Karolína kemur til hjálpar
Hvernig gæti Karolína komið vini sínum til hjálpar?
Karolína reyndi að hlusta á kennarann sinn. Hún gat þó ekki hætt að horfa á vin sinn, Ragnar. Hann var hárlaus!
Hann hafði misst hárið í nokkurn tíma. Hann var nú sköllóttur.
Karolína heyrði hljóð fyrir aftan sig. Sævar og Lúkas flissuðu. Hún vonaði að þeir væru ekki að hlægja að Ragnari.
Ragnar var álútur allan morguninn. Hann rétti ekki upp hönd. Hann var hryggðin uppmáluð. Karolína óskaði þess að hún gæti bætt líðan hans.
Loks var að því komið að leika sér úti. Ragnar var fyrstur út úr kennslustofunni. Þegar Karolína kom út, sá hún hann hvergi! Hann var ekki í fótbolta. Hann var ekki að klifra í rimlunum. Hann var heldur ekki í parís þar sem kennarinn var.
Þarna var hann! Ragnar stóð í horni lóðarinnar. Sævar og Lúkas voru þar líka. Karolína gekk nær.
„Sjáið hve stórt höfuðið hans er!“ hrópaði Sævar.
Lúkas hló. „Ég hefði líka rakað höfuðið, hefði ég svona ljótt hár.“
Ragnar kreppti hnefana. Hann leit út fyrir að fara að gráta.
Karolína hljóp til Ragnars. „Viltu leika við mig?“ spurði hún. Hún rétti fram höndina og þau gengu saman í burtu. Þau héldu göngunni áfram þar til þau voru í nánd við kennarann. Enginn myndi hrella þau þar.
„Viltu fara í parís?“ spurði Karolína.
Ragnar jánkaði. Hann dró krítarlínur á jörðina.
„Er allt í lagi?“ spurði hún.
„Ég er í lagi núna.“ sagði Ragnar brosandi. „Takk fyrir að hjálpa mér.“
Karolína brosti. Hún gladdist yfir að hafa verið nægilega hugrökk til að koma vini sínum til hjálpar!