26. Kafli
Elía og endurreisn lykla innsiglunar
„Hvernig mun Guð koma og bjarga flessari kynslóð? Hann mun senda spámanninn Elía.“
Úr lífi Josephs Smith
Vorið 1836, eftir þriggja ára vinnu og fórnir, litu hinir heilögu í Kirtland loks hið fallega musteri fullgert, fyrsta musteri þessa ráðstöfunartíma. Á sunnudegi, hinn 27. mars, voru yfir 900 manns saman komnir í kapellu og forsal musterisins til að vera við vígsluna. Margir voru saman í yfirfullum vígsluhluta í nálægri skólastofu, og aðrir hlýddu á fyrir utan opinn glugga musterisins. Spámaðurinn hjálpaði til við að finna sæti fyrir hina trúföstu.
Söfnuðurinn hlýddi á Sidney Ridgon, ráðgjafa í Æðsta forsætisráðinu, flytja ræðu, og þessu næst söng söfnuðurinn: „Nú fagna vér skulum“ og „Adam-ondi-Ahman,“ sem William W. Phelps samdi texta við. Joseph Smith stóð síðan upp til að flytja vígslubænina, sem hann hlaut með opinberun. Í bæninni greindi hann frá mörgum undraverðum blessunum, sem veitast mundu þeim sem verðugir sæktu musteri Guðs heim (sjá K&S 109). Kórinn söng síðan „Guðs andi nú ljómar og logar sem eldur,“ og þessu næst stóð söfnuðurinn upp og hrópaði Hósanna „af þvílíkum krafti að þakið virtist rifna af bygginunni.“1
Í vígslubæninni sagði spámaðurinn: „Og lát hús þitt fyllast af dýrð þinni, sem af gný máttugra vinda“ (K&S 109:37). Þetta uppfylltist bókstaflega. Margir hinna heilögu vitnuðu um að himneskar verur hefðu verið viðstaddar meðan á vígslunni stóð. Eliza R. Snow sagði: „Hægt er að greina frá athöfn vígslunnar, en engin mennsk tunga fær skýrt frá hinum himnesku vitrunum sem áttu sér stað þennan minnisstæða dag. Englar birtust nokkrum, og allir þeir sem viðstaddir voru skynjuðu himneska nálægð og hvert hjarta ,fagnaði með óumræðilegri og dýrlegri gleði‘ [sjá 1 Pét 1:8].“2
Um kvöldið, er spámaðurinn og um 400 prestdæmishafar komu saman í musterinu, „heyrðist hljóð er virtist sem þytur í miklum vindi, sem fyllti musterið, og allur söfnuðurinn stóð samtímis upp, snortinn af þessum ósýnilega krafti.“ Að sögn spámannsins hófu „margir að tala tungum og spá; aðrir sáu dýrðlegar sýnir; en ég sá engla sem fylltu musterið, og greindi söfnuðinum frá því.“3
Á fundi sem haldinn var í musterinu viku síðar, sunnudaginn 3. apríl, átti sér stað stórfengleg vitrun. Eftir að spámaðurinn hafði aðstoðað aðra leiðtoga við þjónustu sakramentis, krupu hann og Oliver Cowdery við ræðustólinn, fyrir luktum tjöldum, í helgri bæn. Er þeir stóðu upp frá bæninni birtist frelsarinn þeim og kunngjörði velþóknun sína á musterinu: „Því að sjá, ég hef veitt þessu húsi viðtöku og nafn mitt skal vera hér. Og af miskunn mun ég opinbera mig fólki mínu í þessu húsi“ (K&S 110:7).
Eftir að sýninni lauk sáu Joseph og Oliver þrjár aðgreindar sýnir, þar sem fornir spámenn birtust þeim til að endurreisa prestdæmislykla sem nauðsynlegir voru fyrir hið síðara daga verk Drottins. Spámaðurinn Móse birtist og fól þeim ,lyklana að samansöfnun Ísraels frá hinum fjórum heimshlutum.‘ Elías birtist og fól þeim ,ráðstöfun fagnaðarboðskapar Abrahams.‘ (Sjá K&S 110:11–12.)
