„Þau jákvæðu áhrif sem náð Krists getur haft,“ Til styrktar ungmennum, mar. 2024.
Styrkur til að sigrast á synd
Þau jákvæðu áhrif sem náð Krists getur haft
Þegar við skiljum að náð frelsarans er ekki áunnin og að hún stendur alltaf til boða, geta undursamlegir hlutir gerst í lífi okkar.
Þegar ég þjónaði sem biskup var ótrúlegt að sjá léttinn sem ungmenni fundu fyrir þegar þau funduðu með mér til að játa synd, sem hluta af iðrunarferli þeirra. Ég gat þó ekki annað en orðið var við endurtekið mynstur: Ungmennin játuðu, leið betur og síðan – þrátt fyrir einlægan ásetning – klúðruðu þau málunum aftur. Þá játuðu þau, leið betur og klúðruðu aftur málunum. Eftir þrjá eða fjóra hringi, gáfust þau oftar en ekki upp.
Ég var þakklátur fyrir að þessum ungmennum hafði verið kennt að Jesús Kristur, með friðþægingu sinni, býður þeim þann möguleika að iðrast og byrja upp á nýtt. Ég var þó áhyggjufullur að þau skildu kannski ekki nógu vel aðra blessun sem frelsarinn býður: Náð hans – krafts1, guðlegrar hjálpar og „gjöf þess krafts sem við nýtum til að vaxa frá því að vera þær ófullkomnu og takmörkuðu verur sem við nú erum, í upphafnar verur sannleika“.2
Ég var staðráðinn í að kenna skýrar, eins og Russell M. Nelson forseti hefur kennt, að „iðrun … er ferli“3 sem tekur oft tíma og þarfnast endurtekningar.4 Ég vildi að meðlimir deildar minnar vissu að Guð kemur til móts við okkur, hvert sem getustig okkar er, og býður náð til að hjálpa okkur í öllu fullkomnunarferlinu, hversu lengi sem það kann að taka.
Hvernig það hjálpar að skilja náð
Fyrir nokkrum árum sýndi rannsókn sem tók til 600 ungra fullorðinna við Brigham Young-háskóla að þeir sem höfðu þekkingu á og skildu náð höfðu léttvægari einkenni þunglyndis, kvíða, vansæmdar og fullkomnunaráráttu.5 Framhaldsrannsókn sýndi að trú á náð var tengd hærri stigum þakklætis, sjálfstrausts, tilgangs í lífinu og jákvæðni.6
Með öðrum orðum, fólk finnur minni vansæmd og meira sjálfstraust þegar það skilur að náð stendur til boða, hér og nú – ekki eftir að við vinnum okkur inn fyrir henni eða verðskuldum hana. Þegar við vitum að Guð hjálpar okkur, sama hvað við höfum gert eða hve oft okkur finnst við hafa valdið honum vonbrigðum, þá finnum við hvatningu til að halda áfram að reyna.7
„Ég hef valdið himneskum föður vonbrigðum“
Nýlega meiddist trúboði við íþróttaiðkun á undirbúningsdegi og var sendur heim til að jafna sig. Hann hafði háleit markmið um að sækja sér nauðsynlega líkamlega hjálp og snúa síðan aftur í trúboðið. Of mikill óskipulagður tími í einrúmi leiddi til þess að gamlar venjur tóku sig upp aftur.
Hann lét undan synd sem hann hélt hann hefði iðrast af og skilið eftir fyrir trúboð sitt. Þetta dró úr honum kjark og var hann í uppnámi vegna skorts á sjálfsstjórn. Því þunglyndari sem hann varð, þess mun meira sóttist hann í undankomuleið þessara slæmu venja. Þetta var niðursveifla sem dró hratt úr honum.
„Mér líður eins og ég hafi valdið himneskum föður vonbrigðum,“ sagði ungi maðurinn við prestdæmisleiðtoga sinn. „Ég iðraðist þessa áður og Guð fyrirgaf mér. Ég lofaði að ég skyldi aldrei gera þetta aftur en hér er ég, eins og ég hefði aldrei iðrast til að byrja með. Ég verðskulda ekki fyrirgefningu Guðs eða hjálp. Ekki núna. Aldrei.“
Prestdæmisleiðtogi hans sagði: „Ertu þá ekki glaður yfir því að vita að náð er gjöf? Þú þarft ekki að vinna þér hana inn eða verðskulda. Þú þarft bara að velja að taka á móti henni með því að vera viljugur til að halda áfram að reyna og gefast ekki upp.“8 Leiðtoginn miðlaði síðan þessum orðum öldungs Neil L. Andersen í Tólfpostulasveitinni: „Við endurtökum stundum sömu mistökin, en krjúpum þá snarlega auðmjúk á hnén og ferðumst á ný í rétta átt.“9
Enn einu sinni sneri ungi maðurinn sér til himins og frelsarinn var þar til að hjálpa. Ekki einungis læknuðust meiðsli hans, en það gerði hjarta hans einnig. Hann byrjaði að taka framförum, eitt skref í einu og með þeirri náð sem Jesús Kristur gerir mögulega. Bráðlega sneri hann aftur í trúboðið sitt fullur þakklætis, sjálfsvirðingar, með tilgang, uppfyllingu í lífinu og bjartsýni. Þetta eru þau áhrif sem náð Krists getur haft.