27. Kafli
Varist hinn beiska ávöxt fráhvarfs
„Varist að svíkja Guð í þrengingum ykkar, mótlæti, veikindum og öllum þjáningum, jafnvel allt til dauða … og varist að falla í fráhvarf.“
Úr lífi Josephs Smith
Nokkrum vikum áður og eftir að lokið var við byggingu Kirtland-musterisins, vorið 1836, nutu hinir heilögu einingar og ríkulegrar úthellingar á gjöfum andans. Engu að síður varaði Joseph Smith hina heilögu við því, að ef þeir héldu ekki áfram að lifa í réttlæti, myndu gleðin og einingin taka enda. Daniel Tyler sagði um þennan tíma: „Öllum leið líkt og um forsmekk himnaríkis væri að ræða. Okkur var í raun ekki freistað af djöflinum í nokkrar vikur; og við veltum því fyrir okkur hvort þúsund ára ríkið væri þegar upp runnið. Á [prestdæmisfundi bræðranna] talaði spámaðurinn Joseph til okkar. Hann sagði meðal annars: ‚Bræður, Satan hefur ekki haft kraft til að freista ykkar í nokkurn tíma. Sumir hafa haldið að freistingar væru undir lok liðnar. En mótlætið mun koma, og ef þið nálgist ekki Drottin enn meira, munuð þið yfirbuguð verða og kalla yfir ykkur fráhvarf.‘ “1
Er leið á árið jókst andi fráhvarfs meðal hinna heilögu í Kirtland. Sumir meðlimanna urðu dramblátir, ágjarnir og óhlýðnir boðorðunum. Sumir kenndu kirkjuleiðtogum um efnahagsvanda sem leiddi af misheppnaðri fjármálastofnun sem meðlimir kirkjunnar stofnuðu. Þau mistök áttu sér stað árið 1837, sama ár og bankakreppa geysaði hvarvetna í Bandaríkjunum og jók á fjárhagsvanda hinna heilögu. Allt aðtvö eða þrjú hundruð meðlimir fóru frá kirkjunni í Kirtland og sumir sameinuðust jafnvel þeim sem unnu á móti kirkjunni og hótuðu hinum heilögu jafnvel líkamlegu ofbeldi. Sumir sem fóru frá kirkjunni staðhæfðu opinberlega að spámaðurinn væri fallinn og reyndu að fá aðra menn í hans stað. Systir Eliza R. Snow sagði: „Margir þeirra sem auðmjúkir höfðu verið og trúfastir og alltaf til staðar í prestdæmisskyldu sinni – urðu dramblátir í anda og létu leiðast af hroka í hjarta. Þar eð hinir heilögu tileinkuðu sér elsku og anda heimsins, hörfaði andi Drottins úr hjörtum þeirra.“2
Vegna stöðu kirkjunnar í maí 1837 sagði spámaðurinn sorgmæddur: „Svo virðist sem allur kraftur jarðar og heljar vinni sérstaklega saman að því að eyða kirkjunni fyrir fullt og allt. … Óvinir utan frá og fráhverfingar okkar á meðal hafa sameinast í verkum sínum, … og margir eru orðnir andvígir mér, líkt og ég sé valdur að því sem ég hef af kappi unnið á móti.“3
Þrátt fyrir þessar ýmsar áskoranir var meirihluti leiðtoga kirkjunnar áfram trúfastur. Brigham Young, í Tólfpostulasveitinni, minntist á fund sem haldinn var á þessum óvissutímum, þar sem nokkrir meðlimir kirkjunnar ræddu hvernig þeir gætu vikið Joseph spámanni frá: „Ég stóð upp og sagði þeim skýrt og skorinort, að Joseph væri spámaður, og að ég vissi það, og að þeim væri heimilt að kvarta undan honum og ófrægja hann eins og þeim þóknaðist, [en] þeir gætu ekki breytt útnefningu hans sem spámanns Guðs, heldur aðeins fyrirgert eigin valdsumboði, skorið á þann þráð sem bindur þá við spámanninn og Guð og kallað yfir sig helvíti. Margir urðu fokreiðir yfir að ég setti mig upp á móti áætlun þeirra. …
Fundurinn leystist síðan upp án þess að hinir fráhverfu ættu þess kost að sameinast um nokkrar mótaðgerðir. Í þessum vanda var sem jörð og helja kepptust að því að vinna bug á spámanninum og kirkju Guðs. Trú margra hinna sterkustu manna kirkjunnar brást. Meðan á þessu myrkurumsátri stóð var ég ávallt við hlið Josephs og með allri þeirri visku og krafti sem Guð veitti mér, lagði ég mig allan fram um að styðja þjón Guðs og sameina sveitir kirkjunnar.“4
Kenningar Josephs Smith
Ef við missum traust á leiðtogum kirkjunnar, tökum að gagnrýna þá eða vanrækja einhverja þá skyldu sem Guð hefur falið okkur, mun það leiða til fráhvarfs.
