13. Kafli
Hlýðni: „Þegar Drottinn býður, skal það gert“
„Lifið í algjörri hlýðni við boðorð Guðs og gangið í auðmýkt frammi fyrir honum.“
Úr lífi Josephs Smith
Frá desember 1827 til ágústloka 1830, bjuggu Joseph og Emma Smith í Harmony, Pennsylvaníu, og spámaðurinn ferðaðist öðru hverju til New York til að sinna málefnum kirkjunnar. Í september 1830 fluttu Joseph og Emma til Fayette, New York, til að sameinast hinum heilögu í vesturhluta New York. Í desember þar á eftir hlaut spámaðurinn opinberun sem krafðist mikilla fórna af meðlimum kirkjunnar í New York. Þeim var boðið að yfirgefa heimili sín, sveitabýli og atvinnurekstur og koma saman í Kirtland, Ohio (sjá K&S 37). Þeir áttu að ganga til liðs við trúskiptingana sem þar bjuggu og byggja upp kirkjuna þar, og líkt og Drottinn lofaði, myndi þeim ,veitast kraftur frá upphæðum‘ (K&S 38:32). Joseph og Emma Smith voru meðal þeirra fyrstu sem hlýddu fyrirmælum Drottins, en þau fóru frá New York í janúarlok 1831. Þau ferðuðust á sleða yfir 400 kílómetra leið til Kirtland á miðjum einkar slæmum vetri og Emma gekk með tvíbura.
Newel K. Whitney, sem bjó í Kirtland, var meðal hinna fyrstu sem buðu spámanninn velkominn, eins og barnabarn hans, Orson F. Whitney, skýrði frá: „Í byrjun febrúarmánaðar 1831 ók sleði sem á voru fjórir einstaklingar um götur Kirtland og stansaði við dyr verslunar Gilberts og Whitneys. … Einn mannanna, ungur og sterkbyggður maður, sté af sleðanum, hljóp upp þrepin og gekk inn í verslunina, þar sem yngri meðeigandinn stóð.
‚Newel K. Whitney! Þú ert maðurinn,‘ hrópaði hann og rétti fram hönd sína góðlátlega, líkt og hann væri gamall og náinn kunningi.
,Ég man ekki eftir þér,‘ sagði [verslunareigandinn] og tók ósjálfrátt í hönd spámannsins – undrandi og með örlítið bros á vör – ,ég get nú ekki nefnt þig með nafni líkt og þú mig.‘
Hinn ókunnugi sagði brosandi: Ég er spámaðurinn Joseph. Ég er hér vegna bæna þinna, hvað viltu mér?
Undrandi en glaður tók Whitney á móti hópnum, um leið og hann var búinn að jafna sig á þessari óvæntu uppákomu … og leiddi hann að hornhúsi sínu hinu megin götunnar og kynnti þau fyrir eiginkonu sinni [Elizabeth Ann]. Hún var jafn hissa og alsæl. Joseph sagði um þetta atvik: ,Það var tekið vel og innilega á móti okkur á heimili bróður N. K. Whitney. Við hjónin dvöldum á heimili bróður Whitney og fjölskyldu í nokkrar vikur og nutum þar þeirrar hlýju og umhyggju sem við mátti búast.‘ [Sjá History of the Church, 1:145–46.]“1
Orson F. Whitney sagði: „Með hvaða hætti gat þessi undraverði maður, Joseph Smith, borið kennsl á mann sem hann hafði aldrei séð áður í holdinu? Hvers vegna bar Newel K. Whitney ekki kennsl á hann? Vegna þess að Joseph Smith var sjáandi, útvalinn sjáandi, hann hafði raunverulega séð Newel K. Whitney, hundruð kílómetra í burtu, á hnjánum í bæn um að hann kæmi til Kirtland. Dásamlegt – og satt!“2
Nærri 200 fleiri heilagir voru komnir frá New York til Kirtland þegar leið að maímánuði - sumir á sleðum eða vögnum, en flestir á pramma eftir Erie-skurði og síðan á gufubáti eða skonnortu yfir Erie-vatn. Í þessum flutningi til Kirtland, og við margar aðrar erfiðar aðstæður í lífi sínu, leiddi Joseph Smith hina heilögu er þeir fylgdu fyrirmælum Drottins, sama hversu erfitt verkefnið var.
