2021
Joseph Smith – Spámaður minn
Janúar 2021


„Joseph Smith – Spámaður minn,“ Til styrktar æskunni, jan. 2021, 8–11.

Kom, fylg mér

Joseph Smith – Spámaður minn

Hann er líka spámaður ykkar. Þið getið numið kenningar hans á þessu ári til að auka gildi hans sem spámanns ykkar.

Joseph Smith

Russell M. Nelson forseti sagði nokkuð á aðalráðstefnunni í apríl 2020 sem snerti mig: „Hvar sem þið búið eða hverjar sem aðstæður ykkar eru, þá er Drottinn Jesús Kristur frelsari ykkar og Joseph Smith, spámaður Guðs, er ykkar spámaður“ („Hlýð þú á hann“).

Frá því að ég var ungur hef ég haft þessa tilfinningu – Joseph Smith er spámaður minn. Spámaður endurreisnarinnar hefur hjálpað mér að kynnast Jesú Kristi og fagnaðarerindi hans meira en nokkur annar. Ég kynnti mér opinberanirnar í Kenningu og sáttmálum og þegar ég var unglingur gaf faðir minn mér bók um kenningar spámannsins Joseph Smith sem gagntóku mig. Nám á þessum kenningum varð megin grundvöllur vitnisburðar míns um hið endurreista fagnaðarerindi.

Frá því hef ég íhugað hvað það var við kenningar Josephs Smith sem hafði þvílík áhrif á mig? Hvað gerði andanum mögulegt að bera mér svo kröftugt vitni um sannleiksgildi þeirra? Ég myndi nefna þrjá hluti: (1) Hann vissi það sem hann vissi og lýsti því djarflega yfir; (2) hann útskýrði greinilega þann sannleika sem hann hafði lært með opinberun; og (3) manngerð hans og persónuleiki skinu alltaf í gegn.

Hann vissi það sem hann vissi og lýsti því djarflega yfir

Allt frá Fyrstu sýninni varð Joseph Smith fyrir ofsóknum fyrir það að miðla þeim lærdómi sem hann hlaut með opinberun. Hann vissi að hann gæti ekki gefið hann upp á bátinn: „Hví er ég ofsóttur fyrir að segja sannleikann? Ég hef raunverulega séð sýn, og hvernig ætti ég að geta staðið gegn Guði, og af hverju hyggst heimurinn fá mig til að neita því, sem ég hef raunverulega séð? Því að ég hafði séð sýn. Ég vissi það, og ég vissi að Guð vissi það, og ég hvorki gat neitað því né þorði að gera það“ (Joseph Smith–Saga 1:25).

Joseph Smith kunngerði djarflega þau sannindi sem hann lærði af Guði það sem eftir var af lífi hans, þrátt fyrir að hann vissi að það myndi bjóða heim frekari ofsóknum og hatri.

Dæmi:

Þó flestir í hinum kristna heimi trúðu að Guð hafi skapað manninn úr engu, kenndi Joseph Smith nokkuð annað fullur sjálfstrausts:

„Maðurinn var einnig í upphafi hjá Guði. Vitsmunir, eða ljós sannleikans, voru ekki skapaðir eða gjörðir, né heldur er það hægt“ (Kenning og sáttmálar 93:29).

„[Sálin] – [hugur] mannsins – hinn [ódauðlegi andi]. Hver er uppruni hans? Allir lærðir menn og guðfræðingar segja Guð hafa skapað hann í upphafi, en þannig er það ekki. Að mínu viti dregur sú hugmynd úr stöðu mannsins. Ég legg ekki trúnað á þá kenningu; ég veit betur. Heyr, öll endimörk jarðar, því Guð hefur sagt mér það; og þótt þér trúið mér ekki, verður sá sannleikur samt gildur“ (Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith [2007], 206).

Joseph Smith kennir

Hann útskýrir sannleikann á greinilegan hátt

Joseph Smith ýjaði stundum að því að hann vissi mun meira um leyndardóma Guðs en hann gat miðlað heiminum, en þegar hann kenndi gat hann látið sannleika Guðs verða einfaldan og skýran.

Dæmi:

Frá og með Fyrstu sýninni lærði Joseph Smith margan sannleika um eðli Guðs, hins eilífa föður, og í kenningum sínum útskýrði hann mikilvægi þessara sanninda. Hann sagði, t.d.:

„Ef menn fá ekki skilið eðli Guðs, fá þeir ekki skilið sjálfan sig“ (Kenningar: Joseph Smith, 40). Þetta er nokkuð skýr yfirlýsing sem kemur að kjarna þess hver Guð er, hver við erum, hvert samband okkar við hann er og hverjir möguleikar okkar eru.

Hann fylgdi henni eftir með þessari yfirlýsingu: „Guð var eitt sinn eins og við erum nú. Hann er upphafinn maður“ (Kenningar: Joseph Smith, 40). Enn skýrar.

Svo kenndi hann þetta: „Guð sjálfur, sem var mitt á meðal anda og dýrðar, sá sér fært að setja lögmál, vegna þess að vitsmunir hans voru meiri, þar sem hinum gæfist kostur á að þróast líkt og hann sjálfur“ (Kenningar: Joseph Smith, 207). Joseph Smith lét hér nokkuð í ljós sem er grundvallaratriði í áætlun himnesks föður: Himneskur faðir vill að við verðum eins og hann.