„Ég mun veita ykkur einn af lyklum leyndardóma ríkisins. Það er eilíft lögmál, sem verið hefur til hjá Guði um alla eilífð: Sá maður er fordæmir aðra, finnur að kirkjunni, og segir að hún sé á rangri leið, og að hann sé sjálfur réttlátur, sá maður er örugglega á hraðri leið til fráhvarfs, og ef hann iðrast ekki, mun hann hverfa frá, sem Guð lifir.“5
Er Heber C. Kimball þjónaði sem ráðgjafi Brighams Young forseta, sagði hann: „Ég mun veita ykkur þann lykil sem bróðir Joseph Smith var vanur að veita í Nauvoo. Hann sagði leiðina til fráhvarfs hefjast með vantrausti á leiðtoga kirkjunnar og á ríkið og hvenær sem þið greinið þann anda, ættuð þið að vita að hann leiðir ykkur til fráhvarfs.“6
Þegar Wilford Woodruff þjónaði í Tólfpostulasveitinni, sagði hann: „Bróðir Joseph var vanur að veita okkur þetta heilræði: ,Um leið og þið leyfið ykkur að leggja þær skyldur sem Guð hefur falið ykkur til hliðar, til að fullnægja ykkar eigin þrám; um leið og þið leyfið ykkur að vera kærulaus, eruð þið að leggja grundvöll að fráhvarfi. Verið varfærin, skiljið að þið eruð kölluð til verksins og þegar Guð felur ykkur eitthvert verk, skuluð þið framkvæma það.‘ Hann sagði einnig þetta: ,Varist að svíkja Guð í þrengingum ykkar, mótlæti, veikindum og öllum þjáningum, jafnvel allt til dauða, varist að svíkja prestdæmið og varist að falla í fráhvarf.‘ “7
Wilford Woodruff sagði einnig: „Ég minnist þess er Joseph heimsótti mig sjálfan, [John] Taylor, Brigham Young og nokkra aðra trúboða, rétt áður en við fórum í trúboð til Englands. Margir okkar voru sjúkir og þjakaðir. Við vildum samt sem áður fara. Spámaðurinn blessaði okkur, eiginkonur okkar og fjölskyldur. … Hann kenndi okkur nokkrar mjög mikilvægar reglur sem ég nefni hér. Bróðir Taylor, ég sjálfur, George A. Smith, John E. Page og fleiri, vorum kallaðir til að koma í stað þeirra [postula] sem fráhverfir höfðu orðið. Bróðir Joseph greindi okkur frá ástæðu þess að þessir menn höfðu snúist gegn boðorðum Guðs. Hann vonaði að við mundum öðlast visku af því sem við sæjum með auganu og heyrðum með eyranu, og að við gætum greint anda annarra án þess að þurfa að læra af sárri reynslu.
