40 . Kafli
Hve dýrðlegir eru trúfastir, réttvísir og sannir vinir
„Vinátta er ein megin grundvallarregla ,mormónisma.‘… Sæluáhrif hennar sameina mannkynið.“
Úr lífi Josephs Smith
Í ágúst 1842 reyndu stjórnvöld í Missouri stöðugt að fanga spámanninn Joseph Smith. Spámaðurinn óttaðist um líf sitt, ef hann yrði handtekinn og færður til Missouri, og fór því huldu höfði. Hinn 11. ágúst sendi hann boð til nokkurra tryggra fjölskyldumeðlima og vina og bað þá að hitta sig á eyju í Mississippifljótinu, ekki fjarri Nauvoo. Þá um kvöldið komu Emma Smith, Hyrum Smith, Newel K. Whitney og fleiri saman við fljótsbakkann og sigldu í litlum báti að tilsettum fundarstað. Spámaðurinn tók glaður í hönd allra, þakklátur fyrir hjálp þeirra og hughreystingu og sanna vináttu. Hann skráði síðar ítarlega í dagbók sína hversu þakklátur hann væri fyrir fjölskyldu sína og vini. Sumar þessar dagbókarfærslur eru hér í kaflanum. Nokkrum vikum síðar ritaði hann bréf til hinna heilögu, þar sem hann lýsti tilfinningum sínum til þeirra: „Ég er, sem ætíð, auðmjúkur þjónn yðar og trúfastur vinur, Joseph Smith“ (K&S 128:25).
Hinir heilögu endurguldu vináttu spámannsins og litu ekki aðeins á hann sem spámann, heldur einnig sem vin. Náinn vinur og einkaritari Josephs Smith, Benjamin F. Johnson, skráði: „ ,Spámaðurinn Joseph‘ – hann var trúfastur vinur, þolinmóður, göfugur og sannur. … Hann var í leik og í starfi afar gjöfull félagi – ljúfur, gjafmildur, glaðvær. … Hann glímdi stundum sér til skemmtunar við vini sína og oftar en ekki reyndi hann styrk sinn á öðrum með því að setjast á jörðina, með fætur saman og prik á milli þeirra. En aldrei fann hann jafnoka sinn. Brandarar, gátur [þar sem myndir voru notaðar til að lýsa orðum], rím og þess háttar, var ekki óalgengt. Oftar var þó einhver beðinn um að syngja einn eða fleiri kæra söngva. … En þótt hann væri afar félagslyndur, og jafnvel stundum veisluglaður, leyfði hann ekki hroka eða óviðeigandi frjálslyndi.“1
Joseph Smith var jafn hreinhjartaður og hann var félagslyndur, líkt og einn ungur maður sagði: „Ég var við hús Josephs, hann var þar og nokkrir menn sátu á girðingunni. Joseph kom út og ræddi við okkur alla. Brátt stóð maður upp og greindi frá því að blásnauður bróðir, sem heima átti nokkuð fjarri bænum, hefði orðið fyrir því að húsið hans brann til kaldra kola kvöldið áður. Nær allir mannannna sögðust kenna í brjósti um hann. Joseph stakk hendinni í vasann, tók upp fimm dali og sagði: ,Ég kenni í brjósti um þennan bróður sem jafngildir fimm dölum, hversu mikið kennið þið allir í brjósti um hann?‘ “2
Ef til vill gerði hin mikla ást sem Joseph bar til vina sinna honum sérstaklega erfitt með að takast á við svik sumra þeirra. Vinir sem spámaðurinn hafði treyst í Nauvoo snerust gegn honum. En margir vina spámannsins endurguldu tryggð hans og stóðu við hlið hans allt til loka.
