2014
Sérstök vitni bera vitni um hinn lifandi Krist
Apríl 2014


Sérstök vitni bera vitni um hinn lifandi Krist

Meðlimir Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar eru nútíma spámenn, sjáendur og opinberarar og eru „sérstök vitni nafns Krists um allan heim“ (K&S 107:23). Sem slíkir bera þeir ábyrgð á að vitna um guðleika Jesú Krists og hlutverk hans sem frelsara og lausnara heimsins.

Hér á eftir eru tilvitnanir í þessa útvöldu erindreka, er þeir miðla vitnisburði sínum um friðþægingu frelsarans, upprisu hans og lifandi raunveruleika.

Jesús er frelsari okkar

Thomas S. Monson forseti

„Af öllu hjarta og mætti sálar minnar hef ég upp raust mína og gef vitnisburð minn sem sérstakt vitni og lýsi því yfir að Guð lifir. Jesús er sonur hans, hinn eingetni föðurins í holdinu. Hann er frelsari okkar, meðalgöngumaður okkar hjá föðurnum. Hann er sá sem dó á krossinum og friðþægði fyrir syndir okkar. Hann varð frumgróður upprisunnar. Vegna þess að hann dó, munu allir lifa aftur. „‚Ég veit minn lifir lausnarinn. Hve ljúf ég þessi orðin finn.‘“ [„Ég veit minn lifir lausnarinn,” Sálmar, nr. 36].”

Thomas S. Monson forseti, „I Know That My Redeemer Lives!” Líahóna, maí 2007, 25.

Ég er vitni

Henry B. Eyring forseti

„Ég er vitni að upprisu Drottins eins örugglega og ef ég hefði verið með lærisveinunum tveimur í húsinu við Emmaus veginn. Ég veit að hann lifir eins örugglega og Joseph Smith vissi það þegar hann sá föðurinn og soninn í skæru ljósi morgunsins í trjálundinum í Palmyra. …

„… Ég vitna um það, sem vitni hins upprisna frelsara og endurlausnara okkar.”

Henry B. Eyring, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, „Come unto Me,” Líahóna, maí 2013, 25.

Friðþægingin og sáluhjálp

Dieter F. Uchtdorf forseti

„Guð faðirinn er höfundur fagnaðarerindisins; það er lykilatriði áætlunar Guðs um sáluhjálp eða endurlausn.“ Það er kallað fagnaðarerindi Jesú Krists vegna þess að friðþæging Jesú Krists gerir endurlausnina og sáluhjálpina mögulega. Fyrir friðþægingu hans eru allir karlar, konur og börn skilyrðislaust endurleyst frá líkamlegum dauða, og öll verða endurleyst frá eigin syndum með því skilyrði að þau meðtaki og hlýði fagnaðarerindi Jesú Krists… .

Um það ber ég vitni af öllu hjarta og huga.“

Dieter F. Uchtdorf, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, „Have We Not Reason to Rejoice?” Líahóna, nóv. 2007, 19, 21.

Jesús er Kristur

Boyd K. Packer forseti

„Ég veit að Guð er faðir okkar. Hann kynnti son sinn, Jesú Krist, fyrir Joseph Smith. Ég lýsi yfir fyrir ykkur að Jesús er Kristur. Ég veit að hann lifir. Hann fæddist á hádegisbaugi tímans. Hann kenndi fagnaðarerindi sitt og var reyndur. Hann þjáðist og var krossfestur og reis upp á þriðja degi. Hann, líkt og faðir hans, hefur líkama af holdi og beinum. Hann gerði friðþægingu sína að veruleika. Um hann ber ég vitni. Ég er vitni hans.“

Boyd K. Packer, forseti Tólfpostulasveitarinnar, „The Twelve,” Líahóna, maí 2008, 87.

Lausnargjald fyrir mannkynið

Öldungur L. Tom Perry

„[Jesús Kristur] er kjarninn í eilífri áætlun föðurins, frelsarinn sem útnefndur var til lausnar mannkyni. Guð sendi elskaðan son sinn til að sigrast á falli Adams og Evu. Hann kom til jarðar sem frelsari okkar og lausnari. Hann sigraðist á hindrunum líkamlegs dauða fyrir okkur með því að gefa líf sitt. Þegar hann lét lífið á krossinum, fór andi hans úr líkamanum. Á þriðja degi voru andi hans og líkami sameinaðir að eilífu og verða aldrei aftur aðskildir.“

Öldungur L. Tom Perry, í Tólfpostulasveitinni, „The Plan of Salvation,” Líahóna, nóv. 2006, 71.

