2014
Við erum hendur Drottins
Apríl 2014


Við erum hendur Drottins

Að annast hina fátæku og þjóna þeim sem þjást, er ómissandi þáttur í því að vera lærisveinn Jesú Krists.

Á fyrri hluta Kreppunnar miklu tóku sex stikuforsetar frá Salt Lake City höndum saman um að kljást við stöðugt meiri fátækt og hungur sem herjaði á svo marga meðlimi kirkjunnar.1 Þótt efnahagskreppan hefði áhrif á fólk hvarvetna, varð Utah sérstaklega fyrir barðinu á henni.2

Á þessum tíma höfðu kirkjuleiðtogar fá úrræði til að hjálpa hinum nauðstöddu. Þeir gátu auðvitað notað föstufórnir, en hin þráláta neyð var meiri en þeir áður höfðu upplifað. Atvinnuleysisnefnd hafði verið stofnuð á fyrri hluta tuttugustu aldar, sem var undir stjórn Yfirbiskupsráðsins. Hún hafði samt ekki næg úrræði til að takast á við hina miklu neyð.

Þessir sex prestdæmisleiðtogar vissu að ef hjálpa ætti fólkinu í stikum þeirra, yrðu þeir að bregðast strax við. Þeir yrðu að gera eitthvað nú þegar. Þeir byrjuðu á því að koma fólki í vinnu. Þeir skipulögðu karlana og fóru með þá út á akrana, þar sem þeir gátu unnið að uppskeru. Í skiptum fyrir vinnuframlagið, létu þakklátir bændurnir örlátlega matvæli af höndum til karlanna. Farið var með umframmagnið í vöruhús og þar var því dreift til annarra sem voru án matar. Framlögin urðu fleiri og hinir heilögu tóku að niðursjóða matvæli og geyma þau í dósum. Þetta var upphafið að velferðarþjónustu okkar tíma.

Átta áratugum síðar, nú á okkar tímum, upplifa kirkjuleiðtogar víða um heim hina knýjandi þörf að ná til hinna nauðstöddu.

Á aðalráðstefnu í október 2011 sagði Dieter F. Uchtdorf, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu: „Of oft sjáum við neyðina umhverfis okkur og vonum að einhver annar frá fjarlægum svæðum muni birtast til að takast á við þá neyð. Kannski væntum við þess að fagfólk með sérþekkingu komi og leysi ákveðinn vanda. Þegar við gerum það, fær náungi okkar ekki að njóta þjónustu okkar og við nýtum ekki tækifærið sem gefst til þjónustu. Þótt ekkert nema gott sé hægt að segja um fagfólkið, verðum við að horfast í augu við að það verður aldrei nógu fjölmennt til að leysa öll vandamál. Drottinn hefur því í þessum tilgangi séð til þess að prestdæmið og samtök þess séu rétt við hendina í öllum löndum þar sem kirkjan er stofnsett.“3

Ákall þetta, um að leiðtogar og meðlimir kirkjunnar láti að sér kveða, í samræmi við innblástur heilags anda, hefur knúið marga víða um heim til að „finna lausnir [upp á eigin spýtur].“4 Þeir hafa brett upp ermarnar og einsett sér að „[minnast] í öllu hinna fátæku og þurfandi, sjúku og aðþrengdu“ (K&S 52:40).

Ekvador

Þegar Johnny Morante biskup í Guayaquil, Ekvador, varð hugsað um meðlimi deildar sinnar, varð honum þungt um hjarta. Of margar fjölskyldur áttu í basli og höfðu jafnvel ekki brýnustu lífsnauðsynjarnar. Hann vildi hjálpa þeim, svo hann ráðgaðist við leiðtoga deildarinnar og lagði málið fram fyrir Drottin.

Þar sem atvinna á svæðinu var af skornum skammti, hóf hann að starfa með hópi 11 systra og hvatti þær til að koma með hugmyndir að hugsanlegum sprotafyrirtækjum. Systurnar tóku eftir að þörf var á góðum og ódýrum hreingerningarvörum og veltu fyrir sér hvort þær gætu framleitt og selt þær í samfélagi sínu. Hvernig gátu þær lært að búa til slíkar vörur?

