Búa sig undir þjónustu, þjóna til undirbúnings
Guð gaf ykkur Aronsprestdæmið, því hann ætlar ykkur verk að vinna — núna og á ókominni tíð.
Jonathan er vinur minn sem gekk í kirkjuna fyrir fjórum árum. Hann er eini meðlimur kirkjunnar í fjölskyldu sinni. Eftir að hann tók á móti Aronsprestdæminu, hóf hann að þjóna öðrum sem aldrei fyrr. Jonathan vissi að hann þurfti að læra heilmargt til að geta þjónað. Hann vildi líka vera verðugur og áreiðanlegri, svo hann lærði fagnaðarerindið og sótti samkomur sínar á sunnudögum og trúarskólann. Hann lagði hart að sér við að halda boðorðin og reglur kirkjunnar. Hann rækti prestdæmisskyldur sínar af kostgæfni og var að auki góður heimiliskennari. Bæklingurinn hans Skyldurækni við Guð hjálpaði honum að skilja skyldur sínar og læra að framfylgja þeim.
Hin trúfasta þjónusta Jonathans veitti honum andlegan styrk. Hún verndaði hann gegn illum áhrifum. Hann þroskaðist gríðarlega með því að þjóna og búa sig undir framtíðina. Síðastliðið ár tók hann verðugur á móti Melkísedeksprestdæminu og musterisgjöf sinni. Hann þjónar nú í trúboði í Brasilíu.
Aronsprestdæmið er oft nefnt „undirbúningsprestdæmið.“ Guð gaf ykkur Aronsprestdæmið, því hann ætlar ykkur verk að vinna — núna og á ókominni tíð. Trúföst þjónusta ykkar í Aronsprestdæminu býr ykkur jafnvel enn betur undir þjónustu á komandi árum. Eins og Jonathan þá eruð þið að búa ykkur undir að „hljóta Melkísedeksprestdæmið, taka á móti blessunum musterisins, þjóna í trúboði, verða kærleiksríkur eiginmaður og faðir og undir ævilanga þjónustu í þágu Drottins“ (Sannir í trúnni: Trúarhugtök (2004), 6).
Þið þekkið kannski ekki nákvæmlega hin dásamlegu tækifæri sem himneskur faðir geymir ykkur, en ég er viss um að þið verðið viðbúnir að takast á við þau, ef þið munið eftir að gera eftirfarandi sem Aronsprestdæmishafar.
Fylgja Jesú Kristi
Sem prestdæmishafar, þá eruð þið fulltrúar Jesú Krists. Það merkir að ykkur er boðið að fylgja honum og gera það sem hann myndi gera. Hvað myndi hann gera? Í öllum tilvikum þá helgaði hann sig því að þjóna og blessa aðra. Það ættuð þið líka að gera. Helgið ykkur þjónustu við aðra — og bætið ykkur stöðugt, svo þið getið gefið meira af sjálfum ykkur! Munið eftir því hvernig Jesús bætti sig í æsku sinni: Hann „þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum“ (Lúk 2:52).
Hluti af því að fylgja frelsaranum, er að sækjast eftir visku og verða líkamlega hraustur á æskuárum ykkar. Það krefst mikillar vinnu af ykkar hálfu og þess að þið gerið ætíð ykkar besta (sjá K&S 4:2). Þið njótið velþóknunar Guðs þegar þið nálgist hann með daglegri bænagjörð, ritningarnámi, hlýðni og þjónustu. Þið njótið velþóknunar annarra þegar þið eruð ljúfir og trúfastir fjölskyldu ykkar og öllum kristilegir vinir.
Munið eftir því að Kristur gerði ætíð vilja föðurins. Þið fylgið Kristi þegar þið leitið vilja Guðs yfir daginn, til að leiða þjónustu ykkar og bregðast við andlegum innblæstri sem þið hljótið.
Þjónið við helgiathafnir Aronsprestdæmisins
Helgiathafnir prestdæmisins eru nauðsynlegar öllum börnum Guðs og blessa jafnt bæði syni hans og dætur. Um leið og þið verðið djáknar getið þið þjónað við helgiathafnar prestdæmisins, með því að útdeila sakramentinu. Síðar haldið þið áfram að þjóna í Aronsprestdæminu við helgiathafnir prestdæmisins, með því að undirbúa og blessa sakramentið, skíra og vera með í vígsluathöfnum annarra Aronsprestdæmishafa.
Þið verðið að vera hreinir til að taka þátt í helgiathöfnum. Siðferðilegur hreinleiki ykkar getur aukið andlegan kraft þeirra helgiathafna sem þið þjónið við. Kappkostið að vera verðugir á allan hátt til að vera heilagt ker sakramentis Drottins (sjá K&S 38:42). Þegar þið gerið það, getið þið staðið frammi fyrir söfnuði ykkar sem sannir fulltrúar Jesú Krists. Fólkið nýtur blessunar af staðfestu ykkar við að halda þá sáttmála sem þið hjálpið því að endurnýja.
Þjónið stöðugt
Þið þjónið sem Aronsprestdæmishafar. Leitið stöðugt tækifæra til að þjóna fjölskyldu ykkar, vinum, sveitarmeðlimum og öðrum. Allt sem þið gerið í prestdæminu, gerir ykkur kleift að þjóna öðrum bæði stundlega og andlega. Þegar þið til að mynda hjálpið biskupi ykkar eða greinarforseta með því að þjóna fjölskyldu sem þið heimiliskennið, lærið þið að skilgreina og annast þarfir annarra. Þið þjónið líka öðrum með því að styrkja sveitarmeðlimi ykkar og koma lítt virkum meðlimum til bjargar, safna föstufórnum til hjálpar fátækum og þurfandi, leggja á ykkur líkamlega vinnu í þágu sjúkra og fatlaðra, kenna og vitna um Krist og fagnaðarerindi hans og létta byrðar hinna kjarklausu.
Þið þjónið með því að kenna lexíur á sveitarfundum og fjölskyldukvöldum ykkar. Þið þjónið með því að bjóða öllum að koma til Krists (sjá K&S 50:29) — á heimili ykkar, í sveit ykkar, í skólanum, í þjónustu með trúboðunum og allsstaðar sem þið eruð.
Framtíð ykkar
Ræðið við foreldra ykkar eða leiðbeinendur um þær skyldur sem verða ykkar þegar þið verðið Melkísedeksprestdæmishafar, trúboðar, eiginmenn og feður. Skrifið í línurnar sumar þeirra mikilvægu skyldna og hvernig þið getið búið ykkur undir þær núna með því að þjóna í Aronsprestdæminu. Ykkur kann að finnast þær yfirþyrmandi núna, en munið að best er að undirbúa sig með því einfaldlega að gera það sem himneskur faðir hefur boðið ykkur að gera strax í dag. Megið þið finna gleði í þjónustu ykkar nú er þið búið ykkur undir ykkar dýrðlegu framtíð.