2010–2019
Syndþolin kynslóð
Apríl 2017


Syndþolin kynslóð

Þegar þú kennir, leiðir og elskar börnin þá geturðu fengið persónulega opinberun sem mun aðstoða í að skapa og vopna hugrökk syndþolin börn.

Fyrir einu og hálfu ári síðan talaði Russell M. Nelson forseti, um nauðsyn þess „að kenna og ala upp syndþolna kynslóð“ Þetta orðtak – „syndþolin kynslóð“ – snerti djúpt við mér andlega.

Við heiðrum börn sem vinna að því að lifa hreinu lífi í hlýðni. Ég hef orðið vitni að styrk margra barna um allan heim. Þau eru „staðföst og óbifanleg“ í ýmsum erfiðum aðstæðum og umhverfi. Þessi börn skilja sitt guðlega auðkenni, finna ást himnesks föður og leitast við að hlýða vilja hans.

Það eru hins vegar börn sem eiga erfitt með að vera „staðföst og óbifanleg,“ hverra viðkvæmar sálir er verið að særa. Þau verða fyrir árásum frá öllum hliðum af „eldtungum andstæðingsins“ og eru í þörf fyrir eflingu og styrk. Þau eru yfirgnæfandi hvatning fyrir okkur til að stíga upp og herja stríð gegn synd, í átakinu að færa börn okkar til Krists.

Hlýðið á þessi orð frá öldungi Bruce R. McConkie, sem hann sagði fyrir um 43 árum:

„Sem þegnar kirkjunnar erum við upptekin í mikilli baráttu. Við eigum í stríði. Við höfum skráð okkur í bardaga í þágu Krists og á móti Lúsífer. …

Hið mikla stríð sem geisar á allar hliðar og veldur því miður miklu mannfalli, stundum banvænu, er ekkert nýtt. …

Nú eru engir, né geta verið nokkrir, hlutlausir í þessu stríði.”

Þetta stríð geisar enn í dag með auknu afli. Baráttan snertir okkur öll og börn okkar eru í fremstu víglínu og horfast í augu við andstæðingana. Þar af leiðandi þá magnast þörfin fyrir okkur að styrkja andlega stefnu okkar.

Að styrkja börnin til að vera syndþolin, er verkefni og blessun fyrir foreldra, ömmur og afa, fjölskyldumeðlimi, kennara og leiðtoga. Við berum öll ábyrgð á því að hjálpa til. Hinsvegar hefur Drottinn sett ákveðnar leiðbeiningar fyrir foreldra að kenna börnum þeirra að „skilja kenninguna um iðrun, trú á Krist, son hins lifanda Guðs og um skírn og gjöf heilags anda“ og „biðja og ganga grandvör frammi fyrir Drottni.“

Það hvernig á að „ala börn [okkar] upp í ljósi og sannleika“ getur verið mikil áskorun, þar sem þetta er persónulegt fyrir hverja fjölskyldu og hvert barn, en himneskur faðir hefur almennar leiðbeiningar sem munu hjálpa okkur. Andinn mun innblása okkur og benda á skilvirkustu leiðina fyrir okkur til að bólusetja börn okkar andlega.

Til að byrja með þá er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa sýn á mikilvægi þessarar ábyrgðar. Við verðum að skilja guðlega sjálfsmynd okkar og tilgang, og þeirra, áður en við getum hjálpað börnum okkar að sjá hver þau eru og hvers vegna þau eru hér. Við verðum að hjálpa þeim að vita án efa, að þau eru synir og dætur ástríks himnesks föður og að hann hafi guðlegar væntingar til þeirra.

Í öðru lagi þá verða þau að skilja að kenning iðrunar er nauðsynleg fyrir þau til að geta orðið syndþolin. Að vera syndþolin, þýðir ekki að vera syndlaus, en gefur bara í skyn að vera stöðugt iðrandi, aðgætin og hugrökk. Kannski er það að vera syndþolin blessun fyrir að forðast synd ítrekað. Eins og Jakob sagði: „Standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.

