„Hjálpa öðrum að koma til Krists á einfaldan og áhrifaríkan hátt,“ Til styrktar ungmennum, Mars 2024.
Hjálpa öðrum á einfaldan og áhrifaríkan hátt að koma til Krists
Þið getið sýnt kærleika, deilt trú ykkar og boðið öðrum að koma til Krists á ótal vegu.
Dag einn á fyrsta árinu mínu í menntaskóla spurði vinkona mín Nedra mig: „Russ: Af hverju ferðu ekki í trúarskólann?“
Á þeim tíma voru foreldrar mínir ekki að fara í kirkju. Ég fór stundum með vinum mínum og tók ekki þátt í trúarskólanum. Daginn eftir fór ég í trúarskólann klukkan 6:30 að morgni. Eftir það fór ég á hverjum degi – jafnvel á köldum snjóþungum vetrarmorgnum.
Það sem ég lærði í trúarskólanum snerti mig í hjarta. Vitnisburður minn óx þegar ég lærði meira um Jesú Krist og hið endurreista fagnaðarerindi hans. Þetta bjó mig undir trúboðið mitt í Englandi og ævilanga þjónustu við Drottin og kirkju hans.
Boð Nedru til mín um að koma í trúarskólann hjálpaði mér á persónulegan hátt að sjá að tækifæri ykkar til að hjálpa öðrum að koma til Drottins Jesú Krists eru ótalmörg. Á einfaldan en áhrifaríkan hátt getið þið sýnt kærleika ykkar, deilt trú ykkar og boðið þeim sem umhverfis eru að upplifa gleðina og friðinn sem frelsarinn og fagnaðarerindi hans veita.
Lærið að þekkja frelsarann
Til þess að geta raunverulega hjálpað öðrum að koma til Krists, verðið þið fyrst að vita hver hann er. Jesús Kristur er sonur Guðs og sá eini sem gat verið frelsari og lausnari heimsins.
Aðeins hann gat lifað fullkomnu lífi, friðþægt fyrir syndir ykkar, þolað allan ykkar „sársauka, þrengingar og freistingar“ (Alma 7:11) og síðan lagt líf sitt í sölurnar og tekið það aftur. Vegna Jesú Krists, munu öll börn Guðs rísa upp á ný og geta hlotið hans helgustu og dýrðlegustu blessanir.
Þegar þið skiljið hver frelsarinn er – og hver eilíf örlög ykkar geta orðið vegna hans – munið þið vilja lifa lífi ykkar á þann hátt að það þóknist honum. Og það gleður hann vissulega þegar þið boðið þeim sem þið eigið samskipti við á degi hverjum fagnaðarerindi hans í orði og verki.
Ná til fólks með kærleika
Þegar þið farið að þekkja og elska frelsarann, munuð þið þrá að fylgja honum og kenningum hans nákvæmlega, þar á meðal boðorði hans um að „elska hver annan“ (Jóhannes 13:34).
Þegar Ammon fór til Lamanítanna til að boða fagnaðarerindið bauðst hann til þess að vera þjónn Lamonís konungs. Ammon sýndi einlægan kærleika og hollustu þegar hann verndaði sauði konungs. Gjörðir Ammons milduðu hjarta Lamonís konungs. Þegar Ammon kenndi fagnaðarerindið varð Lamoní konungur yfirkominn af andanum og hann snérist til trúar (sjá Alma 17–19).
Að vera lærisveinn Jesú Krists, merkir að þið elskið samferðafólk ykkar eins og ykkur sjálf (sjá Matteus 22:36–40). Ef það finnur að þið elskið það og berið hag þess fyrir brjósti, mun það líklega vera fúsara til að leyfa ykkur að deila því sem þið vitið að er satt.
Finnið hugrekki til að deila
Fyrir milligöngu spámannsins Josephs Smith, endurreisti frelsarinn prestdæmið á jörðu með öllum helgiathöfnum og sáttmálum sem nauðsynleg eru fyrir eilífa framþróun okkar. Þegar dýrðarboðskapur endurreisnarinnar snertir hjarta ykkar, ættuð þið að vilja hrópa það frá húsþökum! Þið ættuð að starfa af kappi við að miðla öllum hinni dýrmætu þekkingu um hið endurreista fagnaðarerindi. Ég elska að gera það!
Sumir kunna að hafa áhyggjur af því að aðrir hafi ekki áhuga eða munu hafna því sem þeir deila. Já, það gæti gerst. Eftir að Abish hljóp hús úr húsi og sagði fólki að kraftur Guðs væri kominn yfir Lamoní konung og heimili hans, trúðu sumir, en margir aðrir kusu að hlusta ekki (sjá Alma 19:17–31).
Hvort sem fólk meðtekur það eða ekki, þá er fagnaðarerindi Jesú Krists stærsta gjöfin sem þið gætuð gefið vini eða fjölskyldumeðlimi – eða jafnvel óvini. Biðjið um hugrekki og síðan, þegar það er viðeigandi, skuluð þið deila því sem þið vitið að er satt.
Bjóðið frá hjartanu
Þegar ég þjónaði sem trúboðsforseti Toronto-trúboðsins í Kanada aðstoðaði ég nokkra trúboða mína við að kenna þekktum kaupsýslumanni. Eftir kennsluna bauð ég honum að biðjast fyrir og spyrja himneskan föður hvort boðskapur okkar væri sannur.
„Ég kann ekki að biðjast fyrir,“ sagði hann.
Ég sagði hann einfaldlega þurfa að krjúpa á kné og biðja himneskan föður að staðfesta sannleikann fyrir sér.
„Það geturðu gert!“ Ég hvatti hann áfram.
Við krupum saman og hann fór með bæn. Þegar henni var lokið sagði hann: „Hvað er að gerast? Ég hef aldrei fundið fyrir nokkru slíku áður.“
„Það er svona sem himneskur faðir svarar bænum,“ sagði ég. „Þú spurðir og hann hefur svarað.“
Ég kenni alltaf trúboðum og meðlimum um allan heim að trúarumbreyting hefjist á því sem fólk skynjar. Þegar þið bjóðið öðrum að hlýða á fagnaðarerindið, þá bjóðið þið þeim líka að biðjast fyrir og skynja sannleikann í hjarta sínu. Ef fólk biður Guð (sjá Jakobsbréfið 1:5) af hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, mun hann opinbera því sannleiksgildi þess fyrir kraft heilags anda (sjá Moróní 10:4–5). Það er spennandi og veitir gleði að hjálpa öðrum að uppgötva sannleikann fyrir sig sjálfan.
Munið að hver sál er dýrmæt
Þið vitið aldrei hvað mun gerast þegar þið hjálpið öðrum að koma til Krists með því að elska, miðla og bjóða. Lamanítarnir virtust til dæmis vera ólíklegasta fólkið til að meðtaka fagnaðarerindið, en þeir snérust svo til trúar að þeir „gerðust aldrei fráhverfir“ (Alma 23:6–7).
Þið skuluð ekki búast við þessum árangri í hvert sinn sem þið deilið fagnaðarerindinu. Þið getið á einfaldan og áhrifaríkan hátt vitnað um sannleikann og hjálpað við að kynna hið endurreista fagnaðarerindi fyrir fleiri börnum okkar himneska föður.
Þegar þið gerið ykkur grein fyrir hversu dýrmætt sérhvert barn himnesks föður er honum, munuð þið vilja gera allt sem þið getið til að hjálpa öðrum að koma til Krists og stíga inn í ljós fagnaðarerindis hans og inn á braut ódauðleika og eilífs lífs.
Hvaða dásamlegri upplifun getur lífið fært ykkur?