Kenningar forseta
Aðfaraorð


Aðfaraorð

Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin hafa látið gefa út ritröðina Kenningar forseta kirkjunnar svo að þið getið aukið skilning ykkar á hinu endurreista fagnaðarerindi og komist nær Drottni fyrir kenningar síðari daga spámanna. Eftir því sem kirkjan bætir bindum við í þessa ritröð, munuð þið koma ykkur upp uppsláttarbókum fagnaðarerindisins á heimili ykkar. Ritröð þessi er bæði ætluð til sjálfsnáms og kennslu í sveitum og námsbekkjum.

Í bók þessari eru kenningar spámannsins Josephs Smith, sem Guð kallaði til að innleiða þessa ráðstöfun í fyllingu tímanna á þessum síðari dögum. Frá því að hann sá föðurinn og soninn í sýn, vorið 1820, til þess tíma er hann leið píslarvættisdauða í júní 1844, stofnaði hann Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og leiddi fram fagnaðarerindið í fyllingu sinni, sem aldrei aftur verður tekið af jörðinni.

Sjálfsnám

Leitið innblásturs andans þegar þið nemið kenningar spámannsins Josephs Smith. Munið loforð Nefís: „Sá, sem leitar af kostgæfni, mun finna, og leyndardómar Guðs munu afhjúpast þeim fyrir kraft heilags anda“ (1 Ne 10:19). Hefjið nám ykkar með bæn og hafið bæn í hjarta þegar þið lesið.

Við lok hvers kafla er að finna spurningar og tilvitnanir í ritningarnar sem munu koma ykkur að gagni við að skilja og tileinka ykkur kenningar Josephs Smith. Áformið að skoða þær áður en þið lesið kaflann.

Hugleiðið einnig eftirtaldar spurningar:

  • Leitið að lykilorðum og orðasamböndum. Ef þið rekist á orð sem þið skiljið ekki, notið þá orðabók eða aðra heimild til að skilja betur merkingu þess. Skráið athugasemdir á spássíuna til að minna ykkur á merkingu orðsins.

  • Hugleiðið merkingu kenninga Josephs Smith. Þið getið strikað undir orðasambönd og setningar um sérstakar reglur fagnaðarerindisins eða sem snerta huga ykkar og hjarta, og þið getið einnig skrifað hugsanir ykkar og tilfinningar á spássíurnar.

  • Hugleiðið reynslu sem þið búið að sem tengist kenningum spámannsins.

  • Hugleiðið hvernig kenningar Josephs Smith eiga við um ykkur. Hugsið um hvernig kenningarnar tengjast vandamálum ykkar og spurningum. Ákveðið hvað þið ætlið að gera til að nýta ykkur námsefnið.

Hvernig nota á bókina til kennslu

Þessa bók er hægt að nota við kennslu heima eða í kirkjunni. Eftirfarandi tillögur geta komið ykkur að gagni.

Leggið áherslu á orð Josephs Smith og ritningarnar

Drottinn hefur boðið að við kennum „aðeins það, sem spámennirnir og postularnir hafa ritað, og það sem huggarinn kennir [okkur] fyrir trúarbæn“ (K&S 52:9). Hann hefur einnig sagt að „öldungar, prestar og kennarar þessarar kirkju [skuli] kenna grundvallarreglur fagnaðarerindis míns, sem eru í Biblíunni og Mormónsbók, er geyma fyllingu fagnaðarerindisins“ (K&S 42:12).

Verkefni ykkar er að auka skilning annarra á kenningum spámannsins Josephs Smith og ritningunum. Leggið ekki þessa bók til hliðar eða undirbúið lexíur úr öðrum efnivið. Verjið drjúgum hluta lexíunnar í lestur á kenningum Josephs Smith í þessari bók og umræðu um merkingu þeirra og tileinkun.

Hvetjið þátttakendur til að koma með þessa bók í kirkju, svo að þau verði betur undir það búin að taka þátt í umræðum kennslunnar.