Einn slíkur vinur var Willard Richards, meðlimur í Tólfpostulasveitinni, sem vistaður var í Charthage-fangelsinu, Illinois, með Joseph og Hyrum Smith. Meðan þeir voru í fangelsinu var þeim leyft að flytja úr fangaklefa á fyrstu hæð í bærilegt svefnherbergi á annarri hæð hússins. Stuttu fyrir morðin benti fangavörðurinn á að fangarnir yrðu öruggari í járnrimlaklefa næst svefnherberginu. Joseph spurði öldung Richards, sem nefndur var „læknirinn“ af vinum sínum þar eð hann hafði lært læknisfræði: ,Kemur þú með okkur í klefann, ef við förum þangað?‘ Læknirinn svaraði: ,Bróðir Joseph, þú baðst mig ekki að fara yfir fljótið með þér – þú baðst mig ekki að fara til Carthage – þú baðst mig ekki að fara í fangelsið með þér – og telur þú að ég yfirgefi þig nú? Ég skal segja þér hvað ég hyggst gera: Verðir þú dæmdur til hengingar fyrir landráð, skal ég hengjast í þinn stað, og þú ganga burtu frjáls.‘ Joseph sagði: ,Þú getur það ekki.‘ Læknirinn svaraði: ,Ég myndi gera það.‘ “3
Kenningar Josephs Smith
Sannir vinir hughreysta hver annan í sorg þeirra og eru tryggir í öllu mótlæti.
Joseph Smith ritaði eftirfarandi um fjölskyldu sína og vini, sem vitjuðu hans 11. ágúst 1842, meðan hann var ífelum: „Hve dásamlegt og dýrðlegt það er fyrir mig að eiga sanna og helga vini, sem eru tryggir, réttsýnir og hollir, sem bregðast ekki, sem standa stöðugir við hlið mér, reiða sig á Drottin og létta mér neyð mína, á þeirri stundu er óvinir mínir veitast að mér í heift. …
Hve mér leið dásamlega þegar ég hitti þennan trygga vinahóp, fimmtudagskvöldið hinn ellefta, á eyjunni við mynni mýrarfensins, milli Sarahemla og Nauvoo. Þegar ég tók í hönd minnar ástkæru Emmu þetta kvöld – eiginkonu minnar allt frá yngri árum, og yndi hjarta míns, gagntók mig ólýsanleg gleði og hjartans fögnuður. Margt var það sem í hugann kom þegar mér varð um stund hugsað til hinna mörgu lífsins stunda sem við höfðum upplifað saman, áreynslunnar og erfiðleikanna, sorgarinnar og sársaukans, sem og gleðinnar og huggunarinnar er á vegi okkar varð og fyrir okkur átti að liggja. Ó, hve minningarbrotin fylltu huga minn þá stund er hún að nýju var hjá mér, … mín óttalausa, staðfasta og óhagganlega - óbreytanlega, ástúðlega Emma!
Næst var það Hyrum bróðir sem tók í hönd mína – sannur bróðir. Ég hugsaði með sjálfum mér: Hyrum bróðir, hve hjarta þitt er trygglynt! Ó, megi hinn eilífi Jehóva krýna þig eilífum blessunum og launa þér umhyggjuna sem þú hefur sýnt sál minni! Ó, hve sorgarstundirnar eru margar sem við höfum átt saman, og enn á ný erum við í þeim sporum, að hin miskunnarlausa hönd harðræðis kreppir fast að. Hyrum, nafn þitt skal ritað í lögmálsbók Drottins, svo að þeir sem á eftir þér koma megi líta hana og taka verk þín sér til fyrirmyndar.
