2014
Loforðið glæddi mér von
Apríl 2014


Loforðið glæddi mér von

Juliana Fayehun, Lagos, Nígeríu

Stuttu eftir að ég og eiginmaður minn giftum okkur, vorum við blessuð með syni. Þegar ég sá hann brosa og horfði í augun hans, fann ég til mikils þakklætis til himnesks föður. Mér fannst sonur okkar fullkominn. Ég og eiginmaður minn þökkuðum Drottni dag hvern fyrir þessa dýrmætu gjöf.

Hinn 19. febrúar 2009 bjó ég mig undir að fara í skólann á síðasta námsárinu. Mér og eiginmanni mínum grunaði ekki að daginn eftir fengi sonur okkar hitasótt og kveddi þennan heim.

Mér reyndist erfitt að takast á við þessa reynslu. Meðlimir deildar okkar komu á heimili okkar til að hughreysta okkur með ritningarlestri, sálmasöng og bænagjörð. Ég mat einlæga samúð þeirra, en sorgin yfir syni mínum dofnaði ekki. Augun fylltust ætíð tárum þegar ég hugsaði um hann.

Fjórum dögum eftir lát hans hlaut ég innblástur um að lesa Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith. Þegar ég tók bókina, opnaðist hún í höndum mínum á kafla sem hafði fyrirsögnina: „Orð vonar og huggunar þegar dauða ber að.“ Ég hóf lesturinn og fann til innilegrar samúðar yfir hörmulegum missi Josephs og Emmu, sem þau urðu fyrir við upphaf búskapar þeirra. Þegar ég kom að útdrætti úr ræðu sem spámaðurinn hafði haldið við útför tveggja ára gamallar stúlku, fannst mér sem köldu vatni væri ausið yfir höfð mitt, svo sorgarhugsanir mínar dofnuðu.

Ég kallaði á eiginmann minn. Saman lásum við: „Ég [hef] … spurt þessarar spurningar: Hvers vegna eru ungabörn, saklaus börn … tekin frá okkur. … Drottinn tekur marga í burtu, jafnvel ungabörn, svo þau megi komast hjá … sorg og illsku þessa heims; þau voru of hrein, of yndisleg, til að lifa á jörðinni; þess vegna, ef réttilega er hugleitt, höfum við ástæðu til að fagna í stað þess að syrgja, því þau eru frelsuð frá hinu illa og við munum senn fá þau á ný.“

Spámaðurinn bætti við: „Menn geta spurt: — ‚Munu mæður hafa börn sín í eilífðinni?‘ Já! Já! Mæður, þið munuð hafa börn ykkar, því þau munu hljóta eilíft líf, þar sem skuld þeirra er greidd.“1

Frá því að við lásum þessi yndislegu orð, hafa fjölskyldubænir okkar verið fylltar þakklæti fyrir loforðið að við munum sameinast syni okkar að nýju fyrir friðþægingu Jesú Krists.

Í dag eigum við þrjú dásamleg börn, systkini okkar burtfarna sonar. Við erum að kenna þeim hið sanna og ævarandi fagnaðarerindi, sem mun leiða þau aftur í návist föður þeirra á himnum og frelsara okkar, Jesú Krists.

Ég veit að boðskapur spámannsins Josephs Smith um líf eftir dauðann er sannur. Ég mun ætíð vera þakklát fyrir vonina, friðinn, gleðina og hamingjuna sem hann veitir fjölskyldu okkar — beggja megin hulunnar.

Heimildir

  1. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 176, 177.

Prenta