Hann sagði síðan, að ef einhver maður eða öldungur þessarar kirkju og þessa ríkis fylgir málstað sem hann svo yfirgefur, eða með öðum orðum, neitaði að hlíta settri reglu, boðorði eða skyldu - ætíð þegar menn gerðu það, vanræktu einhverja skyldu sem Guð hefur falið þeim, svo sem að sækja fundi, fara í trúboð eða hlíta leiðsögn, legðu þeir grunn að fráhvarfi, og það væri ástæðan fyrir því að menn þessir urðu fráhverfir. Þeir hefðu misnotað prestdæmið sem innsiglað var á höfuð þeirra. Þeir hefðu vanrækt að efla kallanir sínar sem postular og öldungar. Þeir hefðu reynt að nota prestdæmið til eigin upphefðar og að framkvæma einhver önnur verk en þau að byggja upp ríki Guðs.“8
Árið 1840 urðu sumir meðlimir kirkjunnar eftir í Kirtland, Ohio, og ætluðu að búa þar, en flestir hinna heilögu höfðu farið til Nauvoo, Illinois. Joseph skrifaði til leiðtoga kirkjunnar í Kirtland, sem svar við þeim tíðindum að sumir kirkjuflegnar hafi reynt að rífa niður það traust sem hinir heilögu báru til Æðsta forsoetisráðsins og fleiri leiðtoga kirkjunnar: „Til þess að málefnum ríkisins sé stjórnað í réttlæti, er mjög brýnt að fullkominn samhljómur, góðar tilfinningar, góður skilningur og traust ríki í hjörtum allra bræðranna og að sannur kærleikur og ást til hvers annars einkenni öll þeirra verk. Ef neikvæðar tilfinningar finnast, eða vantraust, mun hroki, dramb og öfund brátt gera vart við sig. Glundroði mun óhjákvæmilega ríkja, og valdhafar kirkjunnar verða ekki virtir viðlits. …
Ef hinir heilögu í Kirtland telja mig óverðugan bæna þeirra, þegar þeir koma saman, og vanrækja að styðja mig og biðja mér himneskrar náðar, er það mér sterk og örugg sönnun þess að þeir hafi ekki anda Guðs. Ef þær opinberanir sem við höfum hlotið eru sannar, hver á þá að leiða fólkið? Ef lyklar ríkisins hafa verið færðir mér í hendur, hver mun þá opinbera leyndardómana?
Svo framarlega sem bræður mínir standa við bakið á mér og hvetja mig, get ég tekist á við fordóma heimsins og með gleði þolað illt viðmót [slæma meðferð] og misbeitingu, en þegarbræður mínir láta sér fátt um finnast, þegar þeir taka að lýjast, og reyna að hindra framrás mína og framtak, mun ég finna til sorgar, en verð engu að síður ákveðinn í að vinna verkið, því ég er fullviss um, að þótt mínir jarðnesku vinir bregðist mér, og snúist jafnvel gegn mér, mun himneskur faðir gera mig sigursælan.
Ég ber samt þá von í brjósti, að jafnvel í Kirtland séu einhverjir sem ekki sakfella mann fyrir orðið eitt [sjá Jesaja 29:21], heldur séu menn fusir til að standa og verja réttlæti og sannleika og rækja allar þær skyldur sem þeim hefur verið falið að rækja, og búi yfir visku sem beinir þeim frá öllum þeim hreyfingum eða áhrifum sem hugsuð eru til að efna til glundroða og ágreinings innan Ísraelsfylkingar, og megni að greina á milli anda sannleika og anda ranglætis.
Það mundi veita mér ánægju að sjá hina heilögu í Kirtland blómstra, en ég held að sá tími sé enn ekki kominn. Ég fullvissa ykkur um að hann mun ekki koma fyrr en annarri reglu hefur verið komið á og annar andi er látinn í ljós. Þegar traust ríkir að nýju, þegar hrokinn hverfur og hver hugur íklæðist auðmýkt, líkt og klæðum, og eigingirnin víkur fyrir góðvildinni, og greina má kærleik og ákveðinn samhug um að lifa eftir hverju orði sem út gengur af munni Drottins, þá, en ekki fyrr, mun friður, regla og ást ríkja.
Það er vegna ágjarnra manna að Kirtland hefur verið yfirgefin. Hve oft hefur auðmjúkur þjónn þinn verið öfundaður af stöðu sinni af slíkum mönnum, sem leitast við að komast til valda á hans kostnað, og er þeir sjá að þeim tekst það ekki, taka þeir að rægja hann og svívirða og beita hvers kyns aðferðum til að reyna að fella hann. Slíkir menn hafa ávallt fyrstir hrópað gegn Æðsta forsætisráðinu og kunngjört bresti þeirra og breyskleika úr höfuðáttunum fjórum.“9
Þeir sem falla í fráhvarf glata anda Guðs, brjóta sáttmála sína og ofsækja oft meðlimi kirkjunnar.