Fjórum árum síðar, mitt í miklu annríki við að leiða hina vaxandi kirkju í Kirtland, greindi spámaðurinn frá þeirri sannfæringu sem auðkenndi líf hans: „Ég hef aldrei verið jafn upptekinn og í nóvembermánuði, en þar sem líf mitt er annasamt og stöðug áreynsla, hef ég þessa reglu að leiðarljósi: Þegar Drottinn býður, skal það gert.“3
Kenningar Josephs Smith
Blessanir himins munu hvíla yfir okkur, er við leitumst við að þekkja vilja Guðs og gerum allt sem hann býður okkur að gera.
„Við gerum ekki aðeins sumt af því sem við þurfum að gera til að hljóta sáluhjálp, heldur allt sem Guð hefur boðið. Menn geta prédikað og iðkað allt annað en það sem Guð býður okkur að gera, en þá verða þeir að lokum fordæmdir. Við getum goldið tíund af alls kyns krydd- og matjurtum, en samt ekki haldið boðorð Guðs [sjá Lúk 11:42]. Viðfangsefni mitt er að hlýða og kenna öðrum að hlýða Guði í öllu, sem hann býður okkur að gera. Engu skiptir hvort reglan er vinsæl eða óvinsæl, ég mun alltaf styðja sanna reglu, jafnvel þótt ég verði að gera það aleinn.“4
„Nauðsynlegt er fyrir okkur sem kirkju og fólk að vera vitur, leitast við að þekkja vilja Guðs og vera fús til að breyta samkvæmt honum. Ritningarnar segja: ,Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.‘ Frelsari okkar sagði: ,Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir mannssyninum.‘ [Sjá Lúk 11:28; 21:36.] Ef Enok, Abraham, Móse, börn Ísraels og allt fólk Guðs varð frelsað með því að halda boðorð Guðs, ef á annað borð frelsað, munum við frelsuð verða fyrir sömu reglu. Líkt og Guð leiddi Abraham, Ísak og Jakob sem fjölskyldur, og börn Ísraels sem þjóð, þannig verðum við sem kirkja að vera undir hans handleiðslu, ef við ætlum að njóta velfarnaðar, verndar og stuðnings. Okkar eina öryggi getur verið í Guði, okkar eina viska er af honum, og hann einn verður að vera verndari okkar, andlega og stundlega, ella föllum við.
Fram að þessu höfum við verið öguð af hendi Guðs þegar við hlýðum ekki boðorðum hans og þótt við brjótum ekki mannanna lög, eða lífsreglur mannsins, höfum við samt farið léttilega með boðorð Guðs og vikið frá helgiathöfnum hans. Og Drottinn hefur sárlega agað okkur og við höfum fundið arm hans en tekið möglunarlaust við hegningunni. Verum vitur í tíma og munum ætíð að ,hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútann‘ [1 Sam 15:22.]“5
„Þegar fyrirmæli koma, verðum við að hlíta þeirri rödd, varðveita lögmál ríkis Guðs, svo blessanir himinsins megi hvíla yfir okkur. Allir verða að vera samstíga og vinna samkvæmt hinu forna prestdæmi, ella vinnst ekkert. Því ættu hinir heilögu að vera útvalið fólk, aðskilið frá öllu illu í heiminum – kjörið, dyggðugt og heilagt. Drottinn ætlar að gera kirkju Jesú Krists að prestaríki, heilögum lýð, útvalinni kynslóð [sjá 2 Mós 19:6; 1 Pét 2:9], líkt og á dögum Enoks, með öllum þeim gjöfum sem lýst er í bréfum Páls og kennslu til safnaðanna á hans tíma.“6
„Hver sem er getur trúað að Jesús Kristur sé sonur Guðs og verið hamingjusamur í þeirri trú, en samt ekki haldið boðorð hans, og orðið síðan útilokaður vegna óhlýðni við réttlátar kröfur Drottins.“7