Joseph Smith talar

Manngerð hans og persónuleiki skína í gegn

Þegar við lítum á með hvaða hætti Joseph Smith tjáði sig, fáum við hugmynd um hver hann var og hvernig hann var, bæði sem einstaklingur og spámaður. Þetta er mikilvægt, vegna þess að tenging við fólk gerir tengingu við hugmyndir einhvern veginn auðveldari. Manngerð Josephs skín í gegnum kenningar hans.

Dæmi:

Þótt Joseph Smith hafi verið glaðlegur að eðlisfari (sjá Joseph Smith–Saga 1:28), þá fór hann aldrei léttúðlega með boð Drottins. Hann hafði lært það af reynslunni hverjar afleiðingarnar gætu orðið ef hann fjarlægðist slík boðorð (sjá, t.d. Kenning og sáttmálar 3:4–9). Mér þykir þessi blanda léttlyndis og alvarleika lærisveinsins heillandi – og á persónulegu nótunum get ég tengt við hana.

Joseph Smith í leik

Sem spámaður endurreisnarinnar, hlaut Joseph Smith boð um að kenna opinberaðan sannleika Guðs, en margt var þar öllum nýstárlegt. Joseph varð að leggja sig fram við að hjálpa því að læra þessi nýju sannindi, en stundum var það gremjulegt. Hann sagði eitt sinn:

„Afar erfitt hefur reynst að kenna þessari kynslóð nokkuð. Það hefur verið líkt og að kljúfa trékvist með kornbrauði í stað axar eða graskeri í stað sleggju. Jafnvel hinir heilögu eru tregir til skilnings“ (Kenningar: Joseph Smith, 516).

Þetta var alvarlegt viðfangsefni í huga Josephs Smith. Það hlýtur að hafa verið margt sem hann vildi að fólkið þekkti og skildi og meðtæki og tileinkaði sér – en það gerði það hreinlega ekki. Þessi heimatilbúna samlíking frá útmörkum Bandaríkja nítjándu aldarinnar dregur upp skondna mynd af og veitir örlitla innsýn í persónuleika Josephs Smith.

Margar aðrar hliðar á manngerð Josephs Smith skína í gegn í kenningum hans. Nefna mætti elsku hans til vina sinna: „Ég mun í hjarta elska þá, og með höndum mínum mun ég erfiða fyrir þá sem elska og erfiða fyrir mig, og ætíð skal ég vera trúr vinum mínum“ (Kenningar: Joseph Smith, 459).

Svo mætti nefna vinsemd hans og gjafmildi: Eitt sinn sögðust nokkrir menn kenna í brjósti um annan mann sem hafði misst hús sitt í bruna, en þá sagði Joseph strax: „Ég kenni í brjósti um þennan bróður sem jafngildir fimm dölum, hversu mikið kennið þið allir í brjósti um hann?“ (Kenningar: Joseph Smith, 457).

Síðan ber að nefna elsku hans til fjölskyldu sinnar, einlægni, auðmýkt, sjálfsöryggi, réttlæti og sanngirni, trú mitt í erfiðleikum og þjáningum. Þetta allt má finna þar og er tjáð samhliða eilífum sannleika og kenningum sem lifa má eftir.

Hann er spámaður minn

Joseph Smith verður auðvitað enn fyrir árásum og gagnrýni á okkar tíma. Eins og hann sagði: „Ég hef aldrei sagst vera fullkominn, en enga villu er að finna í opinberununum sem ég hef kennt“ (Kenningar: Joseph Smith, 518). Við getum borið djarfan vitnisburð um þá staðreynd að hann hafi verið spámaður. Mér hefur þótt auðvelt að bera vitni um Joseph Smith – ekki vegna þess að til séu auðveld svör við öllum spurningum sem fólk gæti spurt um hann, heldur vegna þess að ég hef kynnt mér opinberanir honum gefnar og kenningar hans sem spámanns og fundið staðfestingu heilags anda um að þær séu sannar. Það er eins og Joseph sjálfur sagði eitt sinn:

„Ég fæ bragðað á reglum eilífs lífs, og það getið þið einnig gert. Þær eru mér gefnar með opinberunum frá Jesú Kristi. Og ég veit að þegar ég veiti ykkur þessi orð eilífs lífs, líkt og þau er mér gefin, og þið bragðið á þeim, munuð þið trúa þeim. Þið segið að hunang sé sætt, og það geri ég einnig, og ég get einnig bragðað á anda eilífs lífs. Ég veit að hann er góður, og þegar ég segi ykkur frá því sem mér er gefið fyrir innblástur heilags anda, hljótið þið að taka á móti því sem ljúfu og sætu og gleðjast stöðugt meira“ (Kenningar: Joseph Smith, 520–521).

Ég hef bragðað þennan sætleika. Spámaður minn, Joseph Smith, miðlaði mér honum og eins og Nelson forseti sagði, þá er hann ykkar spámaður líka. Þið getið numið líf hans og kenningar á þessu ári í Kom, fylg mér. Þá getið þið borið vitni um sæt sannindin sem hann hefur hjálpað ykkur að bragða á.