Nota sáluhjálparáætlunina til að fá svör við spurningum
Vitum við hvar finna má svörin, þegar við eða aðrir höfum spurningar um fagnaðarerindi Jesú Krists?
Við lifum á spennandi tímum. Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists er að koma „fram úr móðu“ (K&S 1:30). Af því leiðir að fleiri börn himnesks föður, sem ekki eru okkar trúar, heyra um „mormóna.“ Sumir heyra eitthvað sem hljómar undarlega og ruglandi. Aðrir heyra eitthvað sem hljómar kunnuglega og hughreystandi. Fólk sem heyrir til beggja þessara hópa getur komið til okkar í leit að svörum við spurningum sínum. Mörg svör eru að finna í sáluhjálparáætluninni, sem líka er nefnd „hin mikla sæluáætlun” (Alma 42:8).
Algengustu spurningarnar eru: „Hvaðan kom ég?“ „Hvers vegna er ég hér?“ og „Hvert fer ég að þessu lífi loknu?“ Öllum þessum spurningum er hægt að svara með sannleika sem finna má í sáluhjálparáætluninni. Í þessari grein eru nokkuð af þeim svörum sem ritningarnar og spámaður okkar, Thomas S. Monson forseti, hafa gefið sem svör við þessum spurningum.
Hvaðan kom ég?
Við erum eilífar verur. Fyrir þetta líf lifðum við hjá Guði sem andabörn hans. „Páll postuli [kenndi] að við værum ‚afsprengi Guðs‘ [Post 17:29],“ sagði Monson forseti. „Þar sem við vitum að efnislíkami okkar er afsprengi okkar jarðnesku foreldra, verðum við að ígrunda hvað felst í orðum Páls. Drottinn hefur sagt að ‚andinn og líkaminn eru sál mannsins‘ [K&S 88:15]. Af því leiðir að andinn er afsprengi Guðs. Höfundur Hebreabréfsins vísar til hans sem ‚föður anda okkar‘ [Hebr 12:9].“1
Hvers vegna er ég hér?
Monson forseti sagði um lífið okkar á jörðunni: „Hve þakklát við ættum að vera fyrir að vitur skapari bjó okkur jörð og setti okkur hér, sveipaði okkur gleymskuhulu um fortilveruna, svo við mættum upplifa tíma prófrauna og tækifæra til að bæta okkur, í þeim tilgangi að verða hæf fyrir allt það sem Guð ætlar okkur að taka á móti.
Einn megin tilgangur tilveru okkar á þessari jörðu er augljóslega að hljóta líkama af holdi og beinum. Okkur hefur líka verið gefin gjöf sjálfræðis. Við njótum þess að geta valið sjálf á ótal vegu. Hér lærum við af okkar hörðu lífsreynslu. Við greinum á milli góðs og ills. Við greinum á milli hins beiska og sæta. Við lærum að afleiðingar fylgja verkum okkar.“2
Hvert fer ég að þessu lífi loknu?
Allir sem tilheyra mannkyni upplifa dauðann. En „þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ (Job 14:14). „Við vitum að dauðinn er enginn endir,“ sagði Monson forseti. „Þann sannleika hafa lifandi spámenn kennt um aldir. Hann má líka finna í hinum helgu ritningum. Í Mormónsbók lesum við þessi tilteknu og hughreystandi orð:
‚En varðandi ástand sálarinnar frá dauða og fram að upprisu — sjá! Engill hefur kunngjört mér, að um leið og andar allra manna yfirgefa þennan dauðlega líkama, séu þeir, já, andar allra manna, fluttir heim til þess Guðs, sem gaf þeim líf.
Og þá ber svo við, að tekið er við öndum þeirra, sem réttlátir eru, inn í sæluríki, sem nefnist paradís, ríki hvíldar og friðar, þar sem þeir hvílast frá öllu erfiði, áhyggjum og sorgum‘ [Alma 40:11–12].“3
Eftir að við höfum risið upp, förum við í himneska ríkið, sem líkt er við dýrð sólarinnar, yfirjarðneska ríkið, sem líkt er við dýrð tunglsins, jarðneska ríkið, sem líkt er við dýrð stjarnanna eða í ysta myrkrið (sjá K&S 76).