Þar á eftir, í annarri dýrðlegri sýn, sáu Joseph og Oliver spámanninn Elía (sjá K&S 110:13–16). Koma Elía var svo mikilvæg að hinn forni spámaður Malakí spáði fyrir um komu hans öldum áður. Frelsarinn minntist einnig á hana við Nefítana (sjá Mal 4:5–6; 3 Ne 25:5–6; 26:1–2). Elía kom til að fela Joseph og Oliver lykla innsiglunar – kraftinn til að binda og gilda á himnum allar þær helgiathafnir sem framkvæmdar yrðu á jörðu. Endurreisn innsiglunarvaldsins var nauðsynleg til að búa heiminn undir síðari komu frelsarans, því án þess, „mundi jörðin öll verða gjöreydd við komu hans“ (Joseph Smith – Saga 1:39).
Kenningar Josephs Smith
Hinn forni spámaður Malakí sagði fyrir um komu Elía.
Spámaðurinn Joseph Smith sagði eftirfarandi um komu Morónís til hans, kvöldið 21. september 1823, líkt og ritað er í Joseph Smith – Saga 1:36–39: „[Móroní] vitnaði fyrst í þriðja kapítula Malakís, og hann vitnaði einnig í fjórða eða síðasta kapítula sama spádóms, en þó með nokkru fráviki frá okkar Biblíu. Í stað þess að vitna í fyrsta vers, eins og það er í okkar bókum, vitnaði hann þannig í það:
Því sjá. Sá dagurinn kemur, sem mun glóa sem ofn, og allir hrokafullir og allir þeir sem ranglæti fremja, munu brenna sem hálmleggir, því að þeir, sem koma, munu brenna þá, segir Drottinn hersveitanna, svo að hvorki verði eftir af þeim rót né kvistur.
Síðan vitnaði hann þannig í fimmta vers: Sjá, ég mun opinbera yður prestdæmið með hendi Elía spámanns, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.
Hann vitnaði einnig með breyttum hætti í næsta vers: Og hann mun gróðursetja í hjörtum barnanna fyrirheit þau, sem feðrunum voru gefin, og hjörtu barnanna munu snúast til feðra sinna. Ef svo voeri ekki, mundi jörðin öll verða gjöreydd við komu hans.“4
Elía birtist Joseph Smith og Oliver Cowdery í Kirtland-musterinu.
Joseph Smith greindi frá því er hinn forni spámaður Elía birtist honum og Oliver Cowdery, hinn 3. apríl 1836, í Kirtlandmusterinu, sem síðar var skráð í Kenningu og sáttmála 110:13–16: „Önnur mikil og dýrðleg sýn [birtist okkur], því að spámaðurinn Elía, sem hrifinn var til himins án þess að smakka dauðann, stóð frammi fyrir okkur og sagði:
Sjá, sá tími er nú að fullu kominn, sem talað var um fyrir munn Malakís - er vitnaði um að hann [Elía] yrði sendur, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kæmi - til að snúa hjörtum feðranna til barnanna og barnanna til feðranna, til þess að öll jörðin yrði ekki lostin banni - þess vegna eru lyklar þessara ráðstafana seldir yður í hendur, og með því skuluð þér vita, að hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins er í nánd, fyrir dyrum.“5
Elía endurreisti lykla innsiglunar - kraftinn og valdið til að binda á himni allar þær helgiathafnir sem framkvæmdar yrðu á jörðinni.
