Ritningar
Alma 30


30. Kapítuli

Andkristurinn Kóríhor hæðist að Kristi, friðþægingunni og spádómsandanum — Hann kennir að enginn Guð sé til, ekkert fall mannsins, engin refsing fyrir syndir og enginn Kristur — Alma ber vitni um að Kristur muni koma og að allir hlutir sýni, að Guð sé til — Kóríhor heimtar tákn og missir málið — Djöfullinn hafði birst Kóríhor í líki engils og kennt honum hvað segja átti — Kóríhor er fótum troðinn og deyr. Um 76–74 f.Kr.

1 Sjá, nú bar svo við, að þegar fólk Ammons hafði komið sér fyrir í Jersonslandi, já, og einnig eftir að Lamanítar höfðu verið reknir úr landinu og íbúar landsins höfðu grafið hina föllnu —

2 Nú var ekki tölu kastað á hina föllnu, vegna þess hve fjöldinn var mikill, né heldur var tölu kastað á hina föllnu Nefíta — þá bar svo við, að þegar þeir höfðu lokið við að grafa hina föllnu og einnig að loknum föstu-, sorgar- og bænadögum (og það var á sextánda stjórnarári dómaranna yfir Nefíþjóðinni), tók að komast á stöðugur friður um allt landið.

3 Já, og fólkið gætti þess að halda boðorð Drottins og virtu stranglega helgiathafnir Guðs, samkvæmt lögmáli Móse, þar eð því var kennt að halda lögmál Móse, þar til það uppfylltist.

4 Og þannig voru engar óeirðir meðal þjóðarinnar á sextánda stjórnarári dómaranna yfir Nefíþjóðinni.

5 Og svo bar við, að í upphafi sautjánda stjórnarárs dómaranna ríkti áframhaldandi friður.

6 En svo bar við, að á síðari hluta sautjánda ársins kom maður nokkur til Sarahemlalands, og var hann andkristur, því að hann tók að prédika fyrir fólkinu gegn spádómum spámannanna um komu Krists.

7 Nú voru engin lög, sem mæltu gegn trú nokkurs manns, því að það var með öllu andstætt boðum Guðs, að til væru lög, sem gjörðu mönnum misjafnlega hátt undir höfði.

8 Því að ritningin segir svo: Kjósið í dag, hverjum þér viljið þjóna.

9 En ef einhver vildi þjóna Drottni, þá voru það forréttindi hans, eða öllu heldur, ef hann trúði á Guð, þá voru það forréttindi hans að þjóna honum. En ef einhver trúði ekki á hann, voru engin lög um að refsa honum.

10 En ef einhver framdi morð, var honum refsað með dauða, og ef hann rændi, var honum einnig refsað. Og ef maður stal, var honum einnig refsað, og ef hann drýgði hór, var honum einnig refsað. Já, fyrir allt slíkt ranglæti var mönnum refsað.

11 Því að lög voru um, að menn skyldu dæmdir samkvæmt brotum sínum. Þó voru engin lög gegn trúarskoðunum nokkurs manns. Þess vegna var manni refsað einungis fyrir afbrot, sem hann hafði framið. Og þannig var öllum mönnum gjört jafnt undir höfði.

12 Og þessi andkristur, sem bar nafnið Kóríhor (en lögin náðu ekki til hans), tók að prédika fyrir fólkinu, að enginn Kristur væri til. Og á þennan hátt prédikaði hann og sagði:

13 Ó, þér sem fjötruð eru heimskulegri og fánýtri von, hví ánetjist þér slíkri fávisku? Hví væntið þér Krists? Enginn maður getur vitað neitt um það, sem í vændum er.

14 Sjá. Þetta, sem þér kallið spádóma, sem þér segið heilaga spámenn hafa gefið yður, sjá, það eru heimskulegar erfikenningar feðra yðar.

15 Hvernig vitið þér, að þeim sé treystandi? Sjá, þér getið ekkert vitað um það, sem þér getið ekki séð. Þess vegna getið þér ekki vitað, að Kristur muni koma.

16 Þér væntið þess og segið, að þér sjáið fyrirgefningu synda yðar. En sjá. Þetta eru órar truflaðrar hugsunar, og þessir hugarórar eiga rót sína að rekja til erfikenninga feðra yðar, sem afvegaleiða yður til trúar á það sem ekki er.