„Svo skrítið sem það kann að virðast við fyrstu hugsun, en þó það sé skrítið er það engu að síður satt, að þótt fráhverfingar segist staðráðnir í því að lifa guðlega, munu þeir fyrr eða síðar, eftir að hafa snúið frá trú sinni á Krist, nema þeir iðrist skjótt, lenda í snöru hins illa, og verða þar skildir eftir bjargarlausir, án anda Guðs, til að ranglæti þeirra verði staðfest frammi fyrir mannfjöldanum. Hinir heilögu hafa orðið fyrir verstu ofsóknunum frá þeim sem orðið hafa fráhverfir. Júdas var ávíttur og sveik Drottin samstundis í hendur óvina hans, því Satan náði til hans.
Þeir sem hlýða fagnaðarerindinu af hjartans einlægni öðlast æðri skilning, en ef syndgað er gegn þeim skilningi munu fráhverfingar skildir eftir berskjaldaðir, án anda Guðs og í sannleika sagt munu þeir brátt fordæmdir og örlög þeirra þau að verða brenndir. Þegar ljósið sem búið hefur í þeim hefur verið tekið frá þeim, verður myrkur þeirra jafn dimmt og ljós þeirra var skært áður, og undrist þá ei þótt þeir beiti sér gegn sannleikanum af öllum sínum mætti, og þeir, líkt og Júdas, leitast við að tortíma þeim sem áður voru þeirra bestu velgerðarmenn.
Hvaða vin átti Júdas á jörðu, eða á himni, sem var nánari en frelsarinn? Og hans fyrsta takmark var að granda honum. Hver meðal allra hinna heilögu á síðari dögum getur talið sig samboðinn Drottni? Hver er jafn fullkominn honum? Hver er jafn hreinn? Hver er jafn heilagur og hann var? Hvar er slíkan að finna? Hann syndgaði aldrei eða braut boðorð eða lög himinsins - svik voru ekki í munni hans, ekki heldur fannst tál í hjarta hans. Hann sem át með honum og drakk oft úr sama bikar og hann, var sá fyrsti til að lyfta hæl sínum gegn honum. Hvar er slíkan sem Krist að finna? Hann finnst ekki á jörðinni. Hvers vegna ættu þá fylgjendur hans að mögla, þótt þeir verði ofsóttir af þeim sem þeir eitt sinn kölluðu bræður sína og töldu standa næst sér í hinum ævarandi sáttmála?
Frá hvaða uppsprettu kom það lögmál sem ætíð hefur komið í ljós hjá þeim sem fallið hafa frá hinni sönnu kirkju, að ofsækja af tvöfaldri kostgæfni, og af tvöföldu þolgæði leitast við að eyða þeim sem þeir sögðust elska, sem þeir eitt sinn áttu trúnað við og sem þeir eitt sinn gerðu sáttmála við, um að kappkosta af öllum sínum réttlætis mætti að öðlast hvíld Guðs? Kannski munu bræður okkar segja að það sama valdi því að Satan leitast við að steypa ríki Guðs, því að hann sjálfur var illur og ríki Guðs er heilagt.“10
„Á öllum öldum kirkjunnar hafa ætíð verið menn sem andsnúnir hafa verið lögmáli dyggðar, sem ásælast hagnað þessa heims, sem fylgt hafa lögmáli óréttlætis og verið óvinir sannleikans. … Þeir sem hafa átt í samskiptum við okkur, og notið okkar góðu og nánu vináttu, hafa iðulega orðið okkar verstu óvinir og eindregnir fjandmenn. Ef þeir hafa orðið óvinsælir, ef hagsmunum þeirra eða virðingu var ógnað, eða þeir staðnir að verki í ranglæti sínu, hafa þeir ávallt orðið fyrstir til að ofsækja okkur, að rægja [saka ranglega] og ófrægja bræður sína, og reyna að koma höggi á og eyðileggja vini sína.“11
„Liðhlaupar og andófsmenn ,mormóna‘ breiða út um allan heim alls konar ósannindum og meinyrðum gegn okkur, og telja sig þannig geta hlotið vináttu heimsins, því þeir vita að við erum ekki af heiminum og að heimurinn hatar okkur. Þess vegna mun hann [heimurinn] gera þá [andófsmennina] að verkfærum sínum. Og með þeim mun hann reyna að gera mesta hugsanlegan skaða, og eftir það mun hann hata þá meira en hann hatar okkur, því hann mun sjá að þeir eru svikarar og [smjaðrandi] hræsnarar.“12
