2021
Ég komst ekki í dansflokkinn.
September 2021


„Ég komst ekki í dansflokkinn,“ Til styrktar ungmennum, sept. 2021, 10–11.

Ég komst ekki í dansflokkinn.

Nafnið mitt var ekki á listanum. Ég var niðurbrotin. Drottinn kenndi mér nokkuð.

Ljósmynd
ballettdansarar

Myndskreytingar eftir Gabriele Cracolici

Dans hefur verið mér kær síðan ég var þriggja ára. Þegar ég var á miðstigi í skólanum, varð ég spennt þegar komið var að prufum fyrir dansflokkinn. Ég var ekki í vafa um að með mína hæfileika og reynslu, myndi ég auðveldlega komast í flokkinn.

Nokkra daga eftir prufuna var opinberað hverjir höfðu komist í dansflokkinn. Mér til skelfingar, gat ég hvergi fundið nafnið mitt á listanum. Ég var niðurbrotin. Ég fór heim og grét á rúminu mínu. Ég var danskennaranum reið og vonsvikin yfir að hafa ekki verið nógu góð til að komast í flokkinn. Móðir mín gekk hljóðlega inn í herbergið mitt og lagði til að ég bæði himneskan föður um styrk til að komast í gegnum þessa „hindrun“ í lífi mínu. Ég samþykkti þetta með semingi og fór með stutta bæn. Mér leið ekkert betur eftir bænina og var áfram niðurdregin og vansæl. Ég svaf hræðilega þessa nótt.

Næsta morgun neyddi ég sjálfa mig upp úr rúminu. Að hafa misheppnast, var mér enn í fersku minni og ég vildi helst aftur leggjast undir sæng. Áður en ég gerði það, minntist ég loforðs sem biskupinn minn hafði gefið. Hann sagði að ef ég læsi ritningarnar dag hvern, jafnvel bara í 15 mínútur, yrði ég blessuð. Ef ég einhvern tíma þurfti blessun, þá var það núna.

Þegar ég las, uppgötvaði ég þetta vers í Kenningu og sáttmálum:

„Sannlega segi ég yður, vinir mínir: Óttist ei, látið huggast. Já, gleðjist ævinlega og færið þakkir í öllu–

Þjónið Drottni af þolinmæði, því að bænir yðar hafa náð eyrum Drottins hersveitanna og eru skráðar með þessu innsigli og þessari yfirlýsingu – Drottinn hefur unnið þess eið og ákvarðað, að þær verði veittar.

Þess vegna gefur hann yður þetta fyrirheit, með ófrávíkjanlegum sáttmála um að þær skuli uppfyllast. Og allar þrengingar yðar munu í heild verða yður til góðs og nafni mínu til dýrðar, segir Drottinn“ (Kenning og sáttmálar 98:1–3).

Ég var slegin. Ég sat í náttfötunum með úfið hárið og undraðist hve mikið ég hafði þarfnast þessa ritningarvers. Reiði mín og sorg skoluðust í burtu yfir þessum þremur versum. Ég fann fyrir elsku himnesks föður míns og vissi að honum var kunnugt um það sem ég gekk í gegnum. Þetta nýja sjónarhorn veitti mér skilning á því að það væri aðeins lítilsháttar hindrun á vegi lífsins að hafa ekki verið valin í dansflokkinn. Ég féll á kné í þakklæti og þakkaði himneskum föður.

Það sem eftir var dags, gat ég haft andann hjá mér og litið á þolraun mína sem möguleika til vaxtar. Mér mun alltaf þykja vænt um þessi vers. Ég mun líka minnast loforðs biskups míns um blessanir þess að gefa sig að ritningunum. Ég er afar þakklát fyrir að vera hluti af þessari kirkju og hafa þekkingu á fagnaðarerindinu. Ég veit að áætlun himnesks föður fyrir okkur er sannlega sæluáætlun.

Prenta