87. Kafli
Opinberun og spádómur um stríð, gefið með spámanninum Joseph Smith, í eða nálægt Kirtland, Ohio, 25. desember 1832. Á þessum tíma voru í Bandaríkunum miklar deilur um þrælahald og afnám Suður Karólínu á alríkistollum. Saga Josephs Smith segir, að„útlit fyrir róstur á meðal þjóðanna“ virtust spámanninum „sýnilegri en það hafði áður verið, síðan kirkjan hóf ferð sína úr óbyggðunum.“
1–4, Sagt fyrir um stríð milli Norðurríkjanna og Suðurríkjanna; 5–8, Miklar hörmungar munu koma yfir alla íbúa jarðar.
1 Sannlega, svo segir Drottinn um styrjaldir, sem fljótlega munu verða og hefjast með uppreisn Suður-Karólínu, sem að lokum mun leiða til dauða og vansældar margra sálna:
2 Og sá tími kemur, að styrjöld hvolfist yfir allar þjóðir og á upptök sín á þessum stað.
3 Því að sjá, Suðurríkin munu snúast gegn Norðurríkjunum og Suðurríkin munu kalla á aðrar þjóðir, jafnvel þjóð Stóra-Bretlands, eins og það nefnist, og þau munu einnig kalla á fleiri þjóðir sér til varnar gegn öðrum þjóðum, og þá mun styrjöld hvolfast yfir allar þjóðir.
4 Og svo ber við að mörgum dögum liðnum, að þrælar, sem eru vígbúnir og herþjálfaðir, munu rísa gegn húsbændum sínum.
5 Og svo ber einnig við, að þeir sem eftir standa í landinu munu vígbúast, fullir heiftar, og hrella Þjóðirnar sárlega.
6 Og þannig munu íbúar jarðarinnar trega vegna sverðsins og blóðsúthellingar, og með hungursneyð, plágu, jarðskálfta og þrumum himins og einnig kröftugum og ógurlegum eldingum munu íbúar jarðar finna heilaga og réttláta reiði, og agandi hönd almáttugs Guðs, þar til hin fyrirbúna eyðing hefur bundið enda á allar þjóðir —
7 Svo að hróp hinna heilögu og blóð hinna heilögu berist ekki lengur frá jörðunni til eyrna Drottins hersveitanna um refsingu yfir óvinum þeirra.
8 Standið þess vegna á heilögum stöðum og haggist ekki, þar til dagur Drottins kemur, því að sjá, hann kemur skjótt, segir Drottinn. Amen.