2014
Finna framtíðarvon
Apríl 2014


Uns við hittumst á ný

Finna framtíðarvon

Höfundur býr í Arisóna, Bandaríkjunum

Með sömu ógnandi vindum sem á okkur hafa barið, hefur frækornum breytinga og vaxtar verið sáð.

Hinn 12. september 2001, vorum ég og eiginkona mín á sjúkrahúsinu í Tucson, Arisóna, Bandaríkjunum, og biðum þess óþreyjufull í margar klukkustundir að sonur okkar fæddist. Í sjónvarpinu okkar, og í öllum sjónvörpum í byggingunni, dundi á okkur myndefni frá atburðunum deginum áður í New York City — myndefni af tvíburaturnunum, sem áður höfðu gnæft yfir borgina, en höfðu nú hrunið til grunna og orðið að braki og ryki. Myndefnið var sent út í margar klukkustundir og gerði okkur hálf örvæntingarfull. Þetta virtist versti hugsanlegi tíminn til að fæða barn í heiminn — heim sem virðist svo myrkur og ógnvænlegur.

Árla morguninn eftir fæddist sonur okkar. Þegar ég hélt á litla barninu okkar og hugsaði um hina nýliðnu hræðilegu atburði, minntist ég eldanna í Yellowstone þjóðgarðinum árið 1988. Eldurinn hafði brennt til grunna um 323.750 hektara skógarlands. Eyðilegging þjóðgarðsins virtist algjör. Myndefni frétta sýndi aðeins sviðna jörð og svartan reyk á himni. Enginn mannlegur máttur hefði á stuttum tíma getað endurreist það sem glatað var. Jafnvel hin sífellda endurnýjun náttúrunnar virtist ekkert hafa að segja á móti eyðileggingu eldsins.

Hægfara kraftaverk gerðist þó vorið eftir — litlar plöntur og blóm tóku að spretta upp úr sviðinni jörðinni. Smám saman uxu sífellt fleiri blóm og runnar upp úr jarðveginum. Endurnýjun þjóðgarðsins var hægfara, ótal litlar og fallegar smáplöntur skutu rótum og smám saman varð árangurinn stórbrotinn.

Á óttastundum sem virðast yfirtaka okkur, líkt og eldhafið yfirtók Yellowstone garðinn, og reynt er á trú okkar til hlítar, ættum við að minnast hinnar tryggu og óhreyfanlegu undirstöðu, sem máttugri er öllum illum öflum. Helaman segir þessa undirstöðu vera „[bjarg] lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs.“ Við skulum halda okkur fast að honum, því „þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið“ (Helaman 5:12).

Þegar við stöndum frammi fyrir hinum ógnvænlegu illu öflum og freistingum heimsins, gætum við talið að hin smáu og lítilvægu áhrif fagnaðarerindisins eigi við ofjarl sinn að etja og muni láta í minni pokann. Við getum upplifað efa og örvæntingu, er við væntum þess án árangurs að hið ranga verði leiðrétt, að þjáningar þverri og að spurningum verði svarað. Einmitt með þeim vindum sem á okkur hafa barið, hefur frækornum breytinga og vaxtar verið sáð og hinn máttugi kraftur fagnaðarerindisins vinnur sitt látlausa verk á jarðvegi okkar jarðnesku tilveru og býr þúsundir örsmárra frækorna vonar og lífs undir að skjóta rótum.