Ég hugsaði með sjálfum mér: Hér er einnig bróðir Newel K. Whitney. Hve marga sorgina höfum við upplifað saman, og enn á ný hittumst við í sameiginlegri sorg. Þú ert sannur vinur, sem hrjáðir synir manna geta reitt sig á, af fyllsta öryggi. Megi blessanir hins eilífa einnig krýndar á höfuð hans. Hve hjartgóður! Hve sál hans er full löngunar eftir velferð hans sem vísað hefur verið í burtu, og þola þarf óvild næstum allra manna. Bróðir Whitney, þú gerir þér ekki grein fyrir hve böndin eru sterk sem binda þig sál minni og hjarta. …
Ég hef ekki hugsað mér að minnast á alla framvindu þessa helga kvölds, sem ég mun ávallt minnast, en nöfn hinna trúföstu hef ég hugsað mér að skrá hér. Þeim hef ég verið með í farsæld og þeir voru vinir mínir, og nú er ég með þeim í mótlæti og enn eru þeir mínir hjartans vinir. Þessir elska þann Guð sem ég þjóna, þeir elska sannleikann sem ég lýsi yfir, þeir elska hinar dyggðugu og helgu kenningar sem ég elska af öllu hjarta og af þeim eldmóði sem ekki er hægt að líta framhjá. …
… Ég vona að ég eigi eftir að sjá [vini mína] að nýju, að ég megi berjast áfram með þeim, og hughreysta þá einnig. Þeir skulu ekki vinalausir meðan ég lifi. Ég mun í hjarta elska þá, og með höndum mínum mun ég erfiða fyrir þá sem elska og erfiða fyrir mig, og ætíð skal ég vera trúr vinum mínum. Ætti ég að vera vanþakklátur? Sannlega ekki! Guð forði mér frá því!“4
Hinn 23. ágúst 1842 ritaði spámaðurinn áfram: „Mér finnst sem tilfinningar mínar … til vina minna endurvakni, er ég hugleiði dyggðir, góðmennsku og persónuleika hinna fáu trúu, sem ég nú skrái í lögmálsbók Drottins, – þeirra sem staðið hafa með mér á öllum átakastundum, í þessi fimmtán löngu ár, – ég nefni til að mynda minn ástkæra bróður, Joseph Knight eldri, sem var meðal hinna fyrstu sem hjálpaði mér í neyð minni, í erfiði mínu við að leiða fram verk Drottins, og leggja grunn að Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Í fimmtán ár hefur hann verið trúfastur og sannur, verið sanngjarn og til eftirbreytni, dyggðugur og ljúfur, og aldrei hefur hann vikið frá, hvorki til hægri né vinstri. Já, hann er réttlátur maður og megi Guð almáttugur gefa honum langt líf, og megi hrörlegur og hrjáður líkami hans endurnýjaður, og megi hann ávallt hljóta heilbrigði og lífsþrótt, sé það þinn vilji, ó Guð. Og synir Síonar skulu um hann segja, þótt ekki verði nema einn þeirra eftir, að hann hafi verið trúfastur maður í Ísrael. Því skal nafn hans aldrei falla í gleymsku. …
… Er ég minnist hinna fáu trúföstu sem enn lifa, hef ég einnig í huga þá trúföstu vini mína sem dánir eru, því þeir eru margir; og kærleiksverk þeirra í mína þágu – föðurleg og bróðurleg ljúfmennskan – eru mörg. Og frá því að Missouribúar tóku að hundelta mig, hafa mörg slík atvik komið upp í huga minn. …
Þær eru margar sálirnar sem ég hef elskað svo heitt að ég mundi deyja fyrir þær. Þeim hef ég sýnt tryggð – þeim er ég staðráðinn í að vera trúr, allt þar til Guð kallar mig til sín og ég gef upp andann.“5
Vinátta sameinar mannkynið og kemur í veg yfir misskilning og óvild.
„Það skiptir mig engu hver persónugerð manns er, sé hann vinur minn – sannur vinur, verð ég vinur hans, prédika fyrir honum fagnaðarerindi sáluhjálpar, veiti honum góða leiðsögn og hjálpa honum í erfiðleikum hans.