Mikilvægasta verk mannkynssögunnar

Öldungur Russell M. Nelson

„Friðþæging [frelsarans] fór fram í Getsemanegarðinum, þar sem sviti hans varð eins og blóðdropar (sjá Lúk 22:44), og á Golgata, þar sem líkama hans var lyft upp á krossi á þeim stað sem nefndist ‚Hauskúpustaður,‘ sem var táknrænn fyrir dauðann (Mark 15:22; Matt 27:33; sjá einnig 3 Ne 27:14). Þessi algjöra friðþæging leysti manninn úr viðjum dauðans (sjá 2 Ne 9:7). Friðþæging frelsarans gerði upprisuna að veruleika og eilíft líf mögulegt fyrir alla. Friðþæging hans varð mikilvægasta verk allrar mannkynssögunnar.“

Öldungur Russell M. Nelson, í Tólfpostulasveitinni, „The Peace and Joy of Knowing the Savior Lives,” Líahóna, des. 2011, 22.

Fórn fyrir synd

Öldungur Dallin H. Oaks

„Jesús Kristur leið óskiljanlegar þjáningar er hann varð sjálfur að fórn fyrir syndir okkar allra. Sú fórn fól í sér hið fullkomna góða — hið saklausa og lýtalausa lamb — fyrir alla hugsanlega illsku — syndir alls heimsins. …

„Sú fórn — friðþæging Jesú Krists — er kjarni sáluhjálparáætlunarinnar. …

Ég veit að Jesús Kristur er hinn eingetni sonur Guðs, hins eilífa föður. Ég veit að sökum friðþægingarfórnar hans, höfum við fullvissu um ódauðleika og möguleika á eilífu lífi. Hann er Drottinn okkar, lausnari okkar og frelsari.“

Öldungur Dallin H. Oaks, í Tólfpostulasveitinni, „Sacrifice,” Líahóna, maí 2012, 19, 22.

Frelsarinn leiðir kirkju sína á okkar tíma

Öldungur M. Russell Ballard

„Friðþæging Jesú Krists var ómissandi þáttur í áætlun himnesks föður fyrir jarðneskt hlutverk hans og sáluhjáp okkar. Hve þakklát við ættum að vera fyrir að himneskur faðir hafi ekki komið sínum ástkæra syni til bjargar og þannig fylgt sinni föðurlegu eðlishvöt. Hann leyfði Jesú að ljúka við sitt forvígða ætlunarverk að verða lausnari okkar, sökum þeirrar eilífu elsku sem hann ber til okkar allra. …

Jesús Kristur, frelsari okkar og lausnari, er ekki dáinn. Hann lifir — hinn upprisni sonur Guðs lifir — það er vitnisburður minn og að hann leiðir kirkju sína á okkar tíma.”

Öldungur M. Russell Ballard, í Tólfpostulasveitinni, „The Atonement and the Value of One Soul,” Líahóna, maí 2004, 85, 86.

Von okkar, meðalgöngumaður okkar, lausnari okkar

Öldungur Richard G. Scott

„Við finnum öryggi í [okkar himneska föður] og hans ástkæra syni, Jesú Kristi. Ég veit að frelsarinn elskar ykkur. Hann mun staðfesta viðleitni ykkar til að styrkja vitnisburð ykkar, svo hann verði ríkjandi kraftur til góðs í lífi ykkar, kraftur sem mun efla ykkur á hverri neyðarstund og veita ykkur frið og fullvissu á þessum óvissutímum.

Ég, sem einn af postulum hans, og réttmætur valdhafi til að vitna um hann, ber hátíðlega vitni um að ég veit að frelsarinn lifir, að hann er upprisin og dýrðleg vera fullkominnar elsku. Hann er von okkar, meðalgöngumaður okkar, lausnari okkar.“

Öldungur Richard G. Scott, í Tólfpostulasveitinni, „The Power of a Strong Testimony,” Líahóna, jan. 2002, 103.

Bergja hinn beiska bikar

Öldungur Robert D. Hales

„Í Getsemanegarðinum, hörfaði frelsari okkar og lausnari ekki undan því að bergja hinn beiska bikar friðþægingarinnar [sjá K&S 19:16–19]. Og á krossinum þjáðist hann aftur og laut vilja föður síns, þar til hann að lokum gat sagt: „Það er fullkomnað.“ [Jóh 19:30]. Hann stóðst allt til enda. Viðbrögð himnesks föður við fullkominni hlýðni og staðfestu frelsarans voru: ‚Sjá minn elskaða son, sem ég hef velþóknun á. Í honum hef ég gjört nafn mitt dýrðlegt’ [3 Ne 11:7].