Þessir ungliðahermenn „voru sérlega hugdjarfir … ; en sjá, þetta var ekki allt - þetta voru menn … alltaf … trúir því sem þeim var treyst fyrir. Já … þeim hafði verið kennt að halda boðorð Guðs og ganga grandvarir frammi fyrir honum.“ Þessir ungu menn fóru til stríðs, vopnaðir kristilegum gildum gegn andstæðingum sínum. Thomas S. Monson, forseti, minnir okkur á að „öll hljótum við köllun hugrekkis. Þörf er á hugrekki alla daga lífs okkar ‒ ekki aðeins við örlagaríka atburði, heldur oftar en ekki við að taka ákvarðanir eða bregðast við aðstæðum í umhverfi okkar.”

Börn okkar klæðast andlegum hertygjum er þau byggja upp persónulegt, daglegt mynstur lærisveinsins. Kannski vanmetum við getu barnanna til að meðtaka hugmyndina um daglegt starf lærisveins. Henry B. Eyring, forseti, ráðlagði okkur að „byrja snemma og vera stöðug.“ Þriðja atriðið, í því að hjálpa börnum okkar að hrinda syndinni frá sér, er svo að byrja þegar þau eru mjög ung og kenna þeim grundvallarkenningar á kærleiksríkan máta, frá ritningunum, Trúaratriðunum, úr bæklingnum Til styrktar æskunni, Barnafélagssálmum, sálmum, og persónulegum vitnisburði okkar – það mun leiða börnin til frelsarans.

Að skapa fastar hefðir bænar, ritningarlesturs, fjölskyldukvölda og tilbeiðslu á hvíldardögum, leiðir til heilleika, innri samkvæmni og sterkra siðferðisgilda, í öðrum orðum, andlegrar ráðvendni. Í heiminum í dag, þar sem ráðvendni hefur svo til horfið þá verðskulda börn okkar að skilja hvað sönn ráðvendni er og hvers vegna hún er mikilvæg – sérstaklega er við undirbúum þau til að gera og halda heilaga sáttmála við skírn og í musterinu. Eins og ritið Boða fagnaðarerindi mitt segir: „Þegar fólk [þar á meðal mjög ungir einstaklingar] heldur skuldbindingar sínar býr það sig undir að halda helga sáttmála.“

Öldungur Jeffrey R. Holland hefur kennt að „þegar við tölum um að halda sáttmála þá erum við að tala um kjarna tilgangs okkar hér á jörðu.“ Það er óvenjulegur kraftur sem fer í að gera og halda sáttmála við himneskan föður okkar. Andstæðingurinn veit þetta svo að hann hefur gert hugtakið um sáttmálsgerð illskiljanlegt. Annar lykill í að skapa kynslóð sem hrindir í burtu syndum er að auka skilning barna á því að gera og halda sáttmála.

Hvernig búum við börn okkar undir að gera og halda helga sáttmála er þau ganga inn á og miðar áfram á sáttmálsleiðinni? Það mun styrkja börn í að halda helga sáttmála seinna í lífi þeirra ef þeim er kennt að halda einföld loforð þegar þau eru ung.

Leyfið mér að deila með ykkur einföldu dæmi: Á fjölskyldukvöldi spurði faðir: „Hvernig kemur okkur saman sem fjölskyldu?“ Lizzie sem var fimm ára kvartaði yfir því að stóri bróðir hennar, Kevin, væri að stríða henni of mikið og særði tilfinningar hennar. Kevin viðurkenndi hikandi að Lizzie hefði rétt fyrir sér. Móðir hans spurði þá hvað hann gæti gert til að bæta samskiptin við systur sína. Kevin hugsaði málið og ákvað að lofa Lizzie að hann myndi fara í gegnum heilan dag án þess að stríða henni.

