2014
Móse
Apríl 2014


Spámenn Gamla testamentisins

Móse

„Móse var slíkt mikilmenni að jafnvel Kristur var sagður vera líkur þessum forna leiðtoga Ísraelsmanna.“1 — Öldungur Bruce R. McConkie (1915–85) í Tólfpostulasveitinni

Ég fæddist í Egyptalandi á þeim tíma er fólk mitt, Ísraelsmenn, var í ánauð. Faraó óttaðist vaxandi fjölda ísraelsku þrælanna og bauð því að öll ísraelsk börn af karlkyni yrðu líflátin við fæðingu. Móðir mín faldi mig í körfu í sefi Nílarfljóts til að vernda mig, þremur mánuðum eftir fæðingu mína. Dóttir faraós fann mig og ól mig upp sem sinn eigin son.2

Þegar ég óx úr grasi fór ég frá Egyptalandi og bjó í Mídíanslandi. Þar kynntist ég Jetró, hirðmanni og presti, og giftist dóttur hans, Sippóru. Ég hlaut Melkísedeksprestdæmið af hendi Jetrós.3

Eitt sinn er ég gætti hjarðar Jetrós, birtist Drottinn mér í logandi þyrnirunna og bauð mér að frelsa Ísraelsmenn úr ánauð.4

Ég snéri til Egyptalands og bauð faraó að láta fólk Drottins fara frjálst, en þess í stað þyngdi hann byrðar þess. Drottinn lét margar plágur koma yfir Egyptaland, en Faraó herti hjarta sitt og neitaði enn að gefa Ísraelsmönnum frelsi. Síðasta plágan var eyðandi engill sem deyddi frumgetna syni allra fjölskyldna í Egyptalandi. Ísraelsmenn nutu verndar frá hinum eyðandi engli, með því að roða blóði flekklauss lambs á dyrastafi sína og halda sig innandyra. Fyrir minn tilverknað innleiddi Drottinn páskamáltíðina sem helgiathöfn til að minnast kraftaverks hans á hverju ári.5

Síðasta plágan knúði Faraó til að láta Ísraelsmenn fara frjálsa. En síðar herti Faraó hjarta sitt og sendi her sinn eftir hinum burtförnu Ísraelsmönnum. Drottinn blessaði mig með krafti til að kljúfa Rauðahafið og við komumst yfir á þurrt land meðan her faraós drukknaði.6

Drottinn leiddi okkur síðan um eyðimörkina í skýi á daginn og eldstólpa um nætur. Hann nærði okkur með vatni, manna og lynghænum.7

Ég kleif upp á Sínaífjall, þar sem ég dvaldi í 40 daga og tók á móti boðorðunum tíu frá Drottni. Þegar ég snéri aftur af fjallinu, höfðu Ísraelsmenn snúið frá Guði og tekið að tilbiðja gullkálf. Þeir voru ekki lengur verðugir þess að taka á móti lögmálinu sem Guð fékk mér, svo ég braut töflurnar sem það var ritað á. Ég snéri aftur til fallsins, þar sem Drottinn veitti mér óæðra lögmálið, sem nefnt er eftir mínu nafni — Móselögmálið.8

Í eyðimörkinni opinberaði Drottinn mér skipulag að uppsetningu tjaldbúðar eða færanlegs musteris. Við bárum tjaldbúðina á ferð okkar, svo við gætum tilbeðið í henni. Í tjaldbúðinni tók fólkið á móti helgiathöfnum og ég ræddi við Drottin „augliti til auglitis, eins og maður talar við mann.“9 Drottinn sýndi mér líka hvernig smíða átti sáttmálsörkina, helgan grip sem geymdur var í helgasta hluta tjaldbúðarinnar, hinu allra heilagasta.10

Þegar Drottinn sendi „eldspúandi höggorma“ til að hirta Ísraelsmenn, var mér boðið að búa til eirhöggorm og lyfta honum hátt upp á stöng, svo að allir sem bitnir voru af höggormum gætu litið upp til hans og hlotið lækningu. Sökum hroka þeirra og einfaldleika þessarar athafnar, vildu margir ekki líta upp og því fórust þeir.11

Drottinn lét Ísraelsmenn ráfa um í eyðimörkinni í 40 ár, áður en hann leyfði að þeir færu í fyrirheitna landið.12 Ég komst ekki þangað, en var „uppnuminn í andanum“ og tekinn til Drottins.13

Prenta