69. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Hiram, Ohio, 11. nóvember 1831. Samantekt opinberana, sem gefa skyldi út fljótlega, var tekin fyrir á sérstakri ráðstefnu 1.–2. nóvember. Þann 3. nóvember var opinberuninni, er birtist hér sem 133. kafli, seinna kölluð Viðaukinn, bætt við. Oliver Cowdery hafði áður verið falið að fara með handrit hinna samanteknu opinberana og boðorða til Independence, Missouri, til prentunar. Hann skyldi einnig taka með sér fé það, sem lagt hafði verið fram til uppbyggingar kirkjunnar í Missouri. Þessi opinberun kveður svo á um, að John Whitmer skuli fylgja Oliver Cowdery, og bendir einnig Whitmer á að ferðast og safna sögulegu efni fyrir köllun sína sem sagnaritari kirkjunnar.
1–2, John Whitmer skal fara með Oliver Cowdery til Missouri; 3–8, Hann skal einnig prédika, og safna, skrá og rita söguheimildir.
1 Hlýðið á mig, segir Drottinn Guð yðar, sakir þjóns míns, Olivers Cowdery. Ég tel ekki viturlegt, að honum skuli trúað fyrir boðorðunum og fé því, sem hann skal fara með til Síonarlands, nema einhver fari með honum, sem sannur verður og staðfastur.
2 Fyrir því vil ég, Drottinn, að þjónn minn, John Whitmer, fari með þjóni mínum Oliver Cowdery —
3 Og einnig, að hann haldi áfram skrifum sínum og sögugerð um allt það markverða, sem hann sér og veit um kirkju mína —
4 Og einnig að hann fái ráðleggingar og aðstoð frá þjóni mínum Oliver Cowdery og öðrum.
5 Og einnig ættu þjónar mínir, sem fjarri eru, að senda skýrslur um ráðsmennsku sína til Síonarlands —
6 Því að Síonarland skal vera það setur og sá staður, þar sem tekið er á móti öllu slíku og séð um framkvæmd þess.
7 Lát engu að síður þjón minn John Whitmer ferðast oft milli staða og frá einum söfnuði til annars, svo að auðveldara verði fyrir hann að afla sér vitneskju —
8 Prédika og útleggja, skrá, afrita, velja og safna öllu því, sem verður kirkjunni til góðs og uppvaxandi kynslóðum, sem vaxa munu upp í landi Síonar og eiga það mann fram af manni, alltaf og að eilífu. Amen.