2021
Sveppanámsstyrkur
Janúar 2021


„Sveppanámsstyrkur,“ Til styrktar æskunni, jan. 2021, 6–7.

Sveppanámsstyrkur

Hvaða lexíur gæti ég lært af einhverju jafn viðbjóðslegu og sveppum?

Stúlka í kimono-kjól með sveppi

Teikning eftir Juliu Yellow

Mér líka ekki sveppir. Lyktin og áferðin – mér líka þeir alls ekki! En þar sem foreldrar mínir byrjuðu að rækta sveppi þegar ég var barn, borðuðum við þá á hverjum degi. Á uppskerutímum hjálpaði ég foreldrum mínum langt fram á kvöld. Ég vigtaði 200 grömm af sveppum, pakkaði þeim inn í poka og þrýsti innsiglinu á pakkninguna. Ég man eftir því að hafa skemmt mér þegar ég talaði við fjölskylduna mína. Það var næstum eins og að halda fjölskyldukvöld á hverjum degi.

Þetta útvegaði líka tekjur fyrir fjölskylduna, því þurftum við að hjálpa. Það voru tveir ókostir: Í fyrsta lagi var einn af mínum uppáhalds sjónvarpsþáttum einmitt á skjánum þegar við þurftum að vinna, svo ég gat ekki horft á hann. Í öðru lagi voru hendur mínar orðnar svartar þegar ég lauk vinnunni og það var erfitt að losna við litinn og lyktina með sápu. Þegar ég var barn kvartaði ég stundum yfir því að þurfa að hjálpa svo mikið á hverjum degi.

Sveppirnir útveguðu ágætis tekjur í þó nokkra stund, en á endanum féll verð þeirra þar sem sveppabændum hafði fjölgað og foreldrar mínir hættu ræktuninni. Ég hélt að þau hefðu aðeins hætt vegna verðfallsins, en komst að svolitlu sem kom mér á óvart þegar ég útskrifaðist úr háskóla.

Foreldrar mínir höfðu byrjað að rækta sveppi til að safna í námssjóð fyrir mig og bræður mína. Þau hættu aðeins vegna þess að þau höfðu náð tilsettri upphæð. Þegar ég komst að þessu skammaðist ég mín yfir því að hafa nokkurn tíma kvartað. Ég vissi ekki að ég hafi verið að vinna fyrir framtíðarútgjöldum háskólanámsins. Þar að auki hafði fjölskylda mín hjálpað mér!

Ég hafði kvartað síendurtekið án vitneskjunnar um það að við ræktuðum sveppina sem námsstyrk fyrir mig. Nöldrið í mér var eins og mögl Lamans og Lemúels í 1. Nefí 2:12: „Þannig mögluðu Laman og Lemúel … vegna þess að þeir þekktu eigi vegu þess Guðs, sem skóp þá.“ Ég er svo glöð yfir því að Drottinn þekkir mig vel og blessaði mig, þrátt fyrir kvartið í mér.

Ég held ekki að mér muni nokkurn tímann finnast gott að borða sveppi, en ef engir væru sveppirnir væri ég svolítið leið, vegna þess að ég hefði ekki haft möguleikann á því að minnast upplifana minna með fjölskyldunni. Þeirra vegna lærði ég að meta blessanir mínar og treysta áætlun Drottins – án þess að kvarta! Jafnvel þó mér líki ekki sveppir, kann ég núna að meta þá. Þeir eru mér mikilvægt tákn sem minnir mig á fjölskyldusambönd mín.

Höfundurinn býr í Shinagawa-borg í Japan.