„Verið dyggðug og hrein, verið ráðvönd og sönn. Haldið boðorð Guðs, og þá munuð þið geta greint betur milli þess sem er rétt og rangt – milli þess sem er frá Guði og þess sem er frá mönnum. Og vegsemd ykkar verður lík hinna réttlátu, hún verður æ skærari fram að hinum fullkomna degi [sjá Okv 4:18].“8
Þegar Wilford Woodruff þjónaði sem meðlimur í Tólfpostulasveitinni, sagði hann: „Joseph forseti … las dæmisöguna um vínviðinn og greinar hans [sjá Jóh 15:1–8], útskýrði hana og sagði: ,Ef við höldum boðorð Guðs, munum við bera ávöxt og verða vinir Guðs og eiga vitneskju um það sem Drottinn gerði.‘ “9
Guð setur reglur sem búa okkur undir himneska hvíld, ef við fylgjum þeim.
„Guð gefur engin fyrirmæli nema þau sem hægt er að uppfylla og í þeim tilgangi að bæta skilyrði allra manna, hverjar sem aðstæður þeirra eru eða í hvaða ríki eða landi þeir búa.“10
„Lögmál himins er gefið öllum mönnum, og sökum þess er öllum þeim sem hlíta lögmálinu tryggð umbun, sem æðri er allri jarðneskri umbun. Þó er þess hvergi getið að þeir sem trúað hafa á öllum öldum hafi fengið fyrirheit um að komast hjá hverskyns þrengingum og erfiðleikum, sem rekja má til gjörða ranglátra manna á jörðinni. Engu að síður er fyrirheit til sem grundvallast á þeirri staðreynd, að um lögmál himins er að ræða, sem hafið er yfir lögmál manna, líkt og eilíft líf er hafið yfir hið stundlega, og líkt og þær blessanir sem Guð megnar að veita, eru æðri þeim sem menn megna að veita. Þá er það vissulega svo, ef lögmál mannsins er bindandi fyrir manninn, þegar það er viðurkennt, að lögmál himins hlýtur að vera langtum æðra! Og þar sem lögmál himins er fullkomnara en lögmál mannsins, hlýtur umbunin að vera jafn miklu meiri, sé því hlítt. … Lögmál Guðs gefur fyrirheit um eilíft líf, já, arfleifð til hægri handar sjálfum Guði, óhult fyrir öllum öflum hins illa. …
… Guð hefur ákveðið tiltekinn tíma, sem hann hefur útnefnt með sjálfum sér, þegar hann leiðir alla sína þegna, sem hlýtt hafa á rödd hans og haldið boðorð hans, inn í sína himnesku hvíld. Sú hvíld er af slíkri fullkomnun og dýrð, að maðurinn verður að búa sig undir hana áður en hann, samkvæmt lögmáli himins, megnar að ganga inn til hennar og njóta blessunar hennar. Þar sem þetta er tilfellið, hefur Guð veitt mannkyni ákveðin lögmál, sem nægja því til að búa það undir að erfa þá hvíld, sé þeim fylgt. Þetta teljum við vera tilgang Guðs, er hann veitti okkur lögmál sín. … Öll þau boðorð sem falin eru í lögmálum Guðs hafa að viðauka loforð um umbun til handa öllum þeim sem hlýða, byggt á þeirri staðreynd, að loforðin eru sannlega frá veru sem ekki getur logið og er fær um að uppfylla hvert smáatriði orða sinna.“11
Í apríl 1843 kenndi Joseph Smith eftirfarandi, sem síðar var skráð sem Kenning og sáttmálar 130:20–21: „Það óafturkallanlega lögmál gildir á himni, ákvarðað áður en grundvöllur þessa heims var lagður, sem öll blessun er bundin við – Að þegar við öðlumst einhverja blessun frá Guði, þá er það fyrir hlýðni við það lögmál, sem sú blessun er bundin.“12
„Allar blessanir sem á þingi himins voru vígðar mönnum, eru veittar með því skilyrði að lögmálinu sé hlýtt sem þeim tengist.“13
Þeir sem eru staðfastir allt til enda munu hljóta sveig réttlætis.
