Brautryðjendur í öllum löndum
Dinis finnur svar
Það brakaði í kojudýnunni þegar Dinis sneri sér á hina hliðina. Hann hafði bylt sér alla nóttina. Hann gat hreinlega ekki sofnað!
Hvað ef trúboðarnir hefðu rangt fyrir sér? hugsaði Dinis með sér. Hvað ef þetta er nú alls ekki sönn kirkja? Hvað ef ég er á rangri leið? Spurningarnar héldu áfram að angra hann.
Fjölskylda Dinis gekk í kirkjuna tveimur árum áður, þegar hann var 10 ára. Þegar trúboðarnir kenndu þeim fyrst, hafði Dinis fundið um leið að það sem þeir kenndu væri sannleikur. Dinis og fjölskylda hans voru meðal þeirra fyrstu til að ganga í kirkjuna í Portúgal. Dinis var brautryðjandi!
Undanfarið höfðu þó áhyggjur látið á sér kræla. Hvað ef það var ekki rétt að láta skírast?
Dinis sagði engum frá áhyggjum sínum. Ekki bræðrum sínum eða systur. Ekki einu sinni foreldrum sínum. Í nótt gat hann ekki hugsað um neitt annað.
Dinis stundi. Hann leit yfir rúmbríkina. Bræður hans voru steinsofandi í neðri kojunni. Dinis var einn.
Hann vissi að hann þyrfti að spyrja Guð hvort kirkjan væri sönn. Hann kraup í miðju rúminu. Hann laut höfði og tók að biðja.
„Góði Guð,“ sagði Dinis hljóðlega. „Láttu mig vita hvort Joseph Smith hafi í raun séð þig og Jesú.“
Dinis hafði oft beðist fyrir áður. Þetta skipti var öðruvísi. Dinis þurfti sannlega að vita þetta. Hann bað af meiri krafti en nokkurn tíma áður.
„Ég vil ekki hafa rangt fyrir mér,“ sagði hann lágri röddu. „Ég vil bara vita hvað er rétt.“
Dinis fann þá eitthvað hið innra. Tilfinningin var sterk og hlý. Hún varð sterkari, þar til hún fyllti líkama hans. Honum fannst sem hann gæti sprungið af gleði!
Dinis vissi að tilfinningin var heilagur andi. Guð hafði bænheyrt hann! Trúboðarnir höfðu rétt fyrir sér. Joseph Smith var í raun spámaður. Það var ekki bara góður kostur að láta skírast. Það var besti kosturinn.
Dinis lá á bakinu og horfði upp í loftið. Áhyggjurnar voru horfnar. Hann vafði teppinu þétt að sér. Áður en hann vissi af var hann sofnaður.
Þótt Dinis yrði eldri, þá mundi hann alltaf eftir nóttinni þegar hann baðst fyrir í kojunni. Hann vissi að hann var á réttri leið sem meðlimur kirkju Jesú Krists. Hann vissi líka að himneskur faðir myndi alltaf heyra bænir hans.