sinni hefur verið unnið á jörðu.“1

Ætterni og barnæska

Joseph Smith var Bandaríkjamaður í sjöttu-kynslóð en forfeður hans fluttu frá Englandi til Ameríku á sautjándu öld. Forfeður spámannsins voru dæmigerðir um það sem oft einkenndi fyrri kynslóðir Ameríkumanna: Þeir trúðu á kærleiksríka leiðsögn Guðs, voru hörkuduglegir til vinnu og þjónuðu fjölskyldum sínum og landi af kostgæfni.

Foreldrar Josephs Smith, Joseph Smith eldri og Lucy Mack Smith, giftu sig árið 1796 í Tunbridge, Vermont. Þau voru vinnusöm og guðhrædd og hófu hjónaband sitt við hagstæðar fjárhagslegar kringumstæður. Til allrar ólukku missti Joseph Smith eldri fyrsta sveitabýlið sitt og þurfi að glíma við mikla fjárhagserfiðleika næstu árin á eftir. Smith-fjölskyldan neyddist til að flytja nokkrum sinnum er heimilisfaðirinn reyndi að fá vinnu við að yrkja hinar skógivöxnu hæðir í Nýja Englandi, gerast verktaki á öðrum sveitabýlum, stunda verslunarstörf eða skólakennslu.

Joseph Smith yngri var fæddur í Sharon í Vermont 23. desember 1805 og var fimmti í röðinni af ellefu börnum. Hann var látinn heita eftir föður sínum. Börn Smith-hjónanna voru þessi í aldursröð: Ónefndur sonur (sem lést stuttu eftir fæðingu), Alvin, Hyrum, Sophronia, Joseph, Samuel, Ephraim (sem lifði í tæpar tvær vikur), William, Katharine, Don Carlos og Lucy.2

Hinir sérstöku persónukostir spámannsins komu snemma í ljós á ævi hans. Smith-fjölskyldan átti heima í West Lebanon, New Hampshire, þegar slæm taugaveiki kom upp og lagðist þungt á marga í samfélaginu, þar á meðal öll börn Smith-hjónanna. Öll börnin náðu sér án vandkvæða nema Joseph, sem var um sjö ára, en hann fékk alvarlega sýkingu í vinstri fótlegg sinn. Nathan Smith læknir í Dartmouth-læknaskólanum, nærri Hanover, í New Hampshire, samþykkti að gera á honum nýþróaða skurðaðgerð til að reyna að bjarga fæti hans. Þegar Smith læknir og samstarfsmenn hans bjuggu sig undir skurðaðgerðina, bað Joseph móður sína um að yfirgefa herbergið, svo hún þyrfti ekki að horfa upp á þjáningar hans. Hann neitaði að drekka áfengi til að deyfa sársaukann og reiddi sig aðeins á stuðning föður síns. Joseph stóðst hugrakkur þegar læknirinn skar burtu flís úr beininu í fótlegg hans. Skurðaðgerðin tókst vel, jafnvel þótt Joseph hafi þurft að ganga við hækjur næstu árin og haltra örlitið allt sitt líf.

Eftir að Joseph Smith eldri hafði orðið fyrir uppskerubresti, flutti hann árið 1816 með fjölskyldu sína frá Norwich í Vermont til Palmyra, New York, í þeirri von að úr rættist fyrir þeim. Spámaðurinn sagði síðar á ævi sinni: „Við urðum að leggja hart að okkur við að brauðfæða marga munna í þeirri fátækt sem við bjuggum við…, og það krafðist áreynslu allra sem eitthvað gátu lagt af mörkum til framfærslu fjölskyldunnar og því áttum við ekki kost á að afla okkur einhverrar menntunar. Ég læt nægja að segja að ég hafi aðeins fengið tilsögn í lestri, skrift og helstu reglum talnafræði.“3

Fyrsta sýnin

Joseph Smith skrifaði um þá kennslu sem hann hlaut í æsku: „Ég fæddist … af góðum foreldrum, sem ekkert drógu af sér við að kenna mér kristin trúarbrögð.“4 En foreldrar Josephs gerðu sér grein fyrir, líkt og margir aðrir kristnir, að sumar reglur fagnaðarerindisins sem Jesús og postular hans kenndu væru ekki fyrir hendi í samtíða kirkjum. Í Palmyra, árið 1820, reyndu ýmis kristin trúfélög að vinna fólk á sitt band. Móðir Josephs, tveir bræður hans og eldri systir gengu í söfnuð presbytera á svæðinu, en Joseph, ásamt föður sínum og Alvin bróður sínum, gerði það ekki. Þótt Joseph væri aðeins drengur, hafði hann miklar áhyggjur af stöðu sinni frammi fyrir Guði og ringulreiðinni sem ríkti meðal hinna ýmsu trúfélaga.

Þegar Joseph lærði ritningarnar 14 ára gamall, varð hann fyrir áhrifum af ritningargrein í Jakobsbréfinu: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefið“ (Jakbr 1:5). Innblásinn af þessu loforði Drottins fór Joseph út í skógarlund nærri heimili sínu vordag einn 1820. Hann kraup og tók að gera Guði grein fyrir þrá hjarta síns. Hann hafði varla gert þetta, þegar myrkraöfl gagntóku hann og buguðu gersamlega, svo hann óttaðist skjóta tortímingu. Síðan, sem svar við heitri bæn hans, lukust himnarnir upp og honum var bjargað undan þessum ósýnilega óvini. Í ljósstólpa, skærari en sólin, sá hann tvær verur standa fyrir ofan sig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði drenginn með nafni og sagði: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“ (Joseph Smith – Saga 1:17).

Í þessari dýrðlegu sýn birtust Guð faðirinn og sonur hans, Jesús Kristur, hinum unga Joseph í eigin persónu. Joseph ræddi við frelsarann, sem bauð Joseph að ganga ekki í neina þeirra kirkna sem uppi voru á hans tíma, því þeim „skjátlaðist öllum“ og að „allar játningar þeirra væru viðurstyggð í [hans] augum. … [Þær kenndu] boðorð manna, sem [væru] guðleg að formi til, en [þær afneituðu] krafti þeirra“ (Joseph Smith – Saga 1:19). Joseph var einnig lofað „að fylling fagnaðarerindisins yrði á komandi tíð gerð honum kunnug.“5 Eftir margra alda myrkur var orð Guðs og raunveruleiki Guðs föðurins og sonar hans, Jesú Krists, opinberað heiminum fyrir tilverknað þessa unga og hreina pilts.