17 Og margt slíkt fleira sagði hann við þá. Og hann sagði þeim, að ekki væri hægt að friðþægja fyrir syndir mannanna, heldur færi fyrir hverjum og einum í þessu lífi, samkvæmt breytni hans. Þess vegna væri velgengni sérhvers manns bundin náttúrugáfum hans, og sigur sérhvers manns væri bundinn við styrk hans og ekkert, sem maðurinn tæki sér fyrir hendur, væri glæpur.

18 Og þannig prédikaði hann fyrir þeim og leiddi hjörtu margra afvega og fékk þá til að hreykja sér í ranglæti sínu, já, fékk margar konur og einnig karla til að drýgja hór — þar eð hann sagði þeim, að þegar maðurinn væri dáinn, væru það endalokin.

19 En þessi maður fór einnig yfir til Jersonslands til að prédika þetta fyrir fólki Ammons, sem áður var Lamanítar.

20 En sjá. Þeir voru vitrari en margir Nefítanna, því að þeir tóku hann og fjötruðu og báru hann fyrir Ammon, sem var æðsti prestur þeirrar þjóðar.

21 Og svo bar við, að hann lét flytja hann úr landi. Og hann fór yfir til Gídeonslands og tók einnig að prédika fyrir þeim. En þar gekk honum ekki vel, því að hann var tekinn, fjötraður og leiddur fyrir æðsta prestinn og einnig yfirdómara landsins.

22 Og svo bar við, að æðsti presturinn sagði við hann: Hvers vegna ferð þú um og rangsnýrð vegum Drottins? Hvers vegna kennir þú þessu fólki, að enginn Kristur komi og spillir þannig gleði þess? Hvers vegna talar þú gegn öllum spádómum hinna heilögu spámanna?

23 En nafn æðsta prestsins var Gíddóna. Og Kóríhor sagði við hann: Vegna þess að ég kenni ekki heimskulegar erfikenningar feðra ykkar, og vegna þess að ég kenni ekki þessu fólki að láta fjötrast af fávísum fyrirmælum og athöfnum, sem fornir prestar hafa boðið, til að ná völdum og ráðum yfir þeim og halda þeim í fáfræði, svo að þeir geti ekki lyft höfði, heldur séu undirokaðir í samræmi við orð þín.

24 Þið segið, að þetta fólk sé frjálst. Sjá. Ég segi, að það sé í fjötrum. Þið segið, að þessir fornu spádómar séu sannir. Sjá. Ég segi, að þið vitið ekki, hvort þeir eru sannir.

25 Þið segið, að þetta fólk sé sekt og fallið vegna lögmálsbrota foreldris. Sjá. Ég segi, að barn sé ekki sekt vegna foreldra sinna.

26 Og þið segið einnig, að Kristur muni koma. En sjá. Ég segi, að þið vitið ekki, hvort Kristur kemur. Og þið segið einnig, að hann muni deyddur fyrir syndir heimsins —

27 Og þannig afvegaleiðið þið þetta fólk eftir heimskulegum erfikenningum feðra ykkar og að ykkar eigin óskum. Og þið haldið því niðri rétt eins og það sé í ánauð, svo að þið getið rifið í ykkur erfiði handa þess, svo að það þori ekki að líta upp með djörfung og þori ekki að njóta réttar síns og réttinda.

28 Já, það þorir ekki að notfæra sér það, sem er þeirra eigið, af hræðslu við að móðga presta sína, sem undiroka það að eigin geðþótta og hafa komið því til að trúa því í samræmi við þeirra eigin erfikenningar, drauma, duttlunga, hugsýnir og uppgerðar leyndardóma, að ef það fari ekki eftir orðum þeirra, muni það móðga einhverja óþekkta veru, sem þeir segja vera Guð — veru, sem enginn hefur séð eða þekkt, sem aldrei hefur verið til og aldrei verður til.

29 En þegar æðsti presturinn og yfirdómarinn sáu hörkuna í hjarta hans, já, þegar þeir sáu, að hann mundi jafnvel úthúða Guði, svöruðu þeir orðum hans engu. En þeir létu fjötra hann og afhentu hann fangavörðunum og sendu hann til Sarahemlalands, svo að hægt væri að leiða hann fyrir Alma og yfirdómarann, sem var landstjóri alls landsins.

