„Valkostir,“ Til styrktar ungmennum, september 2021, 12–14.
Valkostir
Fyrir mörgum árum miðlaði einn aðalvaldhafanna þessari vandasömu sögu:
Vitur maður úr Cherokee-ættflokki, einum af upprunalegum ættflokkum Bandaríkjanna, sagði barnabarni sínu dæmisögu um lífið. „Innra með mér geisar ægilegur bardagi milli tveggja úlfa,“ sagði afinn. „Annar þeirra er illur: fullur af bræði og öfund, sjálfsvorkunn og hryggð, græðgi og lygum. Hinn er góður: fullur af vinsemd og meðaumkun, auðmýkt og sannleika, elsku og gleði. Þessi bardagi geisar innra með hverju okkar.“
„Hvaða úlfur mun vinna?“ spurði barnabarnið.
„Sá sem þú nærir,“ sagði afinn viturlega.1
Þessi dæmisaga um úlfana tvo hefur að geyma eilífan sannleika. Börn Guðs fæðast til að taka ákvarðanir milli góðs og ills. Andstreymi gerir okkur kleift að taka þýðingarmiklar, réttlátar ákvarðanir. Mormónsbók kennir þennan sannleika með orðum ritninganna: „Því að andstæður eru nauðsynlegar í öllu.“2
Áætlun himnesks föður okkar veitir hið minnsta tvær gjafir sem veita okkur liðsinni til að taka þessar ákvarðanir: (1) Hann gefur okkur heilagan anda til að leiðbeina okkur og (2) hann gefur okkur frelsara, en friðþæging hans gerir okkur mögulegt að iðrast og fjarlægja áhrif slæmra ákvarðana – þegar þær hafa nært hinn illa úlf.
I. Iðrun og viðurkenning
Þegar ég hef talað við ungmenni, þá er iðrun eitt viðfangsefnið sem mest er spurt um. „Hvernig er hægt að vita þegar þið hafið iðrast nógsamlega?“ „Hvernig er hægt að vita þegar ykkur hefur sannlega verið fyrirgefið?“ Svarið við þessum spurningum kemur til okkar með heilögum anda, þeim meðlim Guðdómsins sem flytur boðskap frá himnum.
Gjöf iðrunar hefur verið kölluð „hin góðu tíðindi fagnaðarerindisins.“3 Hún gerir okkur kleift að þurrka út áhrif slæmra ákvarðana sem nært hafa illa úlfinn og dregið úr getu okkar til að heyra hughrif heilags anda. Iðrun felur í sér að við viðurkennum misgjörðir okkar, hverfum frá þeim og ákveðum að snúa hjörtum okkar til Guðs og höldum boðorð hans. Þegar við iðrumst, leitum við máttar friðþægingar Jesú Krists, sem eykur þakklæti okkar og elsku gagnvart honum sem frelsara okkar.
Þörfin fyrir iðrun er ekki eingöngu bundin við alvarlegar syndir sem þurfa játningar fyrir biskupi. Iðrun er dagleg þörf. Flest tilfelli iðrunar fela í sér að við viðurkennum fyrir okkur sjálfum það sem við höfum gert af okkur, tökum ákvörðun um að breytast og reynum að sættast við þá sem við höfum beitt órétti. Með hugtökum dæmisögunnar um úlfana tvo, þá felur iðrun í sér að við hættum að næra illa úlfinn, jafnvel í smáum skömmtum, t.d. þegar við kjósum að vera reið eða öfundsjúk. Við þurfum líka að iðrast (breytast) þegar við höfum kosið að verja tímanum, sem Guð gaf okkur í eitthvert hinna mörgu viðfangsefna sem hafa enga möguleika á að betrumbæta okkur.
II. Þekkja mikilvægan mun
Dásamlegur árangur iðrunar er að endurheimta verðugleika okkar svo við getum hlotið hughrif heilags anda, sem liðsinnir okkur við að taka skynsamar ákvarðanir og fyllir okkur gleði. Mörg ungmenni velta þessu líka fyrir sér: „Hvernig veit ég hvort hughrifin eða svarið sem ég fæ séu raunverulega frá Drottni, en ekki bara það sem ég vil?“
Til að ákvarða hvort hughrifin séu skilaboð frá heilögum anda eða bara persónuleg löngun, þurfum við að tileinka okkur þrjú sannindi.
-
Fyrirheitið í helgiathöfn sakramentisins um að „andi hans sé ætíð með [okkur],“ kemur í kjölfar loforðs okkar um að við munum taka á okkur nafn hans, hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans.4 Þegar okkur mistekst að halda þessi loforð, eigum við á hættu að ruglast á því hvaðan hughrif okkar eiga upptök sín.
-
Hughrif Drottins koma yfirleitt á hljóðum stundum eða þegar við tilbiðjum, lærum ritningar, í bæn eða þegar við þjónum í köllunum okkar, ekki þegar við sækjumst eftir einhverju fyrir okkur sjálf eða erum umkringd veraldlegum viðburðum.
-
Að lokum, þurfum við að vera einkar næm fyrir leiðsögn varðandi stefnubreytingar frá þeirri leið sem við erum á. Innblástur um að breyta um stefnu getur verið áreiðanlegri en innblástur um að sækjast eftir því sem við þráum nú þegar.
III. Rétt er enn rétt
Kæru ungu vinir, þið vaxið úr grasi í allt öðruvísi heimi en þeim sem foreldrar ykkar, afar og ömmur upplifðu. Það er því sérstaklega mikilvægt fyrir ykkur að muna að hin fornu gildi og boðorð eru enn í gildi. Við erum börn Guðs, boðorð hans eru enn ómissandi, hvort sem við ferðumst með hestvagni eða geimskipi og hvort sem við eigum samskipti með eigin rödd eða textaskilaboðum.
Rétt er enn rétt og rangt er enn rangt, sama hvað kvikmyndastjörnur, sjónvarpsfólk eða íþróttafólk segir. Staðlarnir í ritningunum, kennsla lifandi spámanna og lífsgildin í bæklingnum Til styrktar æskunni eru enn besta leiðsögn ykkar þegar kemur að persónulegum ákvörðunum varðandi kynferðislegan hreinleika, líkamlegt heilbrigði, heiðarleika, klæðnað og útlit og öll önnur viðfangsefni sem þar er að finna. Fylgið þeim af trúfestu og þið munuð verða blessuð. „Bæklingurinn sem heitir Til styrktar æskunni ætti að vera ykkar staðall,“ kenndi Russell M. Nelson forseti. „Það er staðallinn sem Drottinn ætlast til að æskufólk hans lifi eftir.“5
Í kraftmikilli heimslægri trúarsamkomu sinni, lofaði spámaður okkar:
„Ef þið vinnið einlæglega og stöðugt þá andlegu vinnu sem nauðsynleg er til að þroska með ykkur þá afdrifaríku, andlegu færni að heyra hvísl heilags anda, munuð þið hljóta alla þá leiðsögn sem þið þurfið nokkurn tíma á að halda í lífi ykkar. Ykkur munu veitast svör við spurningum ykkar á Drottins hátt og á hans tíma.“6
Ég sameina loforð mitt hans, er ég ber vitni um frelsarann, Jesú Krist, hvers kenningar og friðþæging gera allt mögulegt, í nafni Jesú Krists, amen.