Er Guð í raun til? Er Satan raunverulegur?
Himneskur faðir, Jesús Kristur og Satan voru allir þátttakendur á stórþingi himins, sem haldið var áður en við fæddumst. Himneskur faðir bað um einn sem fara ætti til jarðarinnar til að friðþægja fyrir syndir okkar, sem var hluti af sáluhjálparáætluninni. Hann sagði: „Hvern á ég að senda? Og [Jesús Kristur] svaraði, líkur mannssyninum: Hér er ég, send mig. Og [Satan] svaraði og sagði: Hér er ég, send mig. Og Drottinn svaraði: Ég mun senda þann fyrsta.
Og hinn [Satan] varð reiður og stóðst ekki fyrsta stig sitt, og á þeim degi fylgdu margir á eftir honum“ (Abraham 3:27–28; sjá einnig K&S 29:36–37; HDP Móse 4:1–4).
Höfum við kraft til að standast freistingar Satans?
Einn þriðji andanna, þeir sem kusu að fylgja Satan að loknu stórþingi himins, var varpað burtu með honum. Þeir og Satan eru áfram andar án efnislíkama. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Allar verur sem eiga efnislíkama hafa vald yfir þeim sem eiga hann ekki.“4 Þótt Satan geti freistað okkar, höfum við kraft til að standast freistingar hans.
Af hverju finnst mér stundum að himneskur faðir svari ekki bænum mínum?
„Bæn er sú gjörð sem samræmir vilja barnanna og vilja föðurins. Tilgangur bænar er ekki að breyta vilja Guðs“ (Bible Dictionary, „Prayer”). Bænin er aðferð sem gerir okkur kleift að ákveða hvort við viljum nota sjálfræði okkar til að beygja okkur undir vilja Guðs (sjá Abraham 3:25). Himneskur faðir svarar ætíð bænum okkar, en svörin geta verið, já, nei eða ekki núna. Tímasetning er mikilvæg.
Af hverju upplifi ég erfiðleika þegar ég kappkosta að lifa góðu lífi?
Erfiðleikar eru hluti af sáluhjálparáætluninni. Þeir styrkja og hreinsa okkur, ef við reiðum okkur á Jesú Krist og fagnaðarerindi hans. Himneskur faðir styður okkur í erfiðleikum okkar. Erfiðleikar okkar munu „veita [okkur] reynslu og verða [okkur] til góðs“ (K&S 122:7).
Hvernig get ég vitað hvað er rétt og hvað rangt?
Öll börn Guðs fæðast með ljós Krists, sem gerir þeim kleift að „þekkja gott frá illu“ (Moró 7:16). Auk þess getur heilagur andi vitnað um sannleikann í huga og hjarta okkar, með friðsælli og ljúfri tilfinningu (sjá K&S 8:2–3).
Get ég hlotið fyrirgefningu, ef ég hef drýgt alvarlegar syndir?
Guð vissi að við myndum öll syndga er við lærðum að velja á milli góðs og ills.5 Öllum syndum fylgir hins vegar refsing. Réttvísin gerir kröfu um að við hljótum refsingu. Af miskunn leyfði himneskur faðir að Jesús Kristur framkvæmdi friðþæginguna til að uppfylla þannig kröfur réttvísinnar í þágu okkar allra (sjá Alma 42). Með öðrum orðum, þá urðu þjáningar Krists í Getsemane og dauði hans á Golgata til þess að gjaldið fyrir syndir okkar allra var greitt að fullu, ef við hagnýtum okkur friðþægingu Krists með því að iðrast og taka á móti helgiathöfnum fagnaðarerindisins. Syndir okkar verða fyrirgefnar (sjá K&S 1:31–32).