2021
Leita Síonar og blessana Drottins
September 2021


„Leita Síonar og blessana Drottins,“ Til styrktar ungmennum, sept. 2021, 2–5.

Kom, fylg mér

Leita Síonar og blessana Drottins

Kenning og sáttmálar 97:21

Að efla Síon er mikil ábyrgð, en færir einnig mikil laun.

stúlka nemur ritningar

Æðsti sannleikur himins er sá að Guð elskar okkur af öllu sínu hjarta, mætti, huga og styrk. Hann vill það besta fyrir okkur – það hefur hann ávallt gert og mun ávallt gera. Hann vill að við séum glöð; ekki tímabundið eða aðeins á yfirborðinu, heldur sannlega og eilíflega glöð á sama hátt og hann. Hann vill að við vöxum og náum guðlegum möguleikum okkar sem synir eða dætur Guðs.

Ég veit að það er ekki alltaf einfalt. Mörg ykkar standa frammi fyrir erfiðleikum og persónulegum raunum sem virðast stundum yfirþyrmandi. Þið hafið líklega hugleitt eigin aðstæður, ástandið í fjölskyldu ykkar eða vandamálin meðal þjóða heimsins og hugsað: „Hvernig get ég ratað í gegnum þetta völundarhús áskorana?“ Eitt svar gæti komið ykkur á óvart: Leitist eftir að efla Síon.

Hvar er Síon?

Jesús Kristur með fiskimönnum

Elskar þú mig meira en þessir? eftir David Lindsley

Í gegnum söguna hefur Guð reglubundið boðið fólki sínu að stofna Síon. Hún var yfirleitt sérstakur staður þar sem fólk Guðs gat verið utan áhrifa heimsins og búið saman í sátt og samlyndi. Í þessari síðustu og miklu ráðstöfun er Síon ekki bundin einum landfræðilegum stað. Á okkar tíma getur Síon verið hvarvetna þar sem finna má trúfastan meðlim Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Lýsing Drottins á þessu fólki Síonar var að „hugur [þess] og hjarta [væru] eitt“ (HDP Móse 7:18) og að það væru „hinir hjartahreinu“ (Kenning og sáttmálar 97:21). Í stuttu máli hugsum við ekki lengur um Síon sem stað þar sem við munum búa, heldur hvernig við munum lifa.

Ykkur munu veitast margar dásamlegar blessanir, er þið gerið ykkar besta til að efla Síon, vera þau sem frelsarinn þarfnast að þið séuð og hjálpið við undirbúning endurkomu hans til jarðar. Slíkt framtak kostar vinnu og mikla trú en mun einnig færa varanlega gleði og hamingju. Ég vona að ykkur þyki þetta jafn áhrifamikið og hrífandi og mér! Eins og Russell M. Nelson forseti hefur kennt, er ekkert – bókstaflega ekkert – mikilvægara.1 Við fáum að taka þátt! Við erum baráttufólk í framlínu sannleikans. Við berum ekki byssukúlur; við berum sáraumbúðir! Við erum kölluð til að lækna heiminn og undirbúa heimslægan söfnuð fólks sem getur tekið á móti frelsaranum.

Elska Guð og náunga

unglingar taka hópsjálfsmynd

Við getum öðlast þess háttar fjölskyldu, nágrenni eða þjóð með því að halda boðorðið að elska. Því meira sem við elskum Guð, því meira munum við elska náunga okkar og finna leiðir til að blessa þá. Það eru náungar til að aðstoða, fátækir til að lyfta upp og góðverk til að vinna alls staðar.

Drottinn lýsti eitt sinn þessari ábyrgð og blessun á þennan hátt:

„Ver þess vegna trúr. … Styð þá óstyrku, lyft máttvana örmum og styrk veikbyggð kné.

Og reynist þú trúr allt til enda, skalt þú öðlast kórónu ódauðleika og eilíft líf í þeim híbýlum, sem ég hef fyrirbúið í húsi föður míns“ (Kenning og sáttmálar 81:5–6).

Verjið sannleikann

piltar á tali

Þegar Guð kallar okkur til að efla Síon, kallar hann okkur til að verja kenningar sínar og vera trúföst. Þetta verður ekki alltaf einfalt eða þægilegt, en við verðum að gera það – með samkennd, auðmýkt, skilning og óbilandi kærleika til annarra. Þegar við leitumst eftir því að efla Síon, munum við eflaust hitta fólk sem er óviðeigandi og klæðir sig eða hagar sér á ósæmandi hátt. Þegar við hittum slíkt fólk verðum við að gæta þess að svara því af virðingu, ekki af sjálfumgleði. Í slíkum aðstæðum er best að haga sér sómasamlega og sýna þeim „[fölskvalausa] ást“ (sjá Kenning og sáttmálar 121:41).

Ég óska þess að aðrir njóti þeirra blessana sem ég hef, en ég velti stundum fyrir mér hvernig ég geti miðlað því þannig að það móðgi ekki eða misskiljist. Þessi ritningargrein hefur hjálpað mér í öllum mínum kirkjuköllunum og persónulegum skyldum sem lærisveinn Krists.

„Sannlega segi ég yður þess vegna: Hefjið upp raust yðar til þessa fólks. Mælið fram það sem ég blæs yður í brjóst, og þér þurfið ekki að blygðast yðar fyrir mönnum–

Því að yður mun gefið einmitt á þeirri stundu, já, á því andartaki, hvað segja skal.

En boð gef ég yður, að þér skuluð boða allt, sem þér boðið í mínu nafni, með hjartans hátíðleik og andans hógværð í öllu.

Og ég gef yður það fyrirheit, að sem þér gjörið þetta, svo mun heilögum anda úthellt til að bera vitni um allt það, er þér mælið“ (Kenning og sáttmálar 100:5–8).

Blessun til framtíðar

unglingar í borginni

Kæru ungu vinir, framundan eru erfiðir dagar en líf ykkar verður að endingu mikilfenglegt, er þið helgið Guði hjarta ykkar, elskið Drottin Jesú Krist og gerið ykkar besta til að lifa eftir fagnaðarerindinu. Séuð þið trúföst verður Síon þar sem þið eruð. Ég blessa ykkur að þið meðtakið það fagnandi. Drottinn ætlar ykkur svo margt!

Heimildir

  1. Sjá Russell M. Nelson „Hope of Israel“ (heimslæg trúarsamkoma ungmenna, 3. júní 2018), 8, HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org.