Vinátta er ein megin grundvallarregla ,mormónisma‘; [hún er til þess gerð] að umbylta og menningarvæða heiminn, binda enda á stríð og átök og gera menn að vinum og bræðrum. …
… Vinátta er lík því þegar bróðir [Theodore] Turley hamrar járnið saman í smiðju sinni, sæluáhrif hennar sameina mannkynið.“6
„Sú vinátta sem vitsmunaverur taka gilda verður að spretta af kærleika, og kærleikurinn á rætur í dyggðinni og er jafn mikilvægur trúarbrögðum og ljósið er Jehóva. Af þeim sökum sagði Jesús: ,Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.‘ [Jóh 15:13.]”7
Í mars 1839, er spámaðurinn Joseph Smith og nokkrir félagar hans voru í fangavist í Liberty-fangelsinu, Missouri, ritaði hann eftirfarandi til meðlima kirkjunnar: „Okkur bárust nokkur bréf í gærkvöldi - eitt frá Emmu, annað frá Don C. Smith [bróður Josephs], og enn eitt frá [Edward] Partridge biskupi – sem öll voru andleg, ljúf og hughreystandi. Við vorum afar þakklátir fyrir efni þeirra. Við höfðum engin tíðindi fengið um langt skeið og þegar við lásum bréfin voru þau sál okkar sem mildur og hressandi vindblær, en gleði okkar var þó blandin sorg yfir þjáningum hinna blásnauðu og særðu heilögu. Og við þurfum vart að nefna að flóðgáttir hjartna okkar lukust upp og augun fylltust tárum, en þeir sem vistaðir eru innan veggja fangelsis, án tilefnis og sektar, fá aðeins skilið hve ljúf vinarröddin getur verið. Eitt vinartákn, af einhverju tagi, vekur samúð og löngun til að hjálpa og kallar um leið fram allt sem liðið er, fyllir líðandi stund sem eldingsbjarmi og vekur þrá eftir að taka framtíðina föstum tökum, líkt og tígur hremmir bráð. Hugurinn reikar fram og til baka, úr einu í annað, þar til sérhver óvild, beiskja og hatur, og ágreiningur fyrri tíðar, misskilningur og mistök, hverfa og verða að engu í ljósi vonar.“8
Hinir heilögu Guðs eru hverjir öðrum sannir vinir.
Spámaðurinn ritaði eftirfarandi orð til kirkjumeðlims í ágúst 1835: ,Við minnumst fjölskyldu þinnar, meðal allra hinna fyrstu fjölskyldna kirkjunnar, sem fyrst tóku á móti sannleikanum. Við minnumst missis þíns og sorgar. Fyrstu bönd okkar hafa ekki brostið. Við eru hluttakendur með þér í hinu illa sem og hinu góða, í sorginni sem og gleðinni. Við trúum að bönd okkar séu sterkari en dauðinn og að þau muni aldrei bresta.“9
Spámaðurinn sagði eftirfarandi um veislu sem hann sótti í Kirtland í janúar 1836: „Ég sótti dýrindis veilsu hjá Newel K. Whitney biskupi. Sú veisla var að reglu sonar Guðs – hinum örkumla, halta og blinda var boðið samkvæmt tilmælum frelsarans [sjá Lúk 14:12–13]. … Mannmargt var þar, og áður en við þáðum veitingar voru sungnir nokkrir söngvar Síonar, og við glöddumst í hjarta af forsmekk þess fagnaðar sem úthellt verður yfir höfuð hinna heilögu, þeim verður safnað saman á fjalli Síonar, til að njóta ævarandi samveru, jafnvel allra blessana himins, og þá verður enginn til að áreita okkur eða ógna.“10
Systir Presendia Huntington Buell reyndi að vitja Josephs Smith, meðan hann var í Liberty-fangelsinu, árið 1839, en fangavörðurinn vísaði henni frá. Spámaðurinn ritaði síðar til hennar: „Ó, hve gleðilegt það hefði verið fyrir okkur að fá að sjá vini okkar! Ég hefði glaðst í hjarta yfir þeim forréttindum að fá að ræða við þig, en hönd ofríkis er yfir okkur. … Ég vil að þér og [eiginmanni þínum] sé ljóst að ég er ykkur sannur vinur. … Engin tunga fær sagt frá því hve ólýsanleg gleði fylgir því að sjá ásjónu vinar, eftir að hafa verið lokaður innan veggja fangelsis í fimm mánuði. Mér finnst hjarta mitt ætíð verða mildara en áður, eftir slíkar heimsóknir. Hjarta mínu blæðir stöðugt þegar mér verður hugsað til erfiðleika þegna kirkjunnar. Ó, að ég mætti vera með þeim! Ég mundi ekki draga neitt af mér í striti og harðræði við að hughreysta þá og létta þeim lífið. Ég þrái þá blessun einu sinni enn að hefja upp raust mína mitt á meðal hinna heilögu. Ég mundi úthella sál minni til Guðs þeim til leiðsagnar.“11
Spámaðurinn talaði í Nauvoo, Illinois, en þangað höfðu margir meðlimir kirkjunnar komið, með litlar veraldlegar eigur, og sagði: „Við ættum að sýna hinum hrjáðu meðal okkar samúð. Sé til sá staður á jörðinni, þar sem menn ættu að rækta með sér slíkan anda, og veita hinum hrjáðu viðsmjör og vín, þá er það þessi staður. Og andi þessi er hér skynjanlegur, og jafnvel þó [einhver] sé ókunnugur og hrjáður þegar hann kemur hingað, mun hann finna bróður og vin, sem reiðubúinn er að hjálpa í neyð hans.