„Lifið í algjörri hlýðni við boðorð Guðs og gangið í auðmýkt frammi fyrir honum og hann mun upphefja ykkur á sínum eigin tíma.“14
„Hve varkárir menn ættu að vera í gjörðum sínum á hinum síðari dögum, að öðrum kosti mun væntingum þeirra sópað burtu og þeir sem telja sig standa munu falla, vegna þess að þeir halda ekki boðorð Drottins. En þið, sem gjörið vilja Drottins og haldið boðorð hans, fagnið af ólýsanlegri gleði, því sá er það gjörir mun upphafinn verða og í sigurgleði mun honum lyft ofar öllum ríkjum þessa heims.“15
„Í frásögn [Matteusar] um frelsarann, í 22. kapítula, er himnaríki líkt við konung, sem gjörði brúðkaup sonar síns [sjá Matt 22:2–14]. Sá sonur var Messías og verður ekki rengt, því himnaríki er þar táknrænt gjört í dæmisögunni. Og hinir heilögu, eða þeir sem voru Drottni trúfastir, eru þeir sem verða þess verðugir að erfa sæti við brúðkaupsborðið, sem ráða má af orðum Jóhannesar í Opinberunarbókinni, þar sem hann segist hafa heyrt raddir sem kæmu þær frá ,miklum mannfjölda‘ eða sem ,gný frá sterkum þrumum. Þær sögðu: Hallelúja, Drottinn Guð vor, hinn alvaldi, er konungur orðinn. Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig. Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra‘ [Op 19:6–8].
Að þeir sem halda boðorð Drottins og taka málstað hans, allt til enda, verði þeir einu sem leyft verður að setjast til borðs í hinni dýrðlegu veislu, er greinilegt af eftirfarandi orðum í bréfi Páls til Tímóteusar, sem ritað var rétt fyrir dauða hans – en þar segir hann: ,Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans‘ [2 Tím 4:7–8]. Enginn sem leggur trúnað á þessa frásögn mun efast andartak um þessa staðhæfingu Páls, sem sögð var rétt áður en hann var tekinn úr þessum heimi, líkt og honum væri það ljóst. Þótt hann hafi eitt sinn, að eigin sögn, ofsótt kirkju Guðs og reynt að útrýma henni, var hann óstöðvandi í því að útbreiða hin dýrðlegu tíðindi eftir að hann snerist til trúar: Hann gaf líf sitt, líkt og trúfastur hermaður, fyrir þann málstað sem hann aðhylltist, í vissu um eilífan sveig, líkt og hann sjálfur segir.
