32. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith til Parleys P. Pratt og Ziba Peterson í Manchester, New York, snemma í október 1830. Mikill áhugi og brennandi þrá var meðal öldunganna varðandi Lamanítana, en kirkjan hafði lært um blessanir þær, sem Mormónsbók talar um að þeim séu ætlaðar. Þar af leiðandi var Drottinn beðinn að segja vilja sinn um, hvort öldungarnir skyldu nú sendir til ættflokka indíánanna í vestri. Opinberunin fylgdi.
1–3, Parley P. Pratt og Ziba Peterson eru kallaðir til að prédika fyrir Lamanítunum og fylgja Oliver Cowdery og Peter Whitmer yngri; 4–5, Þeir eiga að biðja um skilning á ritningunum.
1 Og varðandi þjón minn Parley P. Pratt, sjá, ég segi honum nú, að svo sannlega sem ég lifi vil ég að hann boði fagnaðarerindi mitt, læri af mér og verði hógvær og af hjarta lítillátur.
2 Og það sem ég hef útnefnt honum er, að hann fari með þjónum mínum, Oliver Cowdery og Peter Whitmer yngri, út í óbyggðirnar til Lamanítanna.
3 Og Ziba Peterson skal einnig fara með þeim. Og ég mun sjálfur fara með þeim og vera mitt á meðal þeirra. Og ég er málsvari þeirra hjá föðurnum, og ekkert mun á þeim sigrast.
4 Og þeir skulu gefa gaum að því, sem ritað er, og ekki gera kröfu til annarra opinberana, og þeir skulu biðja án afláts um að ég afhjúpi það, þannig að þeir skilji.
5 Og þeir skulu gefa gaum að orðum þessum án léttúðar, og ég mun blessa þá. Amen.