Ég liti á það sem eina mína mestu blessun, væri ég hrjáður af þessum heimi, ef fyrir mér ætti að liggja að finna stað þar sem bræður og vinir umlyktu mig.“12
George A. Smith, frændi spámannsins, sagði: ,Við lok samræðna okkar vafði Joseph mig örmum, þrýsti mér fast að sér og sagði: ,George A., ég elska þig jafn heitt og eigið líf.‘ Ég skynjaði svo mikla ástúð, að ég fékk varla mælt.“13
Ábendingar um nám og kennslu
Íhugið þessar hugmyndir er þið lærið þennan kafla eða búið ykkur undir kennslu. Sjá bls. vii–xii til frekari leiðsagnar.
-
Lesið fyrstu málsgreinina á bls. 455. Lesið síðan á bls. 458–60 þar sem segir frá þeim eiginleikum sem Joseph Smith metur mikils í fari Emmu Smith, Hyrums Smith, Newels K. Whitney og Josephs Knight eldri. Hvers vegna teljið þið að vinátta þeirra hafi verið honum slík hughreysting á erfiðum tímum? Á hvaða hátt hafa vinir ykkar styrkt ykkur í mótlæti? Hvað getum við gert til að styðja aðra þegar þeir mæta erfiðleikum?
-
Flestar frásagnirnar í þessum kafla fjalla um gildi sannrar vináttu á erfiðum tímum. En í málsgreininni sem hefst neðst á bls. F. Johnson frá vináttu Josephs Smith á tímum friðar. Hvaða lærdóm dragið þið af þessari lýsingu hans? Hvernig eflir það vinar- og fjölskyldutengslin að gefa sér tíma til að hlæja og skemmta sér saman?
-
Lesið alla þriðju málsgreinina á bls. 460. Hvers vegna teljið þið að Joseph Smith hafi sagt að vináttan sé „ein megin grundvallarregla ,mormónisma‘ “? Hvernig getur hið endurreista fagnaðarerindi gert fólki kleift að sjá hvert annað sem vini? Hvernig hafa aðrir forsetar kirkjunnar sýnt öllu fólki gott fordæmi um vináttu?
-
Lesið alla fjórðu málsgreinina á bls. 462. Hvernig er vinátta lík því að hamra saman járn?
-
Lesið fyrstu heilu málsgreinina á bls. 462 og einnig næstu málsgrein. Veitið athygli hugtökunum „viðsmjöri og víni,“ í dæmisögunni um miskunnsama Samverjann (Lúk 10:34). Hvað getum við gert til að fylgja leiðsögn spámannsins? Til að fylgja fordæmi miskunnsama Samverjans?
Ritningargreinar tengdar efninu: 1 Sam 18:1; Okv 17:17; 2 Ne 1:30; Mósía 18:8–10; Al 17:2; K&S 84:77; 88:133