Ritningar
Alma 39


Fyrirmæli Alma til sonar síns, Kóríantons.

Nær yfir 39. til og með 42. kapítula.

39. Kapítuli

Kynlífssynd er viðurstyggð — Syndir Kóríantons komu í veg fyrir að Sóramítar tækju á móti orðinu — Endurlausn Krists er afturvirk og frelsar hina staðföstu sem áður voru uppi. Um 74 f.Kr.

1 Og nú, sonur minn, nokkuð fleira þarf ég að segja við þig en bróður þinn. Því að sjá. Hefur þú ekki tekið eftir staðfestu bróður þíns, trúmennsku hans og kostgæfni við að halda boðorð Guðs? Sjá, hefur hann ekki gefið þér gott fordæmi?

2 Því að þú hefur ekki gefið orðum mínum jafnmikinn gaum og bróðir þinn gjörði meðal Sóramíta. En þetta er það, sem ég færi gegn þér. Þú fórst að miklast af styrk þínum og visku.

3 Og ekki aðeins það, sonur minn. Þú gjörðir það, sem mér féll þungt, því að þú yfirgafst hina helgu þjónustu og fórst yfir í Síronsland við landamæri Lamaníta að elta skækjuna Ísabellu.

4 Já, hún stal hjörtum margra, en það var þér engin afsökun, sonur minn. Þú hefðir átt að stunda þá helgu þjónustu, sem þér hafði verið falin.

5 Veistu ekki, sonur minn, að þetta er viðurstyggð í augum Drottins? Já, synd, sem er öllum öðrum syndum viðurstyggilegri að því undanskildu að úthella saklausu blóði eða afneita heilögum anda?

6 Því að sjá. Ef þú afneitar heilögum anda, eftir að hann hefur einu sinni dvalið í þér, og þú veist, að þú afneitar honum, sjá, þá er það óafsakanleg synd. Já, og hverjum þeim, sem myrðir gegn ljósi og þekkingu á Guði, er ekki auðvelt að öðlast fyrirgefningu. Já, ég segi þér, sonur minn, að ekki er auðvelt fyrir hann að hljóta fyrirgefningu.

7 Og nú, sonur minn, vildi ég, að Guð gæfi, að þú hefðir ekki gjörst sekur um svo stórt brot. Ég dveldi ekki við afbrot þín til að hrjá sálu þína, ef það væri þér ekki til góðs.

8 En sjá. Þú getur ekki dulið afbrot þín fyrir Guði. Og ef þú iðrast ekki, munu þau standa sem vitnisburður gegn þér á efsta degi.

9 Sonur minn, ég vildi, að þú iðraðist og létir af syndum þínum og værir ekki lengur að eltast við það, sem augu þín girnast, heldur neitaðir þér um allt slíkt. Því að án þess að gjöra það getur þú á engan hátt erft Guðs ríki. Ó, haf þetta hugfast, og legg það á þig að neita þér um þessa hluti.

10 Og ég býð þér að leita ráða hjá eldri bræðrum þínum í því, sem þú tekur þér fyrir hendur, því að sjá, þú ert ungur að árum og þarft á hjálp eldri bræðra þinna að halda. Gefðu gaum að ráðum þeirra.

11 Láttu ekki leiða þig afvega vegna nokkurs fánýts og heimskulegs hlutar. Leyfðu ekki djöflinum að afvegaleiða hjarta þitt aftur eftir þessum ranglátu skækjum. Sjá, ó, sonur minn. Hve mikla misgjörð hefur þú ekki leitt yfir Sóramíta, því að þegar þeir sáu hegðun þína, trúðu þeir ekki orðum mínum.

12 Og nú segir andi Drottins við mig: Bjóð þú börnum þínum að gjöra gott, að öðrum kosti gætu þau leitt hjörtu margra til glötunar. Þess vegna býð ég þér, sonur minn, í Guðs ótta, að halda þig frá misgjörðum þínum —

13 Að þú snúir þér til Drottins af öllum huga þínum, mætti og styrk, svo að þú leiðir ekki fleiri hjörtu til ranglátrar breytni, heldur snúir þú aftur til þeirra og viðurkennir bresti þína og það, sem þú hefur gjört rangt.

14 Leitaðu ekki eftir auðæfum eða hégóma þessa heims, því að sjá. Þú getur ekki tekið slíkt með þér.

15 Og sonur minn. Nú langar mig til að segja nokkur orð við þig um komu Krists. Sjá, ég segi þér, að það er hann, sem örugglega kemur til að bera burtu syndir heimsins. Já, hann kemur og boðar fólki sínu fagnaðartíðindi um hjálpræði.

16 Og sonur minn. Til þessarar helgu þjónustu varst þú kallaður, að boða þessu fólki þessi fagnaðartíðindi, til að undirbúa hugi þeirra, eða öllu heldur til að hjálpræðið megi ná til þeirra og þeir búi hugi barna sinna undir að heyra orðið á komutíma hans.

17 Og nú ætla ég að létta örlítið á huga þínum varðandi þetta mál. Sjá, þú undrast, hvernig hægt sé að vita um þessa hluti svo löngu fyrirfram. Sjá, ég spyr þig. Er ekki hver sál jafn dýrmæt Guði nú á tímum og hver sál verður á komutíma hans?

18 Er ekki jafn nauðsynlegt að endurlausnaráætlunin sé kunngjörð þessu fólki og börnum þess?

19 Er ekki jafn auðvelt fyrir Drottin nú á tímum að senda engil til að boða okkur þennan fagnaðarboðskap eins og börnum okkar eða eins og eftir komu hans?