2014
Beðið eftir sólarupprás
Apríl 2014


Beðið eftir sólarupprás

Julia Wagner, Ohio, Bandaríkjunum

Skugga brá yfir herbergið og sveipaði það myrkurhulu, þar sem ég lá vakandi, hlustandi á andardrátt eiginmanns míns og reyndi að komast að því hvort hann væri vakandi eða sofandi. Tólf ára dóttir okkar hafði látist skyndilega fyrir aðeins tveimur dögum í hræðilegu slysi. Ég lokaði augunum, en gat ekki sofnað. Ég þráði að sjá dóttur mína. Öll mín vitneskja um sáluhjálparáætlunina dró ekki úr sorg minni.

Þegar leið að dögun, fann ég skyndilega til mikillar löngunar. Sólin kæmi brátt upp og í huganum sá ég himininn baðaðan fölbleikum lit. Dóttir okkar unni bleika litnum. Bleiklituð sólarupprás var einmitt það sem ég þurfti til að finna nálægð hennar að nýju.

„Förum til að horfa á sólarupprásina,“ hvíslaði ég að syfjuðum eiginmanni mínum.

Við stóðum í innkeyrslunni, horfðum í austur og biðum… og biðum. Þótt himininn hafi orðið bjartari, náði sólin ekki að skína gegnum skýin við sjóndeildarhringinn.

Ég lagði höfuðið á öxl eiginmanns síns, andvarpaði og reyndi að láta sem þetta skipti ekki máli. Ég vildi meira. Ég þurfti meira. Himneskur faðir hefði vissulega getað uppfyllt þessa þrá mína, eftir að hafa tekið stúlkuna okkar ljúfu heim til sín.

Þegar eiginmaður minn snéri sér við til að fara inn aftur, horfði hann í gagnstæða átt til vesturs og sagði: „Sjáðu!“

Ég snéri mér við. Fyrir aftan okkur voru skýin böðuð fallegri birtu og gylltum ljóma. Ég greip andann á lofti og tár komu í augun. Þetta var fallegra en ég hefði getað ímyndað mér. Mér fannst það sem faðmlag frá dóttur okkar. Ég vissi að himneskur faðir var meðvitaður um sorgina í hjarta mínu og sendi fyrirheit um framtíðarvonir — ljúfa áminningu um eilífar fjölskyldur og allar yndislegu stundirnar sem áttu eftir að koma.

Oft hefur mér verið hugsað um þessa fallegu stund og hina nýju sýn sem hún veitti mér. Hver væntir sólarupprásar í vestri? Einmitt þar beið kraftaverkið mitt? Af hve mörgum blessunum missi ég, vegna þess að þær koma úr óvæntri átt? Hversu oft einblíni ég á það sem ég held að eigi að vera og missi af dýrð þess sem er?

Við höfðum beðist látlaust fyrir um kraftaverk sem ekki var uppfyllt, en þegar ég horfði umhverfis mig í nýju ljósi, sá ég kraftaverk þess að líf fjögurra einstaklinga hafði orðið betra vegna líffæragjafar dóttur minnar, kærleikskraftaverk fjölskyldu minnar og deildar og kraftaverk þjónustu. Ég hef upplifað mikla sorg, en líka máttuga von, sem fyllt hefur sál mína, með hverri rósrauðri sólarupprás og sólsetri og bleiku blómi sem á vegi mínum hefur orðið.

Nú þegar sólin rís, horfi ég til austurs, en svo líka til vesturs. Ég brosi í þeirri fullvissu að ætíð má finna kraftaverk og blessanir umhverfis — og að sólin muni ætíð rísa ofar sorgum okkar, ef við leyfum að það gerist.