Leitið leiðsagnar heilags anda

Þegar þið biðjist fyrir um hjálp og undirbúið ykkur af kostgæfni, mun heilagur andi leiða kennslu ykkar. Hann mun hjálpa ykkur að leggja áherslu á það í hverjum kafla sem hvetur aðra til að skilja og tileinka sér fagnaðarerindið.

Þegar þið kennið, biðjist þá fyrir í hjarta um að kraftur andans megi fylgja orðum ykkar og umræðum kennslunnar. Nefí sagði: „Þegar maðurinn talar með krafti heilags anda, kemur kraftur heilags anda því til skila í hjörtum mannanna barna“ (2 Ne 33:1; sjá einnig K&S 50:13–22).

Undirbúið kennsluna

Kaflanir í þessari bók hafa verið hannaðir til að hjálpa ykkur að undirbúa kennsluna. Efni textans undir fyrirsögninni „Úr lífi Josephs Smith“ í hverjum kafla bókarinnar er um líf Josephs Smith og sögu kirkjunnar á upphafsárum hennar, sem hægt er að nota við að kynna og kenna lexíuna. Efni textans undir fyrirsögninni „Kenningar Josephs Smith“ skiptist í nokkra undirkafla, þar sem fyrirsagnir gefa til kynna meginefni undirkaflans. Efnið undir fyrirsögnum þessum getur lagt drög að kennsluefni ykkar. Í lokahlutanum „Ábendingar um nám og kennslu,“ eru spurningar og ritningargreinar sem tengjast kennslunni.

Kennsla ykkar verður árangursríkari ef þið gerið eftirfarandi:

  1. Nemið kaflann. Lesið kaflann til að auka skilning ykkar á kenningum Josephs Smith. Þið munuð kenna af meiri einlægni og krafti þegar orð hans hafa haft áhrif á ykkur persónulega (sjá K&S 11:21). Þegar þið lesið, hafið þá í huga þarfir þeirra sem þið kennið. Þið getið strikað undir kenningar og reglur í kaflanum sem þið teljið koma þeim að gagni.

  2. Ákveðið hvaða hluta þið notið. Í hverjum kafla er meira efni en þið getið kennt í einni lexíu. Veljið í bænaranda þær kenningar og reglur sem þið teljið gagnlegastar fyrir nemendur ykkar, fremur en að reyna að komast yfir efni alls kaflans. Þið getið til að mynda ákveðið að leggja áherslu á einn eða tvo undirkafla og fáeinar spurningar sem auðvelda nemendum ykkar að ræða um reglurnar í undirkaflanum sem þið hafið valið.

  3. Ákveðið hvernigþið kynnið lexíuna. Til að vekja áhuga í upphafi kennslunnar, getið þið deilt persónulegri reynslu eða beðið nemendur að lesa sögu frá upphafi kaflans eða líta á mynd í kaflanum. Síðan getið þið spurt: „Hvað kennir þessi saga (eða mynd) um meginefni kaflans?“ Aðrir valkostir til þess að byrja kennsluna eru að lesa ritningargrein eða tilvitnun í kaflanum eða að syngja sálm. Önnur gagnleg hugmynd er að upplýsa nemendur um megináherslur kennslunnar. Þið getið einnig minnt nemendur á fyrri lexíu þessarar bókar með því að biðja þá um að rifja upp atburði, fólk, reglur eða kenningar sem þar var rætt.

  4. Ákveðið hvernig hvetja má til umroeðna. Meginhluti kennslunnar ætti að fara í umræður, því nemendur læra kenningar og reglur best með því að ræða saman um þær. Farið yfir ábendingarnar um hvernig stjórna má uppbyggilegum umræðum á bls. [xi–xii] í þessari bók. Þið getið notað spurningar úr „Ábendingar um nám og kennslu“ í lok kaflans. Þið getið einnig ráðgert að hafa ykkar eigin spurningar og farið að eftirfarandi ábendingum:

