108. Kafli
Opinberun gefin með spámanninum Joseph Smith í Kirtland, Ohio, 26. desember 1835. Þessi opinberun var gefin að beiðni Lymans Sherman, sem áður hafði verið vígður einn hinna sjötíu, og komið hafði til spámannsins með beiðni um opinberun, sem greindi frá skyldu hans.
1–3, Lyman Sherman fær fyrirgefningu synda sinna; 4–5, Hann skal talinn með leiðandi öldungum kirkjunnar; 6–8, Hann er kallaður til að boða fagnaðarerindið og styrkja bræður sína.
1 Sannlega, svo segir Drottinn við þig, þjónn minn Lyman: Syndir þínar eru þér fyrirgefnar vegna þess að þú hefur hlýtt rödd minni með því að koma hingað í morgun til að fá ráðleggingar hans, sem ég hef útnefnt.
2 Lát þess vegna sál þína vera í ró varðandi andlega stöðu þína, og óhlýðnast ekki framar rödd minni.
3 Og far því og gæt þess betur héðan í frá að virða eiða þá, sem þú hefur gjört og gjörir, og þú munt blessaður mjög miklum blessunum.
4 Bíð þolinmóður þar til þjónar mínir boða til hátíðarsamkomunnar, og þá skal þín minnst með æðstu öldungum mínum og með vígslu öðlast rétt með öðrum öldungum mínum, sem ég hef valið.
5 Sjá þetta er fyrirheit föðurins til þín, ef þú ert áfram staðfastur.
6 Og það skal uppfyllt á þeim degi, að þú hefur rétt til að prédika fagnaðarerindi mitt hvert sem ég mun senda þig, allt frá þeim tíma.
7 Styrk þess vegna bræður þína í öllum samskiptum þínum við þá, í öllum bænum þínum, í öllum áminningum þínum og í öllum gjörðum þínum.
8 Og sjá og tak eftir, ég er með þér til að blessa þig og varðveita þig að eilífu. Amen.