2021
Læst úti!
Maí/Júní 2021


Læst úti!

Höfundur býr í Utah, Bandaríkjunum.

Þessi saga gerðist í Mið-Ungverjalandi.

Kannski gæti Emma hjálpað!

„Set traust þitt á þann anda, sem leiðir til góðra verka“ (Kenning og sáttmálar 11:12).

Ljósmynd
girl sitting on steps outside apartment

Emma hoppaði yfir sprungurnar í steyptri gangstéttinni. Það var bjartur og sólríkur dagur. Hún og mamma voru á gangi út í búð.

„Mamma, hversu langt í burtu er sólin?“ spurði hún.

„Ég er ekki viss,“ sagði mamma.

Emma pírði augun upp í himininn. „Heldur þú að eldflaug muni nokkurn tíma ná til sólarinnar? Heldur þú að hún sé heitari en elding? Heldur þú …“

Mamma hló. „Spurningarnar þínar eru að verða erfiðari og erfiðari!“

Emma hló líka. Hún hafði fjölmargar spurningar. Mamma gerði alltaf sitt besta til að svara þeim. Það var ein af ástæðum þess að Emma naut þess að fara í göngutúra með mömmu.

Emma litaðist um hverfið sitt. Leigubílar óku eftir steingötunni. Fólk hjólaði framhjá. Margir voru líka úti á gangi.

Svo leit Emma yfir götuna. Lítil stelpa sat á þrepum fyrir utan íbúðarhús. Það leit út fyrir að hún væri grátandi.

Emma hægði á sér. Ætti hún að stoppa og koma henni til hjálpar? Kannski vildi stelpan vera látin í friði. Stundum vildi Emma vera látin í friði þegar hún var sorgmædd.

Emma nam staðar. Oftast vildi Emma tala við einhvern þegar hún þurfti á hjálp að halda. Kannski gæti hún hjálpað!

Hún greip í hönd mömmu. „Sjáðu, mamma. Ég held að þessi stelpa þarfnist hjálpar.“

Mamma leit yfir götuna. „Ég held að þú hafir rétt fyrir þér.“

Emma hélt í hönd mömmu þegar þær fóru yfir götuna. Hún gekk að þrepunum þar sem stelpan sat. „Hæ,“ sagði Emma. „Þarftu hjálp?“

Litla stelpan saug upp í nefið og leit upp á þær. Hún hafði vafið handleggjum sínum utan um hnén og augu hennar voru rauð og þrútin.

„Ég … ég er læst úti.“ Hún dró djúpt andann. Rödd hennar var skjálfandi og hljóðlát. Emma kraup við hlið hennar til að heyra betur í henni.

„Ég kann ekki að lesa,“ sagði stelpan. „Ég veit ekki hvaða takka ég á að ýta á til að komast aftur inn.“

Emma leit á vegginn utan við íbúðarhúsið. Þar voru margir litlir takkar. Á hverjum takka var nafn. Við hlið takkanna var hátalari.

„Hvað er eftirnafnið þitt?“ spurði Emma.

„Schneider,“ sagði litla stelpan.

Mamma las á alla takkana, þar til hún fann þann sem merktur var „Schneider.“ Hún ýtti á hann.

Ring!

Takkinn gaf frá sér hávært hljóð. Því næst heyrðist brakandi rödd frá hátalaranum.

„Þetta er hjá Schneider fjölskyldunni. Hvernig get ég hjálpað þér?“

Mamma talaði í hátalarann. „Hæ! Ég og dóttir mín erum fyrir utan með lítilli stelpu sem segist vera læst úti.“

Stelpan stóð hratt á fætur og hljóp að hátalaranum. „Mamma,“ sagði hún, „ég gat ekki lesið á takkann til að komast aftur inn og þetta fólk hjálpaði mér!“

Röddin í hátalaranum hljómaði hissa. „Leni! Ég hélt þú værir í herberginu þínu! Engar áhyggjur. Ég kem strax niður til þín.“

Eftir nokkrar sekúndur kom kona hlaupandi út. Stelpan hljóp til hennar og faðmaði hana.

Konan sneri sér að Emmu. „Takk fyrir að hjálpa litlu Leni minni!“

Emma brosti. „Það var lítið mál að hjálpa.“

Þær veifuðu bless og gengu niður þrepin. Emmu fannst hún öll hitna að innan. Henni datt í hug ein spurning til viðbótar fyrir mömmu.

„Það var auðvelt að hjálpa þessari stelpu. Hvers vegna er ég svona glöð yfir því?“

Mamma tók þétt í hönd Emmu. „Það er heilagur andi að segja þér að þú hafir tekið góða ákvörðun.“

Emma brosti. Hún var ánægð með að hafa numið staðar til að hjálpa.

Ljósmynd
May 2021 Friend

Prenta