123. Kafli
Skylda hinna heilögu varðandi ofsóknara sína, skrifað af spámanninum Joseph Smith, meðan hann var í haldi í fangelsinu í Liberty, Missouri. Þessi kafli er útdráttur úr sendibréfi til kirkjunnar, dagsett 20. mars 1839 (sjá formála að kafla 121).
1–6, Hinir heilögu skulu safna heimildum og birta frásagnir af þjáningum sínum og ofsóknum á hendur þeim; 7–10, Sami andinn sem setur fram falskar játningar, leiðir einnig til ofsókna á hendur hinum heilögu; 11–17, Margir meðal allra trúfélaga munu enn taka á móti sannleikanum.
1 Og enn, vér bendum yður á að hugleiða hvort ekki sé rétt, að allir hinir heilögu safni saman vitneskju um allar staðreyndir og þjáningar og ofsóknir þær, sem þeir hafa orðið fyrir af íbúum þessa ríkis —
2 Og einnig um allt það tjón, sem þeir hafa beðið, bæði á mannorði og fasteignum —
3 Og einnig nöfn þeirra, sem tekið hafa þátt í þessum ofsóknum, svo framarlega sem þeim reynist unnt að ná þeim og finna þau.
4 Ef til vill mætti skipa nefnd til að rannsaka þetta og skrá niður yfirlýsingar og eiðfesta framburði og safna saman ærumeiðandi skrifum, sem í umferð eru —
5 Og öllu því, sem er í tímaritum og alfræðibókum og öllum ærumeiðandi sögusögnum, sem birtar eru og skráðar eru, og hverjir skrá þær, og kynna allan þann samtvinnaða og djöfullega óþverra og þær níðingslegu og mannskæðu ráðagerðir, sem hafðar hafa verið í frammi gegn þessu fólki —
6 Svo að við getum ekki aðeins birt það öllum heiminum, heldur og kynnt það yfirvöldum í öllum þess myrku og djöfullegu litum, sem síðasta tilraunin, sem himneskur faðir okkar leggur að okkur að gjöra, áður en við með fullum rétti getum krafist þess fyrirheits, sem kalla mun hann fram úr skýli sínu. Og einnig svo að öll þjóðin verði án afsökunar, áður en hann fær sent kraft síns máttuga arms.
7 Það er óhjákvæmileg skylda okkar gagnvart Guði, englunum, sem við verðum látin standa með, og einnig okkur sjálfum, eiginkonum okkar og börnum, sem beygð hafa verið af hryggð, sorg og áhyggjum undan níðingslegum morðum, harðstjórn og áþján, sem styrkt var, mögnuð og studd af áhrifum þess anda, sem svo sterklega hefur mótað trúarskoðanir feðranna, sem arfleitt hefur börnin að lygum og fyllt hefur heiminn af glundroða, og orðið hefur sterkari og sterkari og er nú aðaluppspretta allrar spillingar, og gjörvöll jörðin stynur undan þunga misgjörða hans.
8 Þetta er járnok, þetta eru sterkir fjötrar, þetta eru sjálf handjárn, hlekkir, fótjárn og höft vítis.
9 Þess vegna er það óhjákvæmileg skylda okkar, ekki aðeins gagnvart eiginkonum okkar og börnum, heldur og gagnvart ekkjum og munaðarleysingjum þeirra eiginmanna og feðra, sem myrtir hafa verið með járnhendi þess —
10 Og myrkraverk hans nægja til að sjálf helja skelfur, stendur agndofa og bliknar og hendur sjálfs djöfulsins titra og lamast.
11 Einnig er það óhjákvæmileg skylda okkar gagnvart öllum komandi kynslóðum og öllum hjartahreinum —
12 Því að enn eru margir á jörðunni meðal allra trúarflokka, hópa og trúfélaga, sem blindaðir eru vegna slóttugra klækja mannanna, sem þeir bíða eftir að beita, og aðeins er haldið frá sannleikanum vegna þess að þeir vita ekki hvar hann er að finna —
13 Þess vegna skyldum við eyða lífi okkar og gefa það allt til þess að leiða öll hin huldu myrkraverk, sem við þekkjum, fram í ljósið, og vissulega er gert uppskátt um þau frá himni —
14 Þessu skyldi sinnt af fyllstu alvöru.
15 Enginn maður skal líta á þetta sem smámuni, því að margt varðandi framtíðina og hina heilögu hvílir á því.
16 Þér vitið bræður, að í stormi hefur mjög stórt skip afar mikið gagn af mjög litlu stýri, sem beitir því upp í vind og sjóa.
17 Þess vegna skulum vér, ástkæru bræður, með glöðu geði gjöra allt, sem í okkar valdi stendur, og síðan getum við með fullri vissu beðið eftir að sjá hjálpræði Guðs, og arm hans opinberast.