    • Spyrjið spurninga sem gagnast nemendum ykkar við að skilja staðreyndir, atburði, kenningar og reglur. Slíkar spurningar gagnast nemendum við að beina athygli að ákveðnum sannleika sem þið viljið leggja áherslu á að þeir þekki og verði kunnugir ákveðnum atriðum í kenningum spámannsins. Þegar þið hafið til að mynda fundið sérstaka tilvitnun, getið þið spurt: „Hver eru sum lykilorðin eða orðatiltækin í þessari tilvitnun?“ eða „Hvert er viðfangsefnið í þessari tilvitnun?“

    • Spyrjið spurninga sem fá nemendur til að hugleiða þær kenningar og reglur sem Joseph Smith kenndi. Slíkar spurningar hvetja nemendur til að sannreyna kenningar Josephs Smith og miðla hugsunum sínum um þær. Dæmi um spurningar: „Hvers vegna teljið þið þessa kenningu mikilvæga?“ eða „hverjar eru hugsanir ykkar og tilfinningar varðandi þessa tilvitnun?“ eða „hvaða þýðingu hefur þessi kenning fyrir ykkur?“

    • Spyrjið spurninga sem hvetja nemendur til að gera samanburð á því sem þeir læra af kenningum spámannsins og eigin hugsunum, tilfinningum og reynslu. Til dæmis: „Hvaða reynslu búið þið að sem tengist því sem spámaðurinn Joseph Smith sagði?“

    • Spyrjið spurninga sem auðvelda nemendum að heimfæra kennsluefnið upp á eigið líf. Slíkar spurningar hjálpa nemendum að hugleiða hvernig þeir geta lifað eftir kenningum Josephs Smith. Dæmi: „Hvað er það sem Joseph Smith er að hvetja okkur til að gera? Hvernig getum við tileinkað okkur það sem hann sagði?“ Minnið nemendur á að þeir læri ekki aðeins af því sem sagt er, heldur einnig af þeim opinberunum sem þeir hljóta (sjá K&S 121:26).

  5. Ákveðið hvernig þið ljúkið kennslunni. Þið getið valið að draga í stuttu máli saman efni lexíunnar eða biðja einn eða tvo nemendur að gera það. Berið vitnisburð um kenningarnar sem þið hafið rætt um, eins og andinn leiðbeinir. Þið getið einnig boðið öðrum að gefa vitnisburð sinn. Hvetjið nemendur til að fylgja þeirri leiðsögn sem þeir hafa hlotið frá heilögum anda.

Þegar þið búið ykkur undir kennslu getið þið leitað hugmynda í Teaching, No Greater Call (36123), hluta B, köflum 14, 16, 28, og 29; eða í Kennsla – leiðarvísir (34595).

Stjórnið uppbyggilegum umræðum

Eftirfarandi leiðbeiningar auðvelda ykkur að stuðla að og stjórna uppbyggilegum umræðum:

  • Leitið leiðsagnar heilags anda. Hann kann að hvetja ykkur til að spyrja ákveðinna spurninga eða til að örva umræðuþátttöku einhverra nemenda.

  • Hjálpið nemendum að halda sig við kenningar Josephs Smith. Fáið þá til að lesa orð hans til að koma af stað umræðu og svara spurningum. Ef umræðan tekur að beinast frá kennsluefninu eða verður of fræðileg eða þrætugjörn, skuluð þið beina henni að nýju á rétta braut með því að ræða um atburð, kenningu eða reglur í kaflanum.

  • Eftir því sem við á, deilið reynslu sem tengist kenningunum í kaflanum.

  • Hvetjið nemendur til að deila hugsunum sínum, spyrja spurninga, og kenna hver öðrum (sjá K&S 88:122). Þið getið til dæmis beðið þá að láta í ljós skoðun sína á því sem aðrir hafa sagt eða þið getið beint einni spurningu til nokkurra nemenda.

  • Hafið ekki áhyggjur af þögn eftir að þið hafið spurt spurningar. Oft þurfa þeir sem þið kennið tíma til umhugsunar eða til að líta í bækur sínar áður en þeir deila hugmyndum sínum, vitnisburði, og reynslu.

  • Hlustið einlæglega og leitist við að skilja framsetningu allra. Látið í ljós þakklæti fyrir þátttöku þeirra.