30 Og svo bar við, að þegar hann var leiddur fyrir Alma og yfirdómarann, hélt hann áfram á sama hátt og í Gídeonslandi, já, hann hélt áfram að guðlasta.

31 Og hann reis upp með mörgum fjálglegum orðum frammi fyrir Alma og atyrti prestana og kennarana og ásakaði þá um að afvegaleiða fólkið með heimskulegum erfikenningum feðra sinna til að geta satt sig af erfiði fólksins.

32 En nú sagði Alma við hann: Þú veist, að við seðjum okkur ekki af erfiði þessa fólks. Því að sjá. Ég hef erfiðað frá upphafi stjórnar dómaranna og fram að þessu með mínum eigin höndum mér til framfæris, þrátt fyrir margar ferðir mínar um landið til að boða þjóðinni orð Guðs.

33 Og þrátt fyrir þá miklu vinnu, sem ég hef á mig lagt fyrir kirkjuna, hef ég aldrei tekið svo mikið sem eitt senín fyrir erfiði mitt, og slíkt hefur heldur enginn bræðra minna gjört, nema ef vera skyldi í dómarasætinu, og þá höfum við aðeins fengið laun samkvæmt lögum, fyrir tíma okkar.

34 Og úr því að við fáum engin laun fyrir erfiði okkar í kirkjunni, hvaða hagnað höfum við þá af því að erfiða í kirkjunni, annan en þann að boða sannleikann, svo að við getum samglaðst bræðrum okkar?

35 Hvers vegna segir þú þá, að við prédikum fyrir þessu fólki til að hagnast, þegar þú veist sjálfur, að við tökum ekki við hagnaði? Og trúir þú nú, að blekkingar frá okkur veiti þessu fólki svo mikla gleði í hjarta?

36 Og Kóríhor svaraði honum: Já.

37 Og þá sagði Alma við hann: Trúir þú, að til sé Guð?

38 Og hann svaraði: Nei.

39 Nú sagði Alma við hann: Vilt þú enn neita því, að til sé Guð, og einnig afneita Kristi? Því að sjá. Ég segi þér, að ég veit, að Guð er til, og einnig, að Kristur kemur.

40 Og hvaða sönnun hefur þú nú fyrir því, að enginn Guð sé til eða að Kristur komi ekki? Ég segi þér, að þú hefur enga aðra en þín eigin orð.

41 En sjá. Allt er mér vitnisburður um, að þessir hlutir séu sannir. Og þú hefur líka allt til að bera vitni um, að þeir séu sannir, en vilt þú afneita þeim? Trúir þú, að þessir hlutir séu sannir?

42 Sjá, ég veit, að þú trúir, en þú ert á valdi anda lyginnar, og þú hefur úthýst anda Guðs, þannig að hann hefur ekkert rúm í þér, en djöfullinn hefur vald yfir þér, og hann leiðir þig áfram og gjörir áform um að tortíma börnum Guðs.

43 Og nú sagði Kóríhor við Alma: Ef þú vilt sýna mér tákn, sem sannfæra mig um, að Guð sé til, já, sýna mér, að hann hefur vald, þá mun ég sannfærast um sannleik orða þinna.

44 En Alma sagði við hann: Þú hefur fengið næg tákn. Vilt þú freista Guðs þíns? Vilt þú segja, sýn mér tákn, þegar þú hefur vitnisburð allra þessara bræðra þinna og einnig vitnisburð allra hinna heilögu spámanna? Ritningarnar liggja frammi fyrir þér, og allir hlutir sýna fram á, að Guð er til. Já, jafnvel jörðin og allt, sem á henni er, já, og snúningur hennar, já, og einnig öll himintunglin, sem snúast á sinn reglubundna hátt, bera því vitni, að til er æðri skapari.

45 En samt ferð þú um og afvegaleiðir hjörtu þessa fólks og berð því vitni, að enginn Guð sé til? Og vilt þú enn afneita öllum þessum vitnum? Og hann sagði: Já, ég mun afneita öllu, nema þú sýnir mér tákn.

46 Og nú bar svo við, að Alma sagði við hann: Sjá, ég harma hörku hjarta þíns, já, að þú stendur enn gegn anda sannleikans, svo að sál þín tortímist.