„… gerum nafn Guðs dýrðlegt með því að standa staðföst með frelsara okkar, Jesú Kristi. Ég ber mitt sérstaka vitni um að hann lifir.“

Öldungur Robert D. Hales, í Tólfpostulasveitinni, „Stand Strong in Holy Places,” Líahóna, maí 2013, 51.

Eina fullkomna barn Guðs

Öldungur Jeffrey R. Holland

„Ég veit að Guð er öllum stundum og á allan hátt og í öllum kringumstæðum, kærleiksríkur og fyrirgefandi faðir okkar á himnum. Ég veit að Jesús var hans ein fullkomna barn, hvers líf var fúslega gefið bæði af föðurnum og syninum, til frelsunar okkar allra sem ekki erum fullkomin. Ég veit að hann reis upp frá þeim dauða til að lifa að nýju og vegna þess munum við líka lifa.“

Öldungur Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni, „Lord, I Believe,” Líahóna, maí 2013, 95.

Ég veit að frelsarinn lifir

Öldungur David A. Bednar

„Ég lýsi yfir vitnisburði mínum og þakklæti fyrir hina óendanlegu og eilífu fórn Drottins Jesú Krists. Ég veit að frelsarinn lifir. Ég hef bæði upplifað endurleysandi og virkjandi kraft hans og ber vitni um að kraftur þessi er raunverulegur og aðgengilegur okkur öllum. Við getum vissulega sigrast á öllu ‚með Drottins styrk,‘ er við tökumst á við ferð okkar um hinn dauðlega heim.“

Öldungur David A. Bednar, í Tólfpostulasveitinni, „The Atonement and the Journey of Mortality,” Líahóna, apríl 2012, 19.

Kristur uppfyllti hlutverk sitt

Öldungur Quentin L. Cook

„[Frelsarinn] tók á sig ‚syndabyrði mannkyns‘ og ‚skelfinguna sem Satan … megnaði að setja fram’ [James E. Talmage, Jesus the Christ, 613]. Í því ferli tókst hann á við hin stuttu og sviksamlegu réttarhöld og hina hræðilegu og hörmulegu atburði sem leiddu til krossfestingar hans. Þeir leiddu svo að lokum til sigurs Krists og upprisunnar á páskasunnudegi. Kristur uppfyllti sitt helga hlutverk sem frelsari og lausnari. Við munum rísa upp frá dauðum og fá andann sameinaðan líkama okkar. …

Ég ber sem postuli vitni um að Jesús Kristur lifir og er frelsari og lausnari heimsins. Hann hefur skapað leið sannrar hamingju.“

Öldungur Quentin L. Cook, í Tólfpostulasveitinni, „We Follow Jesus Christ,” Líahóna, maí 2010, 83–84, 86.

Frelsarinn endurleysti okkur

Öldungur D. Todd Christofferson

„Þjáningar frelsarans í Getsemanegarðinum og helstríðið á krossinum endurleysir okkur frá synd með því að uppfylla þær kröfur sem réttlætið hefur á hendur okkur. Hann býður fram miskunn og fyrirgefur þeim sem iðrast. Friðþægingin fullnægir einnig þeirri skuld sem réttlætið skuldar okkur með því að græða og bæta fyrir hverja þá þjáningu sem við óverðskuldað verðum fyrir. ‚Því að sjá, hann ber þjáningar allra manna, já, þjáningar hverrar lifandi veru, bæði karla, kvenna og barna, sem tilheyra fjölskyldu Adams‘ (2 Ne 9:21; sjá einnig Alma 7:11–12). …

„… Hin endanlega endurlausn er í Jesú Kristi og honum einum. Í auðmýkt og þakklæti viðurkenni ég hann sem endurlausnara.“

Öldungur D. Todd Christofferson, í Tólfpostulasveitinni, „Redemption,” Líahóna, maí 2013, 110, 112.

Upprisan og lífið

Öldungur Neil L. Andersen

„Um fram allt lýsum við yfir að frelsari okkar og lausnari er Jesús Kristur. Allt það sem við erum — allt það sem við nokkru sinnum verðum — eigum við honum að þakka. …

Orð hans enduróma um aldir:

‚Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.

Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja‚‘ (Jón 11:25–26).

Bræður og systur, hann lifir. Hann er upp risinn. Hann leiðir sitt heilaga verk á jörðunni.“

Öldungur Neil L. Andersen, í Tólfpostulasveitinni, „Come unto Him,” Líahóna, maí 2009, 80.