2014
Vel fest ankeri
Apríl 2014


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins

Vel fest ankeri

Ljósmynd
Dieter F. Uchtdorf forseti

Fyrir nokkru síðan átti ég kost á að sigla á stóru skipi meðfram fallegri strönd Alaska í Bandaríkjunum. Þegar skipstjórinn bjó skipið undir næsturstað í óspilltum og afskekktum firði, mat hann vandlega staðsetningu og aðstæður, eins og mun á aðfalli og útfalli, sjódýpt og fjarlægð hindrana og hættulegra skerja. Þegar hann var sáttur, lét hann ankerið falla, til að festa skipið örugglega og gefa farþegunum kost á að dásama stórbrotið og fallegt sköpunarverk Guðs.

Þegar ég virti ströndina fyrir mér, varð mér ljóst að jafnvel minnsti vindur og straumur færði skipið örlítið úr stað. En festing skipsins var þó örugg og það fór ekki lengra en styrkur og lína ankerisins leyfðu.

Skipstjórinn hafði ekki geymt ankerið um borð einungis til að varpa því niður ef von væri á stormi. Nei, hann hafði gert fyrirbyggjandi aðgerðir með því að festa skipið og koma þannig í veg fyrir að það bærist smám saman út á ótryggan sjó eða að landi, og tryggja þannig öryggiskennd áhafnar og farþega.

Þegar mér varð hugsað um þetta, rann upp fyrir mér að hér væri jafn öruggt efni í dæmisögu og víst væri að ég hefði flogið flugvél.

Ástæður þess að við þurfum ankeri

Tilgangur ankeris er að tryggja öryggi skips á einhverjum tilteknum stað eða hafa stjórn á því í slæmu veðri. En ekki nægir einungis að hafa ankeri til staðar til að uppfylla þann tilgang. Ankerið verður að vera öflugt og áreiðanlegt og það ber að nota eins og reglur segja til um, á réttri stundu og stað.

Einstaklingar og fjölskyldur þurfa líka að hafa ankeri.

Andstreymi getur komið eins og aftakaveður, breytt stefnu okkar og borið okkur að steinum og skerjum. Stundum steðjar líka hætta að þegar allt virðist í fullkomnu lagi — vindar eru hægir og vötnin lygn. Við getum í raun verið í mestri hættu þegar okkur rekur frá og hreyfingin er svo hæg að við tökum vart eftir henni.

Fagnaðarerindið er okkar ankeri

Ankeri verða að vera sterk og öflug og fá gott viðhald til að þau séu til reiðu þegar þörf er á. Að auki verður að festa þau við undirstöðu sem getur varist gegn sterkri mótstöðu.

Fagnaðarerindi Jesú Krists er auðvitað þess konar ankeri. Það var gert þannig úr garði af skapara alheims í guðlegum tilgangi og því ætlað að sjá börnum hans fyrir öryggi og handleiðslu.

Hvað er fagnaðarerindið, þegar allt kemur til alls, annað en áætlun Guðs um að endurleysa börn sín og færa þau aftur í návist hans?

Vitandi það að eðli alls er að reka af stefnu, þá verðum við festa ankeri okkar við undirstöðu sannleika fagnaðarerindisins. Því má ekki létta ofan í sand drambsemi eða svo það rétt snerti yfirborð eigin sannfæringar.

Í þessum mánuði gefst okkur kostur á að hlýða á þjóna Guðs á aðalráðstefnu kirkjunnar. Orð þeirra, ásamt ritningunum og innblæstri andans, sjá okkur fyrir fastri og öruggri undirstöðu eilífra gilda og reglna, sem við getum tryggilega fest ankeri okkar við, svo við getum verið staðföst og örugg mitt í raunum og erfiðleikum lífsins.

Hinn forni spámaður, Helaman, kenndi: „Það er á bjargi lausnara okkar, sem er Kristur, sonur Guðs, sem þið verðið að byggja undirstöðu ykkar. Að þegar djöfullinn sendir sína voldugu storma, já, spjót sín í hvirfilvindinum, já, þegar allt hans hagl og voldugur stormur bylur á ykkur, mun það ekkert vald hafa til að draga ykkur niður í djúp vansældar og óendanlegs volæðis, vegna þess að það bjarg, sem þið byggið á, er öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið“ (Helaman 5:12).

Gildi vandlega fests ankeris

Háttur lífsins er að láta reyna á ankeri okkar og freista okkar til að reka frá. Ef ankeri okkar eru réttilega fest við bjarg frelsara okkar, mun það halda — þrátt fyrir mikla vinda, öfluga strauma eða risavaxnar öldur.

Skipi er auðvitað ekki ætlað að vera stöðugt í höfn, heldur fremur að hífa upp ankeri sitt og sigla um lífsins höf. Það er hinsvegar dæmisaga fyrir annan dag.

Ég læt mér nú nægja að vita að ankeri fagnaðarerindisins og bjarg frelsara okkar munu veita okkur festu og öryggi.

Slík ankerisfesta mun varna því að okkur reki á hættusvæði og í ófarir. Hún mun veita okkur hið dýrðlega tækifæri að njóta óviðjafnanlegrar fegurðar hins síbreytilega landslags lífsins.

Lífið er fagurt og þess virði að því sé lifað. Sterkir stormar og straumar geta freistað okkar til að lát reka í fyrirséða eða ófyrirséða hættu, en boðskapur fagnaðarerindisins og guðlegur kraftur þess mun festa stefnu okkar í örugga höfn í návist himnesks föður.

Við skulum því ekki aðeins hlusta á ræður aprílráðstefnunnar, heldur líka hagnýta boðskap þeirra, eins og vandlega fest ankeri í okkar daglega lífi.

Megi Guð blessa og leiða okkur í þessari mikilvægu og nauðsynlegu viðleitni!

Hvernig kenna á boðskapinn

Íhugið að ræða mikilvægi ankeris í tengslum við siglingu Lehí og fjölskyldu hans til fyrirheitna landsins (sjá 1 Ne 18). Þið getið vísað í 1 Ne 18:11–15, þegar Nefí var keflaður, Líahóna hætti að virka og skipið rak stjórnlaust í aftakaveðri. Hvaða afleiðingar fylgja því að hafa ekki örugga ankerisfestu við fagnaðarerindið? Þið getið líka vísað í 1 Ne 18:21–22 og rætt hvernig við getum fundið öryggi með því að koma til frelsarans.

Prenta