Þegar hér var komið uppgötvaði Morante biskup að systir ein í deildinni var atvinnulaus og hafði áður starfað sem lyfjafræðingur. Þegar systurnar 11 spurðu hvort hún gæti hjálpað, varð hún himinlifandi yfir að geta kennt þeim hvernig búa ætti til öruggar og góðar hreingerningarvörur.

Þær gerðu viðskiptaáætlun, skiptu svæðinu niður fyrir hverja systur til að hafa umsjá með, völdu vörurnar sem þær hugðust framleiða og hönnuðu pakkningar og vörumerki.

Á nokkrum mánuðum byggðu þær upp viðskiptagrunn, sem aflaði nægilegra tekna til að komast úr fátæktinni og sjá fyrir þörfum fjölskyldna þeirra.

Þegar stjórnendur lyfjafyrirtækis heyrðu af framtakinu, urðu þeir hrifnir af frásögninni um hinn atvinnulausa lyfjafræðing. Þeir fengu hana til að koma í viðtal og réðu hana loks sem yfirstjórnanda eigin framleiðsludeildar.

Rússland

Í Rechnoy-deildinni í Moskvu, Rússlandi, féll Galina Goncharova um koll á svelli og brotnaði á báðum höndum. Farið var með hana á sjúkrahús, þar sem handleggir hennar voru settir í gipsi. Hún gat hvorki borðað, né klætt sig sjálf. Hún gat ekki greitt á sér hárið eða jafnvel svarað í símann.

Þegar meðlimirnir í deildinni hennar heyrðu af slysinu, brugðust þeir undir eins við. Prestdæmishafar veittu þessari góðu systur blessun og unnu að því með systrunum að búa til dagskrá til að annast hana og sjá fyrir þörfum hennar.

Vladimir Nechiporov, trúboðsleiðtogi deildarinnar, sagði: „Við minntumst þess að á aðalráðstefnu hafði verið rætt um höggmynd af Kristi sem vantaði á hendurnar.5 Neðan við höggmyndina hafði einhver sett platta sem á stóð: ‚Þið eruð mínar hendur.‘ Í þær fáeinu vikur sem þessi systir var óstarfhæf, fannst meðlimum Rechnoy-deildarinnar þessi orð eiga við um þá. Við vorum í raun hendur hennar.“

Filippseyjar

Þegar hitabeltisfellibylurinn, Washi, fór yfir Filippseyjar árið 2011, urðu stór svæði fyrir skaða af vatni og vind. Um 41.000 heimili skemmdust og yfir 1.200 manns týndu lífi sínu.

Áður en flóðið skall yfir hafði, Max Saavedra, forseti Cagayan de Oro stikunnar á Filippseyjum, fundið sig knúinn til að koma upp neyðarteymi í stikunni. Hann skipulagði nefndir til að vinna að hinum ýmsu verkefnum — sem tengdust leit, björgun, skyndihjálp og úthlutun matvæla, vatns og fatnaðar.

Þegar flóðið rénaði og öruggt var að fara út, tóku leiðtogar og meðlimir kirkjunnar til starfa. Þeir gengu úr skugga um öryggi hvers meðlims og mátu skemmdirnar. Einn meðlimanna útvegaði gúmmífleka til að koma meðlimum í sjálfheldu í öryggi. Samkomuhúsin voru opnuð sem skjól fyrir alla sem þurftu mat, klæði, ábreiður og stað til að dvelja á um stund. Hreint vatn var nauðsynlegt, svo Saavedra forseti hafði samband við fyrirtæki á staðnum sem átti slökkviliðsbíl og það flutti hreint vatn í neyðarskýlin. Meðlimir sem höfðu faglega reynslu í heilsugæslu komu hinum slösuðu til hjálpar.

Þegar meðlimunum hafði verið sinnt, vitjuðu Saavedra forseti og hjálparflokkur hans annarra neyðarskýla til að bjóða fram aðstoð sína. Þeir færðu fólkinu matföng og aðrar vörur. Margir meðlimanna þjónuðu öðrum fúslega strax í kjölfar fellibylsins, þrátt fyrir að hafa misst eigin heimili. Þegar regninu linnti og jörðin þornaði, tóku sjálfboðaliðar Hjálparhanda mormóna til starfa við vörudreifingu og hreinsun.