Skoðið erfiði þessa postula, allt frá því að hann snerist til trúar fram til dauða hans, og þið munuð sjá hetjulegt dæmi um atorku og þolgæði við að útbreiða fagnaðarerindið. Þótt hann hafi verið hæddur, húðstrýktur og grýttur, tók hann þegar í stað og sem aldrei fyrr að útbreiða kenningu frelsarans, um leið og hann komst úr höndum ofsækjenda sinna. Og öllum má vera ljóst að hann snerist ekki til trúar sjálfum sér til heiðurs, eða til að hljóta jarðneska hylli. Hvað var það þá sem knúði hann til að gangast undir allt þetta strit? Það var, líkt og hann sagði, svo hann mætti hljóta sveig réttlætis af hendi Guðs. Enginn mun efast um trúfesti Páls allt til enda. Enginn getur sagt að hann hafi ekki varðveitt trúna, að hann hafi ekki barist góðu baráttunni, að hann hafi ekki prédikað og sannfært allt til loka. Og hvað öðlaðist hann? Sveig réttlætis. …
Íhugið andartak, bræður, og metið hvort þið teljið ykkur verðuga þess að eiga sæti í brúðkaupsveislunni með Páli, og öðrum honum líkum, hvort þið hafið verið trúfastir. Hafið þið barist góðu baráttunni og varðveitt trúna, getið þið vænst umbunar? Eigið þið fyrirheit um að hljóta sveig réttlætis af hendi Drottins, með söfnuði hins frumgetna? Af þessu er okkur ljóst að Páll setti von sína á Krist, vegna þess að hann varðveitti trúna, og elskaði ásýnd hans, og af hendi hans hlaut hann fyrirheit um að hljóta sveig réttlætis. …
Hinir fornu hlutu fyrirheit frá Guði, ofsóttir og hrelldir af mönnum, sem vógu svo þungt og voru svo dýrðleg, að hjörtu okkar fyllast oft þakklæti fyrir að okkur sé jafnvel leyft að líta á þau og hugleiða að hann fer ekki í manngreinarálit, og að menn, hverrar þjóðar sem þeir eru, séu honum þóknanlegir, ef þeir óttast Guð og vinna réttlætisverk [sjá Post 10:34–35]. …
Við getum dregið þá ályktun að sá dagur renni upp, að allir verði dæmdir af verkum sínum, og öllum umbunað samkvæmt þeim; að þeir sem varðveitt hafa trúna, verði krýndir sveig réttlætisins, verði íklæddir hvítum klæðum, verði leyft að koma í brúðkaupsveisluna, verði leystir frá sérhverri þrengingu, til að ríkja með Kristi á jörðinni, þar sem þeir munu neyta ávaxtar hins nýja vínviðar, samkvæmt hinu forna fyrirheiti, í hinu dýrðlega ríki með honum. Slík fyrirheit féllu a. m. k. í hlut hinna heilögu til forna. Og jafnvel þótt við getum ekki gert kröfu til þessara fyrirheita, sem féllu í hlut hinna fornu, því þau eru ekki okkar eign, eingöngu vegna þess að þau féllu í hlut hinna heilögu til forna, getum við kallast börn hins hæsta, og verið kölluð til hinnar sömu köllunar og þeir voru kallaðir til, og tekið á móti sömu sáttmálunum og þeir gerðu, og verið trúföst vitnisburðinum um Drottin okkar, líkt og þeir voru, og við getum nálgast föðurinn í nafni Krists, líkt og þeir gerðu, og þannig hlotið sjálf þessi sömu fyrirheit.
Við munum ekki hljóta fyrirheit þessi, ef þau skyldu einhvern tíma verða okkar, vegna þess að Pétur, Jóhannes og hinir postularnir … óttuðust Guð og höfðu næga trú til að hljóta þau, heldur vegna þess að við sjálf höfum næga trú, og nálgumst Guð í nafni sonar hans, Jesú Krists, já, líkt og þeir gerðu. Og ef fyrirheit þessi falla okkur í skaut, verða þau að gera það persónulega, því annars gagnast þau okkur ekkert. Þau eru miðluð okkur, okkur til góðs, og verða eign okkar (fyrir gjöf Guðs), eftir verðskuldaða kostgæfni við að halda boðorð hans, og heiðarlegt líferni frammi fyrir honum.“16
„Bræður, við viljum minna ykkur á erfiðið, raunirnar, skortinn og ofsóknirnar sem hinir heilögu til forna þurftu að þola, aðeins í þeim eina tilgangi að sannfæra menn um göfgi og velsæmi trúar á Krist. Að okkar áliti er það nauðsynlegt, ef það nær á einhvern hátt þeim tilgangi að hvetja ykkur til að erfiða í víngarði Drottins af enn meiri eljusemi. En við höfum ástæðu til að trúa (ef þið hafið numið ritningarnar nægilega vel), að þolgæði þeirra sé ykkur öllum kunn, og einnig að þeir voru fúsir til að fórna stundarheiðri og ánægju þessa heims, svo þeir mættu hljóta fullvissu um kórónu lífsins af hendi Drottins okkar. Og reynið dag hvern að tileinka ykkur framúrskarandi fordæmi þeirra og vinnusemi, sem sýnir okkur eldmóð þeirra varðandi þann málstað sem þeir gerðu að sínum. Við vonum ekki aðeins að fordæmi hinna heilögu verði ykkur til eftirbreytni, heldur einnig að boðorð Drottins séu rótföst í hjörtum ykkar og veiti ykkur ekki aðeins skilning á þeim vilja hans að fagnaðarerindið sé boðað, heldur og á mildi hans og fullkomnun, frammi fyrir öllum, jafnvel í ofsóknum og ofbeldi sem hann þurfti að þola af vondri og ótrúrri kynslóð.