Í lok næsta dags, er allir komu saman í fjölskyldubæn, spurði faðir Kevins, hvernig honum hefði gengið. Svar Kevins var: „Pabbi, ég hélt loforð mitt!“ Lizzie samsinnti af gleði og fjölskyldan óskaði Kevin til hamingju.

Móðir þeirra stakk þá upp á því að ef Kevin gæti haldið loforð sitt í einn dag, af hverju ekki tvo daga? Kevin ákvað að reyna það aftur. Tveir dagar liðu og Kevin gekk vel að halda loforð sitt og Lizzie varð enn þakklátari. Þegar faðir hans spurði hann hvers vegna hann væri að standa sig svona vel í að halda loforð sitt þá svaraði Kevin: „Ég hélt loforð mitt því að ég sagðist ætla að gera það.“

Samansafn lítilla, farsælla loforða sem eru haldin, leiða til ráðvendni. Stöðug iðkun þess að halda loforð er andlegur undirbúningur fyrir börn að gera fyrsta sáttmála sinn við skírn og gjöf heilags anda, þar sem þau gera sáttmála um að þjóna Guði og halda boðorð hans. Loforð og sáttmálar eru óaðskiljanleg.

Í bók Daníels lærum við um Sadrak, Mesak og Abed-Negó og hvernig þeir neituðu að tilbiðja líkneski Nebúkadnesars konungs. Konungur varaði þá við að þeim yrði hent inn í brennandi eldsofn ef þeir hlýddu ekki. Þeir neituðu og sögðu:

„Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi. …

En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði.“

„En ef ekki.“ Hugleiðið merkingu þessara þriggja orða og hvernig þau eiga við það að halda sáttmála. Þessir þrír menn voru ekki að byggja hlýðni sína á því að vera bjargað. Jafnvel þó að þeim yrði ekki bjargað myndu þeir halda sitt loforð við Drottin því þeir sögðu að þeir myndu gera það. Að halda sáttmála okkar er ávallt ótengt aðstæðum okkar. Á sama hátt og ungliðarnir, þá eru þessir þrír menn dásamlegt fordæmi um syndþol fyrir börn okkar.

Hvernig eiga þessi dæmi heima á heimilum okkar og í fjölskyldum okkar? „Orð á orð ofan, setning á setning ofan,“ hjálpum við börnum að smakka árangur í litlum bitum. Um leið og þau halda loforð sín þá munu þau finna fyrir andanum í lífi sínu. Öldungur Joseph B. Wirthlin kenndi að fullkomin umbun fyrir ráðvendni er að hafa heilagan anda stöðugt með sér.“ Þá mun „traust barna okkar „vaxa og styrkjast í návist Guðs.“ Úr brunni ráðvendni kemur öflug og syndþolin kynslóð.

Bræður og systur, haldið hinum ungu nærri ykkur, svo nálægt að þeir sjái daglegar trúarlegar venjur ykkar og horfi á ykkur halda loforð ykkar og sáttmála. „Börn eru miklar eftirhermur, gefið þeim þá eitthvað frábært til að herma eftir.“ Við erum sannarlega að hjálpa til við að kenna og ala upp syndþolna kynslóð fyrir Drottin, eitt loforð í einu og sáttmála eftir sáttmála.

Ég vitna að Jesús Kristur leiðir þessa kirkju. Þegar þú kennir, leiðir og elskar börnin á sama hátt og frelsarinn gerði, þá geturðu fengið persónulega opinberun sem hjálpar þér að skapa og vopna hugrökk syndþolin börn. Bæn mín er að börn okkar muni óma orð Nefís: „Viltu sjá um að mig hrylli, þegar syndin birtist?“ Ég ber vitni um að frelsari okkar friðþægði fyrir syndir heimsins – því að hann sagði að hann myndi gera það, og að hann elskar okkur meira en að við dauðlegar verur getum skilið – vegna þess að hann sagði að hann myndi gera það. Í nafni Jesú Krists, amen.