Brasilía

Í borginni Sete Lagoas í Brasilíu er athvarf fyrir konur með fötlun sem hafa orðið illa úti sökum eiturlyfjaneyslu. Dag hvern heyja þær lífsbaráttu. Þar höfðu þær lítinn ofn sem þær notuðu til að baka 30 bauðhleifi á hverjum degi. Þótt konurnar hafi notið nokkurrar aðstoðar frá hjálparsamtökum á svæðinu, höfðu þær vart nóg til að næra sig sjálfar. Þegar kirkjuleiðtogar frá Sete Lagoas-stikunni í Brasilíu komust að neyð þessara kvenna vildu þeir koma til hjálpar.

Þeir ræddu við konurnar um þarfir þeirra. Konurnar sögðu að ef þær gætu bakað fleiri brauð, gætu þær ekki aðeins fætt sig sjálfar, heldur hugsanlega líka selt fáeina brauðhleifi og unnið sér þannig inn einhverjar tekjur sem þær sárlega þyrftu.

Leiðtogar og meðlimir kirkjunnar störfuðu saman með herlögreglu svæðisins og skóla í nágrenninu til að bæta hag þessara kvenna. Með fjárveitingu úr mannúðarsjóði kirkjunnar og hjálp sjálfboðaliða kirkjunnar og samfélagsins, gátu þær sett á stofn bakarí — sem gerði konunum kleift að baka 300 brauðhleifi á dag.

Með hagnaðinum sem þær hafa fengið, hafa konurnar í bakaríinu ráðið sinn fyrsta starfsmann — eina af konunum úr kvennaathvarfinu.

Velferðarstarfið

Líkt og hinir innblásnu leiðtogar kirkjunnar sáu hina miklu neyð fyrir áratugum síðan og létu ekki deigan síga, þá gera leiðtogar og meðlimir kirkjunnar víða um heim nú hið sama á sínum svæðum og á sinn hátt.

Þegar Uchtdorf forseti beindi máli sínu til kirkjunnar um að annast aðra, sagði hann: „Háttur Drottins er ekki sá að menn sitji við lækjarbakkann og bíði þess að vatnið hætti að renna áður en yfir er farið. Háttur hans er að koma saman, bretta upp ermar, taka til starfa og byggja brú eða bát til að komast yfir flóð áskorana okkar.“6

Að annast hinna fátæku og þjóna þeim sem þjást, er ómissandi þáttur í því að vera lærisveinn Jesú Krists. Það er verkið sem Jesús Kristur sjálfur helgaði sig, er hann þjónaði fólkinu á hans tíma. Uchtdorf forseti sagði að lokum: „Umönnunarverkið að hætti Drottins er ekki bara eitt atriði í verkskrá kirkjunnar. Það má hvorki vanmeta né vanrækja. Það er þungamiðja kenningar okkar; það er kjarni trúarbragða okkar.“7

Heimildir

  1. Fjórir þessara stikuforseta, — Hugh B. Brown, Harold B. Lee, Henry D. Moyle og Marion G. Romney — voru síðar kallaðir sem postular og allir fjórir þjónuðu þeir síðar í Æðsta forsætisráði kirkjunnar. Harold B. Lee varð 11. forseti kirkjunnar.

  2. Árið 1930 var atvinnuleysið í Bandaríkjunum skráð næst hæst í Utah. Sjá Garth L. Mangum og Bruce D. Blumell, The Mormons’ War on Poverty: A History of LDS Welfare 1830–1990 (1993), 95.

  3. Dieter F. Uchtdorf, „Providing in the Lord’s Way,” Líahóna, nóv. 2011, 54.

  4. Dieter F. Uchtdorf, „Providing in the Lord’s Way,” 55.

  5. Sjá Dieter F. Uchtdorf, „You Are My Hands,” Líahóna, maí 2010, 68.

  6. Dieter F. Uchtdorf, „Providing in the Lord’s Way,” 55.

  7. Dieter F. Uchtdorf, „Providing in the Lord’s Way,” 55–56.

Prenta