Vitjanir Morónís

Þrjú ár liðu, á þeim tíma lýsti Joseph Smith því yfir að hann hefði séð Guð og kom fólkið í bæjarfélaginu fram við hann af fyrirlitningu og hæddi hann. Hinn ungi spámaður, sem var orðinn 17 ára, íhugaði hvað biði hans. Að kvöldi hinn 21. september 1823 bað hann af einlægni um leiðbeiningar og fyrirgefningu fyrir bernsku „syndir [sínar] … og heimsku“ (Joseph Smith – Saga 1:29). Sem svar við bæn hans fylltist þakherbergið hans af ljósi og himneskur sendiboði nefndur Moróní birtist. Joseph minntist: „[Hann] kynnti sig sem engil Guðs, sem sendur væri til að boða gleðitíðindi; að sáttmálinn sem Guð gerði við hinn forna Ísrael væri að uppfyllast, að undirbúningsverkið fyrir síðari komu Messíasar myndi fljótlega hefjast; að tíminn nálgaðist er fylling fagnaðarerindisins yrði prédikuð með krafti, til allra þjóða svo fólkið gæti búið sig undir Þúsundáraríkið. Mér var sagt að ég væri útvalinn sem verkfæri í höndum Guðs til að vinna að áætlun hans í þessari dýrðlegu ráðstöfun.“6

Moróní sagði Joseph einnig að safn af fornum ritum, ristuð á gulltöflur af fornum spámönnum, væri grafið í nálægri hæð. Þessi helgu rit segðu frá fólki sem Guð leiddi frá Jerúsalem til vesturhvels jarðar 600 árum fyrir fæðingu Jesú. Moróní var síðasti spámaðurinn meðal þessa fólks og hafði falið heimildirnar, sem Guð lofaði að leiða fram á þessum síðustu dögum. Joseph Smith átti að þýða þetta helga verk yfir á ensku.

Næstu fjögur árin átti Joseph að hitta Moróní á hæðinni hinn 22. september til að hljóta frekari þekkingu og fyrirmæli. Hann þurfti á þessum undirbúningsárum og persónulegri siðfágun að halda, til að geta þýtt hinar fornu heimildir. Hann þurfti að vera verkinu vaxinn til að leiða þetta verk í því augnamiði að sannfæra „Gyðingana og Þjóðirnar, um að Jesús er Kristur, Hinn eilífi Guð, er opinberar sig öllum þjóðum“ (titilsíða Mormónsbókar).

Stofnun ríkis Guðs á jörðu

Þýðing Mormónsbókar hefst

Meðan Joseph Smith beið eftir að hljóta gulltöflurnar, hjálpaði hann við að sjá fyrir stundlegum þörfum fjölskyldu sinnar. Árið 1825 fór hann til Harmony, Pennsylvaníu, til að vinna fyrir Josiah Stowell. Þar bjó hann hjá fjölskyldu Isaacs og Elizabeth Hale og hitti dóttur þeirra Emmu sem var skólakennari, hávaxin og dökkhærð. Hinn 18. janúar 1827 giftust Joseph og Emma í Suður-Bainbridge í New York. Þó að reynt væri á hjónaband þeirra með dauða barna þeirra, fjárhagserfiðleikum og tíðri fjarveru Josephs frá heimilinu vegna skyldustarfa, var ást Josephs og Emmu hvort til annars alltaf mjög innileg.

Hin 22. september 1827, fjórum árum eftir að Joseph leit töflurnar fyrst augum, var honum loksins treyst fyrir þeim. En um leið og þær voru í fórum hans voru ítrekaðar og ákafar tilraunir gerðar af bæjarmúgnum til að stela þeim. Til að forðast þessar ofsóknir sneru Joseph og Emma aftur til Harmony í desember 1827, þar sem foreldrar Emmu bjuggu. Þegar þau höfðu komið sér fyrir þar, hóf Joseph að þýða töflurnar.

Snemma árs 1828 hlaut Martin Harris, efnaður bóndi frá Palmyra, vitnisburð um hið síðari daga verk Drottins og fór til Harmony til að hjálpa Joseph við þýðinguna. Í júní sama ár var þýðingarhandrit Josephs Smith 116 blaðsíður. Martin bað spámanninn ítrekað um leyfi til að taka handritið heim með sér til Palmyra og sýna það ákveðnum fjölskyldumeðlimum. Spámaðurinn fór til Drottins með þessa beiðni, en var neitað. Hann spurði Drottin í tvö önnur skipti, og loks fékk Martin leyfi til að taka með sér handritið. Meðan handritið var í Palmyra glataðist það og skilaði sér aldrei aftur. Drottinn tók Úrím og Túmmím og töflurnar frá spámanninum um tíma og yfirgaf hann auðmjúkan og iðrandi. Í opinberun frá Drottni hlaut Joseph skilning á því að honum bæri að óttast Guð meira en menn (sjá K&S 3). Eftir þessa reynslu auðkenndist líf hans af því að fylgja fyrirmælum Drottins af algjörri hollustu, þótt hann væri aðeins 22 ára gamall.

Hinn 5. apríl 1829 kom Oliver Cowdery, sem var skólakennari og einu ári yngri en Joseph, á heimili Josephs í Harmony. Hann hafði verið bænheyrður og hlotið vitnisburð um sannleiksgildi verks spámannsins. Tveimur dögum síðar hófst þýðingarstarfið að nýju, með Joseph sem upplesara og Oliver sem ritara.

Endurreisn prestdæmis Guðs

Þegar Joseph og Oliver unnu að þýðingu Mormónsbókar, lásu þeir frásögnina um það þegar frelsarinn vitjaði Nefíta til forna. Það leiddi til þess að þeir leituðu til Drottins eftir leiðsögn um skírn. Hinn 15. maí fóru þeir að bökkum Susquehanna-fljótsins, nærri heimili Josephs í Harmony, til bænargjörðar. Þeim til undr unar vitjaði þeirra himnesk vera og kynnti sig sem Jóhannes skírara. Hann veitti þeim Aronsprestdæmið og gaf þeim fyrirmæli um að skíra og vígja hvor annan. Síðar, eins og lofað var af Jóhannesi skírara, birtust þeim Joseph og Oliver einnig hinir fornu postular, Pétur, Jakob og Jóhannes, og veittu þeim Melkísedeksprestdæmið og vígðu þá sem postula.

Fyrir þessa vitjun höfðu Joseph og Oliver hlotið þekkingu og trú. En eftir vitjun þessara himnesku sendiboða, höfðu þeir einnig valdsumboð – en prestdæmiskraftur og valdsumboð Guðs er nauðsynlegt til að stofna kirkju hans og framkvæma helgiathafnir sáluhjálpar.