  • Þegar nemendur deila nokkrum hugmyndum, má skrá hugmyndirnar á töfluna eða biðja einhvern annan að gera það.

  • Leitið mismunandi leiða til að fá nemendur með í umræðuna. Þið getið til dæmis látið þá ræða spurningar í litlum hópum eða við sessunaut sinn.

  • Hugleiðið að hafa samband við einn eða tvo nemendur fyrirfram. Biðjið þá að koma í bekkinn undir það búna að svara einni þeirra spurninga sem þið hafið ráðgert.

  • Notið sálm, einkum sálm um endurreisnina, til að stuðla að umræðu um sannleika fagnaðarerindisins. Sálmasöngur er einnig áhrifarík leið til að hefja eða ljúka kennslu.

  • Sláið ekki botninn í góða umræðu bara vegna þess að þið viljið komast yfir allt efnið sem þið hafið undirbúið. Það sem mestu skiptir er að nemendur finni áhrif andans og vaxi í skuldbindingu sinni um að lifa eftir fagnaðarerindinu.

Kennsla fyrir okkar tíma

Í þessari bók eru kenningar spámannsins Josephs Smith sem skýrskota til okkar tíma. Í þessari bók er til að mynda ekki fjallað um álíka efni og kenningar spámannsins um helgunarlögmálið, líkt og við á um ráðsmennsku eigna. Drottinn aflétti þessu lögmáli af kirkjunni vegna þess að hinir heilögu voru ekki undir það búnir að lifa eftir því (sjá K&S 119, formála að kafla). Í þessari bók er ekki fjallað um fjölkvæni. Kenningarnar og reglurnar um fjölkvæni voru opinberaðar Joseph Smith snemma árs 1831. Spámaðurinn kenndi kenninguna um fjölkvæni og stofnað var til nokkurs fjölda slíkra hjónabanda á meðan hann lifði. Á nokkrum næstu áratugum var nokkur hópur meðlima kirkjunnar sem iðkaði fjölkvæni, en þó undir leiðsögn þeirra kirkjuleiðtoga sem komu á eftir Joseph Smith. Árið 1890 gaf Wilford Woodruff forseti út sérstaka yfirlýsingu sem nefnist Manifesto, en í henni er boðið að fjölkvæni verði aflagt í kirkjunni (sjá Opinber yfirlýsing 1). Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu iðkar ekki lengur fjölkvæni.

Upplýsingar um heimildir sem í er vitnað í þessari bók

Kenningar spámannsins Josephs Smith í þessari bók eru beinar tilvitnanir í fjölbreyttar heimildir: Fyrirlestra spámannsins, greinar sem teknar hafa verið saman af spámanninum, eða undir leiðsögn hans, til birtingar, bréf og dagbækur spámannsins, heimildarsöfn þeirra sem hlýddu á spámanninn og kenningar og sum rit spámannsins sem síðar voru sett í ritningarnar. Vitnað er í margar kenningar Josephs Smith í History of the Church. Sjá viðauka til að fá frekari upplýsingar um heimildir þessar.

Vitnað er í fjölda óbirtra heimilda í bók þessari. Stafsetningu, greinarmerkingum, ritun með stórum staf og málfræði hefur verið breytt, þar sem nauðsynleg hefur verið að bæta læsileika. Skiptingu málsgreina hefur einnig verið breytt eða bætt við til að bæta læsileika. Séu tilvitnanir teknar úr útgefnum gögnum, eru þær óbreyttar, nema annað sé tekið fram. Öllu efni í hornklofum hefur verið bætt við af ritstjórum eða þýðendum þessarar bókar, nema annað sé tekið fram.

Joseph Smith
signature

„Joseph Smith, spámaður og sjáandi Drottins, hefur, að Jesú einum undanskildum, gjört meira manninum til sáluhjálpar í þessum heimi en nokkur annar, sem lifað hefur í honum. … Hann var mikill í lífinu og mikill í dauðanum í augum Guðs og fólks hans“ (K&S 135:3).