2014
Ég hafði heilmargt að gefa
Apríl 2014


Ég hafði heilmargt að gefa

Brent Fisher, Kalifornía, Bandaríkjunum

Ég hafði ætíð hugsað um neyðarviðbúnað aðeins í tengslum við sjálfan mig og fjölskyldu mína. Sunnudagsmorgun einn í Flórída árið 1992 lærðist mér hinsvegar að sjá hann í öðru ljósi. Fellibylurinn Andrew, einn skaðlegasti og tjónmesti fellibylur sem komið hafði yfir Bandaríkin, raskaði fallegu sumri í Míami, Flórída.

Ég bjó einn um tíma í strandíbúð og sótti þriggja mánaða þjálfunarnámskeið í tengslum við starfið mitt. Þegar aðvörunin um storminn barst og ég komast að því að við þurftum að fara úr íbúðarblokkinni fyrir hádegi, bókaði samstarfsmaður hótelherbergi fyrir mig og samstarfsfólk mitt lengra uppi á landi. Ég setti hlera fyrir gluggana og kom eigum mínum fyrir í geymslu.

Ég átti von á að eiginkona mín og fjögur börn kæmu til að dvelja hjá mér í eina viku, svo ég hafði keypt nægan mat og drykk fyrir sex manns. Ég var rólegur vegna þeirrar vitneskju að ég hafði öruggan stað að fara á og nægan mat til að taka með mér sem endast myndi í nokkrar vikur.

Þegar ég hugðist fara klukkan 10:30, leið mér vel — því allt var í góðu lagi. Ég kraup í bæn og þakkaði himneskum föður fyrir blessanir mínar og bað um hjálp hans meðan á storminum stæði. Þegar ég lauk bæninni, blés andinn mér í brjóst að segja: „Ef einhver hefur þörf á hjálp, hjálpaðu mér þá að finna hann.“

Innan nokkurra mínútna bankaði ekkja á áttræðisaldri á dyrnar hjá mér. „Afsakaðu,“ sagði hún. „Ég hef farið herbergisvillt. Ég er að leita að vinkonu minni.“

Hún virtist örmagna. Þegar ég spurði hvort ég gæti hjálpað, varð hún óttaslegin og sagðist ekki vita hvað hún ætti að gera eða hvert hún ætti að fara. Ég spurði hvar hún ætti heima og saman gengum við að íbúð hennar, mátum aðstæður hennar og valkosti.

Ég sagði henni að fyrirtækið mitt gæti haft pláss í einu hótelherbergja okkar og bauð henni að dvelja með hópnum. Hún andvarpaði af létti. Við pökkuðum niður í fljótheitum og gengum frá íbúð hennar og eigum og ég fékk samstarfsmann til að aka bíl hennar til hótelsins.

Þegar ég hugðist halda af stað báðu tvær aðrar ekkjur mig um aðstoð. Ég róaði þær, svo þær gætu hugsað skýrt og fundið út hvert fara mætti í skjól. Þegar ég náði í farangur hjá einum samstarfsmanni mínum, kom enn önnur eldri ekkja til okkar og bað um hjálp. Við settum brothættar eigur hennar á öruggan stað og bjuggum hana undir að fara.

Meðan á þessu stóð, höfðu aðrir samstarfsfélagar boðið tveimur námsmönnum, sem dvöldu á eyju einni, að vera með hópnum á hótelinu lengra uppi á landi. Eini maturinn sem þeir höfðu var handfylli af snakki og einn líter af vatni. Ég hafði til allrar lukku heilmikið að gefa, ekki aðeins þeim, heldur öllum öðrum.

Hvílík blessun að vera viðbúinn og leiddur af Drottni. Það gerði mér kleift að róa aðra á neyðarstundu og verja næstum öllum mínum tíma í að hjálpa öðrum, án þess að hafa áhyggjur af sjálfum mér. Ég hlaut aukna þakklætistilfinningu fyrir ráðgjöf prestdæmisleiðtoga okkar um viðbúnað.