Wilford Woodruff sagði: „Ég sótti fund í Kirtland-musterinu [hinn 19. febrúar 1837]. Spámaðurinn Joseph Smith var fjarverandi vegna kirkjuerinda, en ekki næstum eins lengi og Móse var fjarri Ísrael er hann var á fjallinu [2 Mós 32:1-8].Samt sem áður sneru meðlimir hjörtum sínum frá Drottni og Joseph þjóni hans, og tóku þátt í getgátum og gáfu sig að fölskum öndum, þar til hugur þeirra varð myrkur. Margir hófu að vinna gegn Joseph Smith og sumir vildu að David Whitmer kæmi í stað hans til að leiða kirkjuna. Meðan á þessum myrka tíma stóð, kom Joseph til baka til Kirtland og sté upp í ræðustólinn um morguninn. Hann virtist mjög dapur, en brátt hvíldi andi Drottins yfir honum og hann talaði skýrt og skorinort til safnaðarins í um þrjár klukkustundir og óvinina setti hljóða.
Þegar hann stóð upp sagði hann: ,Ég er enn forseti, spámaður, sjáandi, opinberari og leiðtogi kirkju Jesú Krists. Það er Guð sem hefur útnefnt mig í þetta embætti, en ekki maður, og engin maður eða menn hafa vald til að setja mig af eða tilnefna annan í minn stað, og þeir sem reyna það munu brenna fingur sína og fara til vítis, nema þeir iðrist skjótt.‘ Hann ávítaði fólkið hvasst fyrir syndir þess, myrkur og vantrú. Kraftur Guðs hvíldi yfir honum og hann bar vitni um að það sem hann segði væri sannleikur.“13
Wilford Woodruff sagði: „Smith forseti hélt ræðu eftirmiðdag einn [hinn 9. apríl 1837] og sagði í Drottins nafni að dómar Guðs vofðu yfir þeim sem segðust vera vinir hans og aðhyllast manngæsku, og vera að byggja upp Kirtland, stiku Síonar, en hefðu snúist gegn sér og hagsmunum ríkis Guðs, og eflt óvinina gegn okkur. Þeir hefðu undirokað hina heilögu og valdið þjáningum þeirra og væru orðnir sáttmálsbrjótar, og af þeim sökum muni þeir skynja reiði Guðs.“14
Daniel Tyler sagði: „Nokkru eftir komu spámannsins til Commerce (síðar Nauvoo) frá Missouri-fangelsinu, fórum við bróðir Isaac Behunin heim til spámannsins. Ofsóknirnar sem hann varð fyrir urðu umræðuefni okkar. Hann endurtók margar hinna fölsku og mótsagnakenndu yfirlýsingar þeirra sem orðið höfðu fráhverfir og hrætt höfðu meðlimi kirkjunnar og aðra utan kirkju. Hann sagði okkur einnig frá því að flestir embættismennirnir hefðu fuslega viljað taka sig af lífi þegar hann var handtekinn, en síðar orðið góðir kunningjar sínir. Hann sagði sök hvíla á sviksömum bræðrum. …
Þegar spámaðurinn hafði lokið við að segja okkur frá því hvernig farið hefði verið með hann, sagði bróðir Behunin: ,Ef ég mun einhvern tíma yfirgefa kirkjuna, mundi ég ekki gera líkt og þessir menn gjörðu: Ég mundi finna afskekktan stað, þar sem enginn hefur heyrt um mormónisma, setjast þar að, og enginn kæmist að því að ég vissi eitthvað um hann.‘
Hinn mikli sjáandi svaraði samstundis: ,Bróðir Behunin, þú veist ekki hvað þú mundir gera. Án efa hugsuðu þessir menn eitt sinn líkt og þú. Áður en þú gerðist meðlimur kirkjunnar varst þú hlutlaus. Þegar fagnaðarerindið var prédikað var gott og illt sett fram fyrir þig. Þú gast valið annað hvort eða hvorugt. Það voru tveir andstæðir meistarar sem buðu þér að þjóna sér. Þegar þú gerðist meðlimur kirkjunnar valdir þú að þjóna Guði. Þegar þú gerðir það yfirgafst þú hið hlutlausa svæði og þú munt aldrei geta snúið aftur. Ef þú yfirgæfir meistarann sem þú valdir að þjóna, væri það hvatning frá hinum illa, og þú mundir þá fylgja honum og verða þjónn hans.‘ “15
Ef við fylgjum spámönnunum og postulunum og opinberunum kirkjunnar, munum við ekki leiðast afvega.