Minnist þess bræður, að hann hefur kallað ykkur til heilagleika, og þurfum við þá að segja ykkur að líkjast honum að hreinleika? Hve vitur, hve heilög, hve hreinlíf, hve fullkomin ættuð þið þá ekki að vera í návist hans? Og minnast þess að auga hans er stöðugt á ykkur. Séu þessar staðreyndir skoðaðar í réttu ljósi, megið þið ekki verða værukærir, því að sé ekki farið stranglega að öllum kröfum hans, getið þið að lokum reynst ófullnægjandi, og ef það gerist, verðið þið að játa að hlutskipti ykkar hlýtur að verða meðal hinna óarðbæru þjóna. Við sárbænum ykkur því, bræður, að gera allt sem þið getið til að axla ábyrgð ykkar, svo að þið í engu glatið launum ykkar.“17
Ábendingar um nám og kennslu.
Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.
-
Lesið síðustu málsgreinina á bls. 158, leggið áherslu á regluna sem Joseph Smith tileinkaði sér í lífi sínu. Íhugið ákveðin fyrirmæli sem þið hafið hlotið nýlega, með orðum lifandi spámanns eða leiðsögn andans. Hvernig hafið þið verið blessuð þegar þið hafið hiklaust hlítt þessum fyrirmælum?
-
Lesið fyrstu málsgreinina á bls. 159. Hvers vegna þurfum við stundum að „gera eitthvað einsömul“ til að „styðja við sanna reglu“? Hvernig erum við ekki einsömul á slíkum tímum? (Sjá dæmi á bls. 159–61.) Hvernig getum við hjálpað börnum og unglingum að vera trú fagnaðarerindinu, jafnvel þótt það sé óvinsælt?
-
Lærið undirkaflann sem hefst á bls. 161. Af hvaða ástæðum veitir Drottinn okkur boðorð? Hvers vegna eigum við að hlýða boðorðum hans?
-
Lesið kenningar Josephs Smith um Matt 22:2–14 og Tím 4:7–8 (bls. 162–66). Íhugið hvernig ykkur myndi líða, ef ykkur væri boðið í brúðkaupsveisluna. Hvers konar fólk þurfum við að vera til þess að vera verðug þess boðs? Hvað felst í því að berjast góðu baráttunni og varðveita trúna? Hugsið um einhvern sem þið þekkið sem hefur barist góðu baráttunni og varðveitt trúna. Hvað getið þið lært af þeirri manneskju?
-
Spámaðurinn Joseph Smith hvatti okkur til að minnast þess að Drottinn „hefur kallað [okkur] til heilagleika“ (bls. 166). Hvaða þýðingu hefur það fyrir ykkur að vera kölluð til heilagleika? Hvernig getur það skipt máli í lífi okkar, fjölskyldu okkar og vina, að hafa þá „köllun“ í huga?
Ritningargreinar tengdar efninu: 1 Mós 20:1–17; Jóh 7:17; 1 Ne 3:7; K&S 58:26–29; Abr 3:25