„Hinn mikli málstaður endurreisnarinnar,“ Til Styrktar Æskunni, jan. 2021, 3–5.
Hinn mikli málstaður endurreisnarinnar
Verkið sem Joseph og Hyrum Smith hófu, ásamt fjölda annarra trúaðra, heldur áfram í kirkjunni á okkar tíma.
Þegar hinn ungi Joseph Smith fór út í skóg til að biðja upplifði hann stórkostlega sýn, nú kunnug sem Fyrsta sýnin.
Í sýninni sagði frelsarinn að syndir Josephs væru honum fyrirgefnar. Hann svaraði líka spurningu Josephs og sagði að engir trúsöfnuðir á þeim tíma væru „Guði [þóknanlegir] sem kirkja hans og ríki.“
Joseph sagði: „Á sama tíma hlaut [ég] loforð um að fylling fagnaðarerindisins yrði á einhverjum ókomnum tíma gerð mér kunnug.“1
Að lokinni þessari dýrðlegu sýn, hélt Joseph úr Lundinum helga til að hefja undirbúning sinn að því að vera spámaður Guðs.
Moróní og Mormónsbók
Þremur árum síðar, árið 1823, lukust himnarnir aftur upp, sem hluti af hinni viðvarandi endurreisn fagnaðarerindis Jesú Krists á síðari dögum. Engill að nafni Moróní birtist honum og sagði að „Guð ætlaði [Joseph] verk að vinna … [og] að bók væri geymd, letruð á gulltöflur,“ sem geymdi „fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis“ (Joseph Smith‒Saga 1:33).
Að endingu fékk Joseph hina fornu heimild í hendur, þýddi hana og gaf hana út og nú er hún kunn sem Mormónsbók.
Trúfastir bræður
Bróðir Josephs, Hyrum, var honum ávallt stöðugur stuðningsmaður. Joseph og Hyrum tókust saman á við aðsúg múgs og ofsóknir. Þeir voru t.d. vistaðir saman við ömurlegustu aðstæður í Liberty-fangelsinu í Missouri, í fimm mánuði á köldum vetri, árin 1838 til 39.
Frammi fyrir ofsóknum sýndi Hyrum trú á loforð Drottins, þar með talið fullvissu um að komast undan óvinum sínum, ef hann kysi það. Í júní 1844 stóð Hyrum frammi fyrir þeim kosti að lifa eða leggja niður líf sitt, Guði til dýrðar, og „[innsigla] vitnisburð sinn með blóði sínu“ – við hlið síns ástkæra bróður, Josephs (sjá Kenning og sáttmálar 136:39).
Viku áður en þeir voru myrtir með köldu blóði sagði Joseph Hyrum að fara á brott með fjölskyldu sína. Ég kemst enn við þegar ég hugsa um svar Hyrums: „Joseph, ég get ekki yfirgefið þig.“2
Joseph og Hyrum fóru því til Carthage, þar sem þeir urðu píslarvottar fyrir sakir málstaðs og nafns Krists. „Í lífinu voru þeir ekki aðskildir, og í dauðanum urðu þeir ekki skildir að!“ (Kenning og sáttmálar 135:3; skáletrað hér).
Ákall til verks
Við ættum alltaf að muna eftir gjaldinu sem Joseph og Hyrum Smith reiddu af hendi, ásamt svo mörgum öðrum trúuðum körlum, konum og börnum, til að koma kirkjunni á fót, svo þið og ég gætum notið hinna mörgu blessana og alls þessa opinberaða sannleika, sem við nú búum að. Trúmennska þeirra ætti aldrei að falla í gleymsku!
Joseph ritaði andríkt bréf til hinna heilögu, fyrir dauða sinn árið 1844. Það var ákall um verk, sem enn er viðvarandi í kirkjunni á okkar tíma:
Bræður [og systur], eigum við ekki að halda áfram í þágu svo mikils málstaðar? Halda áfram en ekki aftur á bak. Hugrekki, bræður [og systur], og áfram, áfram til sigurs! …
… Við skulum því, sem kirkja og einstaklingar og sem Síðari daga heilagir, færa Drottni fórn í réttlæti“ (Kenning og sáttmálar 128:22, 24; skáletrað hér).
Hugleiðið hvaða fórn þið hyggist færa Drottni í réttlæti á komandi tíma. Verið hugrökk – segið einhverjum frá sem þið treystið og, síðast en ekki síst, gefið ykkur tíma til að gera það!
Ég veit að frelsarinn gleðst þegar við færum honum hjartans fórn í réttlæti, á sama hátt og hann gladdist yfir trúarfórn hinna merku bræðra, Josephs og Hyrums Smith, og allra annarra trúfastra heilagra.