2021
Læra tungumál andans
Janúar 2021


„Læra tungumál andans,“ Til styrktar æskunni, jan. 2021, 16–18.

Kom, fylg mér

Læra tungumál andans

Opinberun er eins og tungumál sem hvert okkar þarf að læra.

Ljósmynd
tungumál

Myndskreyting eftir Michael Mullan

Að læra nýtt tungumál getur verið erfiðisvinna. Ef þið hafið nokkurn tímann lært tungumál í skóla eða reynt að læra tungumál sjálf, þekkið þið það af eigin raun. Það krefst mikillar vinnu og trúmennsku. Ég lærði spænsku á trúboði mínu, sem var erfitt í fyrstu, en að lokum, með hjálp andans, náði ég tökum á því.

Mér finnst gott að hugsa um opinberun eins og hún sé tungumál – tungumál andans – sem sérhvert okkar þarf að læra í lífinu. Russell M. Nelson forseti hefur sagt: „Á komandi tíð verður hins vegar ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta stöðugrar handleiðslu, huggunar og áhrifa heilags anda.“1

Ef þið hugsið út í það er margt sameiginlegt því að læra nýtt tungumál og að læra tungumál andans. Skoðið samlíkingarnar hér á eftir – þær geta virkilega hjálpað ykkur að læra meira um hvernig meðtaka má opinberanir með tungumáli andans.

Námsstíll

Þegar við fyrst lærum nýtt tungumál þurfa mismunandi einstaklingar mismunandi nálgun til þess að muna hlutina. Það hjálpaði mér í spænskunáminu að læra málfræði og taka glósur. Aðrir trúboðar vildu heldur æfa sig með því að tala við félaga sinn. Ákveðin nálgun gæti hjálpað frekar en önnur – finnið það sem hentar ykkur best.

Við finnum heldur ekki öll fyrir eða heyrum í andanum á sama hátt. Tökum móður mína sem dæmi. Um tíma á uppvaxtarárum mínum hafði ég áhyggjur af því að ég gæti ekki fundið fyrir andanum, þar sem ég fékk ekki hvatningu andans eins og hún. Hún lýsti alltaf hvatningu andans sem orðum sem komu í huga hennar. Þetta gerðist aldrei hjá mér, svo ég hélt ég gæti hreinlega ekki fundið fyrir andanum. Með tímanum hef ég þó komist að því að samskipti andans við mig fara aðallega fram með tilfinningum eða hughrifum í stað orða. Tilfinningar friðar, gleði og elsku eru dæmigerðar fyrir mína upplifun af opinberun.

Alveg eins og með námsstíl, þá er ein leið til að finna andann ekki betri en önnur. Við erum einstök, því hefur andinn samskipti við okkur á mismunandi hátt. Í Kenningu og sáttmálum getum við lært um fjölmargar leiðir andans til að tala til okkar. Hann gæti „upplýst huga [okkar],“ „[veitt] … [okkur] … hugarró,“ „[sagt okkur] í huga [okkar] og hjarta“ eða „[dvalið] í hjarta [okkar],“ við gætum fundið brjóst okkar brenna eða „[fundið] að það er rétt,“ og á margan annan hátt (sjá Kenning og sáttmálar 6:15, 23; 8:2; 9:8).

Þegar við nemum ritningarnar og æfum okkur við að hlusta á andann, getum við borið kennsl á hvernig hann talar til okkar.

Biðjið um aðstoð

Ljósmynd
hendur

Þegar þið lærið tungumál getur það verið afar hjálplegt að fá aðstoð frá einhverjum sem þekkir tungumálið. Bækur og önnur úrræði hjálpa vissulega, en það hraðar ferlinu að ræða við einhvern sem talar tungumálið.

Þegar við viljum læra meira um andann, getum við fengið frekari aðstoð, ef við spyrjum fólk sem við treystum hvernig þau fari að því – fjölskyldumeðlimi, leiðtoga eða vini. Mikilvægast af öllu er samt að spyrja himneskan föður. Við gætum spurt hann um fleiri tækifæri til að heyra andann, eða um aðstoð við að bera kennsl á það hvenær við meðtökum hvatningar andans. Ef við erum auðmjúk, spyrjum hann um aðstoð og höfum trú á að hann muni aðstoða okkur við að finna fyrir andanum, mun hann hjálpa okkur.

Takið glósur

Ljósmynd
stílabók

Þegar þið lærið tungumál getur líka verið afar hjálplegt að taka glósur. Ég var með litla stílabók á mér yfir daginn svo ég gæti glósað hjá mér ný orð sem ég hafði heyrt og ég reyndi líka að halda dagbók á spænsku á hverju kvöldi til að æfa mig. Minni okkar er ekki fullkomið, það hjálpar okkur að glósa og fara síðan yfir það.

Leiðtogar okkar hafa boðið okkur að skrifa hjá okkur andlegan innblástur, svo við gleymum honum ekki.2 Það getur hjálpað okkur með andann á nokkra vegu að glósa: (1) Það getur hjálpað okkur að muna hvatningar andans og tilfinningar löngu síðar. Mögulega getur fyrrverandi hvatning andans hjálpað í framtíðinni eða hún minnir á að andinn hefur í raun talað til ykkar. (2) Þetta er líka góð leið til að fylgjast með því hvernig þið hafið fundið fyrir andanum á liðinni tíð, svo þið getið betur borið kennsl á hann á komandi tíð. Þannig getið þið orðið glöggari við að þekkja andann.

Haldið áfram að reyna

Ljósmynd
lesa ritningar

Síðast en ekki síst, gefist ekki upp. Þótt þið hefðuð gjöf til að tala tungum, er líklegast að þið lærið ekki nýtt tungumál fullkomlega á einni nóttu. Þegar þið haldið áfram að æfa ykkur og leggja ykkur fram mun það koma, en þið verðið að hafa trú og vera þrautseig.

Að læra að meðtaka opinberun og vera í samhljómi við andann er í raun ævilöng vinna. Ég er viss um að ef þið spyrðuð foreldra ykkar eða kirkjuleiðtoga, myndu þeir líka segjast vera að vinna í því. Ekki missa móðinn ef ykkur finnst þetta taka tíma – þið eruð ekki ein um það! Við þurfum öll tíma til að læra nýtt tungumál. Sýnið þolinmæði, haldið áfram að reyna og Drottinn verður ykkur til aðstoðar við að læra tungumál andans.