Liðsheild og hæfileikar
Bestu liðin starfa saman og liðsmenn hjálpa hver öðrum að bæta sig.
“Hlauptu, Jillian, hlauptu!“ hrópaði pabbi. Pabbi Jillian var þjálfari fótboltaliðsins hennar. Þau lögðu sérlega hart að sér við undirbúning fyrir úrslitaleikinn. Sólskinið var heitt en Jillian hélt áfram að hlaupa.
Loksins blés pabbi í flautuna. „Allt í lagi, tökum hlé.“
Jillian greip vatnsbrúsann og settist á bekkinn með drengjunum. Hún var eina stúlkan í liðinu, en henni var sama. Þau störfuðu öll saman og hjálpuðu hvert öðru að bæta sig. Þótt hún væri þreytt og sveitt, var hún glöð að leika með liðinu sínu.
„Pabbi, hvernig stóðum við okkur í dag?“ spurði hún.
Pabbi hennar brosti. „Frábærlega! Mér finnst liðið vera tilbúið fyrir leikinn.“
Jillian brosti á móti. Erfiðið var klárlega þess virði!
Á heimleið eftir æfingu sá Jillian vinkonu sína, Mei. Þær voru í sama Barnafélagsbekk. Mei hafði þó ekki komið í Barnafélagið um hríð.
Jillian brosti við Mei. „Hæ, Mei! Ég hef saknað þín í Barnafélaginu. Er allt í lagi hjá þér?“
Mei starði niður fyrir sig. „Mamma vill ekki fara í kirkju.“
„Af hverju ekki?“
„Ég veit það ekki.“ Mei leit upp. „Jæja, ég verð að fara.“
Jillian veifaði og horfði á Mei ganga í burtu. Hvernig get ég hjálpað Mei? hugsaði hún með sér.
Þegar Jillian kom heim lék hún nokkra Barnafélagssöngva á úkúleleið sitt. Hún bauð síðan bróður sínum að syngja með. Þau sungu þar til mamma kallaði á þau til kvöldverðar.
„Ég ætla að heimsækja systur Aureu á morgun,“ sagði mamma.
„Systir Aurea er mamma Mei, er það ekki?“ spurði Jillian. „Má ég koma með þér? Mei hefur ekki komið í Barnafélagið. Þegar ég sá hana í dag virtist hún niðurdregin.“
„Auðvitað máttu koma,“ sagði mamma.
„Ég hef úkúleleið með mér! Ég get leikið Barnafélagssöngva. Ég er viss um að hún saknar þess að syngja þá,“ sagði Jillian.
Þegar þær komu í hús Meis daginn eftir, faðmaði Jillian Mei innilega að sér. Stúlkurnar fóru út fyrir meðan mæður þeirra ræddu saman. Jillian lék á gítarinn og Mei valdi söngvana. Þær höfðu gaman, hlógu og sungu saman, þar til tími var fyrir Jillian að fara.
„Það var gott að sjá þig,“ sagði Jillian. „Við höfum saknað þín í Barnafélaginu.“
„Já, ég vildi að ég gæti komið. Ég spyr kannski mömmu aftur.“
Næsta sunnudag kom Mei í kirkju. Jillian sat hjá henni. „Ég er svo glöð að þú gast komið,“ sagði hún.
Mei brosti breitt. „Ég líka.“
Nokkrum dögum síðar var loks komið að fótboltakeppninni. Jillian bað liðið að flytja bæn áður en keppnin hófst. Leikurinn hófst síðan. Jillian hljóp eins hratt og hún gat. Hún var hluti af liðsheildinni við að koma boltanum í markið. Liðið hennar sigraði leikinn!
Um kvöldið, þegar Jillian lá í rúminu, hugsaði hún um Mei og fótboltaliðið sitt. Hún var glöð að vera hluti af liði, á sama hátt og hún var glöð að vera hluti af Barnafélaginu. Allir höfðu hjálpast að. Jillian gladdist yfir því að geta hjálpað vinum sínum, hvort heldur í kirkju eða á vellinum.