Útgáfa Mormónsbókar og stofnun kirkjunnar

Í apríl og maí 1829 trufluðu ofsóknir í auknum mæli þýðingarstarf spámannsins á heimili hans í Harmony. Af því leiddi að Joseph og Oliver fluttu um stundarsakir í bæjarumdæmið Fayette, New York, til að ljúka þýðingunni á heimili Peters Whitmer eldri. Þýðingunni lauk svo í júní, tæpum þremur mánuðum eftir að Oliver hóf þjónustu sína sem ritari spámannsins. Í ágúst hafði Joseph gert samning við útgefandann Egbert B. Grandin frá Palmyra um að prenta bókina. Martin Harris lét herra Grandin fá veð í býlinu sínu til að greiðsla yrði tryggð fyrir prentunina, og síðar seldi hann 61 hektara af landi sínu til að greiða skuldina og létta af veðinu. Mormónsbók var fáanleg almenningi til kaups í bókabúð Grandins hinn 26. mars 1830.

Hinn 6. apríl 1830, aðeins ellefu dögum eftir að Mormónsbók var auglýst til sölu, var um 60 manna hópur kominn saman í bjálkahúsi Peters Whitmer eldri í Fayette, New York. Þar stofnaði Joseph Smith kirkjuna formlega og fékk hún síðar nafnið Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, eftir opinberun (sjá K&S 115:4). Það var gleðistund og andanum var ríkulega úthellt. Sakramentið var þjónustað, hinir trúuðu voru skírðir og þeim veitt gjöf heilags anda, og menn voru vígðir prestdæminu. Í opinberun sem veitt var meðan á samkomunni stóð var Joseph Smith kallaður af Drottni sem leiðtogi kirkjunnar: „Sjáandi, þýðandi, spámaður, postuli Jesú Krists og öldungur kirkjunnar fyrir vilja Guðs föðurins og náð Drottins yðar Jesú Krists“ (K&S 21:1) Kirkja Jesú Krists var enn á ný stofnsett á jörðunni.

Kirtland, Ohio: Útbreiðsla kirkjunnar

Af eldmóði deildu meðlimir kirkjunnar sannleikanum sem þeir höfðu fundið og því breiddist kirkjan ört út á upphafsárum sínum. Fljótlega voru stofnaðar greinar í borgunum Fayette, Manchester og Colesville í New York. Í september 1830, stuttu eftir að Joseph og Emma fluttu frá Harmony, Pennsylvaníu, til Fayette, opinberaði Drottinn spámanninum að trúboðar skyldu „fara til Lamanítanna,“ sem bjuggu vestast í Missouri (K&S 28:8). Á ferðalagi sínu fóru trúboðarnir um Kirtland, Ohio, á landssvæði þar sem þeir hittu trúarhóp sem leitaði sannleikans og um 130 þeirra snerust til trúar, að meðtöldum Sidney Rigdon, sem síðar varð meðlimur Æðsta forsætisráðsins. Hinum heilögu fjölgaði um nokkur hundruð manns, eftir að meðlimir höfðu miðlað öðrum fagnaðarerindinu.

Eftir því sem vöxtur kirkjunnar varð meiri í New York, jókst mótlætið einnig. Í desember 1830 hlaut spámaðurinn opinberun þar sem meðlimum var boðið að „fara til Ohio“ (K&S 37:1), sem var í yfir 400 kílómetra fjarlægð. Á næstu mánuðum seldi meiri hluti hinna heilögu eignir sínar í New York, oft með mikilli eftirsjá, en sú fórn var nauðsynleg til samansöfnunar í Kirtland, Ohio. Joseph og Emma Smith voru meðal þeirra fyrstu sem hófu för til Ohio, og komu þau til Kirtland um það bil 1. febrúar 1831.

Tveir staðir til samansöfnunar hinna heilögu

Í júní árið 1831, meðan kirkjan í Kirtland efldist stöðugt, gaf Drottinn spámanninum og öðrum leiðtogum kirkjunnar fyrirmæli um að fara til Missouri. Þar átti hann að kunngjöra þeim „erfðaland [þeirra]“ (sjá K&S 52:3–5, 42–43). Í júní og júlí 1831 ferðaðist spámaðurinn, ásamt öðrum, tæplega 1.450 kílómetra frá Kirtland til Jackson-sýslu, Missouri, sem var vestasti hluti amerískrar byggðar. Stuttu eftir að þangað kom, hlaut spámaðurinn opinberun frá Drottni þar sem sagt var: „Missouri er landið … sem ég hef útnefnt og helgað til samansöfnunar hinna heilögu. Þetta er þess vegna fyrirheitna landið og borgarstæði Síonar. … Sá staður, sem nú kallast Independence, er miðpunkturinn, og spildan undir musterið liggur í vestur“ (K&S 57:1–3).

Til að spádómar fornra spámanna Biblíunnar uppfylltust, hóf hinn 25 ára gamli Joseph Smith að leggja grundvöll Síonarborgar í Ameríku. Í ágúst 1831 var hann í forsæti þegar landssvæðið var helgað til samansöfnunar og musterislóð vígð. Stuttu síðar hélt spámaðurinn aftur til Ohio, þar sem hann hvatti hina staðföstu til að safnast til Missouri. Hundruð hinna heilögu tókust á við hina erfiðu ferð að jaðri landnáms Ameríku 19. aldar og náðu til hinna nýju heimkynna sinna í Missouri.

Frá 1831 til 1838, bjuggu meðlimir kirkjunnar bæði í Ohio og Missouri. Spámaðurinn, meðlimir Tólfpostulasveitarinnar og margir aðrir meðlimir kirkjunnar bjuggu í Kirtland, en aðrir meðlimir kirkjunnar söfnuðust saman í Missouri og nutu þar leiðsagnar prestdæmisleiðtoga sinna undir leiðsögn spámannsins. Leiðtogar kirkjunnar héldu sambandi með bréfaskriftum og ferðuðust reglulega á milli Kirtland og Missouri.

Áframhaldandi opinberanir

Meðan spámaðurinn bjó í Kirtland, hlaut hann margar opinberanir frá Drottni um endurreisn fagnaðarerindisins á síðari dögum. Í nóvember 1831 ákváðu leiðtogar kirkjunnar að gefa út margar þessara opinberana í safnriti sem nefna átti Boðorðabókina. Bókina átti að prenta í Independence, Missouri. En í júlí 1833 eyðilagði múgur prentvélina og stóran hluta prentarkanna. Aðeins tókst að bjarga fáeinum eintökum af bókinni og Boðorðabókin varð meðlimum kirkjunnar aldrei aðgengileg. Árið 1835 voru opinberanirnar sem fyrirhugaðar voru í Boðorðabókinni, ásamt fleiri opinberunum, gefnar út í Kirtland sem Kenning og sáttmálar.