Orson Hyde, í Tólfpostulasveitinni, sagði: „Spámaðurinn Joseph … sagði: ,Bræður, munið að meirihluti þessa fólks mun aldrei leiðast afvega. Og svo framarlega sem þið tilheyrið þeim meirihluta getið þið verið vissir um að komast í himneska ríkið.‘ “16
William G. Nelson sagði: „Ég hef oft heyrt spámanninn tala opinberlega. Á einni samkomu heyrði ég hann segja: ,Ég mun gefa ykkur lykil sem aldrei mun ryðga, - ef þið fylgið meirihluta postulanna tólf og eruð á skrám kirkjunnar, munuð þið aldrei leiðast afvega.‘ Saga kirkjunnar hefur sannað að það er rétt.“17
Ezra T. Clark minntist: „Ég hlýddi á Joseph Smith segja eitt sinn, að hann hygðist gefa hinum heilögu lykil að því að láta aldrei blekkjast eða leiðast afvega, og hann var þessi: Drottinnmun aldrei leyfa að meirihluti þessa fólks verði leiddur afvega eða láti blekkjast af svikurum eða að skrár kirkjunnar komist í hendur óvina.“18
Ábendingar um nám og kennslu
Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii-xii til frekari leiðsagnar.
-
Lesið frásögnina á bls. 315–16. Hverjar teljið þið vera ástæður þess að fólk geti horfið frá réttlæti til fráhvarfs á svo skömmum tíma? Hvaða áhrif valda því að fólk verður fráhverft nú? Hvað getum við gert til að varast slík áhrif?
-
Hvaða hætta getur falist í því að missa traust á leiðtogum kirkjunnar og taka að gagnrýna þá? (Sjá dæmi á bls. 317–19.) Hvað getum við gert til að viðhalda virðingu fyrir leiðtogum okkar? Hvernig geta foreldrar hvatt börn sín til að virða leiðtoga kirkjunnar?
-
Spámaðurinn kenndi: „Um leið og þið leyfið ykkur að leggja þær skyldur sem Guð hefur falið ykkur til hliðar, til að fullnægja ykkar eigin þrám … , eruð þið að leggja grundvöll að fráhvarfi“ (bls. 317). Hvaða þýðingu hefur þessi yfirlýsing fyrir ykkur?
-
Lesið frásögnina sem Daniel Tyler sagði (bls. 322). Hvers vegna teljið þið að þeir sem horfið hafa frá kirkjunni berjist svo kröftuglega á móti henni? (Sjá dæmi á bls. 319–24.) Hvernig teljið þið að við ættum að bregðast við orðum og verknaði þessa fólks?
-
Lesið síðustu þrjár málsgreinar kaflans (bls. 323–24). Hvers vegna er mikilvægt að skilja og nota „lykilinn“ sem Joseph Smith ræddi um?
Ritningargreinar tengdar efninu: 1 Ne 8:10–33; He 3:33–35; K&S 82:3, 21; 121:11–22