2021
Mikið verk
Janúar 2021


„Mikið verk,“ Til styrktar æskunni, jan. 2021, 20–21.

Mikið verk

Þema ungmenna 2021:
Kenning og sáttmálar 64:33–34

Drottinn hefur boðið ykkur að taka þátt í „mikilvægasta verki“ jarðar.1

Ljósmynd
Merki þema ungmenna 2021

Þið undursamlegu stúlkur og piltar eruð hluti af nokkru dásamlegu – þið eruð að „leggja grunninn að miklu verki“ (Kenning og sáttmálar 64:33). Þetta verk hjálpar Drottni, Jesú Kristi, við að framkvæma ætlunarverk sitt, þar sem við tökum þátt í samansöfnun Ísraels beggja vegna hulunnar og í uppbyggingu Síonar.

Ganga til liðs við æskulýðsfylkinguna

Russell M. Nelson forseti býður hverju ykkar að taka þátt í því verki sem hluta af „æskulýðsfylkingu Drottins.“2 Hvað er fylking? Fylking er sérhæfð eining sem er ætlað að leysa tilgreind verkefni saman. Þetta þýðir að þið eruð hluti af sérhæfðri einingu til að finna og framkvæma ykkar hluta í hinu mikla verki Drottins.

Þegar spámaðurinn bauð ykkur að sjá tilgang lífs ykkar með því að einblína á samansöfnun Ísraels, byrjaði líf ykkar að líta út eins og líf Móse. Móse, sem ólst upp sem prins yfir Egyptalandi, varð að flýja til að halda lífi og varð síðar sáttur við hið einfalda líf að hirða um sauði. En Drottinn talaði til hans og sagði: „Ég ætla þér verk að vinna“ (HDP Móse 1:6). Faðir okkar á himnum vissi það sem Móse vissi ekki: Með Guðs hjálp gæti Móse átt lykilþátt í björgun mikillar þjóðar – hann gæti gert hvað sem væri.

Þið getið skipt sköpum

Þið gætuð hugsað: „Ég er ekki Móse. Get ég komið að einhverju gagni í heiminum? Við höfum stundum spurt okkur sömu spurningar, en höfum verið hér nógu lengi til að vita að svarið er já. Dag hvern sjáum við ungmenni sem kjósa að lifa ekki venjulegu lífi. Þau hafa mikil áhrif á þá sem umhverfis eru, bara með því að sýna yfirlætisleysi sem sannir lærisveinar Jesú Krists. Þau þróa hæfileika sína og hjálpa fjölskyldum sínum að ná árangri. Spámaðurinn hefur kallað ykkur til að „leggja grunninn að miklu verki.“ Þegar við treystum á Jesú Krist og leitumst við að gera vilja hans, þá munar um okkar framlag!

Þið eruð ekki ein í þessu. Þegar þið gangið til liðs við æskulýðsfylkinguna, sameinist þið stórum hópi ungmenna um heim allan. Við stöndum saman hlið við hlið, ásamt foreldrum ykkar, leiðtogum og vinum, postulum og spámönnum og englum himins, og kappkostum að inna verk Drottins af hendi (sjá Kenning og sáttmálar 84:88).

Af hinu smáa sprettur hið stóra

Við munum gera þetta skref fyrir skref. Drottinn býður okkur að taka lítil og einföld skref, er við tökumst á við þetta mikla verk (sjá Kenning og sáttmálar 64:33). Með stöðugum og trúföstum verkum, munum við sækja fram og liðsinna þeim sem umhverfis eru. Ferðalag okkar allra verður aldrei nákvæmlega eins, því verða einhverjir þessara einföldu hluta sniðnir að ykkur persónulega.

Biðjið um vitneskju um hver þið eruð og að þið skiljið hlutverk ykkar í áætlun Guðs. Biðjið þess að vita hvaða litlu og einföldu hluti þið skulið gera dag hvern. Þið munið líklega þurfa að fara út fyrir þægindarammann, en ef þið eruð fús til að bregðast við hvatningum, verður ykkur gefið meira.

Nelson forseti kenndi nýlega: „Við þurfum að hlýða á hann af enn ríkari ásetningi, í þeirri viðleitni okkar að vera lærisveinar Jesú Krists. Það þarf meðvitaða og stöðuga einbeitni til að fylla líf okkar orðum hans, kenningum og sannleika.“3

Drottinn mun auka getu ykkar og gleði

Þegar þið leitið opinberunar, mun Drottinn veita ykkur vitneskju um hvernig þið getið notað hæfileika ykkar og eiginleika til að þjóna og lifa eftir fagnaðarerindinu. Hann mun auka hugmyndaflug ykkar, sköpunargáfu og hæfni á þann hátt sem þið hefðuð aldrei talið mögulegt.

Þegar þið bjóðið Drottni viljugt hjarta og huga, munið þið uppgötva fleiri vini og frekari tækifæri til þjónustu. Skilningur ykkar á því hver þið eruð og hver tilgangur ykkar er verður efldur og þið munið finna gleði.

Stundum viljum við helst þægindi og áreynsluleysi, en Guð geymir okkur nokkuð annað. Alveg eins og hann fyrirbjó Móse mikið verk, þá hefur hann mikið verk fyrir ykkur. Þreytist ekki! Við höfum algjört traust á ykkur – æskulýðsfylkingu Drottins.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, „Hope of Israel“ (heimslæg trúarsamkoma æskufólks, 3. júní 2018), 3, HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org.

  2. Russell M. Nelson, „Hope of Israel,“ 12, HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org.

  3. Russell M. Nelson, „Hlýð þú á hann“ (aðalráðstefna, apríl 2020).