47 En sjá. Betra er að sál þín glatist en þú verðir til þess að leiða margar sálir til tortímingar með lygum og fagurgala. Ef þú þess vegna afneitar á ný, sjá, þá mun Guð ljósta þig, svo að þú missir málið og getir aldrei framar upp lokið vörum þínum til þess að blekkja þetta fólk.

48 Nú sagði Kóríhor við hann: Ég afneita ekki tilveru Guðs, en ég trúi ekki, að Guð sé til. Og ég segi einnig, að þú vitir ekki, að Guð sé til. Aðeins ef þú sýnir mér tákn, mun ég trúa.

49 Nú sagði Alma við hann: Ég mun gefa þér það tákn, að þú verðir gjörður mállaus samkvæmt orðum mínum, og ég segi þetta í nafni Guðs, þú munt verða mállaus og aldrei framar geta komið upp orði.

50 Þegar Alma hafði lokið þessum orðum, varð Kóríhor mállaus og gat ekki komið upp nokkru orði, í samræmi við orð Alma.

51 Og þegar yfirdómarinn nú sá þetta, rétti hann fram hönd sína, skrifaði til Kóríhor og sagði: Ert þú sannfærður um kraft Guðs? Og á hverjum vildir þú, að Alma sýndi tákn sitt? Hefðir þú viljað, að hann þrengdi að öðrum til að sýna þér tákn? Sjá, hann hefur sýnt þér tákn, og vilt þú nú enn andmæla?

52 Og Kóríhor rétti fram hönd sína og skrifaði og sagði: Ég veit, að ég er mállaus, því að ég get ekki talað. Og ég veit, að ekkert nema kraftur Guðs hefði getað leitt þetta yfir mig. Já, og ég vissi einnig, að til var Guð.

53 En sjá. Djöfullinn hefur blekkt mig, því að hann birtist mér í engilslíki og sagði við mig: Far þú og endurheimtu þetta fólk, því að það hefur allt vikið af réttri braut í leit að óþekktum Guði. Og hann sagði við mig: Enginn Guð er til. Já, og hann kenndi mér, hvað ég ætti að segja. Og ég hef kennt hans orð. Ég kenndi þau, vegna þess að þau voru holdlegu hugarfari geðþekk. Og ég kenndi þau með miklum árangri, svo að ég trúði í raun og veru, að þau væru sönn. Og af þessari ástæðu stóð ég gegn sannleikanum, allt þar til ég kallaði þessa miklu bölvun yfir mig.

54 Þegar hann nú hafði sagt þetta, sárbændi hann Alma um að biðja Guð um að létta bölvuninni af sér.

55 En Alma sagði við hann: Ef þessari bölvun væri af þér létt, mundir þú aftur afvegaleiða hjörtu þessa fólks. Þess vegna mun fyrir þér fara eins og Drottinn vill.

56 Og svo bar við, að bölvuninni létti ekki af Kóríhor, en honum var vísað burtu, og hann fór hús úr húsi til að betla sér mat.

57 En fregnin um það, sem kom fyrir Kóríhor, barst umsvifalaust um gjörvallt landið. Já, yfirdómarinn sendi strax tilkynningu til allra í landinu og tilkynnti þeim, sem trúað höfðu orðum Kóríhors, að þeir yrðu að iðrast hið fyrsta, ef sami dómur ætti ekki að koma yfir þá.

58 Og svo bar við, að þeir sannfærðust allir um ranglæti Kóríhors. Þess vegna snerust þeir allir aftur til trúar á Drottin. Og þetta batt enda á misgjörðir að hætti Kóríhors. Og Kóríhor gekk hús úr húsi og betlaði mat, sér til viðurværis.

59 Og svo bar við, að þegar hann fór enn meðal fólksins, já, meðal þeirra, sem höfðu skilið við Nefítana og nefndu sig Sóramíta og voru undir stjórn manns, sem kallaður var Sóram — þegar hann fór um meðal þeirra, sjá, þá var ruðst þar á hann, og hann fótum troðinn til dauða.

60 Og þannig sjáum við endalok þess, sem rangsnýr vegum Drottins. Og þannig sjáum við, að djöfullinn stendur ekki með börnum sínum á efsta degi, heldur dregur þau hratt niður til heljar.