Meðan spámaðurinn bjó í Kirtland, hélt hann einnig áfram að þýða Biblíuna, verk sem hann hóf árið 1830 að fyrirmælum Drottins. Margt einfalt og dýrmætt hafði í gegnum aldirnar glatast úr Biblíunni og spámaðurinn, innblásinn af andanum, leiðrétti texta í Biblíuútgáfu Jakobs konungs, til að endurreisa þann boðskap sem glatast hafði. Verk þetta leiddi til endurreisnar mikilvægs sannleika og margra opinberana sem nú tilheyra Kenningu og sáttmálum. Spámaðurinn hugðist gefa út endurbætta Biblíu en annað aðkallandi, svo sem ofsóknir, komu í veg fyrir að hann gæfi hana út í heild.

Joseph Smith hlaut opinberun, sem var hluti af innblásinni endurbót hans á Biblíunni en nú er Bók Móse, og einnig innblásna þýðingu á Matteus 24 sem nefnd er Joseph Smith - Matteus. Árið 1835 hóf spámaðurinn þýðingu á Bók Abrahams af fornum egypskum papírus sem kirkjan hafði fengið í hendur. Allar þessar þýðingar urðu síðar hluti af Hinni dýrmætu perlu.

Meðal þeirra opinberana sem spámaðurinn hlaut í Kirtland voru þær sem fjölluðu um aðalstjórnun kirkjunnar. Árið 1832 stofnaði Joseph Smith Æðsta forsætisráðið, að leiðsögn Drottins.7 Árið 1835 stofnaði hann Tólfpostulasveitina og sveit hinna Sjötíu. Árið 1834 var stofnuð stika og á þeim tíma skipulagði hann einnig sveitir Aronsprestdæmis og Melkísedeksprestdæmis til að annast þarfir kirkjuþegna á hverjum stað.

Fyrsta musteri þessarar ráðstöfunar

Joseph Smith hlaut opinberun frá Drottni um nauðsyn mustera sem eins mikilvægasta hluta endurreisnarinnar. Í desember 1832 bauð Drottinn hinum heilögu að reisa musteri í Kirtland, Ohio. Þótt mörgum meðlimum kirkjunnar skorti húsnæði, atvinnu og fæði, brugðust þeir af eldmóði við boði Drottins og spámaðurinn starfaði við hlið þeirra.

Hinn 27. mars 1836 vígði Joseph Smith musterið og andanum var úthellt ríkulega. Viku síðar, hinn 3. apríl 1836, áttu sér stað nokkrir þýðingarmestu trúaratburðir sögunnar. Drottinn Jesús Kristur birtist Joseph Smith og Oliver Cowdery í musterinu og sagði: „Því að sjá, ég hef veitt þessu húsi viðtöku og nafn mitt skal vera hér. Og af miskunn mun ég opinbera mig fólki mínu í þessu húsi“ (K&S 110:7). Þrír sendiboðar birtust einnig frá ráðstöfunartímum Gamla testamentisins - Móse, Elía og Elías. Þeir endurreistu prestdæmislykla og löngu glatað valdsumboð á jörðu. Spámaðurinn Joseph Smith hafði nú valdsumboð til að safna saman Ísrael frá fjórum skautum jarðarinnar og innsigla saman fjölskyldur um tíma og alla eilífð (sjá K&S 110:11–16.) Þessi endurreisn prestdæmislykla samræmdist þeirri fyrirmynd Drottins að veita spámanninum „orð á orð ofan, setning á setning ofan, örlítið hér og örlítið þar“ (K&S 128:21), allt þar til fagnaðarerindi Jesú Krists yrði endurreist á jörðu í fyllingu sinni.

Boða hið oevarandi fagnaðarerindi

Drottinn bauð spámanninum í þjónustu hans að senda trúboða til að „prédika fagnaðarerindið hverri skepnu“ (K&S 68:8). Spámaðurinn fann sjálfur fyrir ábyrgðinni af þessu boði og yfirgaf heimili sitt og fjölskyldu oft til að prédika fagnaðarerindið. Á upphafsárum kirkjunnar voru trúboðar kallaðir til að prédika á hinum ýmsu svæðum í Bandaríkjunum og Kanada.

Um sumarið árið 1837 hlaut spámaðurinn innblástur um að senda öldunga til Englands. Spámaðurinn fól Heber C. Kimball, meðlimi Tólfpostulasveitarinnar, að leiða lítinn hóp trúboða í þessu mikla verkefni. Öldungur Kimball yfirgaf fjölskyldu sína, jafnvel þótt hún væri nær blásnauð, og lagði af stað í þeirri trú að Drottinn færi fyrir honum. Innan árs höfðu um 2.000 manns gengið í kirkjuna í Englandi. Síðar sendi Joseph Smith meðlimi Tólfpostulasveitarinnar til Stóra Bretlands til að þjóna þar frá 1839 til 1841 og það trúboð var einnig afar árangursríkt. Fyrir 1841 voru yfir 6.000 manns sem tekið höfðu á móti fagnaðarerindinu. Margir þeirra fluttust til Ameríku og lífguðu og styrktu kirkjuna mjög á erfiðum tímum.

Brottförin frá Kirtland

Hinir heilögu í Kirtland höfðu þolað ofsóknir næstum frá upphafi landnáms þeirra þar, en þrengingar þeirra jukust árið 1837 og 1838. Spámaðurinn sagði: „Djöfullinn stofnar ávallt ríki sitt einmitt á sama tíma til að sporna gegn Guði.“8 Meginþungi óvildarinnar beindist að spámanninum, bæði frá óvinum utan kirkjunnar og frá meðlimum sem höfðu snúist gegn kirkjunni og honum. Hann var ranglega ákærður fyrir marga glæpi, hrelldur í réttarhöldum vegna fjölda tilhæfulausra sakargifta og neyddist til að fara leynt vegna þeirra sem sóttust eftir lífi hans. En þrátt fyrir mótlætið var hann staðfastur og kjarkmikill í þessum stöðugu erfiðleikum og andstöðu.

Að lokum urðu ofsóknirnar í Kirtland óbærilegar. Í janúar 1838 neyddist spámaðurinn og fjölskylda hans til að yfirgefa Kirtland og leita sér skjóls í Far West, Missouri. Í lok ársins höfðu flestir hinna heilögu fylgt honum og yfirgefið heimili sín og hið ástkæra musteri sitt.

Hinir heilögu í Missouri

Brottvísun frá Jackson-sýslu og ferð Síonarfylkingar

Meðan hinir heilögu í Kirtland kappkostuðu að efla kirkjuna á svæðinu, gerðu margir meðlimir kirkjunnar hið sama í Jacksonsýslu, Missouri. Sumarið 1831 tóku hinir Síðari daga heilögu að setjast að í sýslunni. Tveimur árum síðar voru hinir heilögu þar orðnir um 1.200 að tölu eða nærri einn þriðji íbúafjöldans þar.