„ ,Sjá, ég sendi ykkur Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur,‘ o. s. frv. [sjá Mal 4:5]. Hvers vegna að senda Elía? Vegna þess að hann hefur lykla valdsins til að framkvæma allar helgiathafnir prestdæmisins og ekki er mögulegt að framkvæma helgiathafnir í réttlæti [nema] valdið sé veitt.“6
Spámaðurinn Joseph Smith sagði eftirfarandi í bréfi til hinna heilögu, sem síðar var skráð í Kenningu og sáttmála 128:8–11: „Eðli þessarar helgiathafnar [skírn fyrir hina dánu] liggur í valdi prestdæmisins, fyrir opinberun Jesú Krists, þar sem gefið er, að hvað sem þér bindið á jörðu skal bundið verða á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, skal leyst verða á himni. …
Sumum kann að virðast þetta mjög djörf kenning, sem við tölum um - vald, sem skráir eða bindur á jörðu og bindur á himni. Á öllum öldum heimsins hefur Drottinn þó, hvenær sem hann hefur gefið ráðstöfun prestdæmisins til eins manns eða fleiri með raunverulegri opinberun, ávallt veitt þetta vald. Allt, sem þessir menn því gjörðu með valdi Drottins og í nafni hans, og görðu það trúverðuglega og samviskusamlega, og héldu sannar og trúverðugar skýrslur um, það varð lögmál á jörðu og á himni, og gat ekki orðið ógilt, samkvæmt ákvörðun hins mikla Jehóva. Þessi orð eru sönn. Hver fær heyrt þau?
Og enn, sem dæmi, Matteus 16:18, 19: Og ég segiþér einnig: Þú ert Pétur, og á flessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og hlið heljar munu eigi á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.
Hinn mikli leyndardómur alls þessa máls og niðurstaða þess alls, sem liggur frammi fyrir okkur, felst í því að öðlast vald hins heilaga prestdæmis. Fyrir þann, sem fær þessa lykla, eru engir erfileikar á að hljóta vitneskju um staðreyndir varðandi sáluhjálp mannanna barna, hvort heldur er hinna dauðu eða hinna lifandi.“7
Innsiglunarvaldið gerir fjölskyldum kleift að innsiglast um tíma og alla eilífð, og hægt er að framkvæma helgiathafnir fyrir hina dánu.
„Andi, kraftur og köllun Elía er að við hljótum kraft til að hafa lykla opinberunar, helgiathafna, hins lifandi orðs, krafts og gjafa fyllingar Melkísedeksprestdæmisins og ríkis Guðs á jörðinni. Og til að framkvæma allar þær helgiathafnir sem heyra til ríkis Guðs, já, til þess að snúa hjörtum feðranna til barnanna og barnanna til feðranna, jafnvel þeirra sem á himnum eru.
Malakía sagði: ‚Ég sendi yður Elía spámann, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. Hann mun sætta feður við sonu og sonu við feður, til þess að ég komi ekki og ljósti landið banni.‘ [Malakí 4:5–6.]
Þrá mín er að öðlast þekkingu Guðs og ég fer mína eigin leið til að hljóta hana. Hver ætti skilningur okkar að vera á þessu á þessum síðari dögum?
Á tímum Nóa tortímdi Guð jörðinni með flóði og hét því að henni yrði tortímt með eldi á hinum síðari dögum; en áður en það gerðist ætti Elía að koma til að snúa hjörtum feðranna til barnanna, o. s. frv., áður en það gerðist.
Nú kem ég að meginefninu. Hvert er þetta embætti og verk Elía? Það er eitt það undursamlegasta og mikilvægasta sem Guð hefur opinberað. Hann hugðist senda Elía svo innsigla mætti börnin feðrunum og feðurna börnunum.
Var þetta eingöngu bundið hinum lifandi, til að útkljá erfiðleika hjá fjölskyldum á jörðinni? Alls ekki. Þetta var mun æðra verk. Elía! Hvað gerðir þú ef þú værir hér? Mundir þú aðeins helga verk þitt í þágu hinna lifandi? Nei, ég vísa í ritningarnar, en þar er efnið augljóst, sem er að hvorki geta þau orðið fullkomin án okkar, né heldur við án þeirra, hvorki feðurnir án barnanna, né börnin án feðranna [sjá Hebr 11:40].