Koma svo margra heilagra olli þeim sem fyrir voru á svæðinu áhyggjum. Íbúar Missouris óttuðust að hinir nýfluttu tækju yfir stjórn mála á svæðinu, en þeir voru að mestu frá norðurhluta Bandaríkjanna og studdu ekki þrælahald fólksins í suðurhlutanum. Íbúar Missouri tortryggðu einnig kenningar hinna Síðari daga heilögu – líkt og Mormónsbók, nýjar opinberanir, samansöfnun Síonar – og höfðu einnig andúð á því að hinir Síðari daga heilögu stunduðu aðeins viðskipti innbyrðis. Múgur og varnarlið bæjarins tóku brátt að áreita hina heilögu og hrakti þá frá Jackson-sýslu í nóvember 1833. Flestir hinna heilögu flúðu yfir Missouri-fljótið í Clay-sýslu, Missouri..

Joseph Smith hafði miklar áhyggjur af ástandi hinna heilögu í Missouri. Í ágúst 1833 skrifaði hann leiðtogum kirkjunnar í Missouri: „Bræður, ef ég væri meðal ykkar, tæki ég þátt í þjáningum ykkar og jafnvel þótt manninum sé í blóð borið að forðast þjáningar, myndi ég ekki bregðast ykkur allt til dauða, svo hjálpi mér Guð. Ó, verið því glaðir, því fljótt dregur að endurlausn okkar. Ó, Guð, bjarga þú bræðrum mínum í Síon.“9

Í febrúar 1834 hlaut Joseph Smith opinberun um að gera út leiðangur frá Kirtland til Missouri, til að koma hinum þjáðu heilögu til aðstoðar og liðsinna þeim við að endurheimta landsvæði þeirra í Jackson-sýslu (sjá K&S 103). Til að bregðast við þessum fyrirmælum Drottins, setti spámaðurinn á fót sveit fyrir leiðangurinn til Missouri, sem nefndist Síonarfylkingin. Í maí og júní 1834 hélt sveit þessi, sem á endanum var skipuð rúmlega 200 manns, í vesturátt yfir Ohio, Indiana, Illinois og til Missouri. Þeir urðu fyrir margskonar erfiðleikum á leiðinni, til að mynda braust út kólera meðal þeirra. Hinn 22. júní 1834, þegar leiðangurssveitin nálgaðist Jackson-sýslu, hlaut spámaðurinn opinberun um að leysa upp fylkinguna. Drottinn lofaði þó að Síon yrði endurleyst á Hans eigin tíma (sjá K&S 105:9–14). Spámaðurinn sneri aftur til Ohio, eftir að hafa stofnað stiku í Clay-sýslu með David Whitmer sem forseta hennar.

Þótt Síonarfylkingin hafi ekki endurheimt eignir hinna heilögu, var hún ómetanleg reynsla fyrir framtíðarleiðtoga kirkjunnar, því þeir sem í henni voru lærðu reglur réttlátrar stjórnunar af fordæmi og kennslu spámannsins. Á fundi meðlima Síonarfylkingar og annarra meðlima kirkjunnar, sem haldinn var í Kirtland 14. febrúar, skipulagði spámaðurinn Tólfpostulasveitina. Tveimur vikum síðar skipulagði hann sveit hinna Sjötíu. Níu meðlimir Tólfpostulasveitarinnar og allir meðlimir sveitar hinna Sjötíu höfðu verið í Síonarfylkingunni.

Landnámið í Norður-Missouri

Stór hluti kirkjumeðlima hélt áfram að búa í Clay-sýslu, Missouri, til ársins 1836, þar til íbúar sýslunnar sögðust ekki geta séð þeim lengur fyrir öruggu athvarfi. Hinir heilögu tóku því að flytjast til Norður-Missouri og settust flestir þeirra að í Caldwell-sýslu, sem var sýsla nýstofnuð af fylkisþinginu fyrir landflótta Síðari daga heilaga. Árið 1838 sameinaðist stór hópur heilagra þeim sem hraktir höfðu verið frá Kirtland. Spámaðurinn og fjölskylda hans komu til Far West í mars sama ár, í vaxandi landnám hinna Síðari daga heilagra í Caldwell-sýslu, og þar kom spámaðurinn upp höfuðstöðvum kirkjunnar. Í apríl bauð Drottinn Joseph Smith að reisa musteri í Far West (sjá K&S 115:7–16).

Til allrar ólukku varð friður skammvinnur fyrir hina heilögu í Norður-Missouri. Haustið 1838 hrelldi múgur og heimavarnarlið hina Síðari daga heilögu á ný og réðst á þá. Þegar kirkjumeðlimir svöruðu í sömu mynt og vörðu sig, voru Joseph Smith og aðrir leiðtogar kirkjunnar teknir höndum og sakaðir um landráð. Í nóvember voru þeir fangelsaðir í Independence og síðan í Richmond, Missouri, en 1. desember voru þeir settir í varðhald í Liberty, Missouri. Þennan vetur dró mikið af spámanninum og félögum hans vegna ómannúðlegrar meðferðar. Þeim var varpað í dýflissu fangelsisins – dimman, kaldan og heilsuspillandi kjallara – og þeim gefinn svo vondur matur að þeir komu honum ekki niður fyrr en hungrið knúði þá til þess. Spámaðurinn lýsti þessum aðstæðum sínum og hinna heilögu sem „prófraun trúar sem jafnaðist á við prófraun Abrahams.“10

Meðan spámaðurinn var í varðhaldi, voru þúsundir Síðari daga heilagra, þar á meðal fjölskylda spámannsins, hraktir frá heimilum sínum í Missouri vorið 1838–39. Hinn 7. mars 1839 skrifaði Emma bréf til Josephs frá Quincy, Illinois: „Aðeins Guð þekkir hugsanir mínar og tilfinningar hjarta míns, er ég yfirgaf hús okkar og heimili og næstum allar okkar eigur, að undanskildum börnum okkar, og hélt af stað burt frá Missouri-fylki, með þig lokaðan inni í þessu einmanalega fangelsi.“11 Með Brigham Young og aðra kirkjuleiðtoga í fararbroddi héldu hinir heilögu síðan austur til Illinois.

Árin í Nauvoo

Ástkær leiðtogi fólks síns

Í apríl 1839 voru spámaðurinn og félagar hans fluttir frá Liberty-fangelsinu til Gallatin, Missouri. Þegar fangarnir voru enn að nýju fluttir frá Gallatin til Columbia, Missouri, sáu fangaverðirnir þar til þess að þeir þyrftu ekki að taka út hina óréttmætu refsingu. Þeir komust til Quincy, Illinois, þar sem meginhluti kirkjumeðlima hafði komið sér fyrir eftir að þeir höfðu verið hraktir frá Missouri. Brátt tóku flestir hinna heilögu, að leiðsögn spámannsins, að setjast að í þorpi á bökkum Mississippi-fljótsins, 80 kílómetra norður af Commerce, Illinois. Joseph gaf borginni nafnið Nauvoo og á næstu árum streymdu meðlimir og nýir trúskiptingar til Nauvoo frá Bandaríkjunum, Kanada og Stóra-Bretlandi, og varð svæðið eitt hið þéttbýlasta í Illinois.

Joseph og Emma settust að nærri ánni í litlum bjálkakofa, sem á fyrri árum Nauvoo var notaður sem skrifstofa spámannsins. Hann stundaði landbúnað þeim til framfærslu og síðar stofnaði hann allrahanda verslun. En þar sem kirkjan og samfélagsskyldur hans kröfðust mikils tíma, átti spámaðurinn í erfiðleikum með að sjá fyrir efnislegum þörfum fjölskyldu sinnar. Í október 1841 voru persónulegar eigur hans skráðar sem „Charley gamli (hestur) sem honum var gefinn í Kirtland, tvö gæludýr, tveir gamlir kalkúnar og fjórir ungir, gömul kýr sem bróðir í Missouri hafði gefið honum, Major gamli (hundur), … og smávegis af húsgögnum.“12

Síðla í ágúst 1843 flutti spámaðurinn með fjölskyldu sína yfir götuna í nýlega byggt tveggja hæða hús sem nefndist „Mansion“ húsið. Joseph og Emma áttu þegar hér var komið fjögur börn á lífi. Þau höfðu jarðsett sex ástkær börn á tveimur árum og eitt barn í viðbót átti eftir að fæðast eftir dauða Josephs. Börnin ellefu í fjölskyldu Josephs og Emma Smith voru: Alvin, fæddur 1828 sem dó stuttu eftir fæðingu; tvíburarnir Thadeus og Louisa, fæddir 1831, sem dóu stuttu eftir fæðingu; ættleiddir tvíburar Joseph og Julia, fæddir John og Juliu Murdock 1831 og færðir Joseph og Emmu eftir að systir Murdock lést af barnsförum (Joseph dó ellefu mánaða árið 1832)13; Joseph III, fæddur 1832; Frederick, fæddur 1836; Alexander, fæddur 1838; Don Carlos, fæddur 1840 sem dó fjórtán mánaða; sonur fæddur 1842 sem dó samdægurs; og David, fæddur 1844, næstum fimm mánuðum eftir að faðir hans var myrtur.

Spámaðurinn hafði unun af því að vera meðal hinna heilögu alla sína þjónustutíð. Hann sagði um borgina Nauvoo og íbúa hennar: „Þetta er yndislegur staður og hér er besta fólkið undir himninum.“ Hinir heilögu endurguldu honum með ást sinni og litu á hann sem vin sinn og nefndu hann oft „Bróður Joseph.“ Trúskiptingur nokkur sagði: „Hann bjó yfir persónulegu aðdráttarafli og dró að sér alla sem honum kynntust.“15 „Hann þóttist ekki vera án galla og misbresta,“ ritaði íbúi nokkur í Nauvoo. „Hann er þannig maður að ekki er hjá því komist að líka vel við hann; … Hann er ekki upp með sér af eigin mikilleika, líkt og margir gætu haldið, heldur þvert á móti er hann alþýðlegur við alla hæverska menn.“16 William Clayton, enskur trúskiptingur, skrifaði heim til sín og sagði um spámanninn: ,yissulega vildi ég vera slíkur maður.“17

Spámaðurinn flutti fjölmarga fyrirlestra í Nauvoo og meðlimir kirkjunnar höfðu unun af því að hlýða á hann, því hann kenndi hinn opinberaða sannleika fagnaðarerindisins af krafti. Angus M. Cannon sagði: „Ég heyrði hann aldrei tala án þess að straumur færi um mig allan og öll sál mín vegsamaði Drottin.“18 Brigham Young sagði: „Ég lét aldrei tækifæri fram hjá mér fara til að hitta spámanninn Joseph og hlýða á hann tala opinberlega eða óformlega, svo ég mætti dreypa af þeirri uppsprettu skilnings sem hann jós af, svo ég mætti öðlast skilning sem ég gæti miðlað af væri þörf á því. … Þær stundir voru mér dýrmætari en allur auður heimsins.“19

Joseph Smith var leiðtogi utan hinnar trúarlegu ábyrgðar sinnar. Í Nauvoo þjónaði spámaðurinn á sviði samfélags, laga, viðskipta, menntunar og hers. Hann vildi að Nauvoo-borg hefði að bjóða íbúum sínum öll tækifæri menningar- og borgarlífs. Í janúar 1844 tilkynnti Joseph Smith að hann hugðist sækjast eftir embætti forseta Bandaríkjanna, að stórum hluta vegna þess að hann var óánægður með að embættismenn ríkisins gerðu ekkert til þess að færa hinum heilögu þær eignir aftur sem af þeim voru teknar í Missouri. Þótt flestir hafi gert sér grein fyrir að möguleikar hans á að vera kosinn væru ekki miklir, dró framboð hans að sér athygli fólks og hinu alvarlega broti á stjórnarskrárvörðum réttindum hinna heilögu. Spámaðurinn lýsti eitt sinn yfir, að allir menn „hafa jafnan rétt á að neyta af ávexti hins undursamlega frelsistrés þjóðar okkar.“20

Helgað Drottni: Musteri byggt Guði í Nauvoo

Þegar hinir heilögu höfðu verið hraktir frá Kirtland, urðu þeir að skilja við musterið sem þeir höfðu lagt svo hart að sér að reisa. En þeir áttu enn eftir að hafa heilagt musteri sín á meðal, því Drottinn bauð þeim að reisa musteri í Nauvoo. Verkið hófst haustið 1840 en hornsteinar voru lagðir 6. apríl 1841 við vígslu sem spámaðurinn var í forsæti fyrir. Bygging Nauvoo-musterisins var eitt þýðingarmesta byggingarverkefnið sem í hafði verið ráðist í vesturhluta Ameríku. Bygging musterisins krafðist gríðarlegra fórna hinna heilögu, því að með stöðugum aðflutningi í þessa vaxandi borg voru meðlimir kirkjunnar almennt fátækir.

Spámaðurinn tók tiltölulega snemma að kenna kenninguna um skírn fyrir hina dánu, eða þann 15. ágúst 1840. Hinir heilögu framkvæmdu skírnir fyrir hina dánu í nærliggjandi ám og lækjum, því musterið var enn stutt á veg komið í byggingu. Í janúar 1841 opinberaði Drottinn að aðeins skyldi halda þeirri iðju áfram þar til hægt væri að framkvæma slíkar skírnir í musterinu (sjá K&S 124:29–31). Sumarið og haustið 1841 byggðu hinir heilögu bráðabirgða skírnarfont úr timbri í ný uppgröfnum kjallara musterisins. Skírnir fyrir hina dánu voru fyrst framkvæmdar í þessum fonti hinn 21. nóvember 1841.

Árið 1841 voru fyrstu hjónin innsigluð og árið 1843 kunngerði spámaðurinn opinberunina um eilíft eðli hjúskaparsáttmálans (sjá K&S 132). Spámaðurinn hafði verið kunnugur kenningum þessarar opinberunar frá 1831.21 Að boði Guðs kenndi hann líka kenninguna um fjölkvæni.

Joseph Smith ákvað að fara af stað með veitingu musterisgjafa utan heilagra veggja musterisins, vegna þess að byggingu þess yrði ekki lokið í tíma. Í þakherbergi Rauðsteinaverslunarinnar í Nauvoo veitti spámaðurinn hinn 4. maí 1842 fyrstu musterisgjafirnar fámennum hópi bræðra, þar á meðal Brigham Young. Spámaðurinn lifði það ekki að sjá Nauvoo-musterið fullbyggt. Árin 1845 og 1846 hlutu hins vegar þúsundir heilagra musterisgjöf af hendi Brighams Young og annarra sem hlotið höfðu þessa blessun frá spámanninum.

Dregur að lokum þjónustu Josephs Smith

Meðan hinir heilögu nutu tiltölulega góðs friðar í Nauvoo, hrönnuðust óveðursský ofsókna upp yfir spámanninum og hann skynjaði að jarðneskri þjónusta sinni færi brátt að ljúka. Á minnisstæðum fundi í mars 1844 hvatti spámaðurinn hina Tólf til að taka við stjórn kirkjunnar eftir dauða sinn og útskýrði að þeir hefðu nú alla lykla og allt vald sem nauðsynlegt væri til þess. Wilford Woodruff, meðlimur Tólfpostulasveitarinnar á þeim tíma, sagði síðar: „Ég ber vitni um að snemma vors 1844 í Nauvoo kallaði spámaðurinn Joseph Smith postulana saman og gerði þeim skil á helgiathöfnum kirkjunnar og ríkis Guðs. Hann lagði hendur á höfuð okkar og veitti okkur alla lykla og allt vald sem Guð hafði veitt honum og sagði að við yrðum nú að axla ábyrgð á ríkinu eða að öðrum kosti kalla yfir okkur fordæmingu. … Ásjóna hans var skýr og ákveðin og aldrei áður hef ég skynjað jafn mikinn kraft stafa frá nokkrum manni í holdinu.“22 Eftir dauða spámannsins hvíldi ábyrgð kirkjunnar og ríkis Guðs á jörðinni á Tólfpostulasveitinni.

Í júní 1844 var spámaðurinn sakaður um óspektir. Þótt hann hefði verið sýknaður af þessum ásökunum í Nauvoo, krafðist fylkisstjóri Illinois, Thomas Ford, þess að Joseph yrði dreginn fyrir dóm fyrir sömu sakir í Carthage, Illinois, í lögsögu Hancock-sýslu. Þegar spámaðurinn og bróðir hans, Hyrum, komu til Carthage fengu þeir lausn gegn tryggingu af fyrri ákærunni, en voru þessu næst ákærðir fyrir landráð gegn Illinois–fylki og færðir í fangelsi staðarins.

Á heitum og mollulegum degi 27. júní 1844 réðst múgur manna, svartmálaðir í framan, inn í fangelsið og myrtu Joseph og Hyrum Smith. Um þremur klukkustundum síðar sendu Willard Richards og John Taylor, sem verið höfðu í fangelsinu með hinum myrtu, þessi sorglegu skilaboð til Nauvoo: „Carthage–fangelsið, kl.20:05, 27. júní 1844. Joseph og Hyrum eru látnir. … Snarlega var gengið að verki.“23 Spámaðurinn Joseph Smith var 38 ára þegar hann innsiglaði vitnisburð sinn með blóði sínu. Starfi hans í jarðlífinu var lokið, kirkja og ríki Guðs hafði verið stofnað í síðasta sinn á jörðinni, Joseph féll fyrir byssukúlu morðingja. Drottinn sjálfur vitnaði um spámanninn Joseph Smith: „Ég kallaði [Joseph Smith] með englum mínum, þjónustuenglum mínum, og með minni eigin röddu frá himnum, til að vinna verk mitt – Grundvöll þess lagði hann og var trúr, og ég tók hann til mín. Margir hafa undrast vegna dauða hans, en nauðsynlegt var að hann innsiglaði vitnisburð sinn með blóði sínu, svo að hann hlyti heiður, og hinir ranglátu fordæmingu“ (K&S 136:37–39).

Joseph Smith, hinn mikli spámaður, sjáandi og opinberari síðari daga, var dyggur og hlýðinn þjónn hins æðsta. Brigham Young forseti vottfesti: „Ég held ekki að nokkur maður sem lifað hefur á jörðinni hafi þekkt hann betur en ég gerði, og ég er nægilega djarfur til að fullyrða að enginn maður honum betri hafi lifað á þessari jörðu, að Jesú Kristi einum frátöldum. Ég er hans vitni.“24

Heimildir

  1. Wilford Woodruff, Deseret News: Semi-Weekly, 25. nóv. 1873, bls. 1.

  2. Þar sem aðeins níu af ellefu börnum Josephs Smith eldri og Lucy Mack Smith komust til manns, sagði fjölskyldan yfirleitt að systkinin væru níu. Nafn Katharine systur Josephs var einnig stafsett með mismunandi hætti meðan hún lifði, t.d. Catherine.

  3. Joseph Smith, History 1832, bls. 1; Letter Book 1, 1829-35, Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar, Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, Salt Lake City, Utah.

  4. Joseph Smith, History 1832, bls. 1; Letter Book 1, 1829-35, Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar.

  5. History of the Church, 4:536; úr bréfi frá Joseph Smith, skrifað að beiðni Johns Wentworth og George Barstow, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. mars 1842, bls. 707.

  6. History of the Church, 4:536–37; úr bréfi frá Joseph Smith, skrifað að beiðni Johns Wentworth og Georges Barstow, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 1. mars 1842, bls. 707.

  7. Fyrsta Æðsta forsætisráðið var skipað Joseph Smith sem forseta og Sidney Rigdon og Jesse Gause sem ráðgjöfum. Nokkrum mánuðum eftir að Jesse Gause varð meðlimur Æðsta forsætisráðsins yfirgaf hann kirkjuna. Hinn 18. mars 1833 var Frederick G. Williams settur í embætti sem ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu.