Ég þrái að þið skiljið þetta mikilvæga efni, og ef þið meðtakið það, þá er það andi Elía að við endurleysum okkar dánu og tengjumst feðrunum, sem eru á himnum, og innsigla okkar dánu, til að koma fram í fyrstu upprisunni. Og hér sækjumst við eftir krafti Elía, til að innsigla þá sem dvelja á jörðu þeim sem dvelja á himnum. Þetta er kraftur Elía og lyklarnir að ríki Jehóva. …
Enn á ný: Kenning eða innsiglunarkraftur Elía er sem hér segir: – Ef við höfum kraft til að innsigla á jörðu og á himni, ættum við að sýna visku. Það fyrsta sem okkur ber að gera er að innsigla syni okkar og dætur okkur sjálfum og okkur sjálf feðrum okkar í eilífri dýrð.“8
Koma Elía var nauðsynleg til undirbúnings fyrir síðari komu felsarans.
„Hjörtu mannanna barna verða að snúa sér að feðrunum og feðranna að börnunum, lifandi eða látnum, til að búa þau undir komu mannssonarins. Ef Elía kæmi ekki, yrði öll jörðin lostin banni.“9
„Elías er fyrirrennari til að ryðja veginn, og andi og kraftur Elía kemur þar á eftir, með lykla kraftar, til að reisa musterið, allt að lokasteini, setja innsigli Melkísedeksprestdæmisins á hús Ísraels, og hafa allt til reiðu. þá mun Messías koma til musteris síns, sem er síðast í röðinni. … Elía átti að koma til að ryðja veginn og byggja upp ríkið áður en hinn mikli dagur Drottins kæmi.“10
„Heiminum er ætlað að brenna á efstu dögum. Hann mun senda spámanninn Elía, og hann mun opinbera sáttmála feðranna varðandi börnin og sáttmála barnanna varðandi feðurna.“11
„Hvernig mun Guð koma þessari kynslóð til bjargar? Hann mun senda spámanninn Elía. … Elía mun opinbera sáttmálana til að innsigla hjörtu feðranna börnunum og barnanna feðrunum“12
Ábendingar um nám og kennslu
Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.
-
Er frelsarinn birtist í Kirtland-musterinu, sagði hann við Joseph Smith og Oliver Cowdery: „Af miskunn mun ég opinbera mig fólki mínu í þessu húsi“ (bls 307). Hvernig var endurreisn lykla innsiglunar staðfesting á miskunn Drottins? Hvernig opinberar hann sig sjálfan með öðrum hætti í musterinu?
-
Lesið þriðju og fjórðu málsgreinarnar á bls. 308. Hvað kenna þessar tvær málsgreinar um hlutverk Elía, sem við lærum ekki í Malakí 4:5–6? Hvað er þýðingarmikið varðandi þann mun?
-
Lesið útskýringar á innsiglunarkraftinum á bls. 309–10 Hvað er innsiglunarkrafturinn? Hvers vegna er sá kraftur mikilvægur fyrir ykkur og fjölskyldu ykkar?
-
Lesið útskýringar Josephs Smith á verki Elía (bls. 310–11). Hvað er andi Elía? Hvers vegna var mikilvægt að Elía kæmi og uppfyllti verk sitt á þessum síðari dögum?
-
Hver er reynsla ykkar af að snúa hjörtum ykkar að látnum fjölskyldumeðlimum? Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa börnum sínum að snúa hjörtum þeirra að forfeðrum sínum?
-
Lesið málsgreinina sem hefst neðst á bls. 308 og einnig fyrstu málsgreinina á bls. 312. Hvers vegna teljið þið að jörðin hefði verið „lostin banni“ án innsiglunarkraftarins?
Ritningargreinar tengdar efninu: He 10:4–10; K&S 132:45–46; 138:47–48; Leiðarvísir að ritningunum, „Elía,“ bls. 31