  8. History of the Church, 6:364; úr fyrirlestri sem Joseph Smith hélt 12. maí 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Thomas Bullock.

  9. Eftirskrift sem Joseph Smith skrifaði í bréf frá Oliver Cowdery til kirkjuleiðtoga í Jackson–sýslu, Missouri, 10. ágúst 1833, Kirtland, Ohio, Skjalasafn kirkjunnar.

  10. History of the Church, 3:294; úr bréfi frá Joseph Smith og fleirum til Edwards Partridge og kirkjunnar, 20. mars 1839, Liberty–fangelsið, Liberty, Missouri.

  11. Bréf frá Emmu Smith til Joseph Smith, 7. mars 1839, Quincy, Illinois; í Letter Book 2, 1837–43, bls. 37, Joseph Smith, Collection, Skjalasafn kirkjunnar.

  12. History of the Church, 4:437–38; greinarmerki færð í nútímahorf; úr bréfi frá postulunum tólf til „bræðranna sem dreifðir voru um meginland Ameríku,“ 2. okt. 1841, Nauvoo, Illinois, birt í Times and Seasons, 15. okt. 1841, bls. 569.

  13. Í maí 1831, stuttu eftir dauða hinna nýbornu tvíbura Josephs og Emmu Smith ættleiddu þau nýfædda tvíbura kirkjumeðlimanna Johns og Juliu Murdock. Tvíburar Murdock–hjónanna voru nefndir Joseph og Julia. Systir Murdock lést af barnsförum og bróðir Murdock, sem þá stóð uppi með fimm móðurlaus börn bað Smith–hjónin að annast fyrir sig tvíburana.

  14. History of the Church, 6:554; staðhæfing sögð af Joseph Smith 24. júní 1844, í Nauvoo, Illinois; skráð af Dan Jones.

  15. Mary Isabella Horne, “Testimony of Sister M. Isabella Horne,” Woman’s Exponent, júní 1910, bls. 6.

  16. Bréf frá George W. Taggart til bræðra hans í New Hampshire, 10. sept. 1843, Nauvoo, Illinois; í bréfasafni Albert Taggart, 1842–48 og 1860, Skjalasafn kirkjunnar.

  17. Bréf frá William Clayton til kirkjumeðlima í Manchester, Englandi, 10. des. 1840, Nauvoo, Illinois, Skjalasafn kirkjunnar.

  18. Angus M. Cannon, í “Joseph, the Prophet,” Salt Lake Herald Church and Farm Supplement, 12. jan. 1895, bls. 212.

  19. Brigham Young, Deseret News: Semi-Weekly, 15. sept. 1868, bls. 2.

  20. History of the Church, 3:304; úr bréfi frá Joseph Smith og fleirum til Edwards Partridge og kirkjunnar, 20. mars 1839, Liberty–fangelsið, Liberty, Missouri.

  21. Sjá Kenningu og sáttmála 132, formála..

  22. Wilford Woodruff, yfirlýsing frá 12. mars 1897, í Salt Lake City, Utah; í Journal History of The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 12. mars 1897, bls. 2.

  23. History of the Church, 6:621–22; úr tilskipun frá Willard Richards og John Taylor, 27. júní 1844, Carthage, Illinois.

  24. Brigham Young, Deseret News, 27. ágúst 1862, bls. 65.

log home

Á tíma Fyrstu sýnarinnar bjó Joseph Smith ásamt fjölskyldu sinni í bjálkahúsi í Palmyra, New York.

map of Palmyra

Býli Martins Harris

Grafreitur Alvins Smith

E. B. Grandin Prentsmiðja

Býli Josephs Smith eldra

Grindarhús Josephs Smith eldra

Lundurrin helgi

Bjálkahús Josephs Smith eldra

Kúmórahæðin

Palmyra Þorpid

Macedon Sveitarfélag

Palmyra Sveitarfélag

Wayne Sýsla

Ontario-Sýsla

Manchester Sveitarfélag

Farmington Sveitarfélag

Ontario-Sýsla

Wayne Sýsla

Erie-skipaskurðurinn

Red Creek

Hathaway lækur

Canandaiguar vegur

Stafford vegur

N

Milur

0

1/2

1

Kilómetrar

0

1

2

Palmyra-svæðið í New York. Margir mikilvægir atburðir á fyrri tíð kirkjusögunnar gerðustþar, þar á meðal Fyrsta sýnin og vitjun Morónís til Josephs Smith.

Sacred Grove

Lundurinn helgi um 1907. Vorið 1820 fór Joseph Smith íþennan skógarlund nærri heimili sínu til að biðjast fyrir um leiðsögn.

Emma Smith

Emma Smith

Peter Whitmer Sr. home

Eftirmynd af heimili Peters Whitmer eldri í Fayette, New York. Þetta endurbyggða hús er á lóðinni þar sem spámaðurinn stofnaði kirkjuna formlega hinn 6. apríl 1830.

Church history sites

Independence

Richmond

Liberty

Far West

Adam-ondi-Ahman

Nauvoo

Carthage

Quincy

Kirtland

Hiram

Washington-borg

Philadelphia

New York-borg

Colesville

Harmony

Manchester

Palmyra

Fayette

Sharon

Oskipulagt Landsvædi

Missouri

Iowa

Wisconsin

Illinois

Michigan

Indiana

Kentucky

Tennessee

North Carolina

Virginia

Ohio

Pennsylvania

New York

Vermont

N.H.

Kanada

Atlandshafid

Mississippi-fljótið

Merkilegir staQir fyrri tíðar sögu kirkjunnar og spámannsins Josephs Smith.

Kirtland Temple

Kirtland-musterið um 1900. Musteri þetta var byggt við miklar fórnir hinna heilögu, sem urðu að yfirgefa það eftir að þeir hröktust í burtu frá Kirtland vegna ofsókna.

Liberty Jail

Liberty-fangelsið, þar sem spámaðurinn Joseph Smith þurfti að dúsa veturinn 1838–39.

Mansion House

Mansion-húsið í Nauvoo. Spámaðurinn Joseph Smith og fjölskylda hans fluttu ífletta hús í ágúst 1843.

Nauvoo Temple

Nauvoo-musterið um 1845. Musterið var brennt til kaldra kola árið 1848, eftir að hinir heilögu neyddust til að yfirgefa Nauvoo, en veggir þess eyðilögðust síðar það mikið í hvirfilvindi að jafna þurfti þá við jörðu.

Carthage Jail

Carthage-fangelsið, þar sem spámaðurinn Joseph Smith og bróðir hans, Hyrum, voru